Fréttir

Skólasetning

Tíunda starfsár Menntaskólans á Tröllaskaga hófst formlega í gær með skólasetningu í Hrafnavogum. Skráðir nemendur eru um þrjú hundruð og sextíu. Fjarnemar eru í miklum meirihluta, um tvö hundruð og sextíu. Á skólasetningunni kynnti Lára skólameistari starfsmenn og gerði grein fyrir verkssviði hvers og eins. Síðan hittu nemendur umsjónarkennara sína en eftir það hófst kennsla samkvæmt stundaskrá. Starfsmenn eru tuttugu og fimm og mjög litlar breytingar á starfsmannahópnum frá fyrra ári.
Lesa meira

Velkomin í skólann 19. ágúst

Búið er að taka þá nemendur út sem ekki hafa staðfest skólavist með greiðslu innritunargjalds og taka þá inn sem voru á biðlistum í staðinn. Skólinn er yfirfullur og erum við þakklát fyrir hversu margir vilja stunda nám hjá okkur.
Lesa meira

Sumarleyfi, innritun lokið

Starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga er í leyfi frá 18. júní til 6. ágúst og skrifstofur skólans lokaðar. Innritun fyrir haustið er lokið bæði í fjar- og staðnámi og skólinn fullsetinn. Nemendur sem hlotið hafa skólavist sjá stöðu sína í Innu. Við þökkum fyrir frábæran vetur og hlökkum til að byrja aftur í haust.
Lesa meira

MTR brautskráir 34

Að þessu sinni brautskráðust 34 nemendur frá skólanum, þar af 24 fjarnemar. Í desember brautskráðist 21, þannig að á skólaárinu útskrifast samtals 55 nemendur. Frá upphafi hafa 278 brautskráðst frá skólanum. Þrettán útskrifuðust af félags- og hugvísindabraut í dag, níu af náttúruvísindabraut, fjórir af íþróttabraut - tveir af íþróttasviði og tveir af útivistarsviði, þrír af listabraut – myndlistarsviði, fjórir luku viðbót við starfsnám til stúdentsprófs og einn útskrifaðist af starfsbraut. Nemendur við skólann á vorönn voru 346 en starfsmenn 25. Lára Stefánsdóttir ræddi um það góða í lífinu í ávarpi sínu til nemendanna sem brautskráðust í dag. Hún hvatti þá til að leita gleðinnar en láta vera að tuða yfir því sem væri ekki eins og maður helst vildi eða gæti farið úrskeiðis. Mikilvægt væri að vanda sig í samskiptum við umhverfið og sýna góðvild, jafnt sjálfum sér og öðrum, fjölskyldu, vinum og félögum. Lára hvatti nemendur til að einbeita sér að því að vera góðir stjórnendur í eigin lífi þannig að þeim sjálfum og öðrum liði vel og gengi vel. Dagný Ásgeirsdóttir flutti ávarp nýstúdents. Hún sagðist útskrifast stolt í dag, stolt af því að hafa lokið námi við MTR. Hún sagðist hafa fengið fjölmörg tækifæri á námstímanum og skólagangan hefði styrkt hana sem einstakling og héðan færi hún fullviss um eigin getu og styrk. Þetta þakkaði hún samnemendum og starfsmönnum skólans sem hefðu stutt hana og gefið henni tækifæri til að njóta sín.
Lesa meira

Stærðfræðikeppni 9. bekkinga - úrslit

Úrslit í stærðfræðikeppni Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, Menntaskólans á Tröllaskaga og níundu bekkja í grunnskólum á Norðurlandi vestra og Tröllaskaga fór fram í Ólafsfirði í gær. Í fyrsta sæti varð Hjalti Freyr Magnússon, Grunnskóla Húnaþings vestra. Þorsteinn Jakob Klemensson í Dalvíkurskóla varð í öðru sæti og Jóhann Gunnar Eyjólfsson í Árskóla í þriðja sæti. Allir keppendur fóru heim með smá glaðning og vegleg verðlaun voru veitt fyrir efstu þrjú sætin. Keppnin var jöfn og spennandi og keppendur allir sjálfum sér og skólum sínum til sóma. Þetta er í tuttugasta og annað sinn sem keppnin er haldin.
Lesa meira

