Veraldarvanir og víðsýnir nemendur

Erasmus-dagar 2025 fara fram dagana 13. - 18. október. Tilgangur þeirra er að vekja athygli á Erasmus+ áætluninni og tækifærum hennar og eru styrkhafar hvattir til að deila reynslu sinni. Erasmus+ er styrkjaáætlun ESB fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál árin 2021 - 2027 og mun veita 26 milljarða evra í styrki á þessu tímabili til fjölbreyttra verkefna. Áætlunin styður meðal annars skiptinám, ungmennaskipti, símenntun starfsfólks, notkun upplýsingatækni í kennslu, tungumálanám, fjölbreytt samstarfsverkefni, nýsköpun í kennslufræðum og margt fleira. Ísland tekur þátt í samstarfinu í gegnum EES-samninginn.

Nemendur og starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga hafa sannarlega notið góðs af þessum styrkjum og hafa nýtt þá til fjölda erlendra verkefna. Má segja að vegna styrkjanna séu erlend samskipti eitt einkennismerkja skólans sem setja mark sitt á skólastarfið á hverri önn.

Fyrsta verkefnið sem MTR tók þátt í var strax á þriðja starfsári skólans, haustið 2013. Þá tók skólinn þátt í Comeniusarverkefni, fyrirrennara Erasmus+, með þremur skólum í jafn mörgum löndum; Ítalíu, Spáni og Þýskalandi. Verkefnið snérist um vatn og mikilvægi þess fyrir lífríki og samfélag manna og stóð í tvö ár. MTR leiddi verkefnið og var Inga Eiríksdóttir, stærðfræðikennari, í forsvari fyrir hönd skólans. Verkefnið hófst með heimsókn tuttugu manna hóps nemenda og kennara frá Ítalíu, Spáni og Þýskalandi til Íslands í október 2013. Skipulögð hafði verið þétt og skemmtileg dagskrá sem hófst á leiðsögn í listljósmyndun, farið var í heimsókn í Skeiðsfossvirkjun í Fljótum og borholurnar í Ólafsfirði skoðaðar. Einnig var haldið í Mývatnssveit þar sem hópurinn skoðaði Dimmuborgir, Grjótagjá, hveraröndina við Námaskarð og jarðgufuvirkjunina í Kröflu. Bragðað var á séríslenskum mat, hákarli, slátri, harðfisk, silungi, skyri og fleiri slíkum réttum sem gestunum þótti misjafnlega spennandi en forvitnilegir. Gestirnir voru mjög áhugasamir, tóku mikið af myndum og spurðu margs. Voru þeir hissa á hvað við hefðum mikið vatn, mikið af grænni orku, til húshitunar og annarra þarfa.

Tókust góð kynni meðal nemenda í þessari heimsókn sem voru svo endurnýjuð í næstu heimsóknum til hinna landanna þriggja þar sem margt áhugavert um nýtingu vatns og mikilvægi þess bar fyrir augu. Frá þessu fyrsta verkefni hafa nemendur sem kennarar tekið þátt í ýmsum spennandi verkefnum í fjölda Evrópulanda fyrir tilstilli Erasmus+ áætlunarinnar.

Hér má sjá myndir úr þessu áhugaverða fyrsta verkefni: haust 2013 vor 2014, haust 2014, vor 2015