Feed

Rúmlega 700 nemendur útskrifaðir frá upphafi

Þann 20. desember brautskráðist 31 nemandi frá Menntaskólanum á Tröllaskaga við hátíðlega athöfn. Hafa nú alls 709 nemendur brautskráðst frá skólanum frá því hann var stofnaður árið 2010. Útskriftarnemarnir að þessu sinni koma frá tólf stöðum á landinu, flestir af höfuðborgarsvæðinu og aðeins einn staðnemi var í hópnum. Sex nemanna sáu sér fært að vera við athöfnina en líkt og undanfarin ár var hún einnig send út á fésbókarsíðu skólans svo allir útskriftarnemar og fjölskyldur þeirra gætu notið stundarinnar. Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari stýrði athöfninni og sagði frá starfinu á önninni. Í máli hennar kom m.a. fram að tæplega 560 nemendur stunduðu nám við skólann í haust, flestir á kjörnámsbraut og starfsmenn við skólann voru 29. Mikill meirihluti nemenda eru fjarnemar sem búsettir eru vítt og breitt um landið og þó nokkrir erlendis. Líkt og undanfarin ár voru mörg erlend verkefni í gangi. Erasmus- og Nordplus-styrkir væru fastur liður í skólastarfinu sem gerðu nemendum og kennurum kleift að fara í námsferðir og einnig að taka á móti nemendahópum erlendis frá. Á önninni fór hópur nemenda til að mynda til Eistlands og nemendaráð skólans heimsótti nemendaráð tveggja framhaldsskóla í Kaupmannahöfn. Áframhald verði á slíkum samstarfsverkefnum því þau séu sérstaklega lærdómsrík. Einnig sagði Jóna Vilhelmína frá því að MTR væri UNESCO-skóli og lögð væri áhersla á að flétta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna inn í allt starf hans. Helstu áhersluatriði til þessa væru mannréttindi, umhverfismál og friður. Árangur af þessu starfi skilaði sér nú á haustdögum í Evrópsku nýsköpunarverðlaununum í kennslu sem skólinn hlaut fyrir verkefnið „Heimsmarkmiðin í öllu skólastarfi - lýðræðislegt samfélag í framkvæmd“. Verðlaunin voru afhent í Brussel í byrjun desember. Lára Stefánsdóttir skólameistari lagði í ávarpi sínu áherslu á traust og mikilvægi þess fyrir alla aðila hvort sem er í fjölskyldum, skólum, vinnustöðum, stjórnkerfinu eða hvar annars staðar sem er. Með trausti milli aðila er svo mikið auðveldara að leysa þau mál sem upp koma og þó fólk sé ekki sammála um leiðir þá er hægt koma sér saman um lausn sem allir geta verið sáttir við ef traust ríkir milli aðila. Hún hafi oft upplifað þetta hjá kennurum skólans. Ástæðan fyrir því að hún vildi tala um traust í þessu ávarpi væri sú að einn kennari skólans, hún Ida Semey, sem hefur verið drifkrafturinn í erlendum verkefnum skólans, hefur nefnt það oftar en einu sinni að ein ástæðan fyrir góðu gengi hans er að hér ríki traust. Traustið sé þó ekki sjálfsagt, bætti Lára við, og það hafi verið heilmikil vinna í upphafi að koma skólanum á fót, vinna honum traust og sýna fram á að hægt væri að treysta því að námið í skólanum væri góður grunnur undir frekara nám og gagnaðist vel í lífi og starfi. Þetta hefur tekist og vinsældir skólans aldrei meiri en nú. Þökk sé góðu skipulagi, öflugri símenntun starfsfólks og ekki síst því trausti sem ríkir. Nemendur finna fyrir trausti frá kennurum og kennarar og starfsfólk frá skólameistara og öðrum stjórnendum. Og nemendur mæla með skólanum á ólíklegustu stöðum eins og t.d. á Beauty tips og bland.is !
Lesa meira

Streymi á útskrift

Streymi á haustútskrift er á facebooksíðu Menntaskólans á Tröllaskaga
Lesa meira

Fjölbreytt verk á haustsýningu skólans

Í dag, laugardaginn 13. desember, opnaði haustsýning skólans. Þar getur að líta afrakstur af vinnu nemenda á haustönn í hinum ýmsu greinum þó mest áberandi séu verk sem unnin hafa verið í myndlist og ljósmyndun á listabraut. Óhætt er að segja að verkin séu fjölbreytt, bæði hvað varðar efnistök og innihald, og ljóst að einkunnarorð skólans; Frumkvæði - Sköpun - Áræði, hafa verið í heiðri höfð við vinnu þeirra. Valin verkefni úr íslensku, félagsvísindum, sálfræði og yndiseldun eru einnig til sýnis á heimasíðu skólans. Margir lögðu leið sína í skólann í dag til að virða fyrir sér verkin og eiga gott spjall um vinnu nemenda. Sýningin er opin til 19. desember á opnunartíma skólans. Hvetjum við alla áhugasama til að líta við og skoða glæsilega og áhugaverða sýningu. Sýningin er opin til 19. desember á opnunartíma skólans. Hvetjum við alla áhugasama til að líta við og skoða glæsilega og áhugaverða sýningu.
Lesa meira

