Fréttir

Menntaskólinn á Tröllaskaga er Fyrirmyndarstofnun

Í gær tilkynnti Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu um valið á Stofnun ársins 2023 en titlana Stofnun ársins og Fyrirmyndarstofnun hljóta þær stofnanir sem þykja skara fram úr að mati starfsfólks á sviði mannauðsmála. Ár frá ári hefur þátttaka í könnuninni aukist og aldrei hefur verið betri þátttaka í Stofnun ársins en nú. Í ár tóku nærri 17.000 þátt í könnuninni sem var framkvæmd í október og nóvember 2023.
Lesa meira

Ýmsar verur á ferli á öskudaginn

Samkvæmt venju var líf og fjör í skólanum á öskudaginn. Margir mættu í grímubúningum og gaf starfsfólk nemendum ekkert eftir í því efni eins og sjá má á myndunum sem fylgja fréttinni. Nemendafélagið var með búningakeppni og átti úr vöndu að ráða þegar kom að vali skemmtilegustu búninganna. Niðurstaðan varð sú að aðstoðarskólameistarinn “Gyða Sól” og Addi hinn skoski þóttu bera af. Fjöldi yngri barna kom í skólann og tók lagið fyrir viðstadda. Var lagaúrvalið fjölbreytt; allt frá Gamla Nóa til þjóðsöngsins og fengu öll harðfisk að launum. Teknar voru myndir af öllum sönghópunum og fylgja þær hér með.
Lesa meira

539 nemendur við skólann á vorönn

Á þessari önn eru 539 nemendur við skólann og hafa sjaldan verið fleiri. Stærstur hluti þeirra stundar fjarnám við skólann, eru fjarnemarnir búsettir víðsvegar um landið og nokkrir erlendis. Kjörnámsbraut er fjölmennasta brautin, með um 250 nemendur, en þar velja nemendur þá sérhæfingu sem þeir vilja leggja áherslu á og skipuleggja námið í samráði við námsráðgjafa. Næst fjölmennust er félags- og hugvísindabrautin, með 170 nemendur. Starfsfólk skólans telur tæplega 30 manns og er það sami fjöldi og síðustu ár.
Lesa meira

Nemendur 10. bekkjar í tröllahöndum

Í síðustu viku bauð nemendafélagið Trölli nemendum 10. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar til skemmtikvölds í skólanum með það að markmiði að þjappa þessum tveimur hópum betur saman. Heilasellurnar voru virkjaðar í spurningakeppnum, bragðlaukarnir gladdir með pizzahlaðborði og svo var spjallað og hlegið. Vel tókst til og mæting góð.
Lesa meira

Elfa Sif hjúkrunarfræðingur

Elfa Sif Kristjánsdóttir er frá Siglufirði. Hún útskrifaðist af félags- og hugvísindabraut MTR vorið 2015. Skömmu síðar hóf hún nám í hjúkrunarfræði við Háskólann á Akureyri. Elfa býr í dag í Ólafsfirði og starfar sem hjúkrunarfræðingur á heilsugæslunni í Fjallabyggð. Við spurðum Elfu hvernig námið í MTR hafi undirbúið hana fyrir háskólanámið og hvað sé eftirminnilegast frá skólagöngunni.
Lesa meira

Listamaður mánaðarins - Kristján Jóhannsson

Ný sýning hefur nú verið sett upp í sal skólans. Er þar um að ræða upprunalegar myndir af nokkrum af þeim bókakápum sem myndlistarmaðurinn Kristján Jóhannsson vann á árunum 1985 til 1992 áður en tölvutæknin kom til sögunnar og leysti penslana af hólmi í þeirri grein. Myndirnar eru unnar með gvasslitum og akrýllitum.
Lesa meira

Fræðsla á Alþjóðlega menntadeginum

Menntaskólinn á Tröllaskaga er UNESCO-skóli og stendur sem slíkur fyrir dagskrá nokkra þeirra daga sem Sameinuðu þjóðirnar tileinka ákveðnum málefnum. Í gær, þann 24. janúar, var Alþjóðlegi menntadagurinn og beindi UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, kastljósinu að hatursorðræðu en menntun og kennarar hafa lykilhlutverki að gegna í að takast á við hana. Hatursorðræða hefur magnast á undanförnum árum í skjóli samfélagsmiðla og hefur oft og tíðum grafið undan samheldni samfélaga.
Lesa meira

