08.11.2023
Í síðustu viku var Hrekkjavökunni fagnað hjá nemendafélagi skólans með hryllilegri samkomu í skólanum. Salur skólans var skreyttur hátt og lágt með graskerjum og viðeigandi verum og vefjum. Hryllingsmynd rúllaði á skjánum og nemendur klæddust ýmsum búningum í anda dagsins. Skemmtu allir sér hið besta.
Það sem af er hausti hefur nemendafélagið Trölli staðið fyrir mörgum viðburðum. Gleðin hófst með nýnemadeginum þar sem farið var í ratleik um Ólafsfjörð, spilaður fótbolti og svamlað í sundlauginni og heitu pottunum. Síðan var haldið spilakvöld þar sem ýmis borðspil voru leikin og tvö lan-kvöld hafa verið haldin þar sem tölvuleikir áttu sviðið. Ekki má gleyma hinum vinsælu þemadögum en alla miðvikudaga mæta nemendur í skólann klæddir eftir mismunandi þemum og starfsfólkið tekur einnig virkan þátt. Undirbúningur fyrir jólakvöldið í desember er einnig hafin hjá nemendafélaginu en sá viðburður er sá stærsti á önninni í félagslífinu.
Nemendaráði til halds og trausts við skipulag þessara viðburða er Hólmar Hákon Óðinsson, en rík áhersla er þó lögð á frumkvæði nemendanna sjálfra við hugmyndavinnu og framkvæmd.
Lesa meira
01.11.2023
Innritun í fjarnám stendur nú yfir fyrir vorönn 2024. Vinsamlegast skráið umsóknir í gegnum heimasíðu skólans.
Lesa meira
30.10.2023
Í síðustu viku kom slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Fjallabyggðar í skólann og hélt kynningu fyrir nemendur og starfsfólk á viðbragðsáætlunum sem til staðar eru fyrir skólann sem og viðbrögðum við eldsvoða. Í kjölfar kynningarinnar og umræðna um efni hennar var æfð skyndirýming í skólahúsnæðinu með starfsfólki og nemendum þar sem ýmsir neyðarútgangar voru notaðir. Að lokinni rýmingu var farið yfir hvernig hún gekk fyrir sig með gagnrýnum augum og hugað að því sem betur mátti fara. Starfsfólkið fékk svo leiðsögn í notkun slökkvitækja og eldvarnarteppa og fékk tækifæri til að æfa sig á réttu handtökunum.
Viðbragðsáætlun skólans og viðbragðsleiðbeiningar má sjá á þessari slóð:
https://www.mtr.is/is/skolinn/aaetlanir-og-stefnur
Lesa meira
25.10.2023
Þegar Menntaskólinn á Tröllaskaga var stofnaður haustið 2010 voru starfsmenn 9 og nemendur voru 72 á fyrstu önn. Þó ekki séu nema rúm 13 ár frá þeim merku tímamótum að fá framhaldsskóla í sveitarfélagið þá hefur mikið vatn runnið til sjávar frá fyrstu dögunum. Skólastarfið hefur þróast ár frá ári og fjöldi starfsfólks og nemenda vaxið hröðum skrefum. Nemendur eru nú rúmlega 500 og starfsmannahópurinn telur 28 manns.
Útkoma úr valinu á Stofnun ársins meðal ríkisstofnanna sýnir að MTR er sérlega góður vinnustaður því þar hefur skólinn verið í efstu sætum undanfarin 9 ár. Í könnuninni sem liggur til grundvallar valinu er spurt um starfsánægju, starfsaðstæður og kjör hjá stofnunum ríkis og sveitarfélaga og sjálfseignarstofnunum. Niðurstöður sýna að starfsandi er mjög góður og starfsmannavelta hefur verið með minnsta móti. Einhverjar breytingar verða þó á hverju skólaári og í upphafi þessa skólaárs barst okkur góður liðsauki; nýr kennari, sem leysir af annan í námsleyfi, og nýr fjármálastjóri.
