31.10.2024
Innritun á vorönn í stað- og fjarnám hefst 1. nóvember á miðnætti.
Lesa meira
30.10.2024
Í haust hóf skólinn þátttöku í nýju NordPlus-verkefni sem miðar að því að bæta félagslega sjálfbærni meðal drengja og draga úr brottfalli þeirra úr framhaldsskóla. Verkefnið er unnið í samstarfi við framhaldsskóla í Danmörku og á Grænlandi þar sem lögð er áhersla á að kanna ástæður fyrir lakari námsárangri drengja og hugað að mögulegum lausnum. Fyrir hönd MTR taka þau Guðbjörn Hólm Veigarsson, Ida Semey og Hólmar Hákon Óðinsson þátt í verkefninu.
Þátttakendur heimsóttu nýverið GUX Nuuk framhaldsskólann á Grænlandi þar sem um 450 nemendur stunda nám. Það vakti athygli að um 80% kennaranna eru danskir og fer allt nám fram á dönsku, sem sagt ekki á móðurmáli nemendanna. Í Nuuk kynnti hópurinn sér menntakerfið og menningu landsins meðal annars með heimsókn á listasafn og þjóðminjasafn staðarins. Þar var ljóst að mikil áhrif danskrar menningar gætir enn í skólastarfi í Grænlandi. Verkefnið vekur upp margar spurningar um félagslega og menningarlega þætti sem mögulega hafa áhrif á námsframvindu drengja, bæði á Grænlandi og víðar.
Hugmyndir hópsins beinast meðal annars að áhrifum samfélagsmiðla á athygli drengja, kynjaðri væntingu um hegðun og árangur og stöðluðum hugmyndum um karlmennsku sem gætu haft neikvæð áhrif á námsárangur. Með verkefninu á m.a. að kanna hvort ungt fólk, sérstaklega drengir, upplifi skort á stuðningi vegna staðalímynda um karlmennsku, þar sem það gæti verið litið á það sem veikleika að biðja um aðstoð og viðurkenna að maður geti ekki reddað hlutunum sjálfur.
Niðurstöður verkefnisins verða kynntar að verkefninu en markmiðið er að varpa ljósi á mögulegar leiðir til að styðja betur við drengi í námi og bæta félagslega sjálfbærni þeirra.
Lesa meira
24.10.2024
Þessa vikuna er hópur nemenda úr MTR og Guðbjörn Hólm Veigarsson og Inga Þórunn Waage kennarar þeirra í Króatíu að taka þátt í verkefni sem kallast „Becoming a Biomaker School“ sem er innan ramma Erasmus+. Þetta er verkefni sem hófst 2022 og er dreift yfir 5 ára tímabil. Megináherslur verkefnisins eru sjálfbær evrópsk markmið og þá sérstaklega þau sem miða að því að vernda umhverfið.Samstarfsskólarnir eru þrír; frá Króatíu, Portúgal og Spáni. Nemendur vinna saman að því að móta verkefnið í kringum brýn málefni eins og loftslagsbreytingar, græna Evrópu og þróun landsvæða.
Lesa meira
23.10.2024
Bleikur október er árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameini hjá konum og Bleika slaufan er tákn Krabbameinsfélagsins í þeirri baráttu. Hún er seld ár hvert til fjáröflunar og þeir fjármunir sem safnast í átakinu renna til vísindastarfs, rannsókna, fræðslu, forvarna og til ráðgjafar og stuðnings. Einnig hefur verið safnað fyrir tækjum til krabbameinsleitar á vegum Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins.
Bleiki dagurinn er í dag, 23. október, en hann er hápunktur Bleiku slaufunnar ár hvert. Á Bleika deginum er þjóðin hvött til að vera bleik - fyrir okkur öll bera slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein finni stuðning okkar og samstöðu.
Starfsfólk MTR lét ekki sitt eftir liggja og klæddist bleiku í dag,í tilefni átaksins, og ýmsir báru slaufuna í barmi. Auk þess hefur bleiki fáninn blaktað við hún allan október og skólinn verið skreyttur bleikum slaufum.
