26.03.2024
Kennarar og annað starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga leggur sig fram um að vera framarlega í upplýsingatækni, nú sem endranær. Undanfarið hefur athygli flestra verið á gervigreind þar sem hún verður sífellt meira áberandi og snertir líf okkar á fleiri vegu en flestir gera sér grein fyrir. Í samfélagi sem verður sífellt sjálfvirknivæddara og tæknilegra er mikilvægt að vita hvað gervigreind er og gera sér grein fyrir möguleikum hennar og takmörkunum.
Til þess að kafa í þessi mál tekur skólinn m.a. þátt í Evrópusamstarfsverkefni með fyrirtækinu Affekta og ýmsum evrópskum skólum þar af nokkrum hérlendum framhaldsskólum og háskólum. Affekta býður upp á námskeið um gervigreind og fjórðu iðnbyltinguna. Hluti verkefnisins er rannsókn þar sem nemendur kynna sér námsefni Affekta og á sama tíma eru þeir að taka þátt í rannsókn á athygli nemenda á skjánum, svo segja má að nemendur læri um gervigreind á sama tíma og gervigreindin lærir á þá.
Þrír starfsmenn fóru einnig á námskeið í Dublin, í febrúar sl., þar sem allt snerist um gervigreind. Þar var fjallað um ýmis álitamál sem tengjast notkun og þróun gervigreindar og þátttakendur fengu að spreyta sig á ýmsum tólum sem byggja á gervigreind og nýta má í kennslu. Var það mjög áhugavert.
Gervigreindin er þegar farin að hafa áhrif á nám og kennslu. Á þessari önn hafa kennarar lagt fyrir ýmiskonar verkefni þar sem gervigreind skal notuð. Eru þessi verkefni ætluð til að nemendur átti sig á möguleikum gervigreindarinnar í dag en einnig á vanköntum hennar. Auk þessara verkefna hefur áfangi um samfélagsleg áhrif gervigreindar verið í þróun á önninni. Þar kafa nemendur dýpra í efnið og takast á við siðferðislegar vangaveltur sem upp koma í tengslum við gervigreind og hugsanleg áhrif hennar á samfélagið í framtíðinni.
Lesa meira
22.03.2024
Menntaskólinn á Tröllaskaga er UNESCO-skóli og tekur sem slíkur þátt í nokkrum þeirra daga sem Sameinuðu þjóðirnar tileinka ákveðnum málefnum. Í síðustu viku var m.a.alþjóða hamingjudagurinn en hann er haldinn 20. mars ár hvert. Dagurinn var fyrst haldinn árið 2013 með það að markmiði að vekja athygli á hamingju og vellíðan sem mikilvægu markmiði fyrir einstaklinga og stjórnvöld um heim allan. Ýmsir viðburðir eru skipulagðir þennan dag til að vekja áhuga á mikilvægi hamingjunnar og niðurstaða skýrslu um hamingju þjóða í heiminum “World Happiness Report” er kynnt. Ísland hefur verið meðal efstu þjóða þar síðustu ár og varð í þriðja sæti árið 2023.
Lesa meira
21.03.2024
Búið er að fella niður skólaakstur frá Siglufirði. Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur ákveðið að fella niður staðbundna kennslu fimmtudaginn 21. mars vegna veðurs. Nemendur mæta í fjarkennslustofur samkvæmt stundaskrá
Lesa meira
19.03.2024
Á dögunum dvaldi Ida Semey, kennari við MTR, í framhaldsskólanum IES Andreu Sempere í Alcoi á Spáni í nokkra daga og fylgdist þar með skólastarfi og kennslu. Skólarnir tveir, MTR og IES Andreu Sempere, eiga margt sameiginlegt eru t.d. báðir Erasmus og UNESCO skólar og var dvöl Idu styrkt af Erasmus+ áætluninni. Þetta er hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem skólarnir eiga í samstarfi því vorið 2023 heimsótti starfsfólk MTR spænska skólann í námsferð sinni til Alicante og von er á nokkrum nemendum frá IES Andreu Sempere í heimsókn til Ólafsfjarðar í næsta mánuði. Munu þeir kynnast skólastarfinu í MTR og dvelja hjá nemendum skólans á meðan á heimsókninni stendur. Ida fundaði með þessum nemendum og kennara þeirra og fór yfir dagskrána sem nemendur í umhverfis áfanga MTR hafa útbúið vegna heimsóknarinnar. Áherslan er á að skoða hvernig skólarnir vinna sem UNESCO skólar, hvað nemendur þeirra geta lært hverjir af öðrum og hvernig samstarfsverkefni skólarnir geta unnið saman í framtíðinni. Auk þess munu nemendur kynna sér hvaða menningar- og náttúrustaðir í löndunum tveimur eru á Heimsminjaskrá UNESCO.
