Fréttir

Margt á döfinni hjá nýju nemendaráði

Á dögunum var óskað eftir framboðum í nemendaráð skólans, er það nú fullskipað og hefur þegar tekið til starfa að halda og skipuleggja fyrstu viðburði vetrarins. Undanfarin ár hefur ráðið verið skipað 6 fulltrúum en að þessu sinni var ákveðið að þeir yrðu 7 þar sem sitjandi formaður, Lárus Ingi Baldursson, útskrifast um áramót. Aðrir í ráðinu frá síðustu önn eru Björn Ægir Auðunsson, Elísabet Ásgerður Heimisdóttir og Erna Magnea Elísa Jökulsdóttir og í hópinn bætast nýnemarnir Hanna Valdís Hólmarsdóttir, Ingólfur Gylfi Guðjónsson og Víkingur Ólfjörð Daníelsson. Sem fyrr var hugað sérstaklega að kynjahlutfalli við val í ráðið.
Lesa meira

Matreiðsla og næring

Á starfsbraut skólans eru kenndir margir áhugaverðir áfangar í hinum ýmsu fögum. Meðal annars eru nokkrir áfangar sem bera heitið Tilveran og hafa þeir hver sitt undirheiti. Í þessum áföngum er fengist við ýmis verkefni hins daglega lífs. Undirheiti áfangans í Tilveru á þessari önn er matreiðsla og næring og eins og nafnið gefur til kynna fá nemendur tilsögn í grunnþáttum matreiðslu og fræðast um mikilvægi góðrar næringar. Einnig er farið í notkun á helstu tækjum og smááhöldum í eldhúsi, meðferð hráefna, vinnuskipulag og mikilvægi hreinlætis auk þess sem nemendur fá þjálfun í að leggja á borð og ganga frá eftir eldamennsku og bakstur. Áfanginn er bæði verklegur og bóklegur. Í fyrstu vikunni ræddu nemendur hvað þeir vildu matreiða og baka á önninni og fengu fræðslu um mikilvægi fjölbreyttrar fæðu. Sérstaklega var fjallað um ávexti og grænmeti sem gefa okkur mikið af trefjum, vítamínum og öðrum fjörefnum. Í dag var svo komið að verklega þættinum. Nemendur byrjuðu á því að fara í verslunarferð með kennara sínum og kaupa inn gott úrval ávaxta og síðan að skera niður og raða á diska eftir kúnstarinnar reglum. Nemendur starfsbrautar smökkuðu svo hinar ýmsu tegundir og buðu einnig öðrum nemendum og starfsfólki skólans að bragða á við mikla ánægju viðstaddra. Kennarar áfangans á þessari önn eru Guðrún Þorvaldsdóttir og Þórarinn Hannesson.
Lesa meira

Nýir áfangar á hverri önn

Menntaskólinn á Tröllaskaga hóf störf haustið 2010. Skólinn býður upp á metnaðarfullt nám með fjölbreyttum kennsluháttum sem miða að virkni nemenda og sjálfstæði. Einkunnarorð skólans eru: Frumkvæði - Sköpun - Áræði og endurspeglast þau í námsframboði, kennsluháttum, námsaðferðum, skipulagi og viðfangsefnum. Skólinn starfar eftir framhaldsskólalögum frá 2008 en mikilvægasta nýjungin í þeim, frá fyrri lögum, er að ábyrgðin á námskrárgerðinni færðist yfir til skólanna og þeim gefið frjálst að skipuleggja það nám sem þeir vilja bjóða upp á.
Lesa meira

