Fréttir

Fjör á fjölskyldudegi

Menntaskólinn býður fólk velkomið á opinn fjölskyldudag, í samvinnu við Rótarýklúbb Ólafsfjarðar, laugardaginn 23. febrúar. Í skólanum verður hægt að kynnast ýmsum tækjum og tækni, til dæmis sýndarveruleika, nærverum, laserskera og þrívíddarprentara. Hægt verður að fá myndir af sér á skemmtilegum bakgrunni og taka þátt í „google home“ spurningakeppni. Á opnum Rótarýfundi verður hreyfingin og samfélagsverkefni hennar kynnt. Meðal annars framlag hennar til útrýmingar lömunarveiki og fjárstyrkir til samfélagsverkefna í Ólafsfirði. Nemendur Tónlistarskólans á Tröllaskaga sjá um tónlistarflutning. Húsið verður opnað klukkan 13:30 og það verður heitt á könnunni og ástarpungar hjá Björgu.
Lesa meira

Listaverk á hurð

Fjölskylda Guðmundar Guðmundssonar hefur fært skólanum að gjöf listaverk sem hann málaði á herbergishurðina sína. Þema verksins er áróður gegn reykingum. Guðmundur fórst í bílsysi í Ólafsfjarðarmúla ásamt föður sínum árið 1979 aðeins nítján ára að aldri. Hann og skólafélagar hans í Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar máluðu árið 1974 mynd af landnámi Ólafsfjarðar sem hefur verið til prýði í skólahúsinu síðan. Æskuheimili Guðmundar var selt nýlega og vildi hans fólk ráðstafa hurðinni og koma henni á stað þar sem fólk gæti notið verksins. Stjórnendum MTR þótt vel við hæfi að varðveita hana hér í skólahúsinu.
Lesa meira

Kynfræðsla

Góður rómur var gerður að fræðsluerindi Siggu Daggar, kynfræðings í skólanum í upphafi vikunnar. Erindið var bæði fyrir nemendur og starfsmenn skólans. Síðar sama dag bauð Sigga Dögg upp á fræðsluerindi fyrir foreldra en þar sem fáir sáu sér fært að mæta var brugðið á það ráð að nota tækni nútímans. Sendur var úr „lifandi viðburður“ á fésbókarsíðu sem skólinn heldur úti fyrir foreldra. Mæltist það vel fyrir og ljóst að foreldrar gátu vel nýtt sér þessa tækni til að fá fræðsluna heim í stofu ef þeir komust ekki á fyrirlesturinn í rauntíma.
Lesa meira

Vinnustofa um smárit

Nemendur í áföngunum Inngangur að listum og Listræn sköpun fengu skemmtilegt tækifæri til að kynnast gerð smárita hjá gestakennurum í dag. Þeir dvelja í Listhúsinu í Ólafsfirði og eru meðal annars að undirbúa vetrarhátíðina Skammdegi. Smárit er þýðing á „zines“ sem er alþjóðlegt heiti ritverka sem gefin eru út í litlu upplagi, venjulega af einstaklingi eða litlum hópi. Oft eru þetta ljósrit en dæmi eru um smárit í öðru formi til dæmis útsaumuð. Upplagið er ekki yfir eitt þúsund og stundum innan við eitt hundrað. Fyrst fluttu Sheryl Anaya og Dannie Liebergot stutta kynningu á fyrirbærinu en síðan tóku nemendur og gestir þátt í verklegri æfingu í gerð smárita. Afrakstur vinnunnar í dag verður sýndur í Listhúsinu á laugardaginn kemur og verður sýningin opnuð klukkan átján. Þá er fyrirhugað að nemendur í Listrænni sköpun haldi áfram að vinna með smárit og færi sig yfir í bókverk í næstu viku.
Lesa meira

Fyrirlestur um einhverfu

Ásdís Bergþórsdóttir, sálfræðingur heldur fyrirlestur í MTR fimmtudaginn 31. janúar kl. 12:10. Fyrirlesturinn er opinn öllum en foreldrar barna á einhverfurófi eru sérstaklega boðnir velkomnir. Sama á við um fólk sem vinnur með þessum hópi. Ásdís Bergþórsdóttir lagði sérstaka áherslu á einhverfurófsraskanir í sálfræðinámi sínu. Hún fékk réttindi til að starfa sem sálfræðingur árið 2014.
Lesa meira

Stúdíóljósmyndun

Verklegar æfingar eru stór hluti viðfangsefna nemenda í grunnáfanganum LJÓS2LS05 í listljósmyndun. Áhersla er lögð á listrænar portettmyndatökur bæði í stúdíói og umhverfisportrett. Einnig myndatökur af uppstilltum hlutum og listaverkum. Sérstök áhersla er á beitingu lýsingar og hvernig ljósið málar viðfangsefnin. Staðnemar hafa prýðilega aðstöðu í stúdíói skólans en fjarnemar bjarga sér með ýmsum hætti. Sumir fá afnot af aðstöðu fagmanna á heimaslóð en aðrir leysa málin sjálfir á eigin heimili eða öðrum stöðum sem þeim standa til boða. Áfanganum lýkur með því að nemendur spreyta sig á að túlka eigin verk í ljósmyndum og orðum og setja upp sýningu með eigin verkum.
Lesa meira

Upplyfting í hádeginu

Trúbadorinn Matthew Runciman gladdi geð nemenda og starfsmanna í matartímanum. Hann dvelur í Listhúsinu í Ólafsfirði og er að undirbúa miðsvetrarhátíðina Skammdegi. Þar verða meðal annars sýningar og uppákomur þar sem tónlist tengist ýmsum öðrum listformum. Matthew flutti í hádeginu bæði eigin lög og annarra, stíllinn er gjarnan kenndur við ameríska sveit. Honum fannst skólinn menningarlegur og sagðist gjarnan vilja að fleiri slíkir skólar væru heima í Ameríku. Matthew er kanadískur ríkisborgari en býr í Bandaríkjunum.
Lesa meira

Að skrifa með Google

Ný tækni er kynnt fyrir nemendum í upplýsingatækni í þessari viku. Hún felst í því að hægt er að láta sérstaka viðbót við Google Docs skrá talað mál. Þetta þýðir að nemendur geta lesið tölvunni fyrir og tæknin skráir það sem sagt er. Virknin er nákvæmlega sú sama og í gamla daga þegar virðulegir forstjórar lásu riturum sínum fyrir bréf til viðskiptavina og annað slíkt. Þegar nemendur hafa tileinkað sér þessa tækni geta þeir sem vilja notað hana við verkefnaskil. Það getur komið sér vel fyrir alla sem eiga erfitt með skráningu, fingrasetningu, stafsetningu og fleira slíkt.
Lesa meira

Met í fjölda nemenda

Skráðir nemendur í MTR eru 383 í dag. Meirihluti er fjarnemar en mjög stór hluti þeirra er skráður með MTR sem aðalskóla. Samtals á þetta við um 336 nemendur. Þeir munu í fyllingu tímans útskrifast frá skólanum ef áform ganga eftir. Langflestir áfangar eru fullir og því miður hefur þurft að vísa frá allmörgum einstaklingum sem óskað hafa eftir að stunda nám við skólann.
Lesa meira

Jóla- og nýárskveðjur

Jóla- og nýárskveðjur
Lesa meira