Lesa meira
14.03.2024
Sjónlistadagurinn er samnorrænn myndlistardagur barna og ungmenna sem haldin er hátíðlegur ár hvert ellefta miðvikudag ársins. Dagurinn þjónar þeim tilgangi að sýna fjölbreytileika myndmenntarkennslu og vekja athygli á mikilvægi tjáningar barna- og ungmenna og möguleika sjónlistagreina í þeim efnum. Markmiðið er að dagurinn sé haldinn ár hvert á öllum Norðurlöndunum í skólum, söfnum og stofnunum. Öllum sem kenna eða fást við myndlist fyrir börn og ungmenni er boðið að fagna Sjónlistadeginum.
Á Íslandi er það Félag íslenskra myndlistarkennara sem heldur utan um framkvæmd verkefnisins og sífellt fleiri skólar hafa bæst í hópinn á síðustu árum. Þema dagsins þetta árið var fjaðrir og þau hughrif sem þær geta vakið. Í MTR voru útprentaðar fjaðrir litaðar og skreyttar með ýmsum hætti, jafnt af nemendum sem kennurum. Fjaðrirnar voru síðan settar saman í krans og mynda nú veggverk í skólanum.
Lesa meira
13.03.2024
Ástráður er kynfræðslufélag sem rekið er af læknanemum við Háskóla Íslands og var stofnað árið 2000. Markmið félagsins er að fræða ungmenni landsins um kynlíf, kynheilbrigði og samskipti. Ár hvert heimsækja fulltrúar þess alla framhaldsskóla landsins og halda fyrirlestra fyrir fyrsta árs nemendur. Í gær komu fulltrúar frá Ástráði í skólann til okkar og áttu gott spjall við þá nýnema sem voru í húsi. Nemendur voru opnir og hispurslausir, spurðu um það sem þeim lá á hjarta og fengu greinargóð svör frá læknanemunum.
Félagið heldur einnig úti heimasíðunni astradur.is þar sem ýmis konar fræðsluefni sem tengist málaflokknum er aðgengilegt
Lesa meira
11.03.2024
FRÍS kallast rafíþróttakeppni íslenskra framhaldsskóla og var hún haldin í fyrsta sinn vorið 2021. Í ár taka 13 skólar þátt og er keppt í þremur tölvuleikjum eins og venjan er. Leikirnir að þessu sinni eru Counter-Strike 2, Rocket League og Valorant. Keppnin hófst í lok janúar með deildarkeppni í hverjum leik og að þeim loknum var ljóst hvaða skólar kæmust í 8 liða úrslit. Þær viðureignir sem eftir eru eru í beinni útsendingu á sjónvarpsrásinni Stöð 2 eSport hvert miðvikudagskvöld næstu vikurnar. Fyrsta viðureign í 8 liða úrslitum var 6. mars og okkar menn mæta Fjölbrautaskóla Garðabæjar þann 27. mars. Þá kemur í ljós hvort þeir komast áfram í undanúrslit.
Lið MTR skipa Björn Ægir, Hlynur Snær, Ingólfur Gylfi, Jason Karl, Jóhann Auðunsson, Kristján Már, Skarphéðinn Þór, Viktor Smári og Viljar Þór og hafa þeir flestir tekið áfanga í rafíþróttum við skólann undanfarnar annir.
