Feed

Ung ljóðskáld í heimsókn

Í dag komu nemendur úr 8. - 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar í skólann til að setja saman ljóð. Tilefnið var hin árlega ljóðasamkeppni þessara bekkja sem er liður í ljóðahátíðinni Haustglæður sem haldin hefur verið í Fjallabyggð allt frá árinu 2007. Hátíðin er samstarfsverkefni Ljóðaseturs Íslands og Ungmennafélagsins Glóa en Grunnskóli Fjallabyggðar og Menntaskólinn á Tröllaskaga eru meðal þeirra aðila sem taka þátt í framkvæmdinni. Nemendur nota listaverk sem kveikjur að ljóðum og að þessu sinni voru það verk eftir starfsfólk skólans, núverandi og fyrrverandi nemendur hans og verk úr safni skólans. Nemendur fengu góð ráð í ljóðasmíðinni frá Þórarni Hannessyni, kennara í MTR og forstöðumanni Ljóðaseturs Íslands, áður en leitað var innblásturs frá listaverkunum. Misjafnlega gekk að koma orðum á blað, eins og gengur og gerist, en uppskeran var engu að síður góð; um áttatíu ný ljóð. Nú bíður það fimm manna dómnefndar að vega og meta afurðirnar og höfundar bestu ljóðanna verða svo verðlaunaðir. Úrslit verða kunngjörð á Ljóðasetri Íslands á Siglufirði síðar í desember. Það er mikils virði fyrir skólann að fá ungmenni úr grunnskóla byggðarlagsins í heimsókn. Með því fá þau að kynnast andrúmsloftinu í skólanum sem eykur líkurnar á að þau sækist eftir skólavist þegar þar að kemur.
Lesa meira

Baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi

25. nóvember er Alþjóðlegur baráttudagur gegn kynbundnu ofbeldi. Kynbundið ofbeldi viðgengst þegar enginn talar um það og þótt unnið hafi verið gott starf til að stemma stigu við því á síðustu árum sýna tölur að enn er langt í land. Fjölmargir UNESCO-skólar halda uppi metnaðarfullu kynjafræðinámi fyrir nemendur sína og er mikilvægur liður í náminu að læra um kynbundið ofbeldi. Félag Sameinuðu þjóðanna og félag kynjafræðikennara tóku höndum saman í tilefni dagsins og hvöttu skóla til þess að standa fyrir fræðslu um kynbundið ofbeldi innan skóla sem og víðar í samfélaginu.
Lesa meira

Skuggakosningar í lýðræðisviku

Skuggakosningar fóru fram í dag, 21. nóvember, í 30 framhaldsskólum á landinu m.a. hér í MTR. Sett var upp eftirlíking af kjörstað þar sem nemendur mættu og gerðu grein fyrir sér. Þá fengu þeir afhentan atkvæðaseðil með nöfnum allra þeirra 11 framboða sem bjóða fram í ár. Síðan var farið í kjörklefann og sett x á þann stað sem hver og einn kaus og einnig gátu nemendur merkt við hvort kosningaaldur ætti að miðast við 16 ára eða 18 ára aldur. Seðillinn var síðan settur í kjörkassann. Er þetta í fimmta sinn sem slíkar skuggakosningar eru haldnar hér á landi. Niðurstöðurnar endurspegla vilja nemenda um allt land og verða þær gerðar opinberar eftir að kjörstöðum lokar á kjördag alþingiskosninga, þann 30. nóvember. Spennandi verður að sjá hvort þær verði eitthvað í líkingu við raunveruleg úrslit.
Lesa meira

Haldið upp á Alþjóðadag barna

Í dag, þann 20. nóvember, er Alþjóðadagur barna. Þetta er dagurinn þar sem við fögnum og minnum á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þau lögfestu réttindi sem þessi útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims tryggir öllum börnum. Barnasáttmálinn var samþykktur á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1989, á Íslandi var hann lögfestur á Alþingi árið 2013. Í tilefni dagsins fá börn og ungmenni um allan heim orðið og láta rödd sína og skoðanir heyrast. Ungmennaráð UNICEF á Íslandi útbjó m.a. myndband með kraftmiklum skilaboðum ungmenna til fullorðinna hér á landi og ráðamanna um allan heim. Barnaheill lét einnig gera myndband þar sem rætt er við börn sem hafa hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna stríðsátaka, loftslagsbreytinga eða náttúruvár og áfallið sem því getur fylgt. Er þar m.a. rætt við börn frá Grindavík sem þurftu að flytja þaðan vegna jarðhræringanna á Reykjanesi. Til að fagna deginum komu nemendur MTR saman í sal skólans og horfðu á myndböndin og síðan var farið í spurningakeppni þar sem spurningarnar snérust um Barnasáttmálann og þau réttindi sem hann á að tryggja börnum um allan heim. Spurningarnar sömdu nemendur í áfanga sem ber titilinn Heimsmarkmið - umhverfi og sjálfbærni þar sem fjallað er um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna út frá umhverfisvernd, mannréttindum, heilbrigði og félagslegri velferð. Markmið spurninganna var að fá nemendur til að velta fyrir sér mismunandi stöðu barna í heiminum. Hér eru myndböndin tvö.
Lesa meira

