Fréttir

MTR í Söngkeppni framhaldsskólanna

Tryggvi Þorvaldsson, Hörður Ingi Kristjánsson, Júlíus Þorvaldsson og Mikael Sigurðsson eru fulltrúar MTR í Söngkeppni framhaldsskólanna. Þeir leika jafnframt á eigin hljóðfæri, tvo gítara, hljómborð og bassa. Keppnislagið þeirra verður I ́m gona find another you eftir John Mayer. Söngkeppni framhaldsskólanna fer fram í Kópavogi á laugardagskvöld. Keppendur koma fram í sal án áhorfenda vegna heimsfaraldursins. Keppnin verður í beinni útsendingu á RÚV. Hún hefst klukkan 20:00 og stendur í um það bil tvær klukkustundir. Okkar menn eru með þeim síðustu á svið, sem þykir gott í keppni af þessu tagi.
Lesa meira

Rafræn afhending grænfánans

Menntaskólinn fékk grænfánan afhentan í morgun. Katrín Magnúsdóttir, sem stýrir grænfánaverkefninu hjá Landvernd afhenti fánann, í fyrsta sinn með rafrænum hætti. Grænfánaverkefnið er alþjóðlegt og taka skólar í sextíu og átta löndum þátt í því. Það snýst um að breyta heiminum til hins betra. Menn eru hluti náttúrunnar og þurfa að gæta hennar fyrir komandi kynslóðir. Störf umhverfisnefndar MTR á síðasta skólaári eru forsenda þess að skólinn fær grænfánann nú afhentan. Starfinu verður fram haldið í vetur. Nemendur einstakra áfanga skiptast á um annast umhverfisverkefni í samhengi við námsefni hverju sinni.
Lesa meira

Grímur

Við höldum starfinu áfram eins og verið hefur, grímuskylda verður ekki sett á í bili í Menntaskólanum á Tröllaskaga heldur er það valkvætt fyrir nemendur og kennara. Grímur verða í skólanum fyrir þá sem vilja. Eins og við vitum geta fyrirmæli breyst hratt og mikilvægt að allir haldi sóttvarnareglur eins og verið hefur. Hrósa má nemendum sérstaklega fyrir seiglu og þá virðingu sem þeir hafa sýnt rými annarra í skólanum.
Lesa meira

Rafræn stoðþjónusta

Á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis er að hefjast tilraunaverkefni sem snýst um notkun á stafrænum lausnum til að auka aðgengi framhaldsskólanemenda að stoðþjónustu, einkum geðheilbrigðisþjónustu. Menntaskólinn á Tröllaskaga er einn sex skóla sem taka þátt í verkefninu sem verður unnið á tveimur árum. Það snýst um að tengja saman sérfræðinga, svo sem náms- og starfsráðgjafa og sálfræðinga með fjarþjónustukerfinu Köruconnect. Þess er vænst að verkefnið auki aðgengi nemenda að stuðningi og ráðgjöf, auðveldi starfsmönnum að greina þarfir þeirra og að rýna veitta þjónustu eftirá. Innleiðing Köruconnect hefst síðar í þessum mánuði og greiðir ráðuneytið kostnað við uppsetningu kerfisins og notkun þann tíma sem tilraunin varir. Skólinn þróar notkun sína sjálfur í takt við þarfir nemenda. Hinir skólarnir sem taka þátt í verkefninu eru Borgarholtsskóli, Fjölbrautaskólarnir á Akranesi og í Ármúla, Menntaskólinn í Hamrahlíð og Verkmenntaskólinn á Akureyri.
Lesa meira

Erlent samstarf til fyrirmyndar

Tvö erlend verkefni bíða á hillunni eftir að covid-faraldurinn réni eða gangi yfir. Annað er samstarf við framhaldsskóla á Spáni, Ítatíu og Portúgal en hitt er endurmenntunarverkefni fyrir starfsmenn. Þessi verkefni eiga að hefjast um áramótin. MTR hefur bæði gengið vel að afla samstarfskóla og fengið sérlega jákvæð viðbrögð við umsóknum um Erasmusstyrki. Ástæða þess er að verkefni sem skólinn hefur tekið þátt í hafa gengið mjög vel. Í formlegu mati á endurmenntunarnámskeiði sem lauk í vor kom fram að framkvæmdin hefði að mörgu leyti verið til fyrirmyndar. Allar ferðir tengdust skipulögðum námskeiðum eins og gert var ráð fyrir í umsókn. Allar ferðir voru farnar og ein að auki. Flest námskeiðin tengdust nýjum kennsluháttum eða nýrri tækni í námi og kennslu í samræmi við stefnu skólans. Fram kom líka í matinu að miðlun á reynslu þátttakenda væri markviss á reglulegum fundum og á facebooksíðu starfsmanna. Segja megi að skapast hafi sterk alþjóðleg menning innan skólans, það þyki sjálfsagt að starfsmenn taki þátt í alþjóðlegu samstarfi og stuðningur stjórnenda við það sé afgerandi. Í formlegri umsögn RANNÍS segir að þátttaka í Evrópuverkefnum hafi haft mikil áhrif bæði á einstaklingana og skólann í heild. Einstaklingar hafi vaxið í starfi, eigi auðveldara með að takast á við krefjandi aðstæður og hafi byggt upp net tengsla við erlenda kollega. Verkefnisstjóri erlendra samskipta í MTR er Ida Semey.
Lesa meira

