30.09.2025
Reglulega berast kennurum og stjórnendum skólans skilaboð frá nemendum og aðstandendum þeirra þar sem þeim eru færðar þakkir fyrir góða kennslu, frábært skipulag, góða uppsetningu námsefnis og ýmislegt annað sem snertir námið og skólastarfið. Skilaboð sem þessi sýna okkur fram á að við erum á réttri leið og gefa hlýju í hjartað. Hér eru nokkur dæmi frá síðustu önnum.
Hún gekk í Korpúlfsskóla, Laugalækjarskóla, fór í FÁ og MH en útskrifaðist loks með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Tröllaskaga. Þar fannst henni hún loksins fá rými til að læra meðfram því að sinna tónlistinni. „Ég á þeim skóla mikið að þakka.“
Bríet Ísis Elfar söngkona í viðtali við Vísi.
„Annars þá langar mig sjálfa að þakka svo innilega enn og aftur fyrir ykkar frábæra skóla, frábært fyrirkomulag og góða kennara og aðstoðarfólk allt! Það sem áður virtist ómögulegt er að verða að veruleika - unga konan mín hefur fengið áhuga á námi aftur og verður stúdent um jól. Það hefði aldrei tekist nema fyrir ykkur, ég fullyrði það. Það má færa þakkir í kennarahópinn frá okkur.”
„Þessar síðastliðnu nítján vikur hafa verið bæði viðburðaríkar og yndislegar. Í dag get ég sagt að ég er fullfær um að sinna námi og að ég geti meira að segja gert það með stæl. Ég var mjög hrædd fyrstu daga skólahaldsins en það leið hratt hjá þegar ég áttaði mig á að ég væri í góðum höndum hjá kennurunum mínum og skólanum sjálfum.”
„Þið kennarar mínir í MTR hafið veitt mér nákvæmlega það sem ég þurfti; skilning, stuðning og ekki síst trú á sjálfa mig.”
„Mig langar innilega að koma því að hvað ég er ánægður með að þurfa ekki að taka stór lokapróf, því ég er mjög kvíðinn fyrir prófum og á oft á tíðum til að klúðra hlutum í prófi sem ég hefði alla jafna ekki klúðrað, þannig þið fáið minn stuðning í þessari hugmyndafræði.”
„Vá ég hef nú lært margt í þessum áfanga. Kannski hefur stærsti lærdómurinn fyrir mig, sem er að setjast á „skólabekk" aftur komin yfir fertugt, verið sá að ég get þetta. Ég er ekki vonlaust keis. En mikið svakalega er þetta búið að vera gaman ég sit og bíð eftir næstu verkefnum melti þau yfir vikuna og nýt þess að vinna þau á kvöldin eftir langan vinnudag.”
„Ég er svo sátt við þennan áfanga og frammistöðuna hjá mér að ég er búin að skrá mig í næsta áfanga og hlakka ég mikið til næsta veturs.”
„Ég er ekki lengur bara kennitala á blaði. Ég hef ekki einu sinni hitt kennarana mína í eigin persónu en samt hefur hver og einn ykkar séð mig, hlustað á mig og hvatt mig áfram.”
„MTR hefur gefið mér nýtt hugarfar; jákvæðni, sjálfstraust og von. Ég er svo þakklát fyrir að hafa valið þessa leið. Þið hafið kennt mér að ég get, að það sé í lagi að mistakast og prófa aftur. Takk fyrir að vera meira en bara kennarar. Þið eruð innblástur.”
Lesa meira
25.09.2025
Alþjóðlegur dagur friðar er haldinn 21. september ár hvert. Dagurinn var fyrst helgaður alþjóðlegum friði árið 1982 og til hans stofnað af Sameinuðu þjóðunum árið áður. Skorað er á þjóðir heims að stöðva átök og hernaðaraðgerðir á þessum degi sem og að minnast dagsins með vitundarvakningu í menntastofnunum og hjá almenningi um málefni er snúa að friði.
MTR er UNESCO-skóli og nemendur og starfsfólk velja á hverju ári nokkra alþjóðadaga Sameinuðu þjóðanna til að vinna með. Alþjóðlegur dagur friðar er einn af þessum dögum í ár og í tilefni hans var dagskrá hjá okkur í vikunni. Nemendur og kennarar komu þá saman í sal skólans og hlýddu á ávarp António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, sem hann flutti í tilefni friðardagsins og síðan var ljóðalestur þar sem mikilvægi friðar var ítrekað. Þá sagði Ida Semey, kennari skólans, frá þeim áhrifum sem þátttaka í stríði hafði á ömmur hennar og afa. Hafði það ekki aðeins áhrif á sálarlíf þeirra heldur einnig næstu kynslóða. Fleiri kennarar lögðu orð í belg og sögðu frá því hvernig seinni heimsstyrjöldin hafði áhrif á þeirra fjölskyldur, áhrif sem jafnvel voru langvarandi. Vildu með því opna augu nemenda fyrir því að þó okkur þyki stríðin fjarlæg þá hafa þau sannarlega áhrif á fleiri en taka beinan þátt í þeim.