Fyrsti nemendadagurinn á nýrri önn

Í dag mættu nemendur að nýju í skólann eftir gott sumarleyfi. Urðu þar fagnaðarfundir og nýnemar voru greinilega spenntir að stíga næstu skref á námsferlinum. Lára Stefánsdóttir skólameistari bauð nemendur velkomna, hvatti þá til dáða í náminu á komandi vikum og lagði áherslu á að námið væri á þeirra ábyrgð. Fulltrúar nemendaráðs kynntu stuttlega starfsemi ráðsins, óskuðu eftir hugmyndum til að gera gott félagslíf betra og áhugasömum fulltrúum í ráðið; það væru tvö sæti laus. Að venju fór fyrsti skóladagurinn annars í að koma hlutunum af stað. Hólmar Hákon Óðinsson, námsráðgjafi, kynnti nýnemum helstu kerfi skólans með aðstoð nokkurra kennara. Var þar um að ræða kennslukerfið Moodle og Innu þar sem haldið er utan um mætingu nemenda, stundatöflur, námsferil og einkunnir. Auk þess fræddust nýnemar um vinnulagið í skólanum s.s. vikulotur, símat, fjölbreytt skil verkefna og ábyrgð nemenda á eigin námi. Að lokinni kynningu skráðu nýnemar sig inn í þá áfanga sem þeir munu sitja á önninni. Reyndari nemendur skoðuðu stundatöflur sínar, spjölluðu við starfsfólk skólans og athuguðu hvaða verkefni bíða þeirra þegar skólastarfið fer af stað af fullum krafti á mánudaginn.
Lesa meira

Allir hafi rödd

Undanfarna tvo daga hefur starfsfólk skólans setið námskeið um samræðuaðferð sem kallast Timeout. Leiðbeinandi var Laura Arikku frá Timeout Foundation í Finnlandi og kom hún sem sérfræðingur í þessum efnum á vegum Erasmus+. Henni kynntust fulltrúar MTR í Nordplus verkefni sem þeir sóttu í Helsinki þar sem umfjöllunarefnið var virk borgaravitund. Timeout hefur gefið góða raun í skólakerfinu í Finnlandi sem og hjá ýmsum félagasamtökum og fleiri aðilum þar í landi. Aðferðin er hagnýtt verkfæri til að skipuleggja og skapa opna umræðu þar sem allar raddir fá að heyrast. Leiðbeinandi stýrir umræðunum og styðst við ákveðnar grunnreglur þannig að allir fái að segja sína skoðun eða lýsa sinni reynslu. Timeout býður upp á tækifæri til að staldra við og íhuga hlutina og verkfærin sem fylgja hjálpa til við að virkja þá sem taka venjulega ekki þátt í umræðum. Starfsfólk skólans sá ýmis tækifæri í þessari aðferð og hlakkar til að nota hana á næstu mánuðum í skólastarfinu, bæði með nemendum sem og í starfsmannahópnum.
Lesa meira

Skólastjórnendur í Grundarfirði

Lára Stefánsdóttir skólameistari og Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari fóru á samstarfsfund Skólameistarafélags Íslands í Grundarfirði í vikunni. Fundurinn var haldinn í Fjölbrautaskóla Snæfellinga og komu þar saman stjórnendur af öllu landinu.
Lesa meira

Endurmenntun starfsfólks á Alicante

Um þessar mundir er megnið af starfsfólki skólans við endurmenntun í Alicante. Tveir skólar hafa verið heimsóttir, báðir leggja mikla áherslu á erlent samstarf, líkt og MTR, og var því margt að ræða og skoða. Í báðum skólum var ýmislegt fróðlegt að sjá, auk þess sem góð tengsl voru mynduð og hugað að frekara samstarfi í nánustu framtíð.
Lesa meira

Brautskráning í dag

Þrjátíu og sex nemendur brautskráðust í dag frá Menntaskólanum á Tröllaskaga. Alls hafa nú 531 nemandi brautskráðst frá skólanum en þetta er þrettánda starfsár hans. Dúx skólans er Elfa Benediktsdóttir frá Þórshöfn.
Lesa meira

Kennslu lokið og útskrift á laugardag

Kennslu er nú lokið og í þessari viku eru námsmatsdagar. Þá leggja kennarar lokahönd á námsmat í áföngum sínum og gefa lokaeinkunnir. Útskriftarathöfn verður á laugardaginn kl. 11 og verður einnig í beinu streymi á Facebook síðu skólans.
Lesa meira

Vorsýning á laugardag

Vorsýning nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga verður í húsnæði skólans laugardaginn 13. maí frá kl. 13 - 16. Einnig verða rafrænar sýningar á vef skólans. Til sýnis verður afrakstur vinnu nemenda á vorönn undir einkunnarorðum skólans; frumkvæði - sköpun - áræði.
Lesa meira