Fréttir

Frestur á verkefnaskilum

Eins og varla hefur farið framhjá neinum hefur óveðrið í vikunni sett strik í reikninginn hjá okkur í MTR eins og svo mörgum landsmönnum. Rafmagnslaust hefur verið í Ólafsfirði og tölvukerfi skólans því legið niðri. Skólameistari hefur gefið kennurum heimild til að framlengja skilafrest þar sem þess er þörf. Frekari upplýsingar i Moodle.
Lesa meira

Gleðistund í Hrafnavogum

Nemendur og kennarar á námskeiðum Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar í Ólafsfirði og á Dalvík gerðu sér glaðan dag í lok námskeiða haustannar. Námsgreinar voru íslenska og spænska og voru viðurkenningar afhentar á samkomunni. Hún var skipulögð með skömmum fyrirvara en þrátt fyrir það voru gestir á fimmta tug. Þetta var svokallað Pálínuboð þar sem gestir komu með veitingar á hlaðborð. Réttir voru fjölbreyttir enda þátttakendur upprunnir á ýmsum menningarsvæðum. Sýndur var dans frá Filippseyjum og farið í samkvæmisleik. Það er ánægjulegt að hin góða aðstaða í sal MTR skuli nýtast til samkomhalds af þessu tagi
Lesa meira

Jólasmiðja

Sköpunargleði og einbeiting skein úr svip gesta á jólasmiðju skólans í gær. Meðal gesta voru nokkrir nemendur grunnskólans. Þeir nutu eins og aðrir gestir leiðbeininga listgreinakennara skólans. Meðal annars voru steypt og skreytt kerti og málaðar ýmsar jólalegar fígúrur sem skornar voru út í laserskera skólans. Auk þess að næra andann á aðventunni í góðum félagsskap er stafrænni smiðju ætlað að efla skapandi hugsun í námi í samstarfi við nærsamfélagið. Hugmyndin er að bæði grunnskólanemar og íbúar hafi aðgang að slíkum smiðjum auk nemenda skólans. Þetta er sérstakt markmið í skólastarfinu og tengist bæði markmiðum ríkisstjórnarinnar og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Lesa meira

Innritun lokið

Innritun fyrir vorönn 2020 er lokið bæði í fjar- og staðnámi og skólinn fullsetinn. Nemendur sem hlotið hafa skólavist sjá stöðu sína í Innu.
Lesa meira

Trjám plantað

Jólafastan er að jafnaði ekki tími gróðursetningar. Þvert á móti er hefð fyrir því að fella tré, skreyta þau og kalla jólatré. En í MTR eru hefðir ekki allsráðandi og skapandi hugsun í hávegum höfð. Því var ákveðið að nýta þennan hlýja og fallega desemberdag til að gróðursetja nokkur tré á skólalóðinni. Tegundirnar eru birki og reynir og eru trén mera en tveir metrar á hæð. Samkvæmt almennum ráðleggingum Hafsteins Hafliðasonar er tíminn til að gróðursetja tré frá lokum ágústmánaðar og eiginlega allur veturinn, svo framarlega að mold sé það þíð að handhægt sé að grafa holur fyrir ræturnar. Þetta síðasta skilyrði má deila um hvort verið hafi fyrir hendi í Ólafsfirði í dag. En við vonum hið besta og ætlum að trúa því að trén sem plantað var lifi og verði nemendum og starfsmönnum til yndisauka.
Lesa meira

Náttúra og listir

Nokkrir nemendur á starfsbraut hafa að undanförnu unnið með nærumhverfi sitt í Ólafsfirði. Það var m.a. gert með því að fara í gönguferðir, taka ljósmyndir og rýna í kort til að átta sig á staðháttum og örnefnum. Síðan var unnið með ljósmyndirnar og útlínur fjallahringsins teiknaður upp, örnefni sett inn og fræst í glært plexígler með laserskera. Þannig er hægt að bera saman við fjöllin og sjá hvað þau heita. Þetta verkefni var unnið sameiginlega í náttúruvísindum og listum. Hægt verður að sjá afraksturinn af þessu skemmtilega verkefni á haustsýningu skólans 14. desember. Á myndinni virða Kristinn Gígjar Egilsson og Sæbjörg Ágústsdóttir stuðningsfulltrúi fyrir sér fjöllin í Ólafsfirði.
Lesa meira

