Fréttir

Björgunarsveitir kynntar í Erasmus+ verkefni

Sjö MTR-nemendur og tveir kennarar hafa dvalið í Saldus í Lettlandi þessa viku og tekið þátt í Erasmus+ verkefninu „U2 have a voice“. Það snýst um að efla nemendalýðræði og virkja ungt fólk til þátttöku í lýðræðissamfélagi. Ásamt íslensku nemendunum taka nemendur frá Grikklandi, Lettlandi og Tékklandi þátt. Nemendurnir gista hjá fjölskyldum í Saldus og kynnast þannig innbyrðis og fá tækifæri til að upplifa ólíka menningu inni á heimilunum og í Saldus Videskula sem heldur utan um verkefnið í Lettlandi. Þátttakendur fengu höfðinglegar móttökur á mánudagsmorgun þegar haldnir voru tónleikar þeim til heiðurs í anda kærleika og ástar, enda Valentínusardagurinn nýliðinn.
Lesa meira

Verðlaun í myndbandasamkeppni

Tveir hópar MTR-nemenda hafa unnið til verðlauna fyrir myndbönd í norrænni samkeppni. Þemað var sýn nemenda á plastmengun í heimshöfunum og hvernig þeir sjá fyrir sér að hægt sé að leysa vandamálið, eða hluta þess. Birna Björk Heimisdóttir og Sara Sigurbjörnsdóttir fengu fyrstu verðlaun, þyrluferð, fyrir sitt myndband. Hörður Ingi Kristjánsson, Júlíus Þorvaldsson, Mikael Sigurðsson og Tryggvi Þorvaldsson fengu önnur verðlaun og verður myndbandið þeirra sýnt ásamt hinum myndböndunum sem lentu í efstu sætunum. Það gerist á ráðstefnunni „Plastic in the Artic“ sem haldin verður í Reykjavík í apríl.
Lesa meira

Málvinir á Sikiley

Nemendahópur í máladeild IISS Leonardo Da Vinci - Piazza Armerina menntaskólans á Sikiley hefur að undanförnu notað nærverur í MTR til að heimsækja nemendahóp hér í skólanum. Báðir hópar læra ensku. MTR-nemar eru í áfanganum ENSK2LM05 – enska, menning, tjáning og lestur. Hörður Ingi Kristjánsson, nemandi á annarri önn, segir að samskiptin hafi verið pínulítið vandræðaleg í byrjun en svo þegar fólk hafi byrjað að tala þá hafi þetta ekki verið neitt mál. Þetta sé mjög góður hluti af enskunáminu, að æfa framburð með því að tala við útlendinga. Hann segir að í sikileyska skólanum sé bekkjarkerfi og hópurinn eigi sína stofu. Það séu ekki vinnutímar hjá þeim eins og í MTR og svo sé kynjaskipt í bekki, þetta sé stelpubekkur sem MTR-hópurinn spjalli við. Búið sé að sýna þeim skólann, meðal annars tónlistarstofuna og myndlistarstofuna. Þar stóð svo vel á að Bergþór Morthens var að kenna sínum nemendum í gegn um nærveru frá Svíþjóð og sikileysku krakkarnir „hittu“ hann eins og myndin sem fylgir fréttinni sýnir. Einu tengsl þessarra tveggja nemendahópa eru að enskukennararnir þeirra Tryggvi Hrólfsson og Anthony M. La Pusata þekkjast síðan þeir voru saman á Erasmus+ námskeiði um vendikennslu á Spáni árið 2017.
Lesa meira

Lýðræði og ábyrgð

Hópur sjö MTR-nemenda og tveggja kennara verður í Lettlandi þessa viku og tekur þátt í Erasmus+ verkefni. Markmið þess er að þjálfa nemendur í virkri þátttöku og kenna þeim að axla ábyrgð í lýðræðisþjóðfélagi. Þátttakendur eru nemendur framhaldsskóla í Grikklandi og Tékklandi auk Lettlands og Íslands. Verkefnið er að hefjast en mun standa í tvö ár. Í fyrsta hlutanum verður fjallað um borgaralega ábyrgð, starf sjálfboðaliða og kosningar. Nemendahópurinn frá MTR ætlar að kynna starf björgunarsveitanna á Íslandi auk þess að segja frá landi og þjóð, Fjallabyggð og skólanum sínum.
Lesa meira

VG-þingmenn í heimsókn

Alþingismenn nota kjördæmavikuna til að heimsækja fyrirtæki og stofnanir, kynna sig og kynnast fólki og starfsemi vítt um land. Nokkrir þingmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs heimsóttu skólann í morgun. Lára skólameistari tók á móti þeim og greindi frá hugmyndafræðinni sem skólastarfið byggist á og útskýrði sérstöðu skólans. Kolbeinn Óttarsson Proppé segir að heimsóknin hafi bæði verið mjög upplýsandi og skemmtileg. Hópurinn hafi skoðað skólann, hitt nemendur og meira að segja fengið að grípa í hljóðfæri í tónlistarstofunni. Það hafi verið létt yfir nemendum og augljóst að þeim líði vel í skólanum. VG-hópurinn hefði gjarnan viljað hafa meiri tíma í en dagskrá heimsóknarinnar á Eyjafjarðarsvæðinu hefur verið þétt í því skyni að allir komist heim áður en óveður skellur á.
Lesa meira

Góðir gestir

Nemendur tíunda bekkjar í Þelamerkurskóla heimsóttu MTR og kynntu sér nám og námsaðstæður í skólanum í dag. Lára, skólameistari, Inga, stærðfræðikennari og Bergþór kennari í listgreinum tóku á móti hópnum, sögðu frá og svöruðu spurningum. Lára og Inga voru á staðnum en Bergþór nýtti tæknina og tók þátt í gegn um nærveru frá Gautaborg. Nemendur voru mjög áhugasamir og greinilegt að þeim leist vel á nýtingu skólans á upplýsingatækni við námið sem og fjölbreytnina í námsmati. Það olli þeim hins vegar vonbrigðum að ekki er heimavist við skólann.
Lesa meira

Kynnisferð í menninguna

Nemendur listabrauta í MTR fóru í menningarferð til Akureyrar gær og komu við í Kaktus, Mjólkurbúðinni og Listasafninu. Tvisvar var búið að fresta ferðinni vegna veðurs og ófærðar en þriðja tilraun tókst vel og á annan tug nemenda og kennara tók þátt í ferðinni. Karólína Baldvinsdóttir, listgreinakennari í MTR er starfandi myndlistarkona og ein af listahópnum Kaktusi svo það voru hæg heimatökin að kynna þá starfsemi fyrir nemendum. Svo vill til Karólína opnar sýningu í Kaktus á föstudag þannig að nemendur fengu að sjá og kynnast málverkasýningu á lokametrunum, rétt áður en hún er hengd upp á sýningarveggina. Í Kaktus sagði Freyja Reynisdóttir myndlistarkona einnig frá sínum verkum en hún verður með námskeið fyrir nemendur MTR í miðannarvikunni. Eftir stutt stopp í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélagsins á Akureyri, var haldið í Listasafnