Mynd eftir Kristinn G Jóhannsson
Menntaskólinn á Tröllaskaga á orðið ágætt safn listaverka. Flest eru verkin eftir listafólk af svæði skólans og gefa hugmynd um þá listsköpun í þessum geira sem á sér stað hér nyrst á Tröllaskaga. Hugað er að því að hafa verk til sýnis sem víðast um skólann þannig að þau verði hluti af daglegu lífi nemenda og starfsfólks. Einnig eru reglulega settar upp sýningar í sal skólans á verkum listafólks af svæðinu til að krydda menningarlífið í skólanum og vekja athygli á starfandi listafólki sem býr í nágrenni hans.
Sum verkin í listaverkasafninu hefur skólinn keypt önnur hefur skólinn fengið að gjöf frá velunnurum. Grunnurinn að safninu var lagður strax við stofnun skólans árið 2010 því frá upphafi hefur verið lögð áhersla á að fjárfesta í verkum. Í skólanum eru m.a. 11 verk eftir Kristinn G. Jóhannsson, sem hefur verið skólanum gjafmildur á fjölbreytt verk sín. Hann var skólastjóri við Gagnfræðaskólann Ólafsfirði um árabil sem var í því húsnæði sem hýsir nú Menntaskólann á Tröllaskaga.
Kristinn varð stúdent frá MA 1956 og nam síðan myndlist á Akureyri, í Reykjavík og í Edinburgh College of Art. Hann lauk og kennaraprófi árið 1962 og starfaði við kennslu og skólastjórn í áratugi, lengst við Gagnfræðaskólann Ólafsfirði. Kristinn efndi til sinnar fyrstu sýningar sinnar á Akureyri árið 1954 og sýndi fyrst í Reykjavík árið 1962 í Bogasal Þjóðminjasafnsins. Hefur hann sýnt oft og víða heima og erlendis síðan og er enn starfandi listamaður þó hann verði níræður á næsta ári.
Á næstunni munum við fjalla nánar um listaverkasafn skólans. Myndir af öllum listaverkunum og upplýsingar um þau eru aðgengileg á heimasíðu hans.
Hér er slóðin: https://www.mtr.is/is/skolinn/listaverk-i-mtr