Fréttir

Skreytilist eða hannyrðapönk

Áfanginn heitir skapandi hannyrðir og er kenndur í fyrsta sinn nú á vorönninni. Nemendur kynnast mismunandi aðferðum við hannyrðir, svo sem prjóni, hekli, útsaum og hnýtingum. Þetta upplegg heillar stúlkur en pilta síður að því er virðist. Áfanginn er á fyrsta þrepi, blandaður hópur með nemendum MTR og Grunnskóla Fjallabyggðar. Sköpunin getur farið fram á ýmsum vettvangi, inni eða úti. Fyrir viku saumuðu nemendur í girðinguna við sundlaugina í Ólafsfirði. Mjög skapandi að fara eins langt út fyrir kassann og við getum og oft er engin verklýsing. Þeir sem sjá verkin vita ekki endilega hvað verið er að fara en við sem unnum verkin vitum það, segir Steinunn Ósk Ólafsdóttir. Við notum Pinterest síðuna mikið til að fá hugmyndir en best er þó að fá þær sjálfur. Stundum verða þær líka til í hópnum á meðan við erum að vinna, segir Steinunn Ósk. Kennari í áfanganum er Karólína Baldvinsdóttir.
Lesa meira

Ævintýri á Ítalíu

Sjálfbærni og valdefling ungs fólks til atvinnusköpunar er þema Erasmusverkefnis sem MTR hefur tekið þátt í og lýkur á Ítalíu í næstu viku. Verkefnið tók tvö ár og er þema þess að finna leiðir til að efla nemendur til að takast á við framtíðina í hörðum heimi. Allir þátttakendur eru af landsbyggðinni í heimalöndum sínum og munu ef að líkum lætur þurfa að skapa eigin tækifæri til framfærslu í heimabyggð. Vinnan tengist meðal annars vistvænni ferðaþjónustu, listum og íþróttum. Samstarfsskólarnir eru á Lanzarote, einni Kanaríeyjanna og á Ítalíu. Heimsókn ítölsku og íslensku nemanna til Lanzarote í febrúar í fyrra tókst með miklum ágætum og í haust dvöldu hópar frá samstarfsskólunum hér á Tröllaskaga. Um helgina kynnti íslenski hópurinn sér sögu Rómar, skoðaði ýmsar menningarminjar og fylgdist með mannlífinu. Ellefu nemendur og tveir starfsmenn eru í ferðinni. MTR-nemar söfnuðu fyrir aukadvöl í Róm með því að þrífa bifreiðar. Þau kynntu spænskum og ítölskum félögum sínum hugmynd að bifreiðaþvottafyrirtæki sem hægt væri að stofna og reka á Tröllaskaga.
Lesa meira

Gjöf til Idolstjörnu

Tíðkast hefur um aldir að norrænir menn sigli til Miklagarðs og sæki þangað litskrúðug klæði og aðrar gersemar. Fimm nemendur og tveir kennarar sem nýlega tókust á hendur slíka ferð héldu hinn forna sið í heiðri. Heim komin afhentu þau okkar skærustu Idolstjörnu, Lísebet Hauksdóttur, hljóðnema við hæfi. Hann er þráðlaus, búinn ýmsum töfrum og skreyttur gimsteinum. Litbrigðin eru frá bleiku yfir í purpura og hæfa litatónum búninga stjörnunnar.
Lesa meira

Fræðslufundur um fíkniefni og fíkniefnaneyslu 29. apríl nk. í Tjarnarborg

Mánudaginn 29. april 2019 verður fíkniefnafræðsla í Tjarnarborg. Fræðslufundurinn hefst kl. 19:30. Fræðslan er í samvinnu við Lögregluna á Norðurlandi eystra, Grunnskóla Fjallabyggðar og Menntaskólann á Tröllaskaga. Tveir fulltrúar fíkniefnateymis lögreglunnar koma á fundinn og fræða fundarmenn um ýmislegt varðandi fíkniefni og fíkniefnaneyslu svo sem aðgengi, einkenni og ýmislegt annað. Haustið 2016 var haldinn vel heppnaður fundur í Tjarnarborg með sömu aðilum og nú endurtökum við leikinn. Fundurinn er öllum opinn og eru foreldrar grunn- og framhaldsskólanemenda sérstakalega hvattir til að koma. Málið varðar okkur öll. Fulltúar sveitarstjórnar, heilbrigðisstofnunar, félagsþjónustu og hverjir þeir sem tilbúnir eru til að leggja hönd á plóginn eru hvattir til að koma á fundinn. Tökum samtalið um þennan vágest í samfélagi okkar - sjáumst mánudagskvöldið 29. apríl kl. 19.30 í Tjarnarborg Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála. Grunnskóli Fjallabyggðar og Menntaskólinn á Tröllaskaga.
Lesa meira

