Kolbrún Halldórsdóttir
Kennarar skólans eru frjóir og skapandi og hafa margoft sýnt og sannað að þeir standa vel undir einkunnarorðum skólans: Frumkvæði - sköpun - áræði. Kolbrún Halldórsdóttir, einn af íslenskukennurum skólans, er gott dæmi. Hún fékk styrk úr námsgagnasjóði Rannís vorið 2024 til að hanna og setja upp notendavæna og aðgengilega vefsíðu þar sem hugmyndin var að bjóða upp á fjölbreytt gagnvirk verkefni í íslensku á framhaldsskólastigi. Síðan heitir Áfram íslenska og var opnuð núna á haustdögum. Hún var valin sem ein af fjórum bestu hugmyndunum í flokknum Námsgögn á Menntaþoni í júní sl. Að Menntaþoninu standa Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS), Þróunarsjóður námsgagna, NýMennt Háskóla Íslands, IÐNÚ og Samtök menntatæknifyrirtækja (IEI).
Áfram íslenska er hönnuð fyrir nemendur með ólíkan bakgrunn og býður upp á gjaldfrjálst lifandi og fjölbreytt íslenskunám með kennslumyndböndum, gagnvirkum æfingum og skapandi verkefnum. Hún styður við markmið menntastefnu 2030 um opið, fjölbreytt og skapandi námsefni fyrir alla. Á síðunni má læra allt frá ritun og heimildaskráningu yfir í málsögu, goðafræði, sagnaritun og fornan kveðskap. Námið er hagnýtt, skemmtilegt og sniðið að þörfum nútímanemenda.
Vefsíðan er einföld í notkun, virkar vel á bæði tölvum og snjalltækjum og er með skýru skipulagi svo nemendur finna auðveldlega efni og verkefni. Auk þess eru notkunarleiðbeiningar fyrir bæði nemendur og kennara. Síðan hýsir fjölda námskeiða sem eru sett upp á einfaldan og aðgengilegan hátt og hvetja nemendur til að taka virkan þátt, hvort sem er með því að hlusta, lesa, skoða myndbönd eða leysa æfingar. Verkefnin eru fjölbreytt, sum hefðbundin, önnur skapandi og flest byggja þau á sjálfvirkri endurgjöf. Sérstök áhersla er lögð á orðskýringar til að efla orðaforða nemenda.
Kolbrún byrjaði að nota síðuna í kennslu í MTR nú á haustdögum og hefur hún reynst mjög vel. Síðan hefur einnig vakið áhuga annarra íslenskukennara sem hafa í hyggju að nýta hana. Sérstök undirsíða um tæknilausnir fyrir lesblinda hefur reynst sérstaklega nytsamleg, segir Kolbrún, þar geta nemendur prófað ýmis verkfæri og skoðað hvernig þau nýtast við raunverulega notkun. Stefnan er svo að halda áfram að uppfæra og bæta við nýju efni á síðuna þannig að hún verði í takti við tímann.
Hér er slóð á síðuna: https://aframislenska.is/