Erlend verkefni fréttir

Forvitnilegt og nýstárlegt skólastarf í augum Frakka

Það var gestkvæmt hjá okkur síðustu vikuna fyrir páskafrí. Meðal þeirra sem heimsóttu okkur voru fjórir franskir kennarar, frá sveitarfélaginu Lesquin nyrst í Frakklandi, sem voru hér í skólanum í fjóra daga til að fylgjast með kennslu og kynna sér skólastarfið. Fengu þeir kynningu á kennslufyrirkomulagi skólans, sátu kennslustundir og áttu viðtöl við nemendur, kennara og skólastjórnendur. Var ýmislegt með öðrum hætti en þeir áttu að venjast. Í lok heimsóknarinnar voru þeir beðnir um að nefna orð sem lýstu upplifun þeirra af skólanum og þetta var þeirra niðurstaða: Frelsi, virðing, hljóðlátt, vellíðan, áhugavert, forvitnilegt og nýstárlegt.
Lesa meira

Ánægjuleg speglun frá góðum gestum

Síðastliðið haust hóf skólinn þátttöku í NordPlus-verkefni sem miðar að því að bæta félagslega sjálfbærni meðal drengja og draga úr brottfalli þeirra úr framhaldsskóla. Verkefnið er unnið í samstarfi við tvo framhaldsskóla í Danmörku og einn á Grænlandi þar sem lögð er áhersla á að kanna ástæður fyrir lakari námsárangri drengja og hugað að mögulegum lausnum. Fyrir hönd MTR taka þau Guðbjörn Hólm Veigarsson, Ida Semey og Hólmar Hákon Óðinsson þátt í verkefninu.Hugmyndir hópsins beinast meðal annars að áhrifum samfélagsmiðla á athygli drengja, kynjaðri væntingu um hegðun og árangur og stöðluðum hugmyndum um karlmennsku sem gætu haft neikvæð áhrif á námsárangur. Með verkefninu á m.a. að kanna hvort drengir upplifi skort á stuðningi vegna staðalímynda um karlmennsku, þar sem það gæti verið litið á það sem veikleika að biðja um aðstoð og viðurkenna að maður geti ekki reddað hlutunum sjálfur. Þátttakendur hófu verkefnið snemma sl. haust með heimsókn í GUX Nuuk framhaldsskólann á Grænlandi og í framhaldi af því var komið saman í Christianshavn gymnasium og Örestad gymnasium í Kaupmannahöfn. Í þessari viku er lokahnykkurinn og er hópurinn staddur hjá okkur í MTR til að kynna sér starfshætti og skoða hvort eitthvað í kennslumódeli skólans (Tröllaskagamódelið) gagnist verkefninu. Næstu vikur verða svo nýttar í að vinna úr upplýsingum sem safnað hefur verið í þessum heimsóknum og komið hafa fram í könnunum og viðtölum tengdum verkefninu. Munum við segja frá úrvinnslu og niðurstöðum þegar þar að kemur. Í hópnum sem heimsótti okkur voru átta kennarar sem starfa í Danmörku og einn sem starfar á Grænlandi. Hafði hópurinn heyrt eitt og annað um skólann, frá fulltrúum okkar í verkefninu, og var ekki að kaupa allt sem þar kom fram en í heimsókninni sáu hinir erlendu gestir að þar var ekki farið með neinar ýkjur. Það sem kom þeim mest á óvart var sú ábyrgð sem nemendur í skólanum taka á eigin námi, hversu andrúmsloftið í skólanum var afslappað og þægilegt, hversu mikið frelsi nemendur hafa til að sinna náminu eftir sínu höfði og með hvað fjölbreyttum hætti nemendur geta unnið verkefni sín þar sem styrkleikar þeirra njóta sín. Gestirnir hlýddu á kynningar frá bæði nemendum og kennurum og voru þeir sérstaklega heillaðir af innihaldsríkri og upplýsandi kynningu frá nemendaráði. Gestirnir áttu einnig viðtöl við nemendur, kennara og skólastjórnendur og það kom þeim skemmtilega á óvart hversu mikill samhljómur var með öllum þeim sem rætt var við. Allir innan skólasamfélagsins höfðu sömu sögu að segja af ágæti námsskipulagsins, höfðu sömu upplifunina af skólabragnum og þótti vænt um skólann sinn. Var heimsókn þessi hin ánægjulegasta og alltaf er gott að fá að spegla sig í augum annarra.
Lesa meira

