Fréttir

Kosning í nemendaráð

Rafrænni kosningu í nemendaráð Trölla, nemendafélags MTR lauk kl. 12:00 föstudaginn 14. september sl. Kosningaþátttaka var 43,5% og féllu atkvæði þannig:
Lesa meira

Fjör á nýnemadegi í MTR

Gleðin var við völd á miðvikudag þegar nýir nemar voru boðnir sérstaklega velkomnir í skólann. Með heimamönnum glöddust gestir frá Grunnskóla Dalvíkur og Grunnskóla Fjallabyggðar. Keppt var í sápubolta við mikinn fögnuð viðstaddra. Margir sýndu góða takta á vellinum og áhorfendur nutu tilþrifanna. Innanhúss reyndi fólk sýndarveruleika og skoðaði ýmis tæki í eigu skólans. Veitingar Bjargar runnu ljúflega niður að venju. En myndir Gísla segja meira en mörg orð.
Lesa meira

Nemendaráðskosning

Ellefu nemendur keppa um sæti í nemendaráði Trölla, félags nemenda í skólanum. Kosningin er rafræn. Hún hófst í morgun miðvikudag kl. 10:00 og stendur til föstudags 14. september kl. 12:00. Frambjóðendur kynna sig og áhersluatriði sín í félagslífi skólans á flettiskjá í Hrafnavogum. Það eru fimm sæti í nemendaráðinu sem þessir ellefu nemendur keppa um. Sú eða sá sem hlýtur flest atkvæði verður formaður. Á kjörskrá eru staðnemar og nemar með frjálsa mætingu.
Lesa meira

Nýnemadagur miðvikudaginn 12. september 2018

Hefðbundin kennsla fellur niður eftir kl. 10:30 miðvikudaginn 12. september þegar við gerum okkur dagamun til að bjóða nýnema skólans velkomna. Góðir gestir koma í heimsókn og líf og fjör verður vonandi bæði úti og inni. Á nýnemadeginum verður keppt í sápubolta (ef veður leyfir), hægt verður að fara í sund og prófa ýmislegt innahúss. Tölvuklúbburinn kynnir starfsemi sína og nemendur MTR hafa tækifæri til að kynnast stefnumálum þeirra sem bjóða sig fram til setu í nemendaráði Nemendafélagsins Trölla. Í kjölfarið hefst svo rafræn kosning í nemendaráðið fyrir nemendur MTR. Að sjálfsögðu verða veglegar veitingar að hætti Bjargar
Lesa meira

Listasafnið á Akureyri heimsótt

Hópur nemenda af listabraut og starfsbraut heimsóttu hið glæsilega nýuppgerða Listasafn Akureyrar. Hlynur Hallson safnstjóri tók á móti hópnum og kynnti nemendum sögu hússins allt frá ýmissi iðnaðarstarfssemi sem var þar í upphafi og fram til stöðunnar í dag. Því næst var skoðuð sýning Magnúsar Helgasonar og Hjördísar Frímann í safnfræðslurýminu. Á efstu hæðinni sem er ein helsta viðbótin við safnið voru sýningar Aðalheiðar Eysteinsdóttur og Sigurðar Árna Sigurðssonar. Áhersla var lögð á að sýna norðlenska listamenn við enduropnun safnsins og kom það því í hlut Aðalheiðar sem er Siglfirðingur og Sigurðar Árna sem er Akureyringur að vígja þessi glæsilegu salakynni. Því næst var skoðuð sýning úr safneign, portrett sýning frá Listasafni ASÍ og fatahönnun Anitu Hirlekar í Ketilhúsinu. Nemendur nutu sín svo í haustblíðunni á Akureyri áður en haldið var til baka.
Lesa meira

Annað græna skrefið

Skólinn hefur tekið annað skrefið í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri og fengið það vottað og viðurkennt. Sorpflokkun hefur verið aukin og er ekki lengur hægt að henda – nema flokka. Notkun pappíshandþurrka á salernum var hætt. Í staðinn kemur ýmist blásturshandþurrkun eða gamaldags handklæði. Aðeins er keyptur umhverfisvottaður pappír og sama gildir um vörur sem unnar eru úr pappír. Þá hefur skólinn sett sér stefnu sem hefur að markmiði að gera starfsemina umhverfisvænni, bæta starfsumhverfi og auka vellíðan. Sjá nánar hér:
Lesa meira

Meiri framleiðsla en aðeins færri nemendur

Með sparsemi og útsjónarsemi þjónar MTR fleiri nemendum en greitt er fyrir samkvæmt þeirri mælingu menntamálaráðuneytis sem byggist á svokölluðum nemendaígildum. Fjárveiting til skólans er miðuð við 125 nemendaígildi. Það er að segja hún á að duga til að kenna og þjóna á lögbundinn hátt 125 nemendum í fullu námi. Skólinn er hins vegar að framleiða um 140 nemendaígildi, eins og það heitir á máli ráðuneytisins. Skráðir nemendur í upphafi haustannar eru 342. Um það bil 257 eru í fjarnámi en skráðir staðnemar eru um 85. Þetta er fækkun um þrjá tugi frá því á sama tíma í fyrra. Staðnemum fækkar um fimmtán eða svo og er skýrist það af því að fjölmennur hópur fisktækninema brautskráðist í vor. Varðandi fjarnema hefur verið lögð áhersla á að taka inn nemendur sem eru í fleiri áföngum. Það þýðir að rými verður fyrir færri en áður. Hætt var að taka inn fjarnema um síðustu helgi því þá voru fullir allir áfangar þar sem fjarnám er í boði. Starfsmenn eru 26 jafnmargir og í fyrra. Þar af er um þriðjungur í hlutastarfi.
Lesa meira

Skólasetning

Menntaskólinn á Tröllaskaga var settur í níunda sinn í morgun. Í fyrsta sinn fór setningin fram í eigin húsnæði skólans Hrafnavogum. Salurinn var vígður og tekinn í notkun skömmu eftir skólasetningu í fyrra. Hann hefur mjög fjölbreytt notagildi og er mikið nýttur til náms og kennslu auk þess að vera matsalur og samkomusalur. Lára Stefánsdóttir, skólameistari setti skólann og hvatti nemendur til að læra það sem þeir hefðu áhuga á og vonandi hefðu þeir ánægju af náminu og skólavistinni.
Lesa meira

Allt fullt í fjarnám

Skráningu í fjarnám er lokið hjá skólanum og fullt í öllum áföngum. Næst verður innritað í nóvemberbyrjun fyrir vorönn 2019.
Lesa meira

Skólinn opnar eftir sumarfrí

Nú er sumarleyfum lokið og skrifstofa skólans hefur opnað aftur. Aðsókn var mikil í vor og er nú verið að fara yfir hverjir staðfestu skólavist með greiðslu, taka þá út sem ekki greiddu og taka inn af biðlistum. Nemendur sjá í Innu í hvaða áfanga þeir eru skráðir og þar með hvort þeir hafa fengið skólavist.
Lesa meira