Áhugaverðir dagar í Tallinn

Hópmynd
Hópmynd

Dagana 11. - 17. október fóru nokkrir nemendur við MTR í ferð til Tallinn í Eistlandi í fylgd tveggja kennara. Þar tóku þeir þátt í Nordplus samstarfsverkefni með þremur skólum; einum eistneskum og tveimur finnskum. Verkefnið kallast “Bridging Minds & Cultures Through Stories” (Að tengja menningu og hug með sögum) og er markmiðið að nemendur kynnist menningu mismunandi landa og vinni með andlega heilsu í gegnum söguformið. Unnið var í hópum eftir ýmsum þemum eins og t.d. draumar, fjölskylda og vinátta og afrakstur vinnunnar var fjölbreyttur; tónlist, hlaðvörp, veggspjöld og listaverk. Farið var í ratleik um sögulegar slóðir í borginni og einnig voru haldin menningarkvöld þar sem hver skóli kynnti sína menningu. Fengu nemendur þá meðal annars að kynnast finnska jólasveininum og eistneskri síld. Okkar nemendur kynntu Ísland og íslenska menningu og þótti erlendu nemendunum sérstaklega áhugavert að læra um íslenska stafrófið og Íslendingabók.

Nemendur voru í heimagistingu og þótti það spennandi og skemmtilegt. Heimagisting býður upp á meiri samskipti og nánari tengsl við heimafólk og nemendur fá þannig meiri innsýn í daglegt líf og menningu í viðkomandi landi. Einnig þótti þeim áhugavert að kynnast öðrum skólabrag, sjá námsaðstæður í samstarfsskólanum og komast að því að þar ríkti símabann. Tókust góð kynni milli nemenda sem verða ræktuð frekar á komandi mánuðum. Næsti hluti verkefnisins fer fram í Oulu í Finnlandi í vor og verkefninu lýkur næsta haust þegar nemar samstarfsskólanna sækja okkur heim.