Nemendur mættu á kynningu í HA

Opinn dagur var haldinn í Háskólanum á Akureyri sl. miðvikudag. Þar gafst gestum og gangandi tækifæri á að kynna sér úrvalið í grunnnámi skólans. Hátíðarsalnum var breytt í líflegt sýningarsvæði þar sem hver námsleið var með sinn bás. Þar kynntu stúdentar námið og deildu reynslu sinni og upplifun af lífinu í HA og starfsfólk skólans svaraði spurningum um námið. Einnig var boðið upp á skipulagðar gönguferðir um háskólasvæðið þannig að gestir gætu kynnt sér aðstöðuna í skólanum. Nemendur úr framhaldsskólum á Norður- og Austurlandi fjölmenntu á kynninguna í skipulögðum rútuferðum í boði háskólans. Í þeirra hópi voru annars- og þriðjaárs staðnemar úr MTR sem sumir hverjir stefna á frekara nám í HA. Urðu nemendur margs vísari um hvað væri í boði og hvernig námið væri skipulagt. Þótti þeim sérstaklega gaman og gagnlegt að tala við stúdenta sem þekkja námið í HA af eigin raun. Ekki skemmdi svo fyrir að í lok kynningarinnar var boðið til pizzuveislu.
Lesa meira

Ábyrgð nemenda á eigin námi

Lesa meira

Innritun á vorönn

Innritun á vorönn í stað- og fjarnám hefst 1. nóvember á miðnætti.
Lesa meira

Valdefling drengja

Í haust hóf skólinn þátttöku í nýju NordPlus-verkefni sem miðar að því að bæta félagslega sjálfbærni meðal drengja og draga úr brottfalli þeirra úr framhaldsskóla. Verkefnið er unnið í samstarfi við framhaldsskóla í Danmörku og á Grænlandi þar sem lögð er áhersla á að kanna ástæður fyrir lakari námsárangri drengja og hugað að mögulegum lausnum. Fyrir hönd MTR taka þau Guðbjörn Hólm Veigarsson, Ida Semey og Hólmar Hákon Óðinsson þátt í verkefninu. Þátttakendur heimsóttu nýverið GUX Nuuk framhaldsskólann á Grænlandi þar sem um 450 nemendur stunda nám. Það vakti athygli að um 80% kennaranna eru danskir og fer allt nám fram á dönsku, sem sagt ekki á móðurmáli nemendanna. Í Nuuk kynnti hópurinn sér menntakerfið og menningu landsins meðal annars með heimsókn á listasafn og þjóðminjasafn staðarins. Þar var ljóst að mikil áhrif danskrar menningar gætir enn í skólastarfi í Grænlandi. Verkefnið vekur upp margar spurningar um félagslega og menningarlega þætti sem mögulega hafa áhrif á námsframvindu drengja, bæði á Grænlandi og víðar. Hugmyndir hópsins beinast meðal annars að áhrifum samfélagsmiðla á athygli drengja, kynjaðri væntingu um hegðun og árangur og stöðluðum hugmyndum um karlmennsku sem gætu haft neikvæð áhrif á námsárangur. Með verkefninu á m.a. að kanna hvort ungt fólk, sérstaklega drengir, upplifi skort á stuðningi vegna staðalímynda um karlmennsku, þar sem það gæti verið litið á það sem veikleika að biðja um aðstoð og viðurkenna að maður geti ekki reddað hlutunum sjálfur. Niðurstöður verkefnisins verða kynntar að verkefninu en markmiðið er að varpa ljósi á mögulegar leiðir til að styðja betur við drengi í námi og bæta félagslega sjálfbærni þeirra.
Lesa meira

Námsferð til Króatíu

Þessa vikuna er hópur nemenda úr MTR og Guðbjörn Hólm Veigarsson og Inga Þórunn Waage kennarar þeirra í Króatíu að taka þátt í verkefni sem kallast „Becoming a Biomaker School“ sem er innan ramma Erasmus+. Þetta er verkefni sem hófst 2022 og er dreift yfir 5 ára tímabil. Megináherslur verkefnisins eru sjálfbær evrópsk markmið og þá sérstaklega þau sem miða að því að vernda umhverfið.Samstarfsskólarnir eru þrír; frá Króatíu, Portúgal og Spáni. Nemendur vinna saman að því að móta verkefnið í kringum brýn málefni eins og loftslagsbreytingar, græna Evrópu og þróun landsvæða.
Lesa meira

Bleikur október

Bleikur október er árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameini hjá konum og Bleika slaufan er tákn Krabbameinsfélagsins í þeirri baráttu. Hún er seld ár hvert til fjáröflunar og þeir fjármunir sem safnast í átakinu renna til vísindastarfs, rannsókna, fræðslu, forvarna og til ráðgjafar og stuðnings. Einnig hefur verið safnað fyrir tækjum til krabbameinsleitar á vegum Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Bleiki dagurinn er í dag, 23. október, en hann er hápunktur Bleiku slaufunnar ár hvert. Á Bleika deginum er þjóðin hvött til að vera bleik - fyrir okkur öll bera slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning okkar og samstöðu. Starfsfólk MTR lét ekki sitt eftir liggja og klæddist bleiku í dag,í tilefni átaksins, og ýmsir báru slaufuna í barmi. Auk þess hefur bleiki fáninn blaktað við hún allan október og skólinn verið skreyttur bleikum slaufum.
Lesa meira