Kynning á Alþjóðaviku NCL í Skotlandi

Á dögunum heimsóttu Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólameistari MTR, og Inga Eiríksdóttir, kennari, skólann New College Lanarkshire (NCL) í Skotlandi í tilefni af árlegri alþjóðaviku skólans. Voru þær þar í boði NCL en skólarnir hafa verið í samstarfi á undanförnum árum. Gestir í alþjóðavikunni komu víða að; frá Brasilíu, Egyptalandi, Filippseyjum, Hollandi, Ítalíu, Kína og Íslandi. Fluttar voru kynningar um alþjóðasamstarf og kynntu okkar konur MTR og mikilvægi alþjóðaverkefna í starfi skólans. Kynningarnar voru frá bæði framhaldsskólum og háskólum og þótti okkar fulltrúum áhugavert að heyra hvernig ólíkir skólar nýta sér alþjóðasamstarf til að auka fjölbreytni í skólastarfinu og valdefla nemendur. Einnig var boðið upp á kynningar í skólanum NCL, sem er með 3 mismunandi starfsstöðvar og mjög öflugt verknám. Fulltrúar okkar litu m.a. inn í upplýsingatæknitíma í tveimur starfsstöðvum þar sem Inga kynnti nemendum fyrirkomulag náms og kennslu hjá okkur. Einnig heimsóttu þær starfsbraut skólans sem er mjög stór og með fjölbreytta starfsemi. Var sú heimsókn mjög áhugaverð sem ferðin í heild sinni.
Lesa meira

Fróðleg ferð til Lettlands

Vikuna 3. - 9. mars hélt hópur nemenda til Lettlands þar sem þeir héldu áfram þátttöku í Nordplus verkefni um menningararf. Verkefnið hófst sl. haust þegar nemendur frá Saldus vidusskola, í bænum Saldus í Lettlandi, heimsóttu okkur hér á Tröllaskaganum og kynntust íslenskum menningararfi. Var það m.a. gert með heimsóknum á söfn og setur í sveitarfélaginu auk þess sem nemendur veltu fyrir sér hvaða þýðingu menningararleifðir hefðu fyrir komandi kynslóðir, hvernig við gætum viðhaldið þeim og hvort menningararfleifðir gætu hjálpað til við að auka tengsl fólks með mismunandi bakgrunn. Lettnesku nemendurnir voru í heimagistingu hjá nemendum og starfsfólki MTR og fengu þannig nasasjón af lífinu í íslensku samfélagi.
Lesa meira

Skólameistari flutti fyrirlestur í Osló

Sú þekking og reynsla sem starfsmannahópur skólans býr yfir er mikil og má með sanni kalla hana auðlind. Kennarar og stjórnendur skólans hafa haldið fyrirlestra víða, innanlands sem utan, þar sem þeir fjalla um fjarkennslu og kennslumódel skólans og kennarar við skólann sinna einnig kennslu í upplýsingatækni við Háskólann á Akureyri. Á dögunum hélt Lára Stefánsdóttir, skólameistari, erindi á ráðstefnu í Osló þar sem umfjöllunarefnið var lýðfræðilegar breytingar og tæknileg tækifæri i framhaldsskólanámi. Ráðstefna for fram í ráðstefnuhöllinni Expo Rebel og var ætluð stjórnendum framhaldsskóla og sveitarfélaga. Tilgangur hennar var að setja á dagskrá hvaða afleiðingar lýðfræðilegar breytingar í sveitarfélögum hefðu á menntamál.
Lesa meira

