15.05.2025
Það er bara svona; síðasti kennsludagur annarinnar í dag og nemendur ganga brosandi út í sumarið. Veðurblíðan hefur leikið við okkur að undanförnu svo síðustu kennsludagarnir voru litaðir mikill útiveru og fjöri. Blaknet var sett upp á lóð skólans og var það mikið notað, bæði af nemendum og kennurum og ýmsir spreyttu sig í frisbígolfi en aðstaða til að stunda þá skemmtilegu íþrótt var útbúin við skólann fyrir nokkrum árum. Einnig var skellt í hinn árlega Tarzan-leik í skólalok. Sumir létu þó góðviðrið ekki trufla sig við námið og stunduðu það af kappi hvort sem var innandyra sem utan. Sólin er þó ekki besti vinur tölvuskjánna og var ýmsum brögðum beitt til að geta stundað nám og yfirferð verkefna auk þess að njóta sólarinnar.
Framundan er svo Vorsýning skólans, laugardaginn 17. maí, þar sem til sýnis er afrakstur vinnu annarinnar. Næsta vika er helguð námsmati hjá kennurum og föstudaginn 23. maí munu um 50 nemendur setja upp hvíta kollinn þegar útskrift fer fram á sal skólans.
Lesa meira
14.05.2025
Í síðustu viku voru nemendur og kennarar frá hinum danska Ungdomshøjskolen ved Ribe í heimsókn á Norðurlandi og glöddu m.a. okkur í Menntaskólanum á Tröllaskaga með nærveru sinni. Hópurinn, sem samanstóð af nemendum víða að úr heiminum, kom til landsins á mánudeginum og keyrði beint til Akureyrar þar sem var gist meðan á dvölinni stóð. Á þriðjudegi kom hópurinn í MTR og dagskráin hófst með því að nemendaráð sagði gestunum frá skólanum og skipulagi námsins og gestirnir kynntu í kjölfarið sinn skóla og tóku svo lagið. Þá tók við áhugaverð athöfn þar sem Sigurður Mar Svínfellingagoði, og kennari í MTR, hélt blót að heiðnum sið á túninu við skólann og bauð gestina velkomna. Að henni lokinni sýndu hinir erlendu gestir dans og fengu svo nemendur og kennara MTR með sér í fjörugan línudans áður en sest var að snæðingi. Eftir hádegið skoðaði hópurinn sig um á Ólafsfirði í blíðviðrinu og síðan var brunað á Mývatn til að upplifa þau náttúruundur sem þar eru.
Á miðvikudeginum var haldið til Siglufjarðar þar sem var rölt um bæinn og veitinga notið í bakaríinu áður en haldið var í Ljóðasetur Íslands, sem annar kennari í MTR, Þórarinn Hannesson, veitir forstöðu. Þar fengu gestirnir fræðslu um íslenska ljóðlist, sérstaklega Eddukvæðin, sem og fornsögurnar og íslenskar þjóðsögur og tengsl Tolkiens og fleiri rithöfunda við þennan arf okkar. Fræðslan var krydduð með söng, gítarspili og kveðskap og í lok heimsóknar stigu tveir nemendur á stokk og fluttu frumsamin ljóð. Seinni part dagsins var komið saman í hinni nýju menningarmiðstöð Brimsölum í Ólafsfirði, sem enn einn kennarinn úr MTR, Ida Semey, rekur. Þar voru sagðar sögur, flutt tónlist og rætt um heima og geima áður en haldið var til Akureyrar í háttinn.
Á fimmtudagsmorgni var enn komið í Ólafsfjörð og nú var farið í fjöruhreinsun og svo búin til listaverk úr einhverju af því sem fannst í fjörunni. Eftir hádegið var úrvinnsla ferðarinnar sett í myndbandsbúning og svo skellti hópurinn sér í sund á Ólafsfirði áður en lagt var í hann til Keflavíkur. Flaug hópurinn utan á föstudagsmorgni eftir viðburðaríka daga á Íslandi. Við þökkum þeim fyrir samveruna og kryddið í tilveruna hjá okkur.
Lesa meira
13.05.2025
Nú er undirbúningur fyrir vorsýningu nemenda skólans í fullum gangi þar sem til sýnis verður afrakstur af vinnu nemenda á vorönn undir einkunnarorðum skólans; frumkvæði - sköpun - áræði. Verk frá nemendum streyma í skólann og er verið að finna þeim stað í sal og á göngum. Einnig verða rafrænar sýningar á vef skólans. Á sýningunni í skólahúsinu eru fjölbreytt verk nemenda í myndlist, ljósmyndun og fleiri námsgreinum og rafrænar sýningar eru á verkum sem unnin voru í ýmsum greinum sem og í erlendum verkefnum.
