Reglur um verkefnaskil

Reglur um verkefnaskil nemenda

Skili nemandi sama einstaklingsverkefni og annar nemandi í hluta eða heild eða verkefni unnu af gervigreind, þar sem ekki á við, telst hann hafa brotið reglur skólans um verkefnaskil.  Reglan gildir einnig ef hópur nemenda í samstarfsverkefni skilar sama hópverkefni og annar hópur að hluta eða heild eða verkefni unnu af gervigreind þar sem ekki á við.

Athugið: Frestur er nánast aldrei gefinn á verkefnaskilum. Eina undantekningin eru mjög alvarleg veikindi nemanda eða fráfall náins ættingja. Skólameistari Lára Stefánsdóttir, lara@mtr.is er eini starfsmaðurinn sem hefur heimild til að semja um skil utan skilatíma.

Viðurlög við brotum:

Fyrsta brot: Verði nemandi uppvís að broti á ofangreindri reglu í einhverjum áfanga ræðir kennari við hann og gerir honum grein fyrir alvarleika málsins. Nemandanum er því næst veitt tækifæri til að endurvinna verk sitt og færa til betri vegar. Brot skulu færð í athugasemdir um nemanda á Innu. 

Annað brot: Verði nemandi í annað sinn uppvís að broti á ofangreindri reglu, í hvaða áfanga sem er, telst verkefnið ógilt og gefin er einkunnin 0. Þá fær hann einnig formlegt aðvörunarbréf frá skólayfirvöldum.

Þriðja brot: Verði nemandi uppvís að broti á ofangreindri reglu í þriðja sinn hefur hann fyrirgert rétti sínum til setu í viðkomandi áfanga.

Ítrekuð brot á reglum skólans geta leitt til brottvísunar úr skóla. 

Brot á þessari reglu fyrnast ekki milli anna eða áfanga. (Brjóti nemandi til dæmis af sér í einum áfanga á 1. önn og öðrum á 3. önn teljast það tvö brot).

Endurskoðað 5. maí 2023