Anna Kristín Semey málari

Anna Kristín fluttist til Ólafsfjarðar á unglingsárum. Hún útskrifaðist af myndlistasviði listabrautar MTR vorið 2017. Í kjölfarið skráði hún sig í kennaranám en fann sig ekki í því og fór út á vinnumarkaðinn. Löngunin til að læra meira blundaði samt alltaf í henni og haustið 2021 hóf hún nám í málaraiðn við Tækniskólann og útskrifaðist sem málari á dögunum. Anna Kristín býr í dag í Reykjavík og starfar sem málari hjá málningarþjónustunni 250 litir og í málningarversluninni Farver. Við spurðum Önnu Kristínu hvernig námið í MTR hafi undirbúið hana fyrir frekara nám og hvað sé eftirminnilegast frá skólagöngunni.
Lesa meira

Kraftmikill starfsmannahópur

Starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga býr yfir ýmsum hæfileikum og er óhætt að segja að einkunnarorð skólans, Frumkvæði - Sköpun - Áræði, gildi ekki aðeins í starfi þeirra í skólanum heldur einnig í ýmsum verkefnum sem þau taka sér fyrir hendur utan hans. Í starfsmannahópnum er m.a. starfandi myndlistar- og tónlistarfólk, jógakennari, ljósmyndarar, skíðakennarar, íþróttaþjálfarar og ljóðskáld, svo eitthvað sé nefnt. Einn af hinum kraftmiklu kennurum skólans er Karólína Baldvinsdóttir, sem lauk námi í fagurlistum frá Myndlistaskólanum á Akureyri og hjúkrun og kennsluréttindum frá Háskólanum á Akureyri. Hún hefur komið að ýmsum skapandi verkefnum á Akureyri síðustu ár og m.a. verið formaður Myndlistafélagsins og meðlimur í Kaktus, sem er samfélag ungra listamanna á Akureyri og hefur staðið fyrir ýmiskonar menningarviðburðum í Listagilinu. Nýjasta verkefni Karólínu er Samlagið; sköpunarverkstæði, sem haldið er innan Gilfélagsins, í samstarfi við ýmsa myndlistarmenn, Myndlistarfélagið og Listasafnið á Akureyri. Um er að ræða um þriggja mánaða námskeið þar sem áherslan er á skapandi hugsun og framkvæmd og framsetningu verka. Fyrstu námskeiðin voru sl. haust fyrir aldursflokkana 6 - 10 ára og 11 - 16 ára og enduðu þau með sýningu í Mjólkurbúðinni í byrjun desember. Vornámskeiðin hefjast í lok janúar og þar verður Karólína í hópi listafólks sem segir börnunum til. Einnig eru uppi áform um að bjóða upp á námskeið fyrir fullorðna.
Lesa meira

MTR meðal leiðandi íslenskra vinnustaða

Eitt af þeim verkfærum sem stjórnendur Menntaskólans á Tröllaskaga nota til að leiða skólann fram á við eru rauntíma mannauðsmælingar frá HR Monitor. Starfsfólk skólans svarar reglulega spurningakönnunum frá stjórnendum sem veitir því frekari tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og hafa áhrif á vinnustaðnum. Þessi svör veita stjórnendum rauntímaupplýsingar um mannauðsmál fyrirtækisins og gerir þeim kleift að bregðast skjótt við breyttum aðstæðum og auka þar með virkni starfsmanna. Spurningarnar eru 9 í hvert sinn og lúta m.a. að starfsánægju, sjálfstæði til ákvarðanatöku, stuðningi frá stjórnendum, kröfum um árangur og þróun í starfi. Á síðasta ári fékk skólinn viðurkenningu frá HR Monitor sem einn þeirra leiðandi íslenskra vinnustaða sem uppfylla ströng skilyrði til að vera útnefndur Mannauðshugsandi vinnurstaður árið 2023.
Lesa meira