Virkir listamenn

Þrír kennarar skólans taka þátt í listsýningum þessa dagana. Bergþór Morthens og Sigurður Mar Halldórsson taka þátt í samsýningu norðlenskra listamanna sem opnuð var formlega í Listasafninu á Akureyri um síðustu helgi. Samtals valdi dómnefnd verk 30 myndlistarmanna á sýninguna. Á laugardaginn kemur opnar svo Karólína Baldvinsdóttir ásamt Jonnu/Jónborgu Sigurðardóttur sjónlistasýningu í Mjólkurbúðinni í Listagilinu sem ber titilinn Auga fyrir Auga. Verkin voru unnin á undanförnum mánuðum og er augað viðfangsefni sýningarinnar. Karólína og Jonna eru báðar blindar á öðru auga og er það innblástur verkanna.
Lesa meira

Útieldun á vorsýningu

Nemendur í útivist hafa tekið þátt í mörgum spennandi verkefnum á önninni. Síðasta verkefnið var unnið á vorsýningu skólann s.l. laugardag þegar þeir buðu upp á grænmetissúpu sem hituð var yfir eldi á lóð skólans. Hráefni í súpuna kom frá verslunum Kjörbúðarinnar á svæðinu, grænmeti sem ekki var lengur söluhæft en hæft til neyslu. Átti þetta verkefni meðal annars að vekja nemendur til umhugsunar um að nýta matvæli vel og forðast sóun, auk þess að þjálfa þá í eldun úti í náttúrunni. Getum sýningarinnar bauðst að smakka á súpunni og þótti hún afbragðsgóð. Nemendur stóðu sig vel í eldamennskunni og þótti verkefnið spennandi. Kennari í útivist var Kristín Anna Guðmundsdóttir.
Lesa meira

Gleði á vorsýningu

Fjölmenni sótti á laugardaginn var sýningu á verkum nemenda MTR á vorönninni. Verk nemenda í skapandi hannyrðum, útsaumur í stóla og hekl um borðfætur vakti athygli. Einnig myndverk af ýmsu tagi, til dæmis úr því til til fellur, svo sem glæsileg mynd úr töppum gosflaskna. Útvarpsstöðin Trölli tók þátt í sýningunni, sendi út viðtöl beint og spilaði stutt innslög sem nemendur gerðu á önninni. Framan við skólahúsið var líf og fjör, ungir sem aldnir blésu sápukúlur og krítuðu listaverk á stéttina. Segja má að gleðin hafi verið við völd í Ólafsfirði þennan dag og menning og listir blómstrað á ýmsum uppákomum. Nemendur og starfsmenn MTR þakka gestum fyrir komuna á vorsýninguna og minna á að hægt er að njóta hennar á skólatíma fram á útskriftardag, næsta laugardag.
Lesa meira

MTR er Stofnun ársins 2019

Menntaskólinn á Tröllaskaga varð „Stofnun ársins 2019“ í flokki meðalstórra ríkisstofnana á hátíðlegri athöfn á Hilton Nordica 15. maí að viðstöddu fjölmenni. Stofnun ársins og Fyrirmyndarstofnun hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr að mati starfsmanna. Valið er byggt á svörum rúmlega 10 þúsund starfsmanna í einni stærstu vinnumarkaðskönnun landsins. Gallup framkvæmir könnunina fyrir Sameyki stéttarfélag.
Lesa meira

Fjölbreytt vorsýning

Sýning á margvíslegri skapandi vinnu nemenda á vorönninni verður opnuð í skólanum á laugardag kl. 13:00. Meðal annars gefur að líta verk úr portrettmálun, frumkvöðlafræði, listrænni sköpun, skapandi hannyrðum, jákvæðri sálfræði, fagurfræði, heimspeki og ljóð úr íslenskunni svo fátt eitt sé nefnt . Lokaverkefni nemanda á listabraut hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir efnistök og hugmyndalega nálgun. Þar er unnið úr efnivið sem nemandinn tók með sér úr sjálfboðastarfi með flóttamönnum á grísku eynni Lesbos. Sýningin verður opin kl. 13-16 á laugardag en í næstu viku verður einnig hægt að njóta hennar á skólatíma fram að útskrift laugardaginn 25. maí.
Lesa meira