Fréttir

Vorönn hefst 3. janúar

Við sendum öllum nær og fjær óskir um gleðilegt og farsælt nýtt ár og þökkum fyrir samstarf og samveru á liðnum árum. Nám á vorönn hefst 3. janúar, jafnt hjá staðnemum sem fjarnemum, og allir nemendur eiga að hafa fengið upplýsingar frá kennurum í tölvupósti hvernig þeir skrá sig í áfanga sína í kennslukerfinu Moodle. Í Innu sjá nemendur þá áfanga sem þeir eru skráðir í. Fjarnemar geta haft samband við Birgittu umsjónarkennara sinn, birgitta@mtr.is, ef eitthvað er óljóst. Fyrstu skil verkefna eru sunnudaginn 7. janúar. Hlökkum til að starfa með ykkur það sem eftir lifir vetrar..
Lesa meira

18 nýstúdentar settu upp hvíta kollinn

Þann 20. desember sl. brautskráðust 18 nemendur frá Menntaskólanum á Tröllaskaga við hátíðlega athöfn, eru það mun færri en undanfarnar annir. Hafa nú alls 550 nemendur brautskráðst frá skólanum frá því hann var stofnaður árið 2010. Mikill meirihluti nemenda skólans eru fjarnemar sem búsettir eru vítt og breitt um landið og nokkrir erlendis. Útskriftarnemarnir að þessu sinni koma frá tíu stöðum á landinu og tveir þeirra búa erlendis, sextán þeirra eru fjarnemar. Aðeins fjórir nemanna sáu sér fært að vera við athöfnina en líkt og undanfarin ár var hún einnig send út á fésbókarsíðu skólans svo allir útskriftarnemar og fjölskyldur þeirra gætu notið stundarinnar. Þá var einn fyrrverandi stúdent frá MTR útskrifaður sem sjúkraliði frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra við athöfnina.
Lesa meira

Skemmtilegt Jólakvöld nemendafélagsins

Í síðustu viku var hið árlega Jólakvöld nemendafélagsins Trölla, en það er einn af stærstu viðburðum hvers árs í félagslífi nemenda. Boðið var til veislu í sal skólans og síðan tók við skemmtidagskrá. Staðnemar fjölmenntu og skólinn bauð sínu starfsfólki, hafði um helmingur hópsins tök á að þiggja það góða boð. Matseðillinn var glæsilegur, grafinn og reyktur lax í forrétt, hamborgarhryggur og hangikjöt með tilheyrandi meðlæti í aðalrétt og svo ís í eftirmat. Það fór enginn svangur frá þessu veisluborði. Skemmtidagskráin samanstóð af ýmsum spurningaleikjum og öðru fjöri og dregið var í happdrætti með veglegum vinningum. Nemendur og kennarar notuðu einnig tækifærið og stilltu sér upp fyrir framan myndavélina eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Lesa meira

Fjölmenni og fjör á opnun haustsýningar skólans

Haustsýning skólans var opnuð í dag og var mæting með allra besta móti. Ákveðið hafði verið að blása til nýrrar sóknar og gera sýninguna í skólahúsinu glæsilega úr garði. Undanfarin ár hafa verið lituð af áhrifum Covid faraldursins og sýningarhald að mestu leyti farið fram á vefnum en færri verkum stillt upp í skólanum. Nú var þessu öfugt farið og veggir skólans þaktir verkum jafnt fjarnema sem staðnema. Kenndi þar ýmissa grasa og til sýnis voru ljósmyndir, þrívíð verk og málverk nemanda af listabraut sem og skapandi verkefni nemanda af öðrum brautum. Vakin er athygli á því að valin verkefni eru einnig til sýnis á heimasíðu skólans. Ungum sýningargestum var boðið upp á að fást við jólaföndur af ýmsu tagi og taka með sér heim kerti sem steypt voru á staðnum úr kertaafgöngum, enda skólanum umhugað um endurnýtingu. Opnunardagurinn tókst eins og best verður á kosið og mun fleiri sóttu opnunina en síðustu ár. Sýningin verður opin til 20. desember á starfstíma skólans og er fólk hvatt til að líta inn og skoða afrakstur vinnu nemenda á haustönninni.
Lesa meira

Haustsýning og jólagleði

Að venju verður sýning á verkum nemenda í lok annarinnar og verður blásið til nýrrar sóknar í þeim efnum eftir nokkur róleg ár vegna áhrifa Covid faraldursins. Sýningin verður haldin föstudaginn 8. desember og stendur frá kl. 16.00 - 21.00. Milli 16.00 og 18.00 verða skemmtilegar vinnustofur og jólaföndur fyrir börn auk þess sem veitingar verða í boði. Á sýningunni má sjá fjölbreytt verk jafnt staðnema sem fjarnema; ljósmyndir og málverk nemanda af listabraut sem og skapandi verkefni nemanda af öðrum brautum. Einkunnarorð skólans: Frumkvæði - Sköpun - Áræði hafa verið í hávegum höfð við vinnu þessara verkefna og valin verkefni verða einnig til sýnis á heimasíðu skólans. Athygli er vakin á því að sama dag og sýningin er haldin er Jólakvöldið í Ólafsfirði og því tilvalið að slá tvær flugur í einu höggi og njóta alls þess sem í boði verður á Ólafsfirði þennan dag.
Lesa meira

