Fjölskylda Guðmundar Guðmundssonar hefur fært skólanum að gjöf listaverk sem hann málaði á herbergishurðina sína. Þema verksins er áróður gegn reykingum. Guðmundur fórst í bílsysi í Ólafsfjarðarmúla ásamt föður sínum árið 1979 aðeins nítján ára að aldri. Hann og skólafélagar hans í Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar máluðu árið 1974 mynd af landnámi Ólafsfjarðar sem hefur verið til prýði í skólahúsinu síðan.
Æskuheimili Guðmundar var selt nýlega og vildi hans fólk ráðstafa hurðinni og koma henni á stað þar sem fólk gæti notið verksins. Stjórnendum MTR þótt vel við hæfi að varðveita hana hér í skólahúsinu.
Góður rómur var gerður að fræðsluerindi Siggu Daggar, kynfræðings í skólanum í upphafi vikunnar. Erindið var bæði fyrir nemendur og starfsmenn skólans. Síðar sama dag bauð Sigga Dögg upp á fræðsluerindi fyrir foreldra en þar sem fáir sáu sér fært að mæta var brugðið á það ráð að nota tækni nútímans. Sendur var úr „lifandi viðburður“ á fésbókarsíðu sem skólinn heldur úti fyrir foreldra. Mæltist það vel fyrir og ljóst að foreldrar gátu vel nýtt sér þessa tækni til að fá fræðsluna heim í stofu ef þeir komust ekki á fyrirlesturinn í rauntíma.
Nemendur í áföngunum Inngangur að listum og Listræn sköpun fengu skemmtilegt tækifæri til að kynnast gerð smárita hjá gestakennurum í dag. Þeir dvelja í Listhúsinu í Ólafsfirði og eru meðal annars að undirbúa vetrarhátíðina Skammdegi. Smárit er þýðing á „zines“ sem er alþjóðlegt heiti ritverka sem gefin eru út í litlu upplagi, venjulega af einstaklingi eða litlum hópi. Oft eru þetta ljósrit en dæmi eru um smárit í öðru formi til dæmis útsaumuð. Upplagið er ekki yfir eitt þúsund og stundum innan við eitt hundrað. Fyrst fluttu Sheryl Anaya og Dannie Liebergot stutta kynningu á fyrirbærinu en síðan tóku nemendur og gestir þátt í verklegri æfingu í gerð smárita. Afrakstur vinnunnar í dag verður sýndur í Listhúsinu á laugardaginn kemur og verður sýningin opnuð klukkan átján. Þá er fyrirhugað að nemendur í Listrænni sköpun haldi áfram að vinna með smárit og færi sig yfir í bókverk í næstu viku.