Að lokum völdu nemendur orð sem komu upp í hugann þegar þau hugsuðu um frið og mynduðu þau orðaskýið sem fylgir í myndasafninu með fréttinni. Svo tróð Hamingjubandið upp og flutti nokkur lög þar sem friður er boðaður og stríðsrekstri mótmælt. Var hljómsveitin að þessu sinni skipuð fjórum kennurum og einum nemanda og flutti m.a. lögin Imagine og Blowin´ in the Wind.
Lesa meira
23.09.2025
Í síðustu viku var okkar árlegi skólafundur þar sem nemendur velta fyrir sér ýmsum málum sem snerta skólastarfið og hafa tækifæri til að hafa áhrif á það. Var nemendum skipt upp í nokkra hópa þar sem valdir voru stjórnendur til að stýra umræðum og ritarar til að skrá niðurstöður hvers hóps. Umræðuefnin voru ákveðin af sjálfsmatsteymi skólans eftir samráð við nemendafélag skólans, kennara og starfsfólk. Að þessu sinni var rætt um nýtt fyrirkomulag sem tekið var upp í skólanum í haust þar sem hver nemandi hefur sína starfsstöð, félagslíf nemenda og hvaða alþjóðadaga UNESCO á að halda upp á í vetur.
Nemendur tóku þessu hlutverki alvarlega og líflegar umræður sköpuðust í öllum hópum. Skiptar skoðanir voru á nýja fyrirkomulaginu, sumum finnst það hjálpa við skipulag, t.d. með vikuáætlunum og að hafa sérstaka starfsstöð út af fyrir sig, aðrir sakna sveigjanleikans úr gamla kerfinu en allir voru sammála um að aðgengi að kennurum væri betra en áður. Nemendafélagið óskaði eftir hugmyndum til að efla félagslífið og fékk ýmsar uppástungur eins og t.d. bíó-, spila og tölvuleikjakvöld, íþróttadag, sundlaugarpartý og fleira skemmtilegt sem verður tekið til skoðunar. Hvað alþjóðadagana varðar stóðu Friðardagurinn og Dagur gegn kynbundnu ofbeldi upp úr á haustönn en Hamingjudagurinn og Móðurmálsdagurinn á vorönninni. Komu nemendur með ýmsar hugmyndir um hvernig vinna mætti með þema þeirra daga.
Lesa meira
17.09.2025
Í vikunni tilkynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hvaða aðilar hlytu Evrópsku nýsköpunarverðlaunin í kennslu (European Innovative Teaching Award – EITA) árið 2025. Ýmis áhugaverð verkefni eru verðlaunuð þar á meðal verkefni MTR „Heimsmarkmiðin í öllu skólastarfi – lýðræðislegt samfélag í framkvæmd“ sem er heildræn og skapandi nálgun skólans að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í allt skólastarf. Verður verkefnið fulltrúi Íslands á sérstakri verðlaunahátíð sem haldin verður í Brussel dagana 8.-9. desember.
Lesa meira
12.09.2025
Í vikunni var hinn árlegi Opni dagur í Háskólanum á Akureyri þar sem áhugasamir gátu fengið svör um skólann og skólastarfið frá fyrstu hendi. Var boðið upp á rútuferðir frá framhaldsskólum við Eyjafjörðinn, nýttu nemendur frá MTR sér það og kíktu í heimsókn. Námsleiðir skólans í grunnnámi voru kynntar á sérstökum básum þar sem stúdentar og starfsfólk skólans tóku gestum fagnandi og svöruðu spurningum um námsframboð, félagslíf, möguleika að námi loknu, sveigjanlegt nám og ýmislegt fleira.
Þessar heimsóknir hafa reynst nemendum MTR vel undanfarin ár og hafa þótt áhugaverðar og hvetjandi. Þeir sem hafa þegar ákveðið hvaða nám þeir ætla í að loknu stúdentsprófi hafa getað rætt málin við kennara og nemendur viðkomandi sviðs og hjá öðrum hafa hugmyndir að frekara námi jafnvel kviknað. Sem fyrr voru nemendur ánægðir með að hafa þegið boðið, sáu margt forvitnilegt, hittu fyrrum samnemendur og tóku þátt í bollaleggingum um hvaða leiðir ætti að feta í framtíðinni.
