Fréttir

Sumarleyfi - innritun í fjarnám lokið

Sumarleyfi á skrifstofu skólans er frá 16. júní til 3. ágúst. Innritun í fjarnám er lokið fyrir haustönn og næst fer innritun fram fyrir vorönn 2022 og hefst hún í byrjun nóvember. Þökkum öllum fyrir frábært samstarf á skólaárinu og hlökkum til að hitta alla í haust.
Lesa meira

Innritun eldri nemenda að ljúka

Innritun eldri nemenda er að mestu lokið, í dag voru sendir út 464 greiðsluseðlar fyrir innritunargjöldum. Innritun nýnema úr grunnskóla fer fram eftir 10. júní. Enn opið fyrir umsóknir í örfá fög fög sem þurfa undanfara sem þarf að gæta að. Nemendur fá höfnun hafi þeir ekki tilskylda undanfara í áfanga. Upplýsingar um áfanga sem samþykktir hafa verið fyrir nemendur má sjá í Innu.
Lesa meira

Brautskráning

Fjörutíu nemendur brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga í dag. Sextán útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut, þrír af íþrótta- og útivistarbraut, þrír af kjörnámsbraut, fimm af listabraut, myndlistarsviði, tveir af listabraut, listljósmyndunarsviði, tveir af náttúruvísindabraut, sjö af stúdentsbraut að loknu starfsnámi og tveir af starfsbraut. Tuttugu og níu brautskráðra eru fjarnemar og voru ellefu þeirra viðstaddir útskriftarathöfnina. Skólinn hefur starfað í ellefu ár og hafa samtals 388 brautskráðst frá upphafi, flestir af félags- og hugvísindabraut, nær fjörutíu prósent hópsins. Lára Stefánsdóttir, skólameistari hvatti nemendur sem voru að brautskrást til að standa með sjálfum sér - að vera eigin vinur í raun. Hættulegt væri að vera eins og sóðalegt kommentakerfi í eigin garð. Við sitjum uppi með okkur sjálf alla ævi en getum losnað við alla aðra, sagði Lára. Það þarf ögun til að vera glaður með eigið líf og veita okkur sjálfum þann stuðning sem þarf. Við erum ekki að tala um sérhygli, sagði hún, heldur að standa með okkur sjálfum í dagsins önn og öllum helstu verkefnum lífsins. Sigrún Kristjánsdóttir flutti ávarp nýstúdents. Hún sagði að í dag væri mikill hátíðisdagur. Bæði stað- og fjarnemar væru að ljúka námi eftir mislangan námstíma og komið að leiðarlokum. Hún sagðist alltaf hafa átt þann draum að útskrifast úr framhaldsskóla en hefði bara lokið skólaskyldu og svo hafi vinna, fjölskylda og börn tekið við. Hún hafi fyrir nokkrum árum leitað að rétta skólanum, þar sem hægt væri að stunda nám en sleppa við hefðbundin lokapróf. Hún fann MTR og hóf nám haustið 2013 í fjarnámi á listabraut fimmtíu og tveggja ára. Hún sagðist hafa blómstrað í náminu á listabraut og væri nú búin að ná markmiði sínu. Skólinn hefði verið við sitt hæfi og kennarar frábærir. Hún sagði að námið hefði verið fjölbreytt og skemmtilegt og hún væri stolt af hafa nú lokið því. Hún þakkaði Birgittu Sigurðardóttur, umsjónarkennara fjarnema, sérstaklega fyrir að vaka yfir velferð þeirra dag og nætur. Hjá Jónu Vilhelmínu Héðinsdóttur, aðstoðarskólameistara, kom fram að í upphafi skólaársins voru 442 nemendur skráðir í skólann. Í upphafi vorannar voru nemendur 493, þar af 422 í fjarnámi. Af þessum tölum má sjá hversu mikilvægur þáttur fjarnámið er í skólanum og í raun gerir það okkur kleift að halda uppi námsframboði fyrir staðnemendur af svæðinu. Meira en helmingur fjarnema býr á höfuðborgarsvæðinu. Starfsmenn skólans á vorönn voru 28. Faraldurinn og samkomubann höfðu að sjálfsögðu mikil áhrif á skólastarfið í vetur. Framan af hausti gátu nemendur mætt í skólann með ákveðnum takmörkunum en seinni hluta haustannar var eingöngu fjarkennt. Á vorönn var unnt að halda uppi staðkennslu innan þess ramma sem sóttvarnareglur leyfðu. Nemendur og starfsfólk hafa staðið sig gríðarlega vel og samkvæmt könnunum hefur flestum liðið nokkuð vel miðað við aðstæður. Það hefur enn og aftur sannað sig að í MTR er hugsað í lausnum. Í þriðja sinn er til dæmis sýning á verkum nemenda í annarlok rafræn og öllum opin. Þá héldu nemendur í skapandi tónlist glæsilega fjáröflunartónleika fyrir jól sem sendir voru út beint á netinu. Hluti sama hóps gerði sér lítið fyrir og vann söngkeppni framhaldsskólanna í lok september. Starfsmenn skólans hafa verið duglegir að taka þátt í erlendum verkefnum. Eins og gefur að skilja hafa samskiptin í slíkum verkefnum takmarkast við netsamskipti í vetur. En vonandi verður brátt breyting á og þá höldum við ótrauð áfram, því við teljum slík verkefni ákaflega gefandi og lærdómsrík og höfum verið svo heppin að fá marga styrki sem sótt hefur verið um. Skólinn hefur nú fengið staðfestingu sem Erasmus-skóli og auðveldar það allt starf á þeim vettvangi. Í skólanum er unnið ötullega að umhverfismálum og hefur skólinn tekið þátt í verkefninu „Græn skref í ríkisrekstri“ og hefur nú, annar af tveimur skólum, lokið við að uppfylla öll skrefin fimm. Eins og áður er umtalsverð þróun í gangi og hefur skólinn fyrir löngu skapað sér sérstöðu á sviði fjarkennslu og í notkun upplýsingatækni í skólastarfi og henta kennsluaðferðir skólans þar mjög vel. Kennslufyrirkomulag skólans kom sér margoft einstaklega vel síðustu tvo vetur og hefur svo sannarlega sannað sig. Starfsemi skólans hefur hlotið margs konar viðurkenningu og má nefna að á haustdögum var skólinn tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna og var það okkur mikill heiður. Lísebet Hauksdóttir og Þórarinn Hannesson, kennarar við skólann glöddu viðstadda með tónlistarflutningi við útskriftarathöfnina. Þau fluttu lögin Kvöldsigling eftir Gísla Helgason og Jón Sigurðsson og Þannig týnist tíminn eftir Bjartmar Guðlaugsson.
Lesa meira

