Fréttir

Spenna fyrir golfinu

Nemendur í áfanganum ÍÞRG1GF02 stunda golfið grimmt þessa dagana. Áfanginn er tvískiptur, það er golf fram að miðönn en frjálsar íþróttir eftir það. Sautján nemendur eru í áfanganum og eru þeir mjög áhugasamir um golfið. Íþróttin hefur ekki áður verið kennd við skólann nema á stuttu námskeiði í miðannarviku fyrir nokkrum árum.
Lesa meira

Menningarferð til Akureyrar

Nemendur í myndlist og á starfsbraut gerðu sér dagamun og brugðu sér í menningarferð til Akureyrar í gær. Þar er blómlegt menningarlíf og margt að sjá. Til að fá smá nasasjón af því sem þar er í gangi var ákveðið að fara á nokkra staði þó stoppað væri stutt á hverjum þeirra. Fjölbreyttar sýningar eru í nýjum salarkynnum Listasafns Akureyar. Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi tók á móti hópnum. Fyrst var skoðuð samtímalist frá Þjóðarlistasafninu í Lettlandi. Talaðu við mig! / Runā ar mani! / Talk to Me! Það var áhugavert fyrir nemendur að upplifa verkin frá Lettlandi sem mörg hver fást við ákveðið uppgjör við Sovéttímann og járntjaldið. Hugtök sem eru ekki svo fjarlæg okkur í tíma en ungum nemendum þó framandi.
Lesa meira

Sveitahringurinn á hjóli

Í nágrenni MTR eru fjölmargir og fjölbreyttir möguleikar til kennslu í útivist. Einn áfanginn er útivist í snjóleysi, ÚTIV2HR05, sem kenndur er að hausti þegar jörð er auð. Hann er að mestu verklegur. Nemendur kynnast undirstöðuatriðum í klettaklifri, sigi, fjallahjólun, sjósundi, sjókajakróðri, útieldamennsku og fjallamennsku. Mikil áhersla er lögð á að nemendur verði sjálfstæðir í óbyggðum, geti metið aðstæður með tilliti til öryggis og tekið skynsamlegar ákvarðanir varðandi t.d. leiðaval og notkun öryggisbúnaðar. Í gær hjóluðu nemendur í þessum áfanga “sveitahringinn”, en svo kallast leiðin í kringum Ólafsfjarðarvatn. Leiðin er um 17 kílómetrar og voru aðstæður nokkuð krefjandi, frekar blautt eftir rigningar síðustu daga og vegurinn holóttur. Stemningin var engu að síður góð og nemendur skemmtu sér vel. Í ferðarlok var ekki vanþörf á að renna við á þvottaplaninu hjá Olís og skola af fararskjótunum og jafnvel nemendum líka.
Lesa meira

Nýtt Erasmus+ verkefni

„Þú hefur líka rödd“ er titill samstarfsverkefnis sem hófst núna um mánaðamótin. Þátttakendur eru frá Grikklandi, Lettlandi og Tékklandi auk Íslands. Markmið verkefnisins er að þjálfa nemendur í virkri þátttöku og kenna þeim að axla ábyrgð í lýðræðisþjóðfélagi. Á þeirra herðum mun hvíla að efla og þróa lýðræði og menningu í evrópskum samfélögum. Verkefnið er í fjórum hlutum og verður unnið á tveimur árum. Í fyrsta hluta verður fjallað um borgaralega ábyrgð, starf sjálfboðaliða og kosningar. Í öðrum hluta verður fjallað um jafnrétti í fjölmenningarlegu samfélagi. Tjáningarfrelsi er þemað í þriðja hluta. Þar lesa nemendur bækur sem hafa verið bannaðar og kynnast falsfréttum, áróðri og spuna í fjölmiðlum. Í síðasta hlutanum verður svo fjallað um lýðræðismenningu, mótmælaaðgerðir og borgaralega óhlýðni. Lára Stefánsdóttir, skólameistari og Ida Semey verkefnisstjóri erlendra samstarfsverkefna sátu í dag fund í Reykjavík þar sem þar sem afhentir voru samningar um verkefni til þeirra skóla sem hlutu Erasums+ styrki ásamt fræðslu til styrkhafa um vinnu við verkefnið. Verkefnisstyrkurinn nemur í heild um átján milljónum króna en þar af verður um fimm milljónum varið til að kosta þátttöku MTR. Sérstakir umsjónarmenn skólans með verkefninu verða Karólína Baldvinsdóttir og Sigríður Ásta Hauksdóttir.
Lesa meira

Nýnemadagur

Nemendur MTR og gestir úr Grunnskóla Fjallabyggðar og Dalvíkurskóla brugðu á leik og skemmtu sér saman í gær. Sápubolti var leikinn af kappi og sýndu margir góða takta eins og myndirnar sem fylgja fréttinni sýna. Húlladúllan var mætt og hvatti nemendur til að prófa ýmislegt dót sem tilheyrir sirkuslistum. Þetta þótti mörgum spennandi. Einhverjir brugðu sér í sund en aðrir spiluðu hlutverkaspil. Grillmeistari var Björg Traustadóttir og sporðrenndu heimamenn og gestir þeirra um 180 pylsum. Ekki er gefið upp hvort þetta voru hefðbundnar pylsur með kjöti eða grænmetispylsur sem sagðar eru njóta vinsælda í höfuðstaðnum um þessar mundir.
Lesa meira

Foreldrafundur

Góð mæting var á foreldrafund síðdegis í gær þar sem starfsmenn skólans kynntu skipulag náms og starfshætti í skólanum. Fjallað var um vendikennslu, starfsbraut, tölvukerfi, reglur um mætingu, sértæk námsúrræði, félagslíf, menningu og fleira. Í lok fundar voru kjörnir fimm fulltrúar sem mynda foreldraráð skólans í vetur. Anna Hulda Júlíusdóttir, Birgitta Sigurðardóttir, Heimir Birgisson, Kristján Sturlaugsson og Ólöf Ásta Salmannsdóttir.
Lesa meira

Nýnemadagurinn í MTR

29. ágúst
Lesa meira

Fundur foreldra/forráðenda

1. Kynning 2. Kennslufyrirkomulag og ýmis hagnýt atriði 3. Kosið til trúnaðarstarfa í foreldraráði MTR* 4. Önnur mál Boðið verður upp á hollar veitingar Fundargestir sem koma á bíl eru hvattir til að sameinast í bíla. Streymt verður frá fundum, linkur kemur á heimasíðu skólans sama dag. *óskað er eftir framboðum í foreldraráð MTR Hlökkum til að sjá ykkur sem flest Starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga
Lesa meira

Skólasetning

Tíunda starfsár Menntaskólans á Tröllaskaga hófst formlega í gær með skólasetningu í Hrafnavogum. Skráðir nemendur eru um þrjú hundruð og sextíu. Fjarnemar eru í miklum meirihluta, um tvö hundruð og sextíu. Á skólasetningunni kynnti Lára skólameistari starfsmenn og gerði grein fyrir verkssviði hvers og eins. Síðan hittu nemendur umsjónarkennara sína en eftir það hófst kennsla samkvæmt stundaskrá. Starfsmenn eru tuttugu og fimm og mjög litlar breytingar á starfsmannahópnum frá fyrra ári.
Lesa meira

Velkomin í skólann 19. ágúst

Búið er að taka þá nemendur út sem ekki hafa staðfest skólavist með greiðslu innritunargjalds og taka þá inn sem voru á biðlistum í staðinn. Skólinn er yfirfullur og erum við þakklát fyrir hversu margir vilja stunda nám hjá okkur.
Lesa meira