Fréttir

Glæsileg árshátíð nemendafélagsins

Nemendafélagið Trölli hélt sína árlegu árshátíð þann 2. maí sl. og var hún haldin í sal skólans. Nemendur og starfsfólk mætti í sínu fínasta pússi og naut samverunnar. Stjórn nemendafélagsins skipulagði fjölbreytta dagskrá þar sem heilasellurnar voru m.a. virkjaðar í Kahoot keppni um ofurhetjur í kvikmyndum og teiknimyndasögum ásamt öðrum spurningaleikjum og lipurðin könnuð í hinni árlegu limbókeppni. Ljúffengar veitingar, að hætti unga fólksins, voru á boðstólum s.s. sushi, pizzur og kebab. Runnu þær ljúflega niður og svo var ís í eftirmat. Er óhætt að segja að vel hafi tekist til og allir skemmt sér vel eins og myndirnar bera með sér.
Lesa meira

Umræða um samþykki, mörk og náin samskipti

Í dag fór fram í skólanum þörf og áhugaverð umræða meðal nemenda um samþykki, mörk og náin samskipti. Staðnemum skólans var skipt í umræðuhópa og nemendafélagið Trölli stýrði umræðum. Fyrst var horft á heimildarmynd frá mennta- og barnamálaráðuneytinu þar sem fjallað var um umræðuefnið. Hún var gerð í kjölfar MeToo byltingar framhaldsskólanema haustið 2022 þar sem þeir kröfðust þess að að fá meiri kynfræðslu í skólana og almenna umræðu um samþykki, mörk og kynferðisofbeldi. Myndin byggist upp af stuttum innslögum úr samtölum nemenda þar sem þau ræða málefnið. Ráðuneytið sendi myndina til allra framhaldsskóla landsins nú á vordögum með beiðni um að nemendafélög skólanna tækju hana upp á sínum vettvangi. Markmiðið er að kveikja gagnrýnin samtöl meðal nemenda um samþykki, mörk í nánum samböndum og kynferðisofbeldi. Fjörlegar umræður sköpuðust í hópunum og niðurstöður þeirra voru skráðar. Verður unnið frekar úr þeim á vettvangi nemenda sem og með fagteymi ofbeldismála í MTR. Þá fá allir fjarnemar og foreldrar sendan hlekk á heimildarmyndina og frekari upplýsingar um fræðslu. Hér er hlekkur á myndina: https://vimeo.com/924536997
Lesa meira

Saman gegnum þrjú skólastig

Inga Eiríksdóttir, kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga, og Halldór Ingvar Guðmundsson, meistaranemi við Háskólann á Akureyri og kennari við Grunnskóla Fjallabyggðar, hafa ferðast saman gegnum menntakerfið undanfarna tvo áratugi, hún sem kennari og hann sem nemandi. Ferðasagan hófst í Grunnskóla Ólafsfjarðar þar sem Inga var umsjónarkennari bekkjarins hans Halldórs í þrjá vetur, í 8. - 10. bekk. Inga færði sig svo yfir í Menntaskólann á Tröllaskaga þegar hann var stofnaður árið 2010 og fljótlega kom Halldór þangað líka og Inga kenndi honum þó nokkra áfanga þar. Halldór útskrifaðist frá MTR og hóf síðan kennaranám við Háskólann á Akureyri. Hann er nú í meistaranámi sínu þar og viti menn, Inga og Birgitta Sigurðardóttir, samkennari hennar við MTR, hafa undanfarin ár kennt áfanga við HA sem kallast Upplýsingatækni í námi og kennslu og þar hittust þau Inga og Halldór enn á ný sem kennari og nemandi. Sem fyrr segir er Halldór kennari við Grunnskóla Fjallabyggðar meðfram meistaranámi sínu, og gaman er að segja frá því að um þessar mundir starfa 13 manns við GF sem lokið hafa stúdentsprófi frá MTR.
Lesa meira

Ánægjulegar niðurstöður úr foreldrakönnun

Á dögunum var gerð könnun meðal foreldra nemenda sem eru yngri en 18 ára og þeir spurðir út í eitt og annað sem viðkemur skólastarfinu. Slíkar kannanir hafa verið gerðar annað hvert ár undanfarinn áratug og eru hluti af sjálfsmati skólans. Könnunin var lögð fyrir foreldra jafnt stað- sem fjarnema, eru þeir tæplega 40 talsins, og var svarhlutfall 50%. Niðurstöðurnar eru mjög ánægjulegar og sýna m.a. að foreldrar telja Menntaskólann á Tröllaskaga góðan skóla og bera mikið traust til hans. Einnig kemur fram að samskipti við starfsfólk skólans séu góð, foreldrar telja að námsfyrirkomulag það sem viðhaft er í skólanum, þ.e. vikulotur, henti nemendum vel og allflestir foreldrar upplifa að nemandinn fái nám við hæfi og líði vel í skólanum. Nánari niðurstöður má sjá hér: https://www.mtr.is/is/skolinn/skyrslur
Lesa meira

Erlent samstarf í blóma

Líkt og við höfum áður sagt frá var óvenju gestkvæmt hjá okkur í skólanum í síðustu viku m.a. var hér nemendahópur frá spænska skólanum IES Andreu Sempere, sem staðsettur er í Alcoy á Alicante, og með þeim tveir kennarar. Hópurinn var hér í nokkra daga og nemendurnir gistu hjá nemendum MTR á meðan á heimsókninni stóð. Báðir skólarnir eru UNESCO skólar og eru í samstarfsverkefni þar sem tilgangurinn er að skoða hvernig skólarnir vinna sem UNESCO skólar, hvað nemendur þeirra geta lært hverjir af öðrum og hvernig verkefni skólarnir geta unnið saman í framtíðinni.
Lesa meira