Glæsileg lokaverkefni í myndlist

Á haustönn hafa þrír nemendur setið lokaverkefnisáfanga á myndlistarsviði. Í honum er byggt á þeim grunni sem nemendur hafi aflað sér í teikningu og meðferð olíulita í fyrri áföngum. Mikil áhersla er lögð á persónulega túlkun og að verkið skuli uppfylla kröfur um áræðni, ímyndunarafl og listræna framsetningu. Nemendur velja sér verkefni eftir áhugasviði hvers og eins og vinna eigin rannsóknar og sköpunarferlisvinnu undir handleiðslu kennara. Fjarneminn Áróra Hlín Helgadóttir ákvað að lokaverkefni sitt ætti að snúast um fegurð íslensku náttúrunnar. Niðurstaðan var að mála sex vegleg olíumálverk í rómantískum landslags stíl af uppáhalds stöðum hennar á landinu. Verkin eru 80x100cm og verða til sýnis á haustsýningu skólans sem opnar á laugardaginn. Kristín Magnea Sigurjónsdóttir sinnir námi sínu frá Gran Canaria þar sem hún er búsett. Hún fékk þá hugmynd að nýta áfangann til að mála myndir sem hentuðu á tóma veggi í húsi sem hún og maður hennar hafa nýverið keypt á eyjunni. Nefnir hún lokaverkefnið Veggir án minninga. Í stað þess að senda verkin til sýningar á haustsýningu skólans tók hún upp myndband þar sem hún segir frá lokaverkefninu og sýnir frá myndlistarsýningu sem hún bauð nokkrum vinum til í húsi sínu. Fjallar hún einnig um kosti þess að stunda fjarnám við MTR. Hér er hlekkur á myndbandið: https://www.youtube.com/watch?v=DIgrRdhmxeg Síðast en ekki síst er það lokaverkefni sem staðneminn Hlynur Snær Harðarson hefur unnið að á önninni. Gaman hefur verið að fylgjast með þróun verksins allt frá því að striginn var strekktur á rammann og Hlynur safnaði hugmyndum frá nemendum og kennurum um hvað ætti að felast í verkinu. Sjá svo túlkun þeirra hugmynda taka á sig mynd á striganum, fyrst með blýanti og síðar penslum og olíumálningu, eins og sjá má á myndunum sem fylgja fréttinni. Verður verkið í öndvegi á haustsýningunni.
Lesa meira

Rækt við listafólk Fjallabyggðar

Líkt og við höfum áður sagt frá á Menntaskólinn á Tröllaskaga orðið ágætt safn listaverka. Flest eru verkin eftir listafólk af svæði skólans og reglulega eru settar upp sýningar í sal skólans á verkum listafólks sem búsett er í Fjallabyggð. Er það gert til að krydda menningarlífið í skólanum og ekki síður til að vekja athygli á starfandi listafólki sem býr í nágrenni hans. Tónlistarfólk úr Fjallabyggð er einnig kallað til við útskriftir til að sjá um tónlistarflutning auk þess að koma fram á fleiri viðburðum í skólanum. Frá árinu 2011 hefur bæjarlistamaður Fjallabyggðar verið útnefndur árlega og hafa 15 einstaklingar auk Leikfélags Fjallabyggðar hlotið nafnbótina. Obbi þeirra útnefndu starfar að myndlist og er gaman að segja frá því að allflestir hafa sýnt verk sín í skólanum á undanförnum árum og í safni skólans eru verk þeirra flestra. Einnig má geta þess að þrír bæjarlistamannanna starfa, eða hafa starfað við skólann, og þrír hafa numið við hann. Má því segja að auk þess að veita öflugt listnám, og leggja þannig grunninn að möguleikum nemenda á listasviðinu, ræktar skólinn gott samband við listafólk á svæðinu og eykur sýnileika þess.
Lesa meira

