Öryggisáætlun

Öryggisráð Menntaskólans á Tröllaskaga
Öryggisráð skipar einn starfsmaður hverju sinni auk skólameistara.

Kosið er í öryggisráð á starfsmannafundi.

Öryggisráð MTR er skipað eftirfarandi starfsmönnum: Lára Stefánsdóttir skólameistari og Gísli Kristinsson umsjónarmaður húseigna og tækja. Sé viðbragða þörf og starfsmenn öryggisráðs ekki tiltækir er staðgengill Láru, Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari og staðgengill Gísla, Björg Traustadóttir umsjónarmaður skrifstofu, bókasafns og þrifa.

Öryggisráð kannar að allur aðbúnaður og öryggi bæði nemenda og starfsmanna sé í lagi og gerir 2 kannanir á ári á skólahúsnæðinu og notar til þess leiðbeinandi bækling frá Vinnueftirlitinu (skólar, vinnuumhverfisvísir). Kannanirnar eiga sér stað á haustin áður en nemendur hefja nám og svo aftur við lok skólaárs.

Öryggisráð sér til þess að allar upplýsingar, er varða öryggi nemenda og starfsfólks séu aðgengilegar.

Röskun á skólastarfi vegna óveðurs

Viðbúnaðarstig 1: Ófært fyrir Ólafsfjarðarmúla eða til Siglufjarðar eða bæði

Viðbúnaðarstig 1 Ökumenn í skólaakstri, annars vegar frá Siglufirði og hinsvegar frá Dalvík tilkynna skólanum um ófærð, ef akstur er felldur niður. Lagt er í þeirra hendur að meta aðstæður.

Athugið að það er ævinlega í höndum ökumanna að meta aðstæður og hvort ekið sé í skóla vegna veðurs.

Fulltrúar í öryggisráði taka ákvörðun um niðurfellingu skólastarfs sem alla jafna verður ekki nema bæði sé ófært frá Siglufirði og frá Dalvík.

Niðurfelling skólastarfs er sett á heimasíðu skólans  http://www.mtr.is um leið og ákvörðun hefur verið tekin.

Viðbrögð við slysum á nemendum

  1. Augljós lítilsháttar meiðsl búið um og/eða nemanda leyft að jafna sig
  2. Í öðrum tilfellum en lið 1 er haft samband við heilsugæslu og ráðum þeirra hlýtt. Sé nemandi yngri en 18 ára hringir viðkomandi starfsmaður í foreldra/forráðamenn og lýsir atvikinu og leggur í hendur starfsmanna heilsugæslustöðvar að upplýsa um áverka.

    Séu aðstæður metnar þannig að viðkomandi þarf að komast undir læknishendur en ekki talin nauðsyn á sjúkrabifreið er aðilum úr öryggisráði falinn flutningur. Séu þeir ekki til staðar þá staðgenglum þeirra.
  3. Þegar um er að ræða alvarlegri slys þá er farið eftir þessari áætlun:
    1. kallað á hjálp; hringt á sjúkrabíl
    2. kallað eftir sjúkrakassa, skyndihjálp hafin (eða öðrum nærstöddum falin hún ef þekking þess er meiri),
    3. verið hjá nemanda þar til hjálp berst
    4. séð um að tilkynning berist skólastjórnendum
    5. skólastjórnendur tilkynna aðstandendum  um atvikið eða sá sem þeir fela verkið
    6. viðkomandi heilsugæsla eða sjúkrahús upplýsa aðstandendur um stöðu mála.

Tilkynning til foreldra:
Alvarleg slys: skólastjórnandi tilkynnir aðstandendum samkvæmt skráningu í Innu

Minniháttar slys: hringt í foreldra nemenda sem eru yngri en 18 ára

Hvað er sagt við foreldra/forráðamenn
Kynna sig – hvað kom fyrir – er á leið á sjúkrabíl – hver er með nemandanum

Viðbrögð við slysum á starfsmönnum

  1. ef um er að ræða meiðsli sem erfitt er að meta hvort það sé lítilsháttar eða alvarleg þá láta starfsmann meta hvort þurfi að hringja á sjúkrabíl, ráðgast við heilsugæslu sé ástæða til
  2. þegar um er að ræða alvarlegri slys þá er farið eftir þessari áætlun:
    1. sá sem kemur að starfsmanninum metur ástand
    2. kallað á hjálp; hringt á sjúkrabíl
    3. kallað eftir sjúkrakassa, skyndihjálp hafin (eða öðrum nærstöddum falin hún ef þekking þess er meiri),
    4. er hjá starfsmanni þar til hjálpin berst
    5. skólameistari  (eða staðgengill hans) tilkynnir maka eða nánasta fjölskyldumeðlimi 
    6. skólastjórnandi tilkynnir nemendunum

