Kökusamsæti starfsbrautar
Það var skemmtileg stund hjá okkur í skólanum í morgun þegar starfsbraut skólans bauð til kökusamsætis í tilefni af alþjóðadegi umburðarlyndis sem var í síðustu viku. Á þeim degi er lögð áhersla á að sýna öðrum virðingu og mildi og minna á að öll höfum við okkar rétt óháð stöðu og bakgrunni. Undirbúningur hefur staðið undanfarnar vikur og hefur viðfangsefnum í stærðfræði- og tilveruáföngum annarinnar verið blandað saman. Bakaðar voru fjórar sortir í tilveruáfanganum en í stærðfræðinni fór undirbúningurinn fram. Farið var í búðina til að kaupa hráefni og í leiðinni var verð hverrar vöru skoðað og spáð í magntölur og þyngdir svo innkaupin yrðu sem hagstæðust. Svo þurfti að margfalda uppskriftir og passa að öll hlutföll væru í lagi áður en farið var af stað í baksturinn.
Nemendaráð ákvað að skora á nemendur og kennara að mæta í sparifötum í skólann í tilefni dagsins og mættu margir í sínu fínasta pússi. Jólatríó, skipað tveimur nemendum og einum kennara, flutti svo nokkur jólalög meðan veitinganna var notið. Úr varð hin notalegasta stund, heilmikill lærdómur og áminning um að vera góð við hvert annað. Myndir