Vorsýning 2021

Vorsýning nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga er þetta árið í stafrænu formi. Hún verður opnuð laugardaginn 15. maí kl. 8:00. Hér er slóð á sýninguna: https://www.mtr.is/syningar/vor-2021 Best virkar að skoða hana í Google chrome vafranum. Í apple tölvum þarf að nota Safari vafran, í símum og spjaldtölvum þarf að hlaða inn artsteps appinu. Sýningin endurspeglar vel einkunnarorð skólans: Frumkvæði - Sköpun – Áræði. Hún er á vefnum Artsteps sem er stafrænt sýningarrrými. Þar má sjá verk úr myndlistaráföngum, ljósmyndaáföngum og fleiri áföngum. Hlekkir eru á vefsíðunni sem veita aðgang að verkum nemenda úr ýmsum öðrum áföngum. Sýningin endurspeglar vel kraftmikið og skapandi starf á önninni. Sýningarstjóri er Bergþór Morthens, myndlistarkennari. Aðstoðarmaður hans við uppsetninguna var Gísli Kristinsson, kerfisstjóri. Sigurður Mar Halldórsson sá um uppsetningu á ljósmyndarými.
Lesa meira

„Aleinn á nýársdag“

Strákarnir okkar, sem unnu Söngkeppni framhaldsskólanna, í haust gefa út sitt fyrsta lag á laugardag. Það ber titilinn „Aleinn á nýársdag“ og kemur út á öllum helstu streymisveitum. Einnig verður myndband við lagið gefið út á Youtube þennan sama dag. Drengirnir hafa spilað saman í nokkur ár og loksins komið að því efni þeirra verði aðgengilegt öllum. Þeir eru frá Siglufirði og eru nemendur á tónlistarbraut í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Hljómsveitina skipa: Hörður Ingi Kristjánsson, hljómborðsleikari, Júlíus Þorvaldsson, söngvari og gítarleikari, Mikael Sigurðsson, bassaleikari og Tryggvi Þorvaldsson, söngvari og rafmagnsgítarleikari. Aðrir þátttakendur í útgáfunni eru Guðmann Sveinsson, rafmagnsgítar og raddir, Rodrigo dos Santos Lopes, trommur og Gunnar Smári Helgason sá um mix og mastering. Facebook: https://www.facebook.com/MTHJ.music Instagram: https://www.instagram.com/mthj.music/
Lesa meira