Spennandi námskeið á Fuerteventura

Dagana 17. - 20. febrúar sátu tveir kennarar skólans og skólameistari námskeið á eyjunni Fuerteventura, sem er næst stærst Kanaríeyjanna og er um það bil 100 km undan norðurströnd Afríku. Námskeiðið kallaðist Sjálfbærni í kennslustofunni og í lífinu og var útbúið sérstaklega fyrir íslenska framhaldsskóla af Menningarfélaginu "Cuidando lo Nuestro" sem starfar á eyjunni. Kennarar og skólastjórnendur frá 5 íslenskum framhaldsskólum á landsbyggðinni og einum grunnskóla skráðu sig til leiks. Á námskeiðinu var hvatt til vistfélagslegrar nálgunar og ábyrgðar á náttúrunni, tengd saman staðbundin og alþjóðleg sjálfbærnimál og skoðað hvernig hægt væri að innleiða sjálfbærni og umhverfismennt í skólastarf í takti við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.
Lesa meira

Unnið markvisst með Heimsmarkmiðin

UNESCO er alþjóða heitið á Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Meginmarkmið hennar er að stuðla að friði og öryggi í heiminum með því að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda- og menningarmála. Á vegum UNESCO hefur verið starfrækt alþjóðlegt samstarfsnet skóla frá árinu 1953 og kallast það UNESCO-skólar. Þeir eru nú um 12.000 talsins og starfa í 182 landi á leik-, grunn– og framhaldsskólastigi. Skólarnir vinna eftir fjórum meginþemum; alþjóðasamvinna, starfsemi Sameinuðu þjóðanna, heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun og friður og mannréttindi.
Lesa meira

Haldið upp á Alþjóðadag barna

Í dag, þann 20. nóvember, er Alþjóðadagur barna. Þetta er dagurinn þar sem við fögnum og minnum á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og þau lögfestu réttindi sem þessi útbreiddasti mannréttindasáttmáli heims tryggir öllum börnum. Barnasáttmálinn var samþykktur á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1989, á Íslandi var hann lögfestur á Alþingi árið 2013. Í tilefni dagsins fá börn og ungmenni um allan heim orðið og láta rödd sína og skoðanir heyrast. Ungmennaráð UNICEF á Íslandi útbjó m.a. myndband með kraftmiklum skilaboðum ungmenna til fullorðinna hér á landi og ráðamanna um allan heim. Barnaheill lét einnig gera myndband þar sem rætt er við börn sem hafa hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna stríðsátaka, loftslagsbreytinga eða náttúruvár og áfallið sem því getur fylgt. Er þar m.a. rætt við börn frá Grindavík sem þurftu að flytja þaðan vegna jarðhræringanna á Reykjanesi. Til að fagna deginum komu nemendur MTR saman í sal skólans og horfðu á myndböndin og síðan var farið í spurningakeppni þar sem spurningarnar snérust um Barnasáttmálann og þau réttindi sem hann á að tryggja börnum um allan heim. Spurningarnar sömdu nemendur í áfanga sem ber titilinn Heimsmarkmið - umhverfi og sjálfbærni þar sem fjallað er um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna út frá umhverfisvernd, mannréttindum, heilbrigði og félagslegri velferð. Markmið spurninganna var að fá nemendur til að velta fyrir sér mismunandi stöðu barna í heiminum. Hér eru myndböndin tvö.
Lesa meira

Námsferð til Króatíu

Þessa vikuna er hópur nemenda úr MTR og Guðbjörn Hólm Veigarsson og Inga Þórunn Waage kennarar þeirra í Króatíu að taka þátt í verkefni sem kallast „Becoming a Biomaker School“ sem er innan ramma Erasmus+. Þetta er verkefni sem hófst 2022 og er dreift yfir 5 ára tímabil. Megináherslur verkefnisins eru sjálfbær evrópsk markmið og þá sérstaklega þau sem miða að því að vernda umhverfið.Samstarfsskólarnir eru þrír; frá Króatíu, Portúgal og Spáni. Nemendur vinna saman að því að móta verkefnið í kringum brýn málefni eins og loftslagsbreytingar, græna Evrópu og þróun landsvæða.
Lesa meira

Evrópsk verðlaun til kennara MTR

Talsverð eftirspurn er eftir þeirri þekkingu sem orðið hefur til á fjarkennslu og upplýsingatækni í MTR og hafa kennarar skólans tekið þátt í ýmsum samstarfsverkefnum undanfarin ár. Eitt þessara verkefna hlaut á dögunum Evrópuverðlaun fyrir nýsköpun í tungumálakennslu og námi; hin virtu European Language Label 2024 sem hundruð fræðsluverkefna tóku þátt í.
Lesa meira