Umhverfismál og stafræn smiðja

Skólanefnd MTR ræddi á fundi sínum í dag um sérstök markmið í skólastarfinu sem tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og markmiðum ríkisstjórnarinnar. Þrettánda markmið SÞ er að menntun verði aukin til að vekja vitund um hvernig fólk og stofnanir geta haft áhrif og brugðist við loftslagsbreytingum. MTR ætlar að efla vitund nemenda og starsfólks um umhverfismál og ná markmiðum grænfánaverkefnis Landverndar og grænna skrefa í ríkisrekstri. Skólinn ætlar að hafa virkt umhverfisráð, bjóða a.m.k. tíu áfanga þar sem fjallað er um umhverfismál og skipuleggja viðburði í samfélaginu sem tengjast málaflokknum. Stafrænni smiðju er ætlað að efla skapandi hugsun í námi í samstarfi við nærsamfélagið. Hugmyndin er að bæði grunnskólanemar og íbúar hafi aðgang að smiðjunum auk nemenda skólans. Þetta markmið tengist bæði markmiðum ríkisstjórnarinnar og heimsmarkmiðum SÞ. Á fundinum kom fram að á vorönn býður skólinn upp á leiklistaráfanga í samstarfi við Leikfélag Fjallabyggðar, nemendur munu taka þátt í uppfærslu félagsins. Þá sögðu starfsmenn frá vel heppnuðum fræðsludegi norðlenskra framhaldsskólakennara sem skólinn hélt fyrr í haust. Greint var frá góðri aðsókn að skólanum, færri fá skólavist á vorönninni en sóttu um. Þá var greint frá því að undirbúiningur þess að skólinn fái jafnlaunavottun stendur nú sem hæst. Á fundinum voru Edward H. Huijbens, formaður, í fjarverunni Evu, Rósa Jónsdóttir, Dóróþea Guðrún Reimarsóttir, Guðríður Harpa Elmarsdóttir, áheyrnarfulltrúi nemenda, Unnur Hafstað Ármannsdóttir áhreyrnarfulltrúi kennara, Lára Stefánsdóttir skólmeistari og Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarskólameistari.
Lesa meira

Galdrar eða töfrar?

Í mannfræðiáfanga á haustönninni spreyttu nemendur sig meðal annars á því að finna muninn á töfrum og göldrum. Hann er ekki augljós en í fræðunum eru töfrar gjarnan skilgreindir sem athafnir þar sem ýtt er á hið yfirnáttúrulega eða það neytt til aðstoðar. Galdrar voru á hinn bóginn notaðir til illra verka. Í daglegu tali er ekki gerður mikill munur á göldrum og töfrum, Einar Mikael, sem heimsótti skólann í vikunni kallar sig til dæmis töframann en auglýsir galdranámskeið fyrir börn. Hann sýndi listir sínar sem við getum kallað spilagaldra eða töfrabrögð. Þessar athafnir glöddu viðstadda og sumir tóku þátt í þeim. Þeir sátu eftir með ákveðnar efasemdir um hvernig þetta væri hægt. Við því eru ekki svör en við getum að minnsta kosti sagt að Einar Mikael hafi stráð töfrum sínum yfir nemendur og kennara skólans.
Lesa meira

Gestir úr Valsárskóla

Hópur nemenda úr níunda og tíunda bekk Valsárskóla á Svarbarðsströnd kynnti sér í morgun aðstöðu til náms í MTR. Sigríður Ásta, námsráðgjafi, fylgdi þeim um skólann. Gestirnir fengu tækifæri til að spjalla við kennara og nemendur í kennslustundum, meðal annars Bergþór myndlistarkennara sem var í Svíþjóð en viðstaddur í stofunni sinni með milligöngu fjarverunnar Evu. Auk kennsluhátta Bergþórs þótti Valsárskólanemum mikið koma til búnaðar í ljósmyndastúdíi skólans og hljómlistarstofunni.
Lesa meira

Kafað með Gesti

Nemendur í útivistaráfanga annarinnar skelltu sér í sundlaugina á Siglufirði í vikunni. Ekki var tilgangurinn þó að æfa hin hefðbundnu sundtök, eða slaka á í heita pottinum, heldur að kynnast og prófa köfun í fullum skrúða. Gestur Hansson, annar kennarinn í áfanganum, er öllum hnútum kunnugur þegar kemur að köfun og fór hann yfir búnað og ýmis öryggisatriði sem nauðsynlegt er að kunna skil á áður en kíkt er undir yfirborðið. Köfun er skemmtilegt sport sem nemendum fannst spennandi að kynnast af eigin raun.
Lesa meira