Páskaleyfi

Skrifstofa skólans er lokuð frá 15. - 26. apríl. Gleðilega páska.
Lesa meira

Skittlestölfræði

Í þessari viku líta nemendur í tölfræði upp úr kennslubókunum og skoða Skittlestölfræði. Verkefninu er ætlað að setja námsefnið, þ.e. tölfræðina, í aðeins skemmtilegra samhengi. Hvort það hefur tekist skal ósagt látið. Mörgum nemendum hefur reynst erfitt að sleppa alveg bókinni og vera sjálfstæð í dæmagerð og útreikningum. Ingu kennara hefur hins vegar fundist þetta mjög „gefandi“ enda mikið af Skittles í boði.
Lesa meira

Tyrklandsfarar í góðu yfirlæti

Sjö manna hópur úr MTR dvelur þessa viku í góðu yfirlæti í Istanbúl. Tilgangur ferðarinnar er að heimsækja Ömer Cam drengjaskólann í Asíuhluta borgarinnar. Einnig hefur hópurinn farið í skoðunarferðir, m.a. í gömlu Istanbúl og til borgarinnar Bursa í Anatólíu. Á morgun verður siglt um Bosporussundið milli Marmarahafs og Svartahafs og á laugardag heldur hópurinn heim með nýja reynslu í farteskinu.
Lesa meira

Stærðfræði í skapandi leik

Mælieiningar er nokkuð sem mikilvægt er að skilja og kunna að nota. Nemendur á starfsbraut æfðu sig á þessu í stærðfræðitíma í gær. Meðal annars með því að raða kubbum hverjum ofan á annan og hækka þannig turninn smám saman. Þetta gekk vel en þegar hann var orðinn 2,95 m. hrundi hann. Það vantaði aðeins 5 sm upp á að ná þremur metrum. Í þessu verkefni reyndi á grunnþáttinn sköpun í leik sem nemendur höfðu ánægju af og kepptust við að ná sem lengst í. Kennari í stærðfræðinni er Hólmar Hákon Óðinsson.
Lesa meira

Vetrarútilega

Hópur nemenda í áföngum um útivist í snjó og vetarfjallamennsku lá úti í Héðinsfirði um síðustu helgi. Í þessum hluta af náminu er tekist á við ýmsar áskoranir. Að þessu sinni varð hópurinn frá að hverfa í fyrstu tilraun vegna óveðurs. Allir voru komnir á upphafspunkt í Héðinsfirði þegar skall á stórhríð og ekki var annað að gera en fara heim. Daginn eftir var komið besta veður og var lagt af stað síðdegis. Gengið var í tvær og hálfa klukkustund niður að Vík með búnað á bakinu. Þar var tjaldað, kveiktur varðeldur, eldað og ýmis verkefni leyst. Nokkurt frost var um nóttina en hlýnaði með morgninum. Sumum var kalt en engum varð meint af og komu allir glaðir og heilir heim um miðan dag á sunnudag. Fjórum amerískum görpum á fjallaskíðum sem hópurinn hitti á heimleiðinni, þótti þetta áhugavert nám við einstakar aðstæður. Kennarar með hópnum voru Gestur Hansson og Kristín Guðmundsdóttir.
Lesa meira

Enskuspjall við Sikileyinga

Tryggvi Hrólfsson, enskukennari í MTR hefur skipulagt samstarfsverkefni með kunningja sínum Anthony M. La Pusata, enskukennara í E. Majorana skólanum á Sikiley. Verkefnið snýst um að nemendur þar og hér ræði saman á enskri tungu í nokkrum kennslustundum. Í upphafi komu ítölsku nemarnir í heimsókn í nærverunum og skoðuðu skólann. Síðar í vikunni koma þau aftur í kennslustund og hugmyndin er að staðnemar spjalli við þau í litlum hópum eða maður við mann án þess að kennararnir séu að skipta sér af. Tilgangurinn er að æfa eðlilegt samtal á ensku og að nemendur kynnist menningu og lífsháttum hver hjá öðrum. La Pusata er Breti en hann og Tryggvi kynntust í erlendu samstarfsverkefni á síðasta ári.
Lesa meira