Fjölbreyttar kvennasögur

Fjölbreyttar úrlausnir bárust í áfanga um kvennasögu þegar fyrir var lagt verkefni um konur í jaðarhópum. Nemendur máttu skilgreina jaðarhóp og skilin máttu vera á ýmsu formi, t.d. ljóð, lag, örsaga, máluð mynd, stuttmynd, hlaðvarp eða teiknimynd. Þessi uppsetning krefst þess að nemendur nýti sköpunarkraftinn og sýni sjálfstæði í vali og útfærslu verkefnis. Margar áhugaverðar og frumlegar úrlausnir bárust. Til dæmis ljóð um Freyju Haraldsdóttur, mynd og frásögn af Töru Margréti Vilhjálmsdóttur, hlaðvarp um OnlyFans og kynningar á Uglu Stefaníu Kristjönudóttur og Sunnevu Jónsdóttur. Kvennasöguáfanginn er kenndur í annað sinn og eru nemendur vel á þriðja tug. Kennari er Birgitta Sigurðardóttir.
Lesa meira

Hreinsunarátak

Allir staðnemar MTR sem staddir voru í skólanum í gær og nokkrir starfsmenn tóku sig til og tíndu rusl í poka. Farið var vítt um Ólafsfjarðarbæ, nágrenni skólans og íþróttamannvirkja, í kirkjugarðinn, á Flæðurnar og víðar. Af nógu mun hafa verið að taka og sáu bæjarstarfsmenn um að koma ruslinu sem tínt var á viðeigandi stað. Þetta átak nemenda var í tilefni stóra plokkdagsins sem var síðastliðinn laugardag. Eftir hreinsunina bauð skólinn nemum og starfsmönnum upp á pitsur sem runnu ljúflega niður.
Lesa meira

Ný tækifæri í Erasmus+ samstarfinu

Nýjar áherslur í Evrópusamstarfinu á sviði skóla- og menntamála falla einstaklega vel að stefnu og starfsháttum MTR. Þetta á bæði við málaflokkana loftslags- og umhverfismál og það sem kalla mætti rafræna starfshætti. Mikil áhersla er lögð á fjölbreytni og þátttöku einstaklinga með ólíka færni og þekkingargrunn. Hægt verður að sækja um aukadaga á ferðalögum ef tengiflugi er sleppt en notaður vistvænn ferðamáti. Þá verður mögulegt að fá fé til að bjóða heim sérfræðingum til að halda erindi eða námskeið fyrir starfsmenn skólans. Hér er slóð á kynningu á þessum möguleikum á Opnunarhátíð Evrópusamstarfsins í Borgarleikhúsinu á dögunum: https://youtu.be/BphCPwK6wfw MTR hefur þegar fengið aðild að Erasmus+ áætluninni fyrir árin 2021-2027 sem tryggir fjármagn til þátttöku í verkefnum. Aðildin gerir að verkum að ferli umsókna er einfaldara og minni vinna fer í undirbúning og umsýslu.
Lesa meira

Fimmta Græna skrefið

MTR hefur stigið fimmta og síðasta Græna skrefið og fengið það viðurkennt. Skólinn er tólfta ríkisstofnunin til að ná þessum áfanga. Aðeins einn framhaldsskóli, Menntaskólinn við Sund, tók skrefið á undan MTR. Aðgerðir í verkefninu miða að því að efla umhverfisvitund starfsmanna og draga úr neikvæðum áhrifum starfsemi stofnana á umhverfið. Hjá MTR hefur verið farin sú leið að nokkrir starfsmenn hafa séð um að breyta verkferlum, bæta flokkun, setja upp grænt bókhald og fleira slíkt sem nauðsynlegt er að gera. Mikill áhugi og samstaða hefur ríkt í hópi starfsmanna. Fimm manna umhverfisráð hefur fundað reglulega á vorönninni. Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarmeistari, hefur borið hitann og þungann af skjölun vegna fimmta skrefsins. Björg Traustadóttir hefur í öllu ferlinu annast skipulag flokkunar og aðgerðir gegn matarsóun. Fuglar himinsins fá að njóta þeirra afganga sem verða af mat. Margir aðrir hafa lagt hönd á plóg en tengiliður verkefnisins er Unnur Hafstað. Lára Stefánsdóttir, skólameistari, segist vera ótrúlega stolt af þeim góða árangri sem náðst hafi. Duglegir og lausnamiðaðir starfsmenn hafi dregið vagninn og náð árangri sem sé skólanum og skólaumhverfinu til sóma.
Lesa meira

Hefðbundið skólastarf eftir páskaleyfi

Hefðbundið skólastarf hefst eftir páskaleyfi þann 7. apríl 2021 samkvæmt gildandi sóttvarnareglum um skólastarf í framhaldsskólum. Nemendur og starfsfólk eru beðin um að gæta þess í hvívetna að halda þær reglur sem gilda. Við erum vonandi á endasprettinum vegna Covid-19 faraldrinum og mikilvægt að við höldum þetta öll út.
Lesa meira