Inga Þórunn Waage er nýr kennari við skólann og kennir hún ensku og mannkynssögu. Hún lauk kennsluréttindum frá Háskólanum á Akureyri vorið 2022 og var í æfingakennslu hjá okkur í MTR í námi sínu. Inga Þórunn er fædd í Reykjavík og tók stúdentspróf af nýmálabraut frá Menntaskólann í Reykjavík. Eftir það lá leiðin til Ástralíu þar sem hún sótti sér diplómu í ljósmyndun áður en hélt aftur á heimaslóðir og lauk BA í ensku við Háskóla Íslands. Eftir BA námið flutti hún til Berlínar og nam enskar bókmenntir, menningu og miðlun við Humboldt Univerität zu Berlin. Eftir að meistaranámi lauk vann hún í Berlín og Barselóna í nokkur ár við þýðingar, kennslu og textasmíðar. Færði sig svo um set og hóf störf hjá hugbúnaðarfyrirtækinu GODO í Reykjavík og vann þar til 2019. Þá söðlaði hún enn um og flutti norður á Siglufjörð með fjölskylduna og hóf störf hjá Síldarminjasafni Íslands þar sem hún vann við varðveislu og miðlun þar til hún hóf störf hjá okkur í haust.
Nýr fjármálastjóri er Elsa Guðrún Jónsdóttir sem er fædd og uppalin á Ólafsfirði. Hún lauk stúdentsprófi frá skíðamenntaskólanum í Geilo í Noregi. Þá lá leiðin í Háskólann á Bifröst þar sem hún lauk BS í viðskiptalögfræði og meistaraprófi í lögfræði. Síðan hefur hún bætt við sig vottun frá Háskólanum í Reykjavík sem fjármálaráðgjafi og tekið styttra nám um mannlega millistjórnandann. Menntunarþörfin er enn til staðar og er hún nú skráð í nám í menntunarfræðum við Háskóla Íslands. Elsa starfaði síðustu ár sem fjármálaráðgjafi og útibússtjóri í Arion banka og öðlaðist þar mikla reynslu af skjalavörslu og öðrum verkefnum sem nýtast henni vel í nýju starfi. Elsa Guðrún er margfaldur Íslandsmeistari í skíðagöngu og var fyrsta konan sem keppti á Ólympíuleikum fyrir Íslands hönd í þeirri grein.
Lesa meira
23.10.2023
Menntaskólinn á Tröllaskaga er heilsueflandi framhaldsskóli og leitar ýmissa leiða til að huga að jafnt andlegri- sem líkamlegri heilsu nemenda sem starfsfólks. Fastur liður í forvarnarstarfi skólans er þátttaka í Forvarnardeginum en þá er sjónum sérstaklega beint að ungmennum í 9. bekk og á fyrsta ári í framhaldsskóla. Að Forvarnardeginum standa embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og ólympíusamband Íslands, Skátarnir, Ungmennafélag Íslands, Rannsóknir og greining, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Samfés og Heimili og skóli, auk embættis landlæknis sem fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins.
Í tilefni dagsins fengu nýnemar í MTR kynningu á góðum árangri í forvarnarmálum á Íslandi sem lýsir sér m.a. í minnkandi áfengisneyslu og reykingum meðal ungs fólks. Nýjar áskoranir, s.s. neysla orkudrykkja, notkun nikótínpúða og of lítill svefn ungmenna, voru einnig ræddar. Auk þess var fjallað um verndandi þætti gegn áhættuhegðun. Þeir þættir eru samvera með fjölskyldu, þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og að leyfa heilanum að þroskast. Nýnemarnir tóku að því loknu þátt í hópavinnu og umræðum um þessi efni og skráðu og skiluðu inn hugmyndum sínum á vef forvarnardagsins. Svörum allra skóla sem taka þátt er safnað þar saman til að finna samnefnara í umræðum nýnema og eru niðurstöðurnar nýttar í áframhaldandi forvarnarvinnu.
Á síðunni https://www.forvarnardagur.is/ er hægt að finna ýmis konar fræðslu og upplýsingar sem foreldrar eru hvattir til að kynna sér.
