Fréttir

Meiri framleiðsla en aðeins færri nemendur

Með sparsemi og útsjónarsemi þjónar MTR fleiri nemendum en greitt er fyrir samkvæmt þeirri mælingu menntamálaráðuneytis sem byggist á svokölluðum nemendaígildum. Fjárveiting til skólans er miðuð við 125 nemendaígildi. Það er að segja hún á að duga til að kenna og þjóna á lögbundinn hátt 125 nemendum í fullu námi. Skólinn er hins vegar að framleiða um 140 nemendaígildi, eins og það heitir á máli ráðuneytisins. Skráðir nemendur í upphafi haustannar eru 342. Um það bil 257 eru í fjarnámi en skráðir staðnemar eru um 85. Þetta er fækkun um þrjá tugi frá því á sama tíma í fyrra. Staðnemum fækkar um fimmtán eða svo og er skýrist það af því að fjölmennur hópur fisktækninema brautskráðist í vor. Varðandi fjarnema hefur verið lögð áhersla á að taka inn nemendur sem eru í fleiri áföngum. Það þýðir að rými verður fyrir færri en áður. Hætt var að taka inn fjarnema um síðustu helgi því þá voru fullir allir áfangar þar sem fjarnám er í boði. Starfsmenn eru 26 jafnmargir og í fyrra. Þar af er um þriðjungur í hlutastarfi.
Lesa meira

Skólasetning

Menntaskólinn á Tröllaskaga var settur í níunda sinn í morgun. Í fyrsta sinn fór setningin fram í eigin húsnæði skólans Hrafnavogum. Salurinn var vígður og tekinn í notkun skömmu eftir skólasetningu í fyrra. Hann hefur mjög fjölbreytt notagildi og er mikið nýttur til náms og kennslu auk þess að vera matsalur og samkomusalur. Lára Stefánsdóttir, skólameistari setti skólann og hvatti nemendur til að læra það sem þeir hefðu áhuga á og vonandi hefðu þeir ánægju af náminu og skólavistinni.
Lesa meira

Allt fullt í fjarnám

Skráningu í fjarnám er lokið hjá skólanum og fullt í öllum áföngum. Næst verður innritað í nóvemberbyrjun fyrir vorönn 2019.
Lesa meira

Skólinn opnar eftir sumarfrí

Nú er sumarleyfum lokið og skrifstofa skólans hefur opnað aftur. Aðsókn var mikil í vor og er nú verið að fara yfir hverjir staðfestu skólavist með greiðslu, taka þá út sem ekki greiddu og taka inn af biðlistum. Nemendur sjá í Innu í hvaða áfanga þeir eru skráðir og þar með hvort þeir hafa fengið skólavist.
Lesa meira

MTR brautskráir 45

Sextánda brautskráning frá Menntaskólanum á Tröllaskaga fór fram í dag. Fjörutíu og fimm nemendur brautskráðust og hafa þeir aldrei verið fleiri. Mikil fjölbreytni einkenndi hópinn, þarna eru einstaklingar sem eiga uppruna í mörgum þjóðríkjum og eru á mismunandi aldri. Tuttugu brautskráðust eftir tveggja ára nám á fisktæknibraut og er þetta í fyrsta sinn sem nemendur ljúka námi af henni. Svanfríður Inga Jónasdóttir, verkefnisstjóri hefur haldið utan um fisktækninámið á Dalvík af röggsemi og skörungsskap. Sjö nemendur útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut, sex af íþróttabraut, þrír af náttúruvísindabraut, þrír af listabraut
Lesa meira

