Nýtt nemendaráð

Nemendaráð mynd GK
Nemendaráð mynd GK

Nemendafélagið Trölli stýrir félagslífi nemenda í skólanum og stendur fyrir ýmsum viðburðum. Kosið var í nýtt nemendaráð í haust og það skipa nú Hanna Valdís Hólmarsdóttir, sem gegnir formennsku, Haukur Rúnarsson varaformaður, Jason Karl Friðriksson gjaldkeri, ritari er Birgir Bragi Heimisson og umsjón með samfélagsmiðlum hefur Auður Guðbjörg Gautadóttir. Nemendaráð reynir að mæta óskum nemenda eins og hægt er og á hinum árlega skólafundi, sem fór fram um miðjan september, óskaði ráðið eftir hugmyndum til að efla félagslífið. Komu ýmsar uppástungur frá nemendum eins og t.d. bíó-, spila og tölvuleikjakvöld, að halda íþróttadag, sundlaugarpartý og fleira skemmtilegt. Nemendaráð fundar einu sinni í viku og vinnur nú úr þeim tillögum sem bárust. Þeim til halds og trausts er Hólmar Hákon Óðinsson, náms- og starfsráðgjafi.

Stærsta verkefnið á önninni til þessa í félagslífinu var nýnemadagurinn, sem tókst með miklum ágætum, og haldnir hafa verið nokkrir þemadagar þar sem nemendur og starfsfólk hefur mætt klætt eftir því þema sem nemendaráð ákveður hverju sinni.

Nemendaráð fundar einnig reglulega með skólameistara og kemur þar á framfæri hugmyndum nemenda til að bæta skólastarfið og á fulltrúa bæði í skólaráði og skólanefnd svo tryggt sé að sjónarmið nemenda nái eyrum þeirra sem leggja línurnar.