Fréttir

Gamli og nýi tíminn í ljósmyndun

Mikil áhersla er á skapandi starf í MTR. Bæði á það við um fjölbreytt og skapandi verkefnaskil í öllum námsgreinum en einnig á hinar hefðbundnu skapandi greinar eins og myndlist, tónlist og ljósmyndun. Hægt er að ljúka stúdentsprófi af listabraut með áherslu á fyrrnefndar greinar.
Lesa meira

Mötuneyti nemenda og starfsfólks

Skólahald í MTR fer vel af stað og er að komast í fastar skorður. Á mánudaginn byrjar mötuneytið í skólanum sem í vetur er í samstarfi við Höllina í Ólafsfirði. Matseðillinn fylgir að hluta til matseðlinum hjá Grunnskóla Fjallabyggðar.
Lesa meira

Fyrsti kennsludagur

Á morgun, miðvikudag hefst kennsla í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Ekki verður formleg skólasetning heldur mæta nemendur í skólann samkvæmt stundaskrá. Skólinn býður upp á morgunhressingu og hádegismat fyrir nemendur fyrsta kennsludaginn.
Lesa meira

Vinnudagar í MTR

Í dag og á morgun eru svonefndir vinnudagar í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Þá hittast allir kennarar skólans og ræða um kennsluna og stefnu skólans í ýmsum málum. Þá eru ýmis fræðsluerindi á vinnudögum og að þessu sinni ræðir Ingibjörg Þórðardóttir við starfsfólk um ofbeldi og kynferðisofbeldi með það að markmiði að fólk þekki einkenni ofbeldis og hvernig það getur birst í skólastarfinu. Einnig er rætt um endurmenntun þá sem kennarar hafa stundað í sumar. Í ljós kom að mörg höfðu þeirra hafa hugað að eigin heilsu og vellíðan og safnað kröftum eftir erfiðar annir í heimsfaraldri. Í ljós kom að þrátt fyrir að þrátt fyrir að skólastarfið hafi gengið nokkuð vel í MTR í faraldrinum hefur þessi nýja staða tekið á kennara og starfsfólk. Á komandi önn verður hugað sérstaklega að vellíðan kennara og verður fagfundum kennara varið í það starf. Á myndinni eru Margrét Laxdal, Brigitta Sigurðardóttir, Björk Pálmadóttir, Inga Eiríksdóttir og Guðrún Þorvaldsdóttir. Björk er í nærveru í miðjunni og sr. Bjarni Þorsteinsson fylgist glöggt með á málverki eftir Bergþór Morthens
Lesa meira

Fálkaorða

Í sumar bættist enn ein skrautfjöðurin í hatt Menntaskólans á Tröllaskaga þegar Lára Stefánsdóttir skólameistari var sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Fjórtán hlutu þennan heiður að þessu sinni en athöfnin fór fram á Bessastöðum á þjóðhátíðardaginn, 17. júní. Lára hlýtur riddarakross fyrir frumkvæði og nýsköpun á vettvangi framhaldsskóla. Auk þess að hafa stýrt MTR frá upphafi hefur hún um árabil unnið að innleiðingu upplýsingatækni í skóla á Íslandi og víða erlendis. Lára segist ekki síst eigna starfsfólki skólans fálkaorðuna þó hún hafi verið sú sem nælt hafi verið í á 17. júní. Skólinn hafi á að skipa öflugum kennurum og starfsfólki sem hafi í sameiningu þróað skólann í þá átt sem hann er nú, öflugur tæplega 500 nemenda framhaldsskóli þar sem fjarnám og upplýsingatækni eru í hávegum höfð. Við óskum skólameistaranum og starfsfólkinu öllu hjartanlega til hamingju.
Lesa meira

Komin til starfa

Nú erum við í Menntaskólanum á Tröllaskaga komin aftur til starfa eftir sumarleyfi. Sumarið hefur leikið við okkur hér á norðurslóðum og því má gera ráð fyrir að flestir komi glaðir og úthvíldir til starfa eftir sumarið. Verið er að ganga frá stundatöflum, fara yfir hverjir hafa greitt skólagjöld, afskrá þá sem ekki borguðu og taka inn nemendur af biðlistum ef pláss myndast. Kennarar eru byrjaðir að ræða saman upphaf annar, hugmyndir og viðfangsefni. Öll vonumst við til að skólastarf raskist sem minnst í vetur en allt kemur það í ljós og við tökumst á við þau verkefni sem upp koma með bros á vör.
Lesa meira