20 útskrifast úr fisktækninámi frá MTR

Vorið 2016 fór stór hópur starfsmanna fiskvinnslu Samherja á Dalvík í raunfærnimat í fisktækni sem Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (SÍMEY) bauð uppá. Um haustið hófu um 20 þeirra nám í fisktækni, sem starfrækt var í námsveri SÍMEY á Dalvík. Haustið 2017 fór annar hópur frá fiskvinnslu Samherja á Dalvík, og á Akureyri, í samskonar raunfærnimat og hófu nokkur þeirra nám þá um haustið. Þar af komu þrír inn í þann námshóp sem farinn var af stað á Dalvík og útskrifast núna í vor. Námið er í samstarfi SÍMEY, Fisktækniskóla Íslands og Menntaskólans á Tröllaskaga, sem innritar nemendur í námið og útskrifaði 19. maí 20 nemendur af fisktæknibraut. Auk þess er mikilvægt að gott samstarf sé við vinnustað nemenda, því um er að ræða nám með vinnu. Námið er 120 einingar, grunngreinar sem SÍMEY heldur utanum og faggreinar sem Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur veg og vanda af. Forsenda þess að fara í þetta nám hefur verið að viðkomandi hafi farið í raunfærnimat, en til þess þarf 3 ára starfsreynslu í fiskiðnaði og a.m.k. 23 ára aldur. Nemendur eru því allir þjálfað fiskvinnslufólk sem með raunfærnimati fær reynslu sína og þekkingu metna til eininga, og bætir síðan við sig með formlegu námi því sem uppá vantar. Nemendur eru af ýmsu þjóðerni, sem endurspeglar þann fjölbreytta mannauð sem er að finna innan fiskvinnslunnar á Eyjafjarðarsvæðinu. Í útskriftarhópum núna eru t.d. þrír af pólskum uppruna, tveir af lettneskum, tveir af thailenskum og ein kom frá Grænhöfðaeyjum. Það hefur sjálfsagt aldrei verið mikilvægara en nú að starfsfólk í fiskvinnslu sæki sér menntun og aukna þekkingu þar sem tæknibreytingar eru mjög miklar í greininni og kröfur til starfsfólks aukast sífellt. Samstarfsaðilar eru stoltir af þeim stóra hópi öflugs fiskvinnslufólks sem útskrifast úr náminu nú, vorið 2018, og þykjast þess vissir að þau muni enn frekar láta til sín taka þegar þau nú hafa lokið þessum áfanga.
Lesa meira

Útskrift á laugardag kl. 11:00

Laugardaginn 19. maí klukkan 11:00 mun Menntaskólinn á Tröllaskaga útskrifa nemendur í 16. sinn. Útskrifaðir verða 45 nemendur eða fleiri en í nokkurri annarri útskrift. Í fyrsta skipti verða nemendur af fisktæknibraut skólans útskrifaðir. Athöfnin fer fram í Hrafnavogum, nýjum sal skólans. Stefnt er að því að athöfnin verði send út á Facebook síðu skólans.
Lesa meira

Stelpur og tækni

Einn nemandi MTR, Gamithra Marga og tveir kennarar, Birgitta Sigurðardóttir og Inga Eiríksdóttir eru með vinnustofur á þessari kynningu í Háskólanum á Akureyri í dag. Gestir eru stelpur úr níundu bekkjum grunnskóla á Norðurlandi. Viðfangsefni hjá Gamithru, Birgittu og Ingu er forritun í leiknum Python. Þetta er leikur í borðum og til að komast upp á næsta borð þarf að velja sér persónu og forrita hana. Það er Háskólinn í Reykjavík sem heldur kynninguna í samstarfi við Háskólann á Akureyri.
Lesa meira

Uppáklæddur kennari

Rögnvaldur Rúnarsson nemandi skólans náði einn því marki að safna yfir 5000 stigum í Menntaleikunum sem fram fóru í ensku þessa önn. Þar með fékk hann vald yfir klæðaburði enskukennara síns, Tryggva Hrólfssonar og nýtti það tækifæri í dag út í ystu æsar. Til þess að ná 5000 stigum þurfti Rögnvaldur að vera einstaklega iðjusamur í enskunámi sínu. Fylgjast vel með verkefnum frá kennara að þar væri allt eins og það ætti að vera. Einnig bjó hann til viðfangsefni fyrir samnemendur sína sem þeir síðan spreyttu sig á. Tryggvi segir að óneitanlega hafi það verið dálítið snúið að vera á valdi nemanda síns í klæðaburði en á móti kæmi þá hefðu nemendur verið einstaklega iðjusamir eftir að Menntaleikarnir komu til sögunnar. Menntaleikarnir tengjast s.k. Gamification í námi eða Leikjavæðingu. Það gengur út á að nemandinn getur skorað stig fyrir vinnu sína og æðstu verðlaun sem hægt var að ná voru valdið yfir klæðaburði kennarans og þurfti verulega mikið fyrir því að hafa. Hér fylgja nokkrar myndir af þessum dugmikla nemanda og hlýðnum enskukennara sem var ákaflega ánægður með reynsluna af Menntaleikunum og reiknar með að þróa þá aðferðafræði áfram næsta vetur. Hann hefur notað kennslukerfið Moodle sem býður upp á marga möguleika í þessu samhengi.
Lesa meira

Öskrað á fjöllin

Að venju sýna nemendur afrakstur vinnu sinnar og sköpunar í lok annar. Að þessu sinni verða meðal annars til sýnis portrettverk, módelteikningar og ýmis verk úr inngangi að listum. Einnig verða sýnd verk úr fagurfræði, þar á meðal athyglisvert vídeóverk sem ber titilinn Öskrað á fjöllin. Nemendur í fréttaljósmyndun og stúdíóljósmyndun sýna sín verk, skapandi enskuverkefni verða til sýnis, verkefni úr eðlis- og efnafræði og fleiri námsgreinum. Sýningin verður opin frá 13:00-16:00 laugardaginn 12. maí. Allir velkomnir.
Lesa meira