Nám til framtíðar

Menntaskólinn á Tröllaskaga er meðlimur í FLUID, sem eru dönsk samtök um fjarnám. Samtökin skipulögðu ferð á hina árlegu ráðstefnu Online Educa Berlin, OEB 2023, sem bar undirtitilinn “The 29th Annual Global Cross-Sector Conference and Exhibition on Digital Learning and Training “ og fór hún fram dagana 22. - 24. nóvember sl. Þátttakendur á ráðstefnunni voru um 2000 og þar af voru tveir kennarar frá MTR. Þema ráðstefnunnar í ár var “The learning futures we choose” .
Lesa meira

Nýbreytni í félagslífi nemenda

Eins og við höfum sagt frá hér áður er öflugt félagsstarf í skólanum sem stjórn nemendafélagsins Trölla leiðir. Félagsstarfið markast þó af þeirri staðreynd að staðnemar skólans koma frá nokkrum byggðakjörnum á Eyjafjarðarsvæðinu, allt frá Akureyri til Siglufjarðar, og ekki eru almenningssamgöngur á milli þeirra nema á daginn. Félagsstarfið er því að einhverju leyti bundið við skóladaginn en stakir stærri viðburðir eru á kvöldin s.s. jólakvöld, árshátíð og spila- og lankvöld enda nemendur oft uppteknir við vinnu eða að sinna félagsstarfi í sinni heimabyggð á kvöldin. Má þar t.d. nefna íþróttaæfingar og tónlistariðkun, margir starfa með ungliðasveitum björgunarsveita og einhverjir hafa stigið á leiksvið með leikfélögum á svæðinu, svo eitthvað sé nefnt. Á síðustu önn var tekin upp sú nýbreytni að nemendum MTR var boðinn aðgangur að félagsmiðstöðinni Neon í Fjallabyggð eitt kvöld í mánuði, að frumkvæði starfsfólks Neon. Hefur þessu samstarfi verið haldið áfram á þessari önn og opnunarkvöldin verið vel sótt. Félagsmiðstöðin er á Siglufirði og var tekin í notkun í fyrra. Hún er hin glæsilegasta og vel tækjum búin svo ungmennin hafa nóg við að vera.
Lesa meira

Ort af kappi

Undanfarna tvo daga hafa nemendur úr 8. - 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar komið í skólann til að yrkja. Tilefnið er hin árlega ljóðasamkeppni þessara bekkja sem er liður í ljóðahátíðinni Haustglæður sem haldin hefur verið í Fjallabyggð undanfarin 17 ár. Hátíðin er samstarfsverkefni Ljóðaseturs Íslands og Ungmennafélagsins Glóa en Grunnskóli Fjallabyggðar og Menntaskólinn á Tröllaskaga eru meðal þeirra aðila sem koma að framkvæmdinni. Nemendur nota listaverk sem innblástur að ljóðum og að þessu sinni voru sett upp verk eftir starfsfólk skólans og fyrrverandi nemendur hans. Þórarinn Hannesson kennari í MTR og forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands veitti nemendum góð ráð í ljóðagerðinni áður en haldið var af stað. Vel gekk hjá nemendum að setja í orð túlkun sína á þeim listarverkum sem prýddu veggi og tæplega áttíu ný ljóð urðu til. Næstu daga mun dómnefnd vega og meta afurðirnar og höfundar bestu ljóðanna verða svo verðlaunaðir. Úrslit verða kunngjörð á Ljóðasetri Íslands á Siglufirði í desember. Það er mikils virði fyrir skólann að fá ungmenni úr grunnskóla byggðarlagsins í heimsókn. Með því fá þau að kynnast andrúmsloftinu í skólanum sem eykur líkurnar á að þau sækist eftir skólavist þegar þar að kemur.
Lesa meira

Nemendur úr Grindavík og björgunaraðilar

Við höfum haft samband við alla nemendur, sem eiga lögheimili í Grindavík, vegna jarðhræringanna þar og þess ástands sem þær hafa í för með sér. Farið var yfir með hverjum og einum hvaða leiðir eru í boði og hvernig við áætlum að vinna með þeim út önnina. Sama á við björgunaraðila sem hafa verið við störf í Grindavík. Ef einhverjir hafa orðið útundan, búa í Grindavík en ekki með lögheimili þar eða eru við björgunaraðgerðir og hafið ekki haft samband vinsamlegast hafið samband við Birgittu umsjónarkennara fjarnáms, birgitta@mtr.is eða í síma 862 6987
Lesa meira

Nýr hjúkrunarfræðingur við skólann

Nýr hjúkrunarfræðingur hefur tekið við þjónustu heilsugæslunnar við nemendur MTR. Í síðustu viku kom hún í skólann til að kynna sig og þá þjónustu sem er í boði. Gaman er að segja frá því að þessi nýi hjúkrunarfræðingur er stúdent frá MTR, Elfa Sif Kristjánsdóttir, sem nýlega lauk námi í hjúkrunarfræði frá Háskólanum á Akureyri. Þjónustan er á formi einstaklingsmiðaðrar ráðgjafar og áherslan er á vegvísi um heilbrigðiskerfið. Verður boðið upp á fræðslu og ráðgjöf við vægum vanda, s.s. tengdum geðheilbrigði, kynheilbrigði, félagslegum vanda og almennu heilbrigði. Þjónustan er til að auka geðheilbrigðisþjónustu við framhaldsskólanema og er viðbót við þá stuðningsþjónustu sem nú þegar er til boða í skólanum og er nemendum og skólum að kostnaðarlausu.
Lesa meira