Lesa meira
09.05.2025
Í gærkvöldi fór árshátíð nemendafélagsins Trölla fram þar sem nemendur og kennarar komu saman á sal skólans og áttu góða samveru. Nemendaráð sá að venju um undirbúning og var mikið líf og fjör í skólanum í gær þegar hann stóð sem hæst. Framkvæmdin gekk svo að óskum og allir skemmtu sér vel. Boðið var upp á veitingar að hætti unga fólksins s.s. sushi, pizzur og kebab og runnu þær ljúflega niður. Síðan voru heilasellurnar virkjaðar í spurningakeppnum af ýmsu tagi í blönduðum liðum nemenda og kennara og verðlaun afhent að lokinni spennandi keppni. Ýmislegt fleira var til gamans gert og ekki mátti gleyma að stilla sér upp fyrir framan myndavélina í góðra vina hópi.
Lesa meira
06.05.2025
Það er orðinn fastur liður að fulltrúi frá stéttarfélaginu Einingu Iðju heimsæki skólann á vordögum til að kynna nemendum gildi þess að vera í stéttarfélögum og til að fara yfir réttindi þeirra og skyldur á vinnumarkaði. Í þetta sinn var það Rut Pétursdóttir, mannauðs- og fræðslustjóri félagsins, sem sá um kynninguna. Voru nemendur áhugasamir og spurðu út í eitt og annað enda margir þeirra í vinnu með skóla og svo eru sumarstörfin á næsta leiti.
Á heimasíðu Einingar Iðju kemur fram að starfsmenn félagsins hafa tekið eftir mikilli breytingu til batnaðar varðandi meðvitund unga fólksins í þessum málum. Það veit betur hvar það á að spyrjast fyrir um réttindi sín og eins vita ungmenni mun betur en áður hverju þau eiga rétt á. Skólakynningar sem þessar eiga eflaust þátt í þessari ánægjulegu þróun.
Lesa meira
29.04.2025
Það var gestkvæmt hjá okkur síðustu vikuna fyrir páskafrí. Meðal þeirra sem heimsóttu okkur voru fjórir franskir kennarar, frá sveitarfélaginu Lesquin nyrst í Frakklandi, sem voru hér í skólanum í fjóra daga til að fylgjast með kennslu og kynna sér skólastarfið. Fengu þeir kynningu á kennslufyrirkomulagi skólans, sátu kennslustundir og áttu viðtöl við nemendur, kennara og skólastjórnendur. Var ýmislegt með öðrum hætti en þeir áttu að venjast. Í lok heimsóknarinnar voru þeir beðnir um að nefna orð sem lýstu upplifun þeirra af skólanum og þetta var þeirra niðurstaða: Frelsi, virðing, hljóðlátt, vellíðan, áhugavert, forvitnilegt og nýstárlegt.
Lesa meira
11.04.2025
Í gær röltu nemendur 10. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar vegspottann á milli skólanna og litu í heimsókn til að kynna sér skólastarfið í MTR. Þeir munu taka næstu skref á námsferlinum næsta haust og því upplagt að kynna sér vel hvað er í boði. Var þeim skipt í nokkra hópa sem fóru á milli stöðva til að fræðast um skólann og leysa ýmis verkefni. Nemendaráð og kennarar skólans sögðu frá námsskipulaginu, erlendum samstarfsverkefnum, félagslífinu og hinum afslappaða skólabrag sem einkennir MTR og gestirnir tóku auk þess þátt í klippimyndagerð og létu reyna á hæfni sína í rafíþróttastofunni.
Þetta var líflegur og áhugasamur hópur sem tók virkan þátt og spurði margs. Sumir hafa þegar valið sér skóla til að halda áfram námi í en aðrir eru enn að velta vöngum. Heimsókn sem þessi hjálpar til við ákvarðanatökuna. Í lok hennar var boðið upp á pizzur sem runnu ljúflega niður.
