Starfsmannastefna

Forsenda góðs árangurs í skólastarfi er fjölhæft og traust starfsfólk.
Starfsmenn Menntaskólans á Tröllaskaga vilja að í skólanum ríki andi jafnræðis þar sem hver starfsmaður nýtur sín og vex í starfi. Í skólanum séu greið samskipti þar sem hverjum starfsmanni finnst hann vera mikilvægur hluti af heildinni.

Markmið starfsmannastefnu Menntaskólans á Tröllaskaga

Ráðningar:
Hjá Menntaskólanum á Tröllaskaga er staðið löglega og faglega að ráðningum.

 • Öll störf eru auglýst í samræmi við starfsmannalög.
 • Ráðning byggist á hæfni umsækjenda.
 • Jafnréttissjónarmiða er gætt við mannaráðningar.
 • Nýr starfsmaður fær kynningu á skólanámskrá og er tilbúinn til að starfa í anda hennar.


Móttaka og þjálfun nýliða:
Nýir starfsmenn Menntaskólans á Tröllaskaga njóta leiðsagnar og stuðnings.

 • Vel er tekið á móti nýjum starfsmönnum.
 • Skólinn og reglur hans eru kynntar nýjum starfsmönnum.


Starfsþróun / símenntun:
Litið er á starfsþróun sem virkan þátt í skólastarfinu og stefnt að því að

 • starfsmenn séu ánægðir og vaxi í starfi.
 • hlutverk starfsmanna séu skýr og þeir fái hvatningu í starfi.
 • tryggja að starfsmenn eigi kost á símenntun, bæði innan stofnunar og utan, til að auka þekkingu sína og faglega hæfni. Það er jafnt á ábyrgð starfsmanns sem yfirmanns að viðhalda og bæta fagþekkingu og aðra sérþekkingu sem nauðsynleg er starfsins vegna.


Endurgjöf, laun, umbun:
Skólinn veitir endurgjöf og umbun til starfsmanna vegna starfa og samskipta.

 • Skólinn leggur áherslu á að bjóða starfsfólki sínu góð launakjör, starfsskilyrði og starfsaðstöðu
 • Lögð er áhersla á gott samstarf skólans og stéttarfélaga starfsmanna
 • Endurgjöf til starfsmanna er regluleg og formleg en einnig óformleg eftir atvikum
 • Skólinn leggur sitt af mörkum til að styrkja jákvæðan starfsanda og félagslíf starfsmanna.


Jafnrétti:
Hjá Menntaskólanum á Tröllaskaga eru jafnréttissjónarmið í hávegum höfð og er þessi stefna hluti jafnlaunastefnu skólans.

 • Samvinna og gagnkvæm virðing ríki milli allra starfsmanna skólans.
 • Tækifæri til framgangs í starfi stjórnist af hæfni einstaklingsins en ekki af kynferði, aldri eða öðrum aðgreinandi þáttum.


Upplýsingar og samskipti:
Í Menntaskólanum á Tröllaskaga er stöðugt miðað að bættum samskiptum, bæði huglægum og hlutlægum.

 • Upplýsingar um starfsemi skólans séu aðgengilegar á heimasíðu skólans, http://www.mtr.is, - upplýsingar um stefnu skólans og námskrá skólans.
 • Miðað skal að að boðleiðir og reglur séu skýrar.
 • Starfsmenn hafi yfirsýn yfir skólastarfið og beri sjálfir ábyrgð á að afla sér upplýsinga sem þá varðar.
 • Allir sem starfa við skólann temja sér jákvæð og uppbyggjandi samskipti.
 • Starfsmenn vinni saman sem liðsheild að eflingu skólans.
 • Siðareglur starfsmanna. Starfsmönnum ber að fara eftir stjórnsýslulögum og siðareglum skólans eins og þær eru hverju sinni.


Starfsskilyrði:
Í Menntaskólanum á Tröllaskaga er leitast við að starfsmenn hafi aðstöðu og aðbúnað til að sinna starfi sínu eins og til er ætlast.

 • Að ákvarðanataka í skólanum sem varðar starfsmenn sé gagnsæ og í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.
 • Að skólinn leitist við að skapa starfsmönnum heilsusamlegt og öruggt starfsumhverfi.


Notkun vímuefna:

 • Öll notkun vímuefna í kennsluhúsnæði skólans og lóð er bönnuð.
 • Menntaskólinn á Tröllaskaga veitir starfsmönnum leiðbeiningar og aðstoð til að vinna úr vandamálum sem tengjast notkun vímuefna.


Starfslok:
Menntaskólinn á Tröllaskaga stefnir að því að þegar starfsmenn hverfa frá störfum sé það í sátt.

 • Að farið sé að starfsmannalögum varðandi starfslok hver svo sem ástæða þeirra er.
 • Að starfsmönnum sé gert kleift að ljúka störfum á farsælan hátt.


Starfsmenn leggja sig fram um að starfa í anda einkunnarorða skólans:

 • Frumkvæði - sköpun - áræði


Endurskoðað apríl 2020