Bleikur dagur hópmynd GK
Í dag var Erasmus-dagur hjá okkur þar sem athygli var vakin á þeim tækifærum sem styrkir úr Erasmus+ áætlun ESB veita nemendum sem kennurum. Fyrsta verkefnið sem MTR tók þátt í var strax á þriðja starfsári skólans, haustið 2013, og síðan þá hefur skólinn tekið þátt í á fjórða tug verkefna með skólum vítt og breitt um Evrópu. Má segja að vegna þeirra styrkja sem skólinn hefur notið úr áætluninni séu erlend samskipti eitt einkennismerkja hans og setja þau mark sitt á skólastarfið á hverri önn.
Í tilefni dagsins fögnuðu nemendur og starfsfólk Evrópsku nýsköpunarverðlaununum í kennslu (European Innovative Teaching Award – EITA) sem skólinn hlaut á dögunum. Verðlaunin hlaut MTR fyrir verkefnið „Heimsmarkmiðin í öllu skólastarfi – lýðræðislegt samfélag í framkvæmd“ sem er heildræn og skapandi nálgun skólans að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í allt skólastarf. Tilgangur verðlaunanna er að heiðra kennara sem nýta nýstárlegar, gagnvirkar og aðgengilegar aðferðir til að ryðja brautina fyrir bjartari framtíð komandi kynslóða. Áherslan í ár var „Virk borgaravitund“ og að mati dómnefndar hefur MTR náð sérstaklega góðum árangri á því sviði með því að virkja starfsfólk og nemendur, meðal annars í Erasmus+ verkefnum. Verkefnið byggir á þeirri hugsjón að menntun eigi ekki aðeins að miðla fræðilegri þekkingu, heldur móta meðvitund, siðferðiskennd og virkni ungs fólks sem borgara í lýðræðislegu og sjálfbæru samfélagi.
Fulltrúar MTR, Lára Stefánsdóttir skólameistari og Ida Semey sem hefur stýrt starfi skólans vegna erlendra verkefna, veittu verðlaununum móttöku í Reykjavík á dögunum og nú var komið að nemendum og öðru starfsfólki að fagna viðurkenningunni með þeim. Ida fór fyrst yfir það með nemendum hvaða þýðingu þessi erlendu verkefni hafa fyrir skólann, hvaða athygli starf skólans á þessum vettvangi hefur vakið og hvernig vinna með heimsmarkmiðin litar allt okkar skólastarf. Hvatti hún nemendur til að nýta sér þau tækifæri sem bjóðast til að taka þátt í erlendum verkefnum meðan þau stunda nám við skólann. Síðan var boðið upp á dýrindis súkkulaðitertu með rjóma og voru henni gerð góð skil.
Verkefnið og verðlaunin hafa vakið verðskuldaða athygli og greinilegur áhugi er á að læra af okkar vinnubrögðum. Ida mun t.d. kynna verkefnið á námskeiði sem kallast Þróunarstarf hjá menntastofnunum hjá menntavísindasviði Háskóla Íslands í nóvember og dagana 8.-9. desember verður verkefnið fulltrúi Íslands á sérstakri verðlaunahátíð sem haldin verður í Brussel.
Eins og sjá má á meðfylgjandi hópmynd bar Erasmus-daginn upp á Bleika daginn þar sem nemendur og starfsfólk mættu í bleiku til að sýna stuðning þeim sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendum þeirra. Myndir
Hér má sjá hvernig unnið er með heimsmarkmiðin í MTR:
https://sites.google.com/mtr.is/mtr-erasmus-heimsmarkmid/heim
Hér er slóð sem sýnir yfirlit yfir erlend verkefni skólans:
https://www.mtr.is/is/skolinn/verkefni