Fræðsla um kynbundið ofbeldi

Menntaskólinn á Tröllaskaga er UNESCO-skóli og einn liðurinn í að rækja skyldur sínar sem slíkur er að halda upp á nokkra alþjóðadaga Sameinuðu þjóðanna þar sem sjónum er beint að ákveðnu málefni. Á skólafundi í haust völdu nemendur fjögur málefni sem þeim þótti mikilvægast að fá fræðslu um og vekja athygli á og eitt þeirra var kynbundið ofbeldi. Alþjóðlegur baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi var 25. nóvember og þá hófst 16 daga herferð þar sem athyglinni er beint sérstaklega að kynbundnu ofbeldi sem fer fram með stafrænum hætti. Það er áreitni, misnotkun eða annað ofbeldi sem á sér stað í síma, tölvum eða á netinu. Átakinu lýkur 10. desember, á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna. Í tilefni átaksins var dagskrá í skólanum í dag þar sem farið var yfir mögulegar birtingarmyndir stafræns ofbeldis og viðbrögð gegn því. Fræðsla er mikilvæg í þessum efnum sem öðrum því með aukinni vitund, stuðningi og skýrum viðbrögðum getum við dregið úr þessu vaxandi vandamáli og stutt þau sem verða fyrir slíku ofbeldi. Einkennislitur 16 daga átaksins er appelsínugulur, táknar hann von og líf án ofbeldis. Mættu þó nokkrir klæddir þessum líflega lit í skólann í dag og boðið var upp á mandarínur meðan fræðslan fór fram. Meðfylgjandi er glærukynning sú sem farið var yfir í dag og talar Ida Semey, kennari skólans inn á hana. Einnig er hér að neðan slóð á síðu UN Women þar sem er frekari fræðsla og frétt um átakið.
Lesa meira

Icelandic as a second language

Menntaskólinn á Tröllaskaga (MTR) offers courses in Icelandic as a second language (ÍSAN) at two levels: beginner and intermediate. These courses are taught online and offline. The beginner's course is intended for students whose first language is not Icelandic. The course corresponds to levels A1–A2 of the Common European Framework of Reference for Languages (CEFR). The focus is on Icelandic vocabulary related to the students’ immediate environment, as well as pronunciation, listening, reading, and writing skills. The intermediate-level course is designed for students who study Icelandic as a foreign language and already speak and understand the language reasonably well. Students continue to develop the essential elements of the language and build a more advanced vocabulary while strengthening their listening, writing, reading, and speaking skills.
Lesa meira

Kökusamsæti starfsbrautar í tilefni dags umburðarlyndis

Það var skemmtileg stund hjá okkur í skólanum í morgun þegar starfsbraut skólans bauð til kökusamsætis í tilefni af alþjóðadegi umburðarlyndis sem var í síðustu viku. Á þeim degi er lögð áhersla á að sýna öðrum virðingu og mildi og minna á að öll höfum við okkar rétt óháð stöðu og bakgrunni. Undirbúningur hefur staðið undanfarnar vikur og hefur viðfangsefnum í stærðfræði- og tilveruáföngum annarinnar verið blandað saman. Bakaðar voru fjórar sortir í tilveruáfanganum en í stærðfræðinni fór undirbúningurinn fram. Farið var í búðina til að kaupa hráefni og í leiðinni var verð hverrar vöru skoðað og spáð í magntölur og þyngdir svo innkaupin yrðu sem hagstæðust. Svo þurfti að margfalda uppskriftir og passa að öll hlutföll væru í lagi áður en farið var af stað í baksturinn. Nemendaráð ákvað að skora á nemendur og kennara að mæta í sparifötum í skólann í tilefni dagsins og mættu margir í sínu fínasta pússi. Jólatríó, skipað tveimur nemendum og einum kennara, flutti svo nokkur jólalög meðan veitinganna var notið. Úr varð hin notalegasta stund, heilmikill lærdómur og áminning um að vera góð við hvert annað.
Lesa meira

Listaverkasafn skólans

Menntaskólinn á Tröllaskaga á orðið ágætt safn listaverka. Flest eru verkin eftir listafólk af svæði skólans og gefa hugmynd um þá listsköpun í þessum geira sem á sér stað hér nyrst á Tröllaskaga. Hugað er að því að hafa verk til sýnis sem víðast um skólann þannig að þau verði hluti af daglegu lífi nemenda og starfsfólks. Einnig eru reglulega settar upp sýningar í sal skólans á verkum listafólks af svæðinu til að krydda menningarlífið í skólanum og vekja athygli á starfandi listafólki sem býr í nágrenni hans.
Lesa meira

Áfram íslenska - nýtt námsefni

Kennarar skólans eru frjóir og skapandi og hafa margoft sýnt og sannað að þeir standa vel undir einkunnarorðum skólans: Frumkvæði - sköpun - áræði. Kolbrún Halldórsdóttir, einn af íslenskukennurum skólans, er gott dæmi. Hún fékk styrk úr námsgagnasjóði Rannís vorið 2024 til að hanna og setja upp notendavæna og aðgengilega vefsíðu þar sem hugmyndin var að bjóða upp á fjölbreytt gagnvirk verkefni í íslensku á framhaldsskólastigi. Síðan heitir Áfram íslenska og var opnuð núna á haustdögum. Hún var valin sem ein af fjórum bestu hugmyndunum í flokknum Námsgögn á Menntaþoni í júní sl. Að Menntaþoninu standa Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS), Þróunarsjóður námsgagna, NýMennt Háskóla Íslands, IÐNÚ og Samtök menntatæknifyrirtækja (IEI).
Lesa meira