Sumarleyfi - innritun í fjarnám lokið

Sumarleyfi á skrifstofu skólans er frá 16. júní til 3. ágúst. Innritun í fjarnám er lokið fyrir haustönn og næst fer innritun fram fyrir vorönn 2022 og hefst hún í byrjun nóvember. Þökkum öllum fyrir frábært samstarf á skólaárinu og hlökkum til að hitta alla í haust.
Lesa meira

Innritun eldri nemenda að ljúka

Innritun eldri nemenda er að mestu lokið, í dag voru sendir út 464 greiðsluseðlar fyrir innritunargjöldum. Innritun nýnema úr grunnskóla fer fram eftir 10. júní. Enn opið fyrir umsóknir í örfá fög fög sem þurfa undanfara sem þarf að gæta að. Nemendur fá höfnun hafi þeir ekki tilskylda undanfara í áfanga. Upplýsingar um áfanga sem samþykktir hafa verið fyrir nemendur má sjá í Innu.
Lesa meira

Brautskráning

Fjörutíu nemendur brautskráðust frá Menntaskólanum á Tröllaskaga í dag. Sextán útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut, þrír af íþrótta- og útivistarbraut, þrír af kjörnámsbraut, fimm af listabraut, myndlistarsviði, tveir af listabraut, listljósmyndunarsviði, tveir af náttúruvísindabraut, sjö af stúdentsbraut að loknu starfsnámi og tveir af starfsbraut. Tuttugu og níu brautskráðra eru fjarnemar og voru ellefu þeirra viðstaddir útskriftarathöfnina. Skólinn hefur starfað í ellefu ár og hafa samtals 388 brautskráðst frá upphafi, flestir af félags- og hugvísindabraut, nær fjörutíu prósent hópsins. Lára Stefánsdóttir, skólameistari hvatti nemendur sem voru að brautskrást til að standa með sjálfum sér - að vera eigin vinur í raun. Hættulegt væri að vera eins og sóðalegt kommentakerfi í eigin garð. Við sitjum uppi með okkur sjálf alla ævi en getum losnað við alla aðra, sagði Lára. Það þarf ögun til að vera glaður með eigið líf og veita okkur sjálfum þann stuðning sem þarf. Við erum ekki að tala um sérhygli, sagði hún, heldur að standa með okkur sjálfum í dagsins önn og öllum helstu verkefnum lífsins. Sigrún Kristjánsdóttir flutti ávarp nýstúdents. Hún sagði að í dag væri mikill hátíðisdagur. Bæði stað- og fjarnemar væru að ljúka námi eftir mislangan námstíma og komið að leiðarlokum. Hún sagðist alltaf hafa átt þann draum að útskrifast úr framhaldsskóla en hefði bara lokið skólaskyldu og svo hafi vinna, fjölskylda og börn tekið við. Hún hafi fyrir nokkrum árum leitað að rétta skólanum, þar sem hægt væri að stunda nám en sleppa við hefðbundin lokapróf. Hún fann MTR og hóf nám haustið 2013 í fjarnámi á listabraut fimmtíu og tveggja ára. Hún sagðist hafa blómstrað í náminu á listabraut og væri nú búin að ná markmiði sínu. Skólinn hefði verið við sitt hæfi og kennarar frábærir. Hún sagði að námið hefði verið fjölbreytt og skemmtilegt og hún væri stolt af hafa nú lokið því. Hún þakkaði Birgittu Sigurðardóttur, umsjónarkennara fjarnema, sérstaklega fyrir að vaka yfir velferð þeirra dag og nætur. Hjá Jónu Vilhelmínu Héðinsdóttur, aðstoðarskólameistara, kom fram að í upphafi skólaársins voru 442 nemendur skráðir í skólann. Í upphafi vorannar voru nemendur 493, þar af 422 í fjarnámi. Af þessum tölum má sjá hversu mikilvægur þáttur fjarnámið er í skólanum og í raun gerir það okkur kleift að halda uppi námsframboði fyrir staðnemendur af svæðinu. Meira en helmingur fjarnema býr á