Lesa meira
05.03.2024
Menntaskólinn á Tröllaskaga er Heilsueflandi framhaldsskóli og hefur sett sér metnaðarfulla heilsu- og forvarnarstefnu sem miðar að því að bæta heilsu og líðan allra þeirra sem starfa og nema við skólann. Lögð er áhersla á heilbrigða lífshætti sem leiða til sjálfsvirðingar, sjálfsstjórnar og jákvæðrar lífsýnar og að hvetja nemendur og starfsfólk til virkrar þátttöku.
Undanfarin ár hefur starfsfólk skólans tekið þátt í vinnustaðakeppni Lífshlaupsins, heilsu- og hvatningarverkefni Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, og er það liður í að auka daglega hreyfingu þeirra sem starfa við skólann. Í Lífshlaupinu eru landsmenn allir hvattir til þess að huga að sinni daglegu hreyfingu og auka hana eins og kostur er hvort sem er í frítíma, vinnu, skóla eða við val á ferðamáta.
Vinnustaðakeppnin stóð í þrjár vikur, frá 7. - 27. febrúar, og var MTR í flokki vinnustaða með 10 - 29 starfsmenn. Starfsmannahópurinn hefur smám saman fikrað sig upp á við milli ára og endaði nú í 44. sæti af um 140 vinnustöðum sem tóku þátt í þessum flokki. Þátttökuhlutfall innan skólans var 63% og fer vaxandi. Starfsfólk MTR stundar greinilega fjölbreytta hreyfingu því alls voru um 30 tegundir hreyfingar skráðar. Ganga var mest stunduð, síðan komu skíðin, þá sund og síðan líkamsrækt, crossfit og yoga.
Lesa meira
01.03.2024
Á miðri önn er skólastarf brotið upp, kennarar sinna námsmati og staðnemar sitja tveggja eininga áfanga, fjarnemum stendur það einnig til boða ef þeir hafa tök á. Leitast er við að hafa þessa áfanga fjölbreytta og þykir nemendum ekki verra ef hreyfing kemur við sögu. Að þessu sinni er boðið upp á áfanga sem kallast Heilsa og markþjálfun og sjá þær nöfnur Sólveig Anna Brynjudóttir, einkaþjálfari, og Sólveig Helgadóttir, markþjálfi, um kennslu auk þess sem Snjólaug Kristinsdóttir kynnir nemendum Tabata yoga og Diljá Helgadóttir yin yoga.
Markmið áfangans er að efla og styrkja vitund þátttakenda á alhliða heilsusamlegu líferni og gera sér grein fyrir eigin ábyrgð í þeim efnum. Áfanganum er skipt í fyrirlestra og verklegar æfingar og hafa nemendur verið mjög áhugasamir og tekið virkan þátt. Vel var tekið á því í crossfit, útivera hefur verið stunduð af kappi og svo slakað á í sundi. Nemendur hafa einnig skoðað sína styrkleika, lært hvernig á að setja sér markmið og hvernig á að vinna að þeim auk þess sem mataræði hefur verið skoðað.
Lesa meira
26.02.2024
Þrír kennarar frá MTR tóku þátt í námskeiði á Lanzarote, austustu eyju Kanaríeyja, í síðustu viku. Námskeiðið kallaðist ART AND NATURE FACING THE CHALLENGE OF SUSTAINABILITY, sem mætti þýða sem Listir og náttúra mæta áskorun um sjálfbærni. Námskeiðið var sérstaklega hannað handa hópi kennara úr fjórum framhaldsskólum á Íslandi: FB, FSN, MTR og Verzló og styrkt af Erasmus+ áætluninni. Endurmenntunarstofnun kennara á Lanzarote, CEP, sá um skipulagningu þess og naut íslenski hópurinn sérstakrar gestrisni fulltrúa þeirra sem og sveitarfélags svæðisins.
Lesa meira