Náms- og starfsráðgjöf

Hlutverk náms- og starfsráðgjafa Menntskólans á Tröllaskaga

Hlutverk náms- og starfsráðgjafa er fyrst og fremst að vera málsvari og trúnaðarmaður nemenda innan skólans og standa vörð um velferð þeirra.

Náms- og starfsráðgjafinn veitir nemendum skólans margvíslegan stuðning á meðan á námi stendur og hefur það að markmiði að skapa hverjum nemenda sem bestar aðstæður í námi. Aðstoð við áfangaval er stór þáttur í starfi ráðgjafans, ásamt því að veita upplýsingar um ýmis hagnýt atriði er lúta að náminu og skipulagningu þess. Nám í framhaldsskóla gerir oft aðrar kröfur til nemenda en nám í grunnskóla. Meiri kröfur eru gerðar um sjálfstæði nemenda og eigið vinnuframlag. Námsráðgjafi stuðlar að auknum skilningi nemenda á eigin stöðu og möguleikum í námi og starfi og þjálfar þá til sjálfsábyrgðar. Nemendur þurfa því oft að endurskoða námsvenjur sínar og námstækni. Stuðningur náms- og starfsráðgjafa felst m.a. í að:

 • skipuleggja og sjá um framkvæmd náms- og starfsfræðslu í skólanum
 • annast ráðgjöf um náms- og starfsval
 • taka þátt í að skipuleggja ýmsar aðgerðir til að stuðla að betri líðan nemenda í skólanum
 • veita upplýsingar og fræðslu um nám og störf
 • sinna kennslu um hagnýtar námsaðferðir
 • aðstoða nemendur við að finna úrræði vegna námserfiðleika
 • hjálpa nemendum að átta sig á áhugasviðum sínum
 • hjálpa nemendum að finna styrkleika sína og námsstíl

Ráðgjöfin miðar að því að efla færni nemenda til að finna sínar eigin leiðir og lausnir á þeim vanda sem þeir standa frammi fyrir hverju sinni.

Að auki er hlutverk náms- og starfsráðgjafa:

 • að fylgjast með námsgengi nemenda og gera tillögur til úrbóta gerist þess þörf
 • að liðsinna kennurum vegna námsvanda einstakra nemenda og vera þeim til aðstoðar við skipulagningu og umsjón með nemendahópum
 • að hafa samband við forráðamenn nemenda þegar þörf er á
 • yfirumsjón með mætingum nemenda og viðbragðsferli
 • að tengja saman félagslíf í samfélaginu og skólanum í samstarfi við umsjónarmann með félagslífi nemenda
 • fylgjast með nýjungum á sviði námsráðgjafar
 • sjá um kynningar á skólanum
 • vinna að ýmsum verkefnum í samráði við stjórnendur skólans
 • taka saman skýrslu um starfsemina í lok hvers skólaárs.

Náms- og starfsráðgjafi metur hvort unnt sé að leysa úr málum innan skólans eða hvort leita þurfi eftir sérhæfðari meðferð til viðeigandi sérfræðinga eða stofnana. Hann kemur upplýsingum þar um til skólameistara.
Einnig veitir náms- og starfsráðgjafi skólans nemendum og öðrum sem til hans leita upplýsingar og fræðslu um starfshætti skólans, skólareglur, kennsluhætti og námsmat.
Fara skal með vitneskju sem náms- og starfsráðgjafi öðlast um persónuleg mál einstaklinga sem trúnaðarmál.
Árlegur starfstími náms- og starfsráðgjafa er frá því að skólinn er opnaður eftir sumarleyfi að hausti og til 15.-20. júní (eða þar til vinnu við innritun lýkur).

Við í Menntaskólanum á Tröllaskaga viljum að nemendur

 • þekki sjálfa sig – sínar sterku og veiku hliðar
 • beri virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum
 • setji sér raunhæf markmið og standi við þau
 • viti að það er alltaf hægt að leita aðstoðar
 • séu í virku samstarfi við samnemendur og samfélagið

Nemendur og foreldrar geta alltaf haft samband við náms- og starfsráðgjafa alla daga eða sent tölvupóst á namsradgjof@mtr.isEndurskoðað 23. september 2016