Lesa meira
10.04.2025
Síðastliðið haust hóf skólinn þátttöku í NordPlus-verkefni sem miðar að því að bæta félagslega sjálfbærni meðal drengja og draga úr brottfalli þeirra úr framhaldsskóla. Verkefnið er unnið í samstarfi við tvo framhaldsskóla í Danmörku og einn á Grænlandi þar sem lögð er áhersla á að kanna ástæður fyrir lakari námsárangri drengja og hugað að mögulegum lausnum. Fyrir hönd MTR taka þau Guðbjörn Hólm Veigarsson, Ida Semey og Hólmar Hákon Óðinsson þátt í verkefninu.Hugmyndir hópsins beinast meðal annars að áhrifum samfélagsmiðla á athygli drengja, kynjaðri væntingu um hegðun og árangur og stöðluðum hugmyndum um karlmennsku sem gætu haft neikvæð áhrif á námsárangur. Með verkefninu á m.a. að kanna hvort drengir upplifi skort á stuðningi vegna staðalímynda um karlmennsku, þar sem það gæti verið litið á það sem veikleika að biðja um aðstoð og viðurkenna að maður geti ekki reddað hlutunum sjálfur.
Þátttakendur hófu verkefnið snemma sl. haust með heimsókn í GUX Nuuk framhaldsskólann á Grænlandi og í framhaldi af því var komið saman í Christianshavn gymnasium og Örestad gymnasium í Kaupmannahöfn. Í þessari viku er lokahnykkurinn og er hópurinn staddur hjá okkur í MTR til að kynna sér starfshætti og skoða hvort eitthvað í kennslumódeli skólans (Tröllaskagamódelið) gagnist verkefninu. Næstu vikur verða svo nýttar í að vinna úr upplýsingum sem safnað hefur verið í þessum heimsóknum og komið hafa fram í könnunum og viðtölum tengdum verkefninu. Munum við segja frá úrvinnslu og niðurstöðum þegar þar að kemur.
Í hópnum sem heimsótti okkur voru átta kennarar sem starfa í Danmörku og einn sem starfar á Grænlandi. Hafði hópurinn heyrt eitt og annað um skólann, frá fulltrúum okkar í verkefninu, og var ekki að kaupa allt sem þar kom fram en í heimsókninni sáu hinir erlendu gestir að þar var ekki farið með neinar ýkjur. Það sem kom þeim mest á óvart var sú ábyrgð sem nemendur í skólanum taka á eigin námi, hversu andrúmsloftið í skólanum var afslappað og þægilegt, hversu mikið frelsi nemendur hafa til að sinna náminu eftir sínu höfði og með hvað fjölbreyttum hætti nemendur geta unnið verkefni sín þar sem styrkleikar þeirra njóta sín. Gestirnir hlýddu á kynningar frá bæði nemendum og kennurum og voru þeir sérstaklega heillaðir af innihaldsríkri og upplýsandi kynningu frá nemendaráði. Gestirnir áttu einnig viðtöl við nemendur, kennara og skólastjórnendur og það kom þeim skemmtilega á óvart hversu mikill samhljómur var með öllum þeim sem rætt var við. Allir innan skólasamfélagsins höfðu sömu sögu að segja af ágæti námsskipulagsins, höfðu sömu upplifunina af skólabragnum og þótti vænt um skólann sinn. Var heimsókn þessi hin ánægjulegasta og alltaf er gott að fá að spegla sig í augum annarra.
Lesa meira
02.04.2025
Í tilefni af alþjóðlegum degi einhverfu í dag, þann 2. apríl, tóku nemendur og starfsfólk skólans þátt í að fagna fjölbreytileika einhverfurófsins með því að mæta í skólann í öllum regnbogans litum. Stillti hópurinn sér upp fyrir myndatöku í sal skólans með hin litskrúðugu verk Bergþórs Morthens, kennara skólans, á báðar hendur. Einhverft fólk er allskonar, rétt eins og annað fólk, og hefur einhverfusamfélagið valið sér eilífðarmerkið í regnbogalitunum til að tákna óendanlega fjölbreytni hópsins.
Lesa meira
27.03.2025
Sextán framhaldsskólar vítt og breitt um landið tóku þátt í March Forward-herferð UN Women á Íslandi með samstöðugjörningi á hádegi í gær. Gjörningurinn fólst í því að ganga nokkur skref afturábak, til merkis um bakslagið í jafnréttismálum síðustu ár, stoppa, sem tákn um að nú sé nóg komið og ganga svo rösklega áfram, því það er eina leiðin fyrir samfélög til að vaxa og dafna. Að frumkvæði nemendafélagsins Trölla tók hópur nemenda og starfsfólks MTR þátt til að leggja þessu þarfa málefni lið.
Lesa meira