Lesa meira
09.09.2025
Í haust innrituðust 600 nemendur í skólann og komust færri að en vildu. Flestir eru í fjarnámi víða að, íþróttamenn sem iðka íþrótt sína erlendis, þeir sem hafa ekki efnahag til að vera án atvinnu, sjúklingar og síðan þeir sem hættu í framhaldsskóla en hafa séð að sér og koma til baka til að klára. Ólíkt því sem áður var koma brotthvarfsnemendur fyrr inn aftur í nám og því eru nemendur skólans flestir yngri en 25 ára. Þegar unnið er með skóla þá eru nemendur oft að ljúka á lengri tíma en með seiglu og áræði tekst þetta allt saman. Starfsfólk skólans er mjög ánægt með aðsóknina en vonast til aukinna fjárveitinga í framtíðinni svo skólinn geti tekið við fleiri nemendum. Fátt er ánægjulegra en að vinna með ungu fólki sem vill mennta sig og þar með bæta framtíðarhorfur sínar og lífsgæði.
Lesa meira
04.09.2025
Á hverju skólaári fáum við heimsóknir kennara erlendis frá; kennara í starfsspeglun (Job Shadowing) sem vilja fá að fylgjast með kennslu og fræðast um skólann okkar og kennsluhætti. Leggjum við áherslu á að taka vel á móti þessum gestum, skipuleggjum vandaða og fjölbreytta dagskrá og hugum vel að því að góður tími gefist til skoðanaskipta svo við lærum líka af gestum okkar. Þeir fá að skoða áfanga í mismunandi greinum, kynnast kennslukerfi skólans, ýmsum matsaðferðum og fjölbreyttum skilamöguleikum verkefna svo eitthvað sé nefnt. Fastir liðir í þessum heimsóknum eru kynning á skólanum, viðtöl við nemendaráð, skólastjórnendur og fjölda kennara.
Alla síðustu viku voru hjá okkur tveir kennarar frá Belgíu og einn frá Lanzarote og komu þeir hingað á styrk frá Erasmus+. Voru þeir alsælir með heimsóknina, sögðust hafa lært fjölmargt af henni og buðu fulltrúa okkar skóla velkomna til sín við tækifæri. Í mati þeirra á heimsókninni kom m.a. fram að andrúmsloftið í skólanum hafi verið einstaklega gott, þeim hafi fundist þeir sérlega velkomnir í skólann og dagskráin hefði verið vel skipulögð. Allir hefðu gefið sér góðan tíma til að ræða við þá til að gefa þeim innsýn í stefnu skólans, skólastarfið og kennsluhætti.
Aðspurðir um hvað þeir hefðu lært nýtt og tækju með sér úr þessari heimsókn sögðust þeir m.a. hafa lært mikið um aðferðafræðina sem notuð er í skólanum, verkfærin sem notuð eru í kennslu og til að veita nemendum endurgjöf. Þeim fannst frábært hvernig kennarar eru að tileinka sér gervigreind og vinna með hana, frelsið í námskránni og sveigjanlegar stundatöflur komum þeim á óvart sem og ábyrgð nemenda á eigin námi. Þeim leist vel á vikuskipulag verkefna og það sé gott fyrir nemendur að hafa allt námsefni aðgengilegt á einum stað í kennslukerfinu.
Mjög fróðlegt hafi verið að fá að heyra skoðanir nemenda á náminu og spjallið við Láru skólameistara hafi verið mjög upplýsandi. Hugmyndafræði hennar um menntun sé frábær og gaman væri að sjá hvernig henni hefur tekist að mynda teymi kennara sem stefna allir í sömu átt og hugsa alltaf um hvað sé best fyrir nemendurna.
Sögðu þeir heimsóknina hafa víkkað sjóndeildarhringinn á ýmsa vegu, þeir hafi séð eitthvað nýtt og gagnlegt á hverjum degi og hafi fengið margar hugmyndir til að deila með samstarfsfólki sínu. Heimsóknin hafi kveikt löngun til að beita nýjum aðferðum í kennslu, halda áfram að læra og deila þekkingu.
Lesa meira
02.09.2025
Það er hefð að bjóða nýnema velkomna í skólann á sérstökum nýnemadegi. Var hann haldinn í síðustu viku og þar tókust staðnemar skólans á við ýmis skemmtileg verkefni til að hrista hópinn betur saman. Stjórn nemendafélagsins Trölla skipulagði dagskrá dagsins sem hófst með fjörlegum ratleik. Nemendunum var skipt upp í hópa og þurftu þeir að leysa hinar ýmsu þrautir innan skólans sem og vítt og breitt um Ólafsfjörð. Mynda þurfti lausn hverrar þrautar með hópnum öllum og skila inn til dómnefndar. Skemmtu nemendur sér vel og dómnefndin ekki síður við að meta frammistöðu hvers hóps því þrautirnar voru æði frumlegar. Má þar nefna að taka mynd af hópnum með eldri borgara, gera góðverk fyrir bæjarbúa, mynda stafi og orð með líkamanum, gera listaverk úr rusli, skora á bæjarbúa í kapphlaup og fleira áhugavert.
