Fréttir

Viðfangsefni á næstu önn

Nemendur þurfa sem allra fyrst, og ekki síðar en á þriðjudag, að skrá sig í áfanga á næstu önn. Mikilvægt er að skipuleggja námið í samræmi við þá framvindu sem hver og einn stefnir að. Meðal þess sem hægt er að velja eru áfangar um skapandi hugsun, sirkuslistir og afreksíþróttaþjálfun. Þá er í boði áfangi sem heitir „Náðu tökum á náminu“ og annar sem ber titilinn „Vertu leiðtoginn í þínu lífi“. Í íslensku er, auk hefðbundinna áfanga, hægt að kynna sér þróun glæpasagnaritunar innanlands og utan. Hægt er að leggja stund á skapandi ljósmyndun og prentun en líka næringarfræði, geðrækt, fjármálalæsi og margt fleira. Þá er hægt að skrá sig í námsferð til Istanbul í vikunni fyrir páska.
Lesa meira

Inga og Villa vottaðir Google-leiðbeinendur

Tveir starfsmenn skólans hafa nú lokið tveimur stigum sem vottaðir leiðbeinendur frá Google (Google Certified Educators). Inga Eiríksdóttir, stærðfræðikennari og Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólameistari sóttu tvö námskeið í Bretlandi í lok síðasta árs til undirbúnings próftöku. Prófin fóru fram í febrúar og mars og hafa þær nú fengið staðfestingu á að þær hafi staðist kröfur Google sem eru forsendur vottunarinnar. Þar með hafa þær aukið hæfni sína til að leiðbeina bæði starfsmönnum og nemendum skólans á þessu sviði.
Lesa meira

Þýska í miðannarviku

Tungumál snúast um samskipti og byrjunin fólst í því að skapa góðan anda í hópnum þannig að allir væru í virkum samskiptum. Leiðbeinandinn, Carla Águsta Martinsdóttir, segir að nemendur hafi rætt hvernig best sé að læra erlent tungumál, t.d. með aðstoð kennslubóka, með samskiptum við fólk sem talar málið eða með því að nota myndbönd og aðra slíka miðla. Nemendur lærðu ýmis grundvallaratriði á þýsku svo sem að telja, að segja hvað klukkan er, hvað litirnir heita og fleira slíkt. Það voru gerðar nokkrar skriflegar æfingar, til dæmis að skipuleggja ferðalag til Þýsklands en einnig var farið út í leiki. Þau horfðu líka á gamanmynd um daglegt líf í hinu fjölþjóðlega Þýskalandi. Hver dagur byrjaði á því að fara yfir það sem var á dagskrá daginn áður til að festa það betur í minninu. Carla Águsta segist hafa undrast viljann sem nemendur sýndu til að læra og getuna til að muna nýja hluti.
Lesa meira

Sköpun og tækni

Viðfangsefnið í einum áfanga í miðannarvikunni var að nota ýmis tæki og tækni við sköpun. Nemendur hönnuðu meðal annars farsímastanda og mismunandi merki (logo) sem þeir skáru síðan út í lazerskera. Rafmagnsleikföng voru meðal viðfangsefna og reyndu nemendur sig til dæmis við að smíða arm á vélmenni. Til að hreyfa hann voru notaðar sprautur sem virkuðu eins og vökvatjakkar. Tíu nemendur tóku þátt í þessum áfanga hjá Ólafi Pálma Guðnasyni, tölvunarfræðingi.
Lesa meira

Lífleg uppákoma

Hópar úr tveimur áföngum miðannarvikunnar slógu saman í skemmtilega uppákomu í sal skólans Hrafnavogum í gær fimmtudag. Nemendur úr tónlistarbúðum hjá Katrínu Ýr sungu en nemendur í sirkuslistum hjá Unni Maríu Máney sýndu æfingar með hringjum í takt við tónlistina.
Lesa meira

Sirkus og söngur

Tveir hópar úr miðannarviku koma fram í sal skólans, Hrafnavogum, kl. 11:15 á fimmtudag. Þetta eru hópar úr tónlist og sirkuslistum og eru allir velkomnir.
Lesa meira

Fjallamennskunám

Utanverður Tröllaskagi er á þessum árstíma tilvalinn staður til að læra að meta hættu á snjóflóðum og æfa sig að nota fjallaskíði og annan búnað sem tilheyrir vetrarferðamennsku í fjalllendi. Nokkrir nemendur Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu nýttu þessa aðstöðu í síðustu viku og nutu leiðsagnar Tómasar Atla Einarssonar, snjóflóðaeftirlitsmanns og kennara í MTR. Veður kom í veg fyrir nám og kennslu einn þeirra daga sem hópurinn dvaldi hér en að öðru leyti var námsferðin vel heppnuð. Annað fjallamennskunámskeið verður haldið í næstu viku.
Lesa meira

Góður fjölskyldagur

Fjölskyldudagur MTR sem haldinn var í samstarfi við Rótaríklúbb Ólafsfjarðar heppnaðist mjög vel. Gestir voru margir og á ýmsum aldri. Vinsælt var að láta taka mynd af sér með græna dúkinn í bakgrunni, sem forrit skiptir út fyrir meira spennandi myndefni. Nærverurnar vöktu athygli. Starfsmenn á Hornbrekku hjúkrunar- og dvalarheimilinu, sem kynntust þeim, fengu þá hugmynd að kanna hvort þessi tækni gæti nýst aðstandendum sem búa fjarri til að hafa samband við sína á heimilinu. Ungir gestir voru duglegir að kynna sér ýmisleg leiktæki sem notuð eru við nám og kennslu í skólanum. Þátttaka í „google home“ spurningakeppninni var góð. Hörður Ingi Kristjánsson vann keppnina og getur hann vitjað vinningsins í skólanum. Hugmynd er uppi um að halda fjölskyldudag aftur að ári.
Lesa meira

Skapandi hannyrðir

Í áfanganum kynnast nemendur mismunandi aðferðum við hannyrðir, svo sem prjóni, hekli, útsaum og hnýtingum. Verk listamanna sem getið hafa sér gott orð á þessu sviði, eru skoðuð og nemendur kynna verk þeirra hver fyrir öðrum. Teknar verða fyrir stefnur á borð við hannyrðapönk þar sem iðkendur nota hannyrðir til að koma skoðunum sínum á framfæri. Nemendur vinna með mismunandi efni og hafa mikið val um hvert þeir stefna í sköpuninni. Meðal verkefna sem unnið er að eru heklaðar skreytingar á húsgögn skólans. Þær verða væntanlega, ásamt öðrum verkum úr áfanganum, á vorsýningu skólans í maí.
Lesa meira

Fjölbreytni í miðannarviku

Nokkur spenna var í lofti þegar skráning hófst í áfanga miðannarvikunnar í morgun. Ólík viðfangsefni eru í boði. Frá Lundúnum kemur Katrín Ýr söngkona og skipuleggur tónlistarbúðir þar sem hægt er að æfa sviðsframkomu, textagerð, hópsöng og sitthvað fleira. Frá Þýskalandi kemur Carla Auguste Albrecht og kennir undirstöðuatriði í sínu móðurmáli með vísan til þýskrar matarmenningar, íþrótta og lista. Unnur María Máney kynnir heim sirkuslistanna og nemendur æfa jafnvægislistir, sviðsframkomu, trúðaleik, húlahopp og fleira. Ólafur Pálmi Guðnason, gamall Ólafsfirðingur, kemur frá Akureyri og leiðbeinir við sköpun í tölvu.
Lesa meira