höfuðborgarsvæðinu. Starfsmenn skólans á vorönn voru 28. Faraldurinn og samkomubann höfðu að sjálfsögðu mikil áhrif á skólastarfið í vetur. Framan af hausti gátu nemendur mætt í skólann með ákveðnum takmörkunum en seinni hluta haustannar var eingöngu fjarkennt. Á vorönn var unnt að halda uppi staðkennslu innan þess ramma sem sóttvarnareglur leyfðu. Nemendur og starfsfólk hafa staðið sig gríðarlega vel og samkvæmt könnunum hefur flestum liðið nokkuð vel miðað við aðstæður. Það hefur enn og aftur sannað sig að í MTR er hugsað í lausnum. Í þriðja sinn er til dæmis sýning á verkum nemenda í annarlok rafræn og öllum opin. Þá héldu nemendur í skapandi tónlist glæsilega fjáröflunartónleika fyrir jól sem sendir voru út beint á netinu. Hluti sama hóps gerði sér lítið fyrir og vann söngkeppni framhaldsskólanna í lok september. Starfsmenn skólans hafa verið duglegir að taka þátt í erlendum verkefnum. Eins og gefur að skilja hafa samskiptin í slíkum verkefnum takmarkast við netsamskipti í vetur. En vonandi verður brátt breyting á og þá höldum við ótrauð áfram, því við teljum slík verkefni ákaflega gefandi og lærdómsrík og höfum verið svo heppin að fá marga styrki sem sótt hefur verið um. Skólinn hefur nú fengið staðfestingu sem Erasmus-skóli og auðveldar það allt starf á þeim vettvangi. Í skólanum er unnið ötullega að umhverfismálum og hefur skólinn tekið þátt í verkefninu „Græn skref í ríkisrekstri“ og hefur nú, annar af tveimur skólum, lokið við að uppfylla öll skrefin fimm. Eins og áður er umtalsverð þróun í gangi og hefur skólinn fyrir löngu skapað sér sérstöðu á sviði fjarkennslu og í notkun upplýsingatækni í skólastarfi og henta kennsluaðferðir skólans þar mjög vel. Kennslufyrirkomulag skólans kom sér margoft einstaklega vel síðustu tvo vetur og hefur svo sannarlega sannað sig. Starfsemi skólans hefur hlotið margs konar viðurkenningu og má nefna að á haustdögum var skólinn tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna og var það okkur mikill heiður. Lísebet Hauksdóttir og Þórarinn Hannesson, kennarar við skólann glöddu viðstadda með tónlistarflutningi við útskriftarathöfnina. Þau fluttu lögin Kvöldsigling eftir Gísla Helgason og Jón Sigurðsson og Þannig týnist tíminn eftir Bjartmar Guðlaugsson.
Lesa meira

Vorsýning 2021

Vorsýning nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga er þetta árið í stafrænu formi. Hún verður opnuð laugardaginn 15. maí kl. 8:00. Hér er slóð á sýninguna: https://www.mtr.is/syningar/vor-2021 Best virkar að skoða hana í Google chrome vafranum. Í apple tölvum þarf að nota Safari vafran, í símum og spjaldtölvum þarf að hlaða inn artsteps appinu. Sýningin endurspeglar vel einkunnarorð skólans: Frumkvæði - Sköpun – Áræði. Hún er á vefnum Artsteps sem er stafrænt sýningarrrými. Þar má sjá verk úr myndlistaráföngum, ljósmyndaáföngum og fleiri áföngum. Hlekkir eru á vefsíðunni sem veita aðgang að verkum nemenda úr ýmsum öðrum áföngum. Sýningin endurspeglar vel kraftmikið og skapandi starf á önninni. Sýningarstjóri er Bergþór Morthens, myndlistarkennari. Aðstoðarmaður hans við uppsetninguna var Gísli Kristinsson, kerfisstjóri. Sigurður Mar Halldórsson sá um uppsetningu á ljósmyndarými.
Lesa meira