Fréttir

Endurvinnsla á Tenerife

Hópur sjö MTR-nema og eins kennara dvelur þessa viku á Tenerife og tekur þátt í Erasmus+ verkefninu HELP sem snýst meðal annars um endurvinnslu. Jafn stórir hópar ungmenna frá Litháen og Noregi taka þátt í verkefninu auk hóps heimamanna á Tenerife. Í fyrri áföngum þess var fjallað um vistvænar afurðir og um mengun.
Lesa meira

Móttaka á Bessastöðum

Heimsókn nema frá Tías á Lanzarote og PT skólanum á Ítalíu til okkar á Tröllaskaga tókst sérlega vel þótt veðurguðirnir hjálpuðu ekki beinlínis til. Heimsókninni lauk með boði hjá Guðna Th. Jóhannessyni forseta Íslands á Bessastöðum í gær. Fulltrúar ítölsku og spænsku nemendanna færðu honum gjafir. Hann sagði eitt það besta við að gegna þessu embætti að fá að taka á móti gestum víða að og njóta samveru við þá.
Lesa meira

Myndlist í september

Ákveðnir veggir í Hrafnavogum, nýjum og glæsilegum sal skólans, eru fráteknir fyrir listaverk sem skipt er um mánaðarlega. Oftast er einstökum listamönnum af nærsvæði skólans boðið að sýna þar verk sín en í þessum mánuði voru verkin sótt í listaverkasafn Fjallabyggðar. Yfirskriftin er: „Afstrakt eða Abstrakt“ - en sýningin er helguð óhlutbundnum verkum. Hún samanstendur af fimm verkum úr höfðinglegri gjöf hjónanna Arngríms Ingimundarsonar og Bergþóru Jóelsdóttur til Siglufjarðarkaupstaðar árið 1980. Með henni vildu hjónin sýna Siglfirðingum þakklæti fyrir stuðning þeirra við foreldra Arngríms eftir að þau brugðu búi í Fljótunum vegna heilsubrests og fluttust til Siglufjarðar. Í heild gáfu Arngrímur og Bergþóra Siglufjarðarkaupstað 127 verk eftir marga af frestu listmálurum þjóðarinnar á tuttugustu öld. Er þessi einstaka gjöf grunnurinn að listaverkasafni Fjallabyggðar í dag. Verkin sem til sýnis eru í Hrafnavogum núna eru, auk þess að auðga tilveru fólks í skólanum, notuð sem námsefni í grunnáfanga í myndlist. Óhlutbundin verk eru einmitt til umfjöllunar þar þessar vikurnar og á myndinni sem fylgir fréttinni má sjá Bergþór Morthens myndlistarkennara ræða um verkin á sýningunni við nemendur.
Lesa meira

Suðrænir gestir

Hópur framhaldsskólanema frá Tías á Lanzarote og PT skólanum á Ítalíu eru gestir nemenda MTR næstu sjö daga. Skólarnir eru í samstarfsverkefni um valdeflingu og sjálfbærni. Það eflir nemendur dreifðra byggða í því að finna leiðir til að takast á við framtíðina í hörðum heimi. Gestirnir eru 28, tuttugu og þrír nemendur og fimm kennarar. Í móttökunefndinni eru 20 nemendur og þrír kennarar.
Lesa meira

Kosning í nemendaráð

Rafrænni kosningu í nemendaráð Trölla, nemendafélags MTR lauk kl. 12:00 föstudaginn 14. september sl. Kosningaþátttaka var 43,5% og féllu atkvæði þannig:
Lesa meira

Fjör á nýnemadegi í MTR

Gleðin var við völd á miðvikudag þegar nýir nemar voru boðnir sérstaklega velkomnir í skólann. Með heimamönnum glöddust gestir frá Grunnskóla Dalvíkur og Grunnskóla Fjallabyggðar. Keppt var í sápubolta við mikinn fögnuð viðstaddra. Margir sýndu góða takta á vellinum og áhorfendur nutu tilþrifanna. Innanhúss reyndi fólk sýndarveruleika og skoðaði ýmis tæki í eigu skólans. Veitingar Bjargar runnu ljúflega niður að venju. En myndir Gísla segja meira en mörg orð.
Lesa meira

Nemendaráðskosning

Ellefu nemendur keppa um sæti í nemendaráði Trölla, félags nemenda í skólanum. Kosningin er rafræn. Hún hófst í morgun miðvikudag kl. 10:00 og stendur til föstudags 14. september kl. 12:00. Frambjóðendur kynna sig og áhersluatriði sín í félagslífi skólans á flettiskjá í Hrafnavogum. Það eru fimm sæti í nemendaráðinu sem þessir ellefu nemendur keppa um. Sú eða sá sem hlýtur flest atkvæði verður formaður. Á kjörskrá eru staðnemar og nemar með frjálsa mætingu.
Lesa meira

Nýnemadagur miðvikudaginn 12. september 2018

Hefðbundin kennsla fellur niður eftir kl. 10:30 miðvikudaginn 12. september þegar við gerum okkur dagamun til að bjóða nýnema skólans velkomna. Góðir gestir koma í heimsókn og líf og fjör verður vonandi bæði úti og inni. Á nýnemadeginum verður keppt í sápubolta (ef veður leyfir), hægt verður að fara í sund og prófa ýmislegt innahúss. Tölvuklúbburinn kynnir starfsemi sína og nemendur MTR hafa tækifæri til að kynnast stefnumálum þeirra sem bjóða sig fram til setu í nemendaráði Nemendafélagsins Trölla. Í kjölfarið hefst svo rafræn kosning í nemendaráðið fyrir nemendur MTR. Að sjálfsögðu verða veglegar veitingar að hætti Bjargar
Lesa meira

Listasafnið á Akureyri heimsótt

Hópur nemenda af listabraut og starfsbraut heimsóttu hið glæsilega nýuppgerða Listasafn Akureyrar. Hlynur Hallson safnstjóri tók á móti hópnum og kynnti nemendum sögu hússins allt frá ýmissi iðnaðarstarfssemi sem var þar í upphafi og fram til stöðunnar í dag. Því næst var skoðuð sýning Magnúsar Helgasonar og Hjördísar Frímann í safnfræðslurýminu. Á efstu hæðinni sem er ein helsta viðbótin við safnið voru sýningar Aðalheiðar Eysteinsdóttur og Sigurðar Árna Sigurðssonar. Áhersla var lögð á að sýna norðlenska listamenn við enduropnun safnsins og kom það því í hlut Aðalheiðar sem er Siglfirðingur og Sigurðar Árna sem er Akureyringur að vígja þessi glæsilegu salakynni. Því næst var skoðuð sýning úr safneign, portrett sýning frá Listasafni ASÍ og fatahönnun Anitu Hirlekar í Ketilhúsinu. Nemendur nutu sín svo í haustblíðunni á Akureyri áður en haldið var til baka.
Lesa meira

Annað græna skrefið

Skólinn hefur tekið annað skrefið í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri og fengið það vottað og viðurkennt. Sorpflokkun hefur verið aukin og er ekki lengur hægt að henda – nema flokka. Notkun pappíshandþurrka á salernum var hætt. Í staðinn kemur ýmist blásturshandþurrkun eða gamaldags handklæði. Aðeins er keyptur umhverfisvottaður pappír og sama gildir um vörur sem unnar eru úr pappír. Þá hefur skólinn sett sér stefnu sem hefur að markmiði að gera starfsemina umhverfisvænni, bæta starfsumhverfi og auka vellíðan. Sjá nánar hér:
Lesa meira