Rafræn úttekt á grænfánaverkefninu

MTR hóf á síðasta ári þátttöku í grænfánaverkefninu, Skólar á grænni grein, sem er rekið er af Landvernd á Íslandi. Verkefnið er stærsta umhverfismenntaverkefni í heimi og er haldið úti af samtökunum Foundation for Environmental Education. Skólar þurfa að taka sjö markviss skref áður en hægt er að sækja um afhendingu grænfánans. Sótt var um fyrstu úttekt á grænfánastarfinu síðastliðið vor, en vegna aðstæðna var henni frestað og fór úttektin því fram rafrænt í gær. Katrín Magnúsdóttir, verkefnisstýra, hitti nýnema í áfanganum Inngangur að náttúruvísindum, sem eru að vinna að umhverfismálum þessa stundina og einnig fulltrúa úr umhverfisnefnd skólans sem starfaði síðasta vetur. Farið var yfir markmið og aðgerðir sem fram hafa farið til að ná þeim, en unnið var með þemað: Neysla og úrgangur. Katrín spurði nemendur meðal annars hvort aðrir nemendur og kennarar hefðu vitað af starfinu og sýnt því áhuga. Kom í ljós að margir kennaranna eru með fræðslu um umhverfismál sem þeir flétta inn í fjölbreytt fög í námskránni án þess að þau beri yfirskriftina umhverfisfræðsla og allir staðnemar hafa verið hvattir til að fylgja instagramsíðu nefndarinnar. Meðal verkefna sem þóttu vel heppnuð á síðasta ári var fataskiptasláin. Það verkefni er komið til að vera. Um tvö hundruð skólar eru þátttakendur í grænfánaverkefninu á Íslandi. Fyrstu skólarnir voru grunnskólar en nú eru skólar á öllum skólastigum þátttakendur, þar á meðal tveir háskólar. MTR mun flagga sínum fyrsta grænfána þann 23.september næstkomandi. Verkefnisstýra grænfánans í MTR er Karólína Baldvinsdóttir.
Lesa meira

Stoðþjónusta og Covid 19

Það er eðlilegt að upplifa erfiðar tilfinningar og líðan eins í því óvissu ástandi sem við búum núna við í heimsfaldri Covid-19. Viðnám okkar gagnvart streitu og álagi getur minnkað, kvíði og áhyggjur aukist og tilfinningar um t.d. bjargarleysi, reiði eða sorg komið upp. Stoðþjónusta Menntaskólans á Tröllaskaga hefur tekið saman gagnlegan fræðsluvegg með ýmsum hagnýtum upplýsingum og bjargráðum. Stoðþjónustan minnir líka sérstaklega á þjónustu náms- og starfsráðgjafa, sálfræðings og hjúkrunarfræðings.
Lesa meira

Vatnasport í Ólafsfirði

Nemendur á starfsbraut og fleiri brautum nýttu góða veðrið í gær og reyndu sig í kæjakróðri og réru á standbretti á Ólafsfjarðarvatni. Nám um sogæðakerfi og öndun auk hugarstjórnunar var kjarni fræðslunnar, segir Lísebet Hauksdóttir, íþróttakennari. Eins og myndirnar sýna nutu nemendur þessa lýðheilsutíma sérlega vel. Meðal þess sem þau spreyttu sig á var að stökkva í vatnið af brúnni yfir Ósinn. Vatnið var aðeins um fimm gráðu heitt en menn létu það ekki á sig fá og hlýjuðu sér í heitum potti á eftir.
Lesa meira

Nemendum fjölgar

Nú í upphafi skólaárs eru nemendur Menntaskólans á Tröllaskaga 465. Það eru nokkru fleiri nemendur en áður. Íbúar í Ólafsfirði voru 804 í upphafi árs þannig að skráðir nemendur eru 58% af íbúatölunni. Því er þó ekki þannig varið að meirihluti íbúa séu nemendur í skólanum,mikill meirihluti nemenda eru fjarnemar. Þeir búa vítt um land, en flestir við Faxaflóa og svo nokkrir í öðrum löndum. Fjölmennasta brautin er félags-og hugvísindabraut með 205 nemendur, á listabraut eru 56, en 53 ákjörnámsbraut. Nokkrir grunnskólanemar eru skráðir í einstaka inngangsáfanga og sækja kennslustundir eftir því sem við verður komið.
Lesa meira

Skólastarf fer vel af stað

Þegar liðið er á annan dag skólastarfs í upphafi haustannar í MTR eru nemendur og kennarar sammála um að allt hafi farið vel af stað þrátt fyrir ýmsar takmarkanir. Allir þurfa að venja sig við eins metra fjarlægðarregluna, að gangarnir eru aðeins ferðarými milli kennslustofa, að sprittþvo verður borðið sitt fyrir og eftir notkun og fleira af því tagi. Eins og venjulega þurfa sumir nemendur að breyta skráningu sinni og sníða smávægilega vankanta af skipulaginu. Sumir nýnemar hafa lýst sérstakri ánægju með vinnutímana þar sem nemendur velja sjálfir hvaða námsgreinum þeir einbeita sér að.
Lesa meira