Lesa meira
17.10.2024
Talsverð eftirspurn er eftir þeirri þekkingu sem orðið hefur til á fjarkennslu og upplýsingatækni í MTR og hafa kennarar skólans tekið þátt í ýmsum samstarfsverkefnum undanfarin ár. Eitt þessara verkefna hlaut á dögunum Evrópuverðlaun fyrir nýsköpun í tungumálakennslu og námi; hin virtu European Language Label 2024 sem hundruð fræðsluverkefna tóku þátt í.
Lesa meira
17.10.2024
Á morgun föstudaginn 18.10.2024 verður netsambandið stækkað í skólanum og það verða truflanir á neti / moodle milli 8:00 og 12:00.
Lesa meira
15.10.2024
Eins og við sögðum frá á dögunum þá dvaldi 15 manna hópur lettneskra nemenda, þrír kennarar þeirra og skólastjóri í Fjallabyggð alla síðustu viku til að taka þátt í samstarfsverkefni með nemendum í MTR. Verkefnið er styrkt af Nordplus og snýst um að kynna sér óáþreifanlegan menningararf Íslands. Hinir erlendu gestir komu frá bænum Saldus, þar sem búa um tíu þúsund manns, og voru þeir í heimagistingu hjá nemendum og starfsfólki MTR.
Lesa meira
10.10.2024
Þessa viku dvelur 15 manna hópur lettneskra nemenda og þrír kennarar þeirra í Fjallabyggð til að taka þátt í samstarfsverkefni með nemendum í MTR. Þetta er Nordplus verkefni sem snýst um að kynna sér menningararf Íslands, jafnt áþreifanlegan sem óáþreifanlegan. Hinir erlendu gestir koma frá Saldus vidusskola sem er í bænum Saldus þar sem búa um tíu þúsund manns. Nemendurnir eru í heimagistingu hjá nemendum og starfsfólki MTR og fá þannig nasasjón af lífinu í íslensku samfélagi.
Lesa meira
03.10.2024
Nemendafélagið Trölli er starfrækt við skólann og sér það um að skipuleggja félagsstarf nemenda. Fyrir nokkru var skipað í nýtt nemendaráð, hefur það þegar haldið fyrstu viðburði vetrarins og fleiri eru á döfinni ásamt nýju spennandi verkefni. Í ráðinu frá síðustu önn eru Hanna Valdís Hólmarsdóttir og Víkingur Ólfjörð Daníelsson og ný komu inn Auður Guðbjörg Gautadóttir, Guðrún Ósk Auðunsdóttir og Ólafur Styrmir Ólafsson. Sem fyrr var hugað sérstaklega að kynjahlutfalli við val í ráðið.
Nýtt nemendaráð mun halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið síðustu ár þ.e. að krydda daglegt líf í skólanum með ýmsum minni viðburðum á skólatíma og standa fyrir stærri viðburðum á kvöldin. Hinir vinsælu þemadagar á miðvikudögum eru t.d. komnir í gang þar sem nemendur og starfsfólk mæta í skólann klædd eftir mismunandi þemum og nýnemadagurinn var haldinn í byrjun september. Tveir stærstu viðburðirnir í félagslífinu eru í lok hvorrar annar, jólakvöld í byrjun desember og svo árshátíð að vori, er mikið í þá lagt og hefur þátttaka verið mjög góð síðustu ár.
Nýja verkefnið sem nemendaráð er nú að vinna að er ferð ráðsins til Danmerkur. Þar er hugmyndin að heimsækja skólann Ørestad Gymnasium í Kaupmannahöfn, kynna sér starfsemi hans og ekki síst hvernig nemendaráðið þar starfar. Vinnur ráðið nú að umsókn að Erasmus+ styrk til ferðarinnar.
Nemendaráði til halds og trausts við skipulag viðburða er Hólmar Hákon Óðinsson, námsráðgjafi skólans, en rík áhersla er lögð á frumkvæði nemendanna sjálfra við hugmyndavinnu og framkvæmd.
Lesa meira