Eldri borgarar kynnast skólabragnum

Allt frá stofnun hefur verið lögð áhersla á það í skólanum að vera í góðu sambandi við nærumhverfið. Hefur þetta m.a. verið gert með samstarfi við ýmsa aðila í samfélaginu s.s. íþróttafélög, björgunarsveitir, söfn, fyrirtæki og önnur skólastig og einnig með opnum listsýningum þar sem íbúar eru boðnir velkomnir að njóta. Í vetur hafa eldri borgarar í Ólafsfirði komið við í skólanum flesta mánudagsmorgna þegar þeir eru á sinni vikulegu hópgöngu. Hafa þessar heimsóknir verið mjög ánægjulegar. Gestirnir hafa þegið kaffi, átt spjall við starfsfólk og nemendur skólans og kynnst skólabragnum. Verður vonandi framhald á þessum heimsóknum næsta vetur. Í kjölfar þessara heimsókna spratt sú hugmynd að búa til áfanga þar sem nemendur læra að segja eldri borgurum til í tæknimálum, er sú hugmynd í vinnslu og kemur vonandi til framkvæmda fyrr en síðar.
Lesa meira

Fróðleiksþyrstir gestir

Það var mikið líf í skólanum í gær þegar 45 kennarar frá Noregi og Slóveníu komu í heimsókn til að kynna sér starfsemi hans og kennsluhætti. Fulltrúar nemendafélagsins Trölla tóku á móti hinum erlendu gestum og sögðu síðan frá skólastarfinu eins og það horfir við nemendum. Fengu þau margar spurningar að þeirri kynningu lokinni og svöruðu þeim skilmerkilega. Næst tóku við kynningar kennara MTR þar sem þeir sögðu frá kennslu bóklegra greina, erlendum samstarfsverkefnum, þjónustu við nemendur, frumkvölafræði, listkennslu og kennslu í gegnum nærverur. Kynningarnar fóru fram við fjögur borð, hver þeirra var nokkrar mínútur og svo gafst tími til samræðna áður en gestirnir færðu sig á næsta borð. Þótti gestunum margt mjög áhugavert sem þarna kom fram og spurðu margs. Þá tók við sameiginlegur hádegisverður þar sem áfram var spjallað og síðan ræddi Lára Stefánsdóttir skólameistari við hópinn og svaraði ýmsum spurningum frá fróðleiksþyrstum og áhugasömum gestum. Heimsóknin var styrkt af Uppbyggingarsjóði EES sem er ætlað að efla samstarf á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar. Heppnaðist hún eins og best verður á kosið; gestirnir mjög ánægðir og sögðust hafa lært margt gagnlegt.
Lesa meira

Góðir gestir alla vikuna

Það er gestkvæmt í skólanum þessa vikuna. Í dag komu 11 nemendur af íþróttabraut Verkmenntaskólans á Akureyri í heimsókn. Þeir eru í fjölíþróttaáfanga á þessari önn þar sem markmiðið er að kynnast fjölbreyttum íþróttum. Fyrsta stopp þeirra á ferð sinni frá Akureyri var á Hjalteyri þar sem þau spreyttu sig í hinum glæsilega klifurvegg sem er í gömlu verksmiðjunni þar. Í Ólafsfirði var byrjað á að fara í ýmsa leiki á gönguskíðum undir stjórn Lísebetar Hauksdóttur, íþróttakennara í MTR, og svo kenndi hún nemendum réttu tökin í þessari góðu íþrótt. Að loknu matarhléi var farið í íþróttahúsið í ýmsa leiki og þrautir með nemendum MTR og heimsókninni lauk á afslöppun í sundlauginni. Heimsókn sem þessi hefur verið fastur liður síðustu ár og hafa þær Lísebet og Birna Baldursdóttir, íþróttakennari í VMA, séð um skipulagið.
Lesa meira

Dalvíkingar í heimsókn

Í dag komu nemendur 10. bekkjar Dalvíkurskóla í heimsókn til að kynna sér skólastarfið í MTR. Var þeim skipt í fimm hópa sem fóru á milli stöðva til að fræðast um skólann og leysa ýmis verkefni. Hólmar Hákon Óðinsson, námsráðgjafi, kynnti nemendum skipulag skólans, Sigurður Mar Halldórsson lagði verkefni fyrir nemendur í laserskera skólans og Bergþór Morthens og Sæbjörg Ágústsdóttir tóku á móti nemendum í listastofunni þar sem nemendur teiknuðu hver annan með kolum sem límd voru á prik. Gaman er að geta þess að Bergþór stýrði því verkefni frá vinnustofu sinni í Svíþjóð í gegnum tæki sem hér er kallað nærvera og hægt að keyra um gangana og hafa samskipti við nemendur sem samstarfsfólk. Inga Eiríksdóttir sýndi nemendum nokkra möguleika gervigreindar og notuðu nemendur hana til að gera myndir og lög og fulltrúar nemendaráðs höfðu útbúið spurningar um skólann í Kahoot sem Dalvíkingarnir spreyttu sig á að svara. Tókst heimsóknin hið besta og má með sanni segja að gestirnir hafi lífgað upp á daginn.
Lesa meira

Innritun í fjarnám

Innritun í fjarnám stendur nú yfir fyrir haustönn 2024. Ekki er kennt á sumarönn í skólanum. Vinsamlegast skráið umsóknir í gegnum heimasíðu skólans.
Lesa meira