Tilkynning til maka/nánasta fjölskyldumeðlim:
Alvarleg slys: skólastjórnandi tilkynnir aðstandendum

Hvað er sagt við maka/nánasta fjölskyldumeðlim:
Kynna sig – hvað kom fyrir – er á leið á sjúkrabíl – hver (ef einhver er) er með starfsmanninum

Rýmingaráætlun vegna eldsvoða
Ef brunaviðvörunarkerfið fer í gang skal unnið samkvæmt eftirfarandi rýmingaráætlun:

Stjórnendur:

  1. fulltrúar í öryggisráði eða staðgenglar þeirra fara að stjórntöflu kerfis og kanna hvaðan brunaboðið kemur. Þar er metið hvort slökkt er á bjöllu eða ekki. Ef eldur er laus og raunveruleg hætta á ferðum skal skólinn rýmdur tafarlaust
  2. skólameistari, aðstoðarskólameistari og námsráðgjafi fara á söfnunarsvæðið og kanna hvort allir hafi skilað sér.  Gengið skal út frá gögnum í Innu yfir hverjir ættu að vera í skólanum samkvæmt stundaskrá.
  3. skólastjóri, aðstoðarskólastjóri koma upplýsingum til varðstjóra slökkviliðs.
     

Kennarar:

  1. nemendur yfirgefa ekki kennslustofu fyrr en kennari hefur kannað hvort útgönguleið sé greið, hver kennari er ábyrgur fyrir þeim hóp sem er að kenna þegar hættuástand skapast. Ætíð skal fara út um þann neyðarútgang í hverri kennslustofu fyrir sig
  2. sá sem síðastur fer úr kennslustofum og eða öðrum rýmum skal loka öllum hurðum á eftir sér til að draga úr reykflæði um húsið. Kennari gengur á undan nemendum eftir útgönguleiðinni. Ef stuðningsfulltrúi er í bekknum gengur hann aftast.  Ef farið er út um neyðarop í stofu fer kennari síðastur út.

Söfnunarsvæði skólans er við ÚÍÓ hús (hús íþróttafélagsins við knattspyrnuvöll) sunnan við skólann.

Æfingar vegna brunavarna eru í samstarfi við Slökkvilið Fjallabyggðar.

Viðbrögð vegna þjófakerfis
Fari þjófakerfi í gang hefur Securitas fyrst samband við fulltrúa í öryggisráði, fyrst Gísla, þá Láru. Séu þau ekki til staðar er haft samband við staðgengla þeirra eða öðrum sem falin er vaktin og skráð hjá Securitas.

  1. Farið er í skólann og fyrst athugað með því að skoða skólann utanfrá hvort merki séu um innbrot. Sé svo er hringt í lögreglu og ekki farið inn í húsið.
  2. Séu ekki merki um innbrot er farið inn í húsið og reynt að finna ástæðu, Securitas er með vakt á því  hvort ástæða sé komin og öryggi þess sem skoðar málið tryggt.

Viðbrögð vegna snjóflóða
Skólinn er utan skilgreindra snjóflóðasvæða í Ólafsfirði og ekki talið að þau lendi á húsnæðinu.

Viðbrögð vegna jarðskjálftavár
Þegar jarðskjálftahrina hefst á svæðinu fara skólastjórnendur yfir viðbrögð við jarðskjálfta með starfsmönnum og kennarar með nemendum. Farið yfir eftirfarandi atriði af vef Ríkislögreglustjóra - almannavarnadeild:
Varnir og viðbúnaður vegna jarðskjálfta
Viðbrögð við jarðskjálfta
Krjúpa - Skýla - Halda
Eftir jarðskjálfta

Umsjónarmaður húseignar og tækja skal fara yfir húsið árlega og meta hættu vegna jarðskjálfta vegna hluta eða búnaðar sem getur fallið niður eða hreyfst úr stað.

Athugið húsnæði Menntaskólans á Tröllaskaga er fjöldahjálparmiðstöð verði alvarlegur atburður og því skulu starfsmenn og nemendur halda sig í skólanum. Viðbragðsaðilar koma eins fljótt og auðið er.

 (Endurskoðað 9. sept 2022)