Námsmat

Námsmat

Við skólann er leiðsagnarmat og símat án lokaprófa.

Öll verkefni gilda til lokaeinkunnar. Nemendur fá endurgjöf á verkefni innan viku frá lokum skilafrests nema verkefni sé stórt og kennari tiltaki annað. Verkefni geta verið umræður, rituð verkefni eða munnleg, ljósmyndir, kvikmyndir, próf, tónlist eða hvað annað sem við á. Mælt er með að nemendur taki áfangann „Upplýsingatækni dreifmenntar“ í upphafi náms til að þekkja hvernig þeir vinna mismunandi skil.

Frestur er nánast aldrei gefinn á verkefnaskilum. Eina undantekningin eru mjög alvarleg veikindi nemanda eða fráfall náins ættingja. Skólameistari Lára Stefánsdóttir, lara@mtr.is er eini starfsmaðurinn sem hefur heimild til að semja um skil utan skilatíma samkvæmt samþykkt kennarafundar.

Nauðsynlegt er að skipuleggja nám sitt vel og hvaða tíma ætlað er í námið. Hver námseining er skipulögð af kennara þannig að hann gerir ráð fyrir að nemandinn þurfi 3 daga miðað við 6-8 klukkustunda vinnu til að ljúka henni. Fimm eininga áfangi er því miðaður við að nemandinn skili 15 daga vinnu. Henni er síðan dreift yfir önnina. Vinna þarf jafnt og þétt allar vikur til að ná árangri.

Nemandi og forráðamenn nemenda yngri en 18 ára fá upplýsingar um námsframvindu nemenda í Innu á meðan á námsönn stendur, stutta umsögn á 2-3 vikna fresti (má finna undir athugasemdir) og miðannarmat. 

Einkunnarýni
Nemendur eru hvattir til að fara yfir námsmat sitt jafnóðum og í lok annar. Hafi þeir eitthvað við það að athuga skulu þeir hafa samband við kennara sinn innan viku frá því einkunn er birt sé ástæða til. Sé málið ekki leyst geta nemendur vísað því til áfangastjóra.

Mat á námi úr öðrum skólum
Nemendur fá viðurkennt nám úr öðrum framhaldsskólum metið til eininga við skólann. Gömlum námseiningum er varpað í nýjar en almenna reglan er að 5 nýjar einingar nálgast 3 gamlar einingar. Misjafnt er hvar námið nýtist nemanda í grunn námsleiðar, brautargrunn eða brautarval. Falli metið nám ekki innan þess ramma fer hann í almennt val nemanda. Þó er hægt að velja að útskrifast með s.k. almennt stúdentspróf án sérvalinnar námsleiðar og þá eru ekki gerðar aðrar kröfur um námsáfanga en að námsgrunni sé lokið og hlutfall eininga á þrepi standist kröfur (sjá undir kjörnámbraut). Mikilvægt er fyrir hvern og einn að fara vel yfir námsferil og skipulag náms með umsjónarkennara.

Nemendur þurfa að fylgjast vel með því að nám sem þeir velja við skólann sé fullnægjandi undirbúningur undir frekara nám á háskólastigi er þeir stefna á. Háskólar eiga að hafa slíkar upplýsingar á neti. Vanti það hafið samband við náms- og starfsráðgjafa.
 
Hafi nemandi stundað nám við skóla sem ekki starfar samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla ber skólameistari ábyrgð á því að hve miklu leyti námið verður metið. Við matið er skoðað hvort hægt er að meta nám jafngilt því sem skipulagt er innan skólans og hvort námið nýtist nemanda sem nægilegur undirbúningur undir annað nám í skólanum eigi það við.
 
 
 
Síðast breytt 09. febrúar 2021