Guðmundur Ingi Kristjánsson mynd GK
Mennta- og barnamálaráðherra, Guðmundur Ingi Kristjánsson, hefur að undanförnu heimsótt framhaldsskóla landsins og í dag var komið að því að sækja MTR heim. Í fylgd með ráðherra voru þrír starfsmenn ráðuneytisins. Heimsóknin hófst með því að nemendaráð fylgdi ráðherra og fylgdarliði hans um skólahúsnæðið og sagði frá því sem fyrir augu bar. Síðan var fjölmennt á sal þar sem nemendur, starfsfólk, fulltrúar bæjarstjórnar og formaður skólanefndar hlýddu á og tóku þátt í dagskrá heimsóknarinnar. Fyrst tók Inga Eiríksdóttir, fulltrúi kennara, til máls. Fór hún stuttlega yfir sögu skólans og vakti athygli á vexti hans og mikilvægi í samfélaginu auk þess að segja frá skipulagi námsins, fjölbreyttum verkefnaskilum, símati, vinsælu fjarnámi og einstökum starfsanda.
Þá steig ráðherra í pontu og fór yfir nokkur mál sem snerta starfsemi framhaldsskólanna og sérstaklega hugmyndir að nýju skipulagi fyrir opinbera framhaldsskóla. Markmið þeirra er að styrkja starf framhaldsskólanna og efla þjónustu við nemendur. Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, sérfræðingur í Mennta- og barnamálaráðuneytinu, ræddi þessar hugmyndir svo nánar áður en boðið var upp á spurningar úr sal. Sköpuðust út frá þeim spurningum ágætar umræður en þar sem hugmyndirnar eru enn á mótunarstigi voru engin bein svör nema að viðstaddir voru fullvissaðir um að ekki ætti að skerða fjárframlög til skólanna.
Eru þessum góðu gestum færðar þakkir fyrir komuna. Myndir