Reglur um námsframvindu

Frestur til að skrá sig úr áfanga rennur út að jafnaði 3 vikum frá upphafi annar. Þurfi nemandi að segja sig úr áfanga vegna sérstakra aðstæðna eftir þann tíma, þarf beiðni að berast til námsráðgjafa sem ber það undir skólastjórnendur til samþykktar.

Nemandi sem ekki hefur hafið nám í áfanga innan þriggja vikna frá skólabyrjun er talinn hafa sagt sig úr honum.


Nemandi getur að hámarki verið skráður í 40 einingar á önn (samanlagt í öllum framhaldsskólum). Áfangastjóri getur veitt undanþágu frá fjölda eininga á önn. Nemandi í fullu námi skal ljúka að lágmarki 15 einingum á önn. Skólameistari getur heimilað undantekningu frá þessum reglum vegna sérstakra aðstæðna, skilgreindra námsörðugleika og veikinda.

Ljúki nemandi ekki tilskildum einingafjölda á önn er skólastjórnendum heimilt að takmarka þann fjölda eininga sem hann fær að skrá sig í á næstu önn. Nemandinn getur þurft að sækja um skólavist að nýju og er honum þá gerð grein fyrir stöðu sinni þannig að hann geti einnig sótt um skólavist í öðrum framhaldsskólum. Skólanum er ekki skylt að endurinnrita nemandann.

Fall í áfanga þýðir að nemenda ber að endurtaka nám í áfanganum. Nemanda er leyfilegt að sitja þrívegis í sama áfanga. Falli nemandi þrisvar í sama áfanga þarf hann að sækja um undanþágu til skólameistara ef hann vill halda námi áfram. Skólameistari metur aðstæður nemandans og heimilar frekari skólavist eða hafnar.

Til að standast námsmat í áfanga þarf lágmarkseinkunnina 5. Nemanda er heimilt að útskrifast með einkunnina 4 í einum áfanga ef um lokaáfanga er að ræða. Sá áfangi gefur ekki einingar. Skilyrði er að nemandinn eigi jafnmargar eða fleiri umframeiningar á sama þrepi til að ná settum heildareiningafjölda til útskriftar.

(Endurskoðað 1. september 2023)