Að loknum ratleiknum var farið í boðhlaup þar sem einnig þurfti að leysa áhugaverðar þrautir eins og að svolgra í sig hráu eggi, blása upp blöðru og borða kókosbollu og drekka gosdrykk með á milli þess sem sprett var úr spori. Að boðhlaupi loknu voru veitt verðlaun fyrir góða frammistöðu í báðum keppnum áður en sest var að borðum og pizzuveislu í boði skólans gerð skil.
Deginum lauk svo með sundspretti í sundlauginni og afslöppun í heitu pottunum eftir átök dagsins. Voru nemendur og starfsfólk sammála um að vel hefði til tekist og veðrið sýndi sínar bestu hliðar eins og myndirnar bera með sér.
Lesa meira
28.08.2025
Reglulega berast kennurum og stjórnendum skólans skilaboð frá nemendum og aðstandendum þeirra þar sem þeim eru færðar þakkir fyrir góða kennslu, frábært skipulag, góða uppsetningu námsefnis og ýmislegt annað sem snertir námið og skólastarfið.
Á vordögum og nú í byrjun haustannar höfum við m.a. fengið þessi fallegu skilaboð sem sjá má hér að neðan. Sannarlega upplífgandi í upphafi skólaársins og gefur okkur staðfestingu á að við séum á réttri leið.
„Það er einmitt vegna svona góðra kennara sem hún er nú loksins að klára stúdentspróf eftir margra ára tilraunir við misjafnar aðstæður. Ég hef verið viðloðandi skólakerfið í um 30 ár og verð að segja að MTR er einn faglegasti og besti menntastaðurinn sem ég þekki.”
„Sæl, mig langaði svo að segja þér hvað mér finnst þessi HP5 verkefni skemmtileg og ekkert smá fræðandi! Mér finnst gaman að læra núna um Völuspá og finnst ég ná miklum árangri að horfa og virkilega þurfa að hlusta til að svara spurningum rétt. Takk fyrir frábært námsefni. Ég kláraði öll verkefnin því ég vildi ekki hætta að læra, svo gaman.”
„Takk fyrir frábæra kennslu. Þú ert æði.”
„Ég hef aldrei dýrkað manneskju jafn mikið sem ég hef aldrei hitt.”
„Vildi bara þakka þér persónulega fyrir önnina þar sem ég hefði ekki komist í gegnum þetta án þín. Takk fyrir að trúa á mig og opna hugann um að ég gæti þetta.”
„Það er búið að vera frábært að kynnast þér, takk fyrir alla þína hjálp og þitt traust. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn við þig þá hef ég aldrei lært svona mikið á stuttum tíma, ég er ekkert nema þakklát. Haltu áfram að láta ljós þitt skína, mátt vera mjög stolt af þér.”
„Hæ hæ, nú er önnin alveg að klárast en mig langar bara að senda þér skilaboð og þakka þér fyrir það hvað þú ert yndislegur og góður kennari og gaman að vera í áföngum hjá þér. Takk fyrir önnina.”
Lesa meira
27.08.2025
Eitt af einkennismerkjum skólans er öflugt erlent samstarf og nær það bæði til starfsfólks og nemenda. Á þessari önn er búið að skipuleggja ýmsar ferðir og hafa fengist til þeirra styrkir úr Nordplus,menntaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar og menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+.
Á önninni munu tveir kennarar halda til Danmerkur að fylgjast með kennslu og fara þeir í sitt hvorn skólann. Tveir kennarar halda til Portúgal í nokkra daga í sömu erindagjörðum í október og mánuði síðar sitja þrír kennarar námskeið um gervigreind í Porto. Auk þess munu skólameistari og tveir kennarar halda til Singapúr á stærstu ráðstefnu sem haldin er í Asíu um upplýsingatækni og kynna sér það nýjasta í þeim efnum.
Tvær nemendaferðir eru á döfinni. Hópur nemenda mun dvelja um vikutíma í Eistlandi í október til að taka þátt í fyrsta hluta verkefnis sem kallast Að tengja huga og menningu gegnum sögur. Í þessu verkefni eru fjórir skólar, tveir frá Tallin í Eistlandi, einn finnskur skóli og svo MTR. Einnig mun nemendaráð skólans halda til Kaupmannahafnar í nóvember og vinna þar að verkefni sem kallast Nemendalýðræði og félagsleg sjálfbærni með nemendaráðum tveggja skóla í okkar fornu höfuðborg.
Heimsóknir erlendis frá í MTR verða einnig nokkrar á önninni. Þessa vikuna eru t.d. tveir kennarar frá Belgíu og einn frá Lanzarote, austustu eyju Kanaríeyja, að kynna sér starfshætti í skólanum og ræða við kennara og nemendur um nám og kennslu.
Lesa meira