Fréttir

„Aleinn á nýársdag“

Strákarnir okkar, sem unnu Söngkeppni framhaldsskólanna, í haust gefa út sitt fyrsta lag á laugardag. Það ber titilinn „Aleinn á nýársdag“ og kemur út á öllum helstu streymisveitum. Einnig verður myndband við lagið gefið út á Youtube þennan sama dag. Drengirnir hafa spilað saman í nokkur ár og loksins komið að því efni þeirra verði aðgengilegt öllum. Þeir eru frá Siglufirði og eru nemendur á tónlistarbraut í Menntaskólanum á Tröllaskaga. Hljómsveitina skipa: Hörður Ingi Kristjánsson, hljómborðsleikari, Júlíus Þorvaldsson, söngvari og gítarleikari, Mikael Sigurðsson, bassaleikari og Tryggvi Þorvaldsson, söngvari og rafmagnsgítarleikari. Aðrir þátttakendur í útgáfunni eru Guðmann Sveinsson, rafmagnsgítar og raddir, Rodrigo dos Santos Lopes, trommur og Gunnar Smári Helgason sá um mix og mastering. Facebook: https://www.facebook.com/MTHJ.music Instagram: https://www.instagram.com/mthj.music/
Lesa meira

Fjölbreyttar kvennasögur

Fjölbreyttar úrlausnir bárust í áfanga um kvennasögu þegar fyrir var lagt verkefni um konur í jaðarhópum. Nemendur máttu skilgreina jaðarhóp og skilin máttu vera á ýmsu formi, t.d. ljóð, lag, örsaga, máluð mynd, stuttmynd, hlaðvarp eða teiknimynd. Þessi uppsetning krefst þess að nemendur nýti sköpunarkraftinn og sýni sjálfstæði í vali og útfærslu verkefnis. Margar áhugaverðar og frumlegar úrlausnir bárust. Til dæmis ljóð um Freyju Haraldsdóttur, mynd og frásögn af Töru Margréti Vilhjálmsdóttur, hlaðvarp um OnlyFans og kynningar á Uglu Stefaníu Kristjönudóttur og Sunnevu Jónsdóttur. Kvennasöguáfanginn er kenndur í annað sinn og eru nemendur vel á þriðja tug. Kennari er Birgitta Sigurðardóttir.
Lesa meira

Hreinsunarátak

Allir staðnemar MTR sem staddir voru í skólanum í gær og nokkrir starfsmenn tóku sig til og tíndu rusl í poka. Farið var vítt um Ólafsfjarðarbæ, nágrenni skólans og íþróttamannvirkja, í kirkjugarðinn, á Flæðurnar og víðar. Af nógu mun hafa verið að taka og sáu bæjarstarfsmenn um að koma ruslinu sem tínt var á viðeigandi stað. Þetta átak nemenda var í tilefni stóra plokkdagsins sem var síðastliðinn laugardag. Eftir hreinsunina bauð skólinn nemum og starfsmönnum upp á pitsur sem runnu ljúflega niður.
Lesa meira

Ný tækifæri í Erasmus+ samstarfinu

Nýjar áherslur í Evrópusamstarfinu á sviði skóla- og menntamála falla einstaklega vel að stefnu og starfsháttum MTR. Þetta á bæði við málaflokkana loftslags- og umhverfismál og það sem kalla mætti rafræna starfshætti. Mikil áhersla er lögð á fjölbreytni og þátttöku einstaklinga með ólíka færni og þekkingargrunn. Hægt verður að sækja um aukadaga á ferðalögum ef tengiflugi er sleppt en notaður vistvænn ferðamáti. Þá verður mögulegt að fá fé til að bjóða heim sérfræðingum til að halda erindi eða námskeið fyrir starfsmenn skólans. Hér er slóð á kynningu á þessum möguleikum á Opnunarhátíð Evrópusamstarfsins í Borgarleikhúsinu á dögunum: https://youtu.be/BphCPwK6wfw MTR hefur þegar fengið aðild að Erasmus+ áætluninni fyrir árin 2021-2027 sem tryggir fjármagn til þátttöku í verkefnum. Aðildin gerir að verkum að ferli umsókna er einfaldara og minni vinna fer í undirbúning og umsýslu.
Lesa meira

Fimmta Græna skrefið

MTR hefur stigið fimmta og síðasta Græna skrefið og fengið það viðurkennt. Skólinn er tólfta ríkisstofnunin til að ná þessum áfanga. Aðeins einn framhaldsskóli, Menntaskólinn við Sund, tók skrefið á undan MTR. Aðgerðir í verkefninu miða að því að efla umhverfisvitund starfsmanna og draga úr neikvæðum áhrifum starfsemi stofnana á umhverfið. Hjá MTR hefur verið farin sú leið að nokkrir starfsmenn hafa séð um að breyta verkferlum, bæta flokkun, setja upp grænt bókhald og fleira slíkt sem nauðsynlegt er að gera. Mikill áhugi og samstaða hefur ríkt í hópi starfsmanna. Fimm manna umhverfisráð hefur fundað reglulega á vorönninni. Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarmeistari, hefur borið hitann og þungann af skjölun vegna fimmta skrefsins. Björg Traustadóttir hefur í öllu ferlinu annast skipulag flokkunar og aðgerðir gegn matarsóun. Fuglar himinsins fá að njóta þeirra afganga sem verða af mat. Margir aðrir hafa lagt hönd á plóg en tengiliður verkefnisins er Unnur Hafstað. Lára Stefánsdóttir, skólameistari, segist vera ótrúlega stolt af þeim góða árangri sem náðst hafi. Duglegir og lausnamiðaðir starfsmenn hafi dregið vagninn og náð árangri sem sé skólanum og skólaumhverfinu til sóma.
Lesa meira

Hefðbundið skólastarf eftir páskaleyfi

Hefðbundið skólastarf hefst eftir páskaleyfi þann 7. apríl 2021 samkvæmt gildandi sóttvarnareglum um skólastarf í framhaldsskólum. Nemendur og starfsfólk eru beðin um að gæta þess í hvívetna að halda þær reglur sem gilda. Við erum vonandi á endasprettinum vegna Covid-19 faraldrinum og mikilvægt að við höldum þetta öll út.
Lesa meira

Innritun í fjarnám

Innritun í fjarnám hófst 5. apríl 2021. Þar má sjá hvaða áfangar eru í boði á vormisseri.
Lesa meira

Tröllaskagamódelið

Í Menntaskólanum á Tröllaskaga hefur verið lögð áhersla á að virkja sköpunargáfu nemenda, gera þá sjálfstæða og efla ábyrgð þeirra á eigin námi. Hlutverk skólans er að vera valdeflandi fyrir nemendur og samfélag og rannsókn sýndi að skólalíkanið væri til þess fallið að stuðla að jöfnum möguleikum allra nemenda til náms.
Lesa meira

Skólahús lokað, fjarnám

Vegna sóttvarnareglna er skólahúsnæði MTR lokað og nemendur mæta í fjarnámsstofur sínar í Meet samkvæmt stundaskrá og stunda fjarnám út vikuna samkvæmt áætlun. Að því búnu er páskafrí en eins og staðan er þá eru ekki komnar upplýsingar um hvað tekur við.
Lesa meira

Opnun sýningar frestað

Opnun á sýningu fimm listnema við Menntaskólann á Tröllaskaga er frestað vegna nýrra sóttvarnarreglna. Áformað var að opna sýninguna „Hið“ fimmtudaginn 25. apríl kl. 12:00 en sem fyrr segir verður þessi atburður að bíða betri tíma.
Lesa meira