Lesa meira
19.10.2023
Listamaður mánaðarins er fyrrverandi nemandi skólans, Atli Tómasson. Í miðrými skólans, Hrafnavogum, eru nú til sýnis ýmis portrettverk sem hann hefur málað að undanförnu. Hugmyndin á bak við verkin á rætur sínar að rekja til súrrealisma og expressjónisma þar sem listamaðurinn reynir að fanga ákveðnar tilfinningar og hughrif með aðferð sem kallast automatic drawing. Þar reynir listamaðurinn að láta undirmeðvitundina ráða ferðinni eins og kostur er.
Atli er Ólafsfirðingur en býr nú og starfar á Akureyri. Hann útskrifaðist af listabraut Menntaskólans á Tröllaskaga, myndlistar- og listljósmyndunarsviði, árið 2013 og hélt svo áfram námi í fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri þaðan sem hann útskrifaðist vorið 2017. Atli hélt einkasýningu í Kaktus á Akureyri árið 2018 og tók þátt í samsýningunni Salon Des Refuses í Deiglunni á Akureyri árið 2023.
Listamaður mánaðarins er sýningarröð sem féll niður á meðan heimsfaraldurinn gekk yfir en er nú komin af stað á ný. Er öllum velkomið að líta inn í skólann og njóta sýningarinnar.
Lesa meira
16.10.2023
Í miðannarvikunni var áfangi í skapandi tónlist fyrir þá nemendur skólans sem ekki fóru til Kaupmannahafnar að taka þátt í verkefninu sem segir frá í síðustu frétt okkar. Í áfanganum var farið yfir ýmsa þætti sem tengjast tónlist, s.s. hópsöng, laga- og textasmíði, framkomu, skífuþeytingar, líkamsstöðu og öndun í söng o.fl. Kennari var Katrín Ýr Óskarsdóttir sem starfar sem söngkona í London og kennir raddbeitingu við Háskólann í vestur London.
Lesa meira
13.10.2023
Einn af nyjum áföngum þessarar annar kallast Erlent verkefni, Ísland, Danmörk, fjölmenning. Í áfanganum er fjallað um sögulegt samband Íslands og Danmerkur sem og alþjóðasamvinnu. Þungamiðja áfangans er ferð til Kaupmannahafnar sem farin var nú í miðannarvikunni, er hún styrkt af Erasmus+. Þangað fóru 13 nemendur og þrír kennarar. Fyrri hluta annarinnar var ferðin undirbúin og seinni hluti annarinnar fer í að vinna úr þeirri vitneskju og reynslu sem nemendur öðluðust í ferðinni.
Lesa meira
10.10.2023
Í síðustu viku var óvenju fjölmennt og fjörlegt hjá okkur í skólanum. Í heimsókn var 30 manna hópur nemenda og kennara úr skólum frá Spáni, Portúgal og Króatíu.
Þessir skólar eru í samstarfi við MTR í verkefni sem kallast "Becoming a Biomaker School". Snýst það um þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem lúta að umhverfi og sjálfbærni og er Erasmus+ verkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu. Vinnan í verkefninu þessa viku í MTR var mjög fjölbreytt. Unnið var með heimsmarkmiðin og þau tengd við þá grænfánavinnu sem fer fram í skólanum.
Lesa meira
03.10.2023
Þessa viku er fjölmennt í skólanum. Í heimsókn eru nemendur og kennarar úr skólum frá Spáni, Portúgal og Króatíu, samtals um 30 manns. Þessir skólar eru í samstarfi við MTR í verkefni sem kallast "Becoming a Biomaker School". Snýst það um þau heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem lúta að umhverfi og sjálfbærni og er Erasmus+ verkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu. Verkefnið hófst formlega í Lissabon í Portúgal í lok síðustu annar þar sem fulltrúar spænska skólans og 14 manna hópur frá MTR sótti portúgalska skólann heim en Króatarnir tóku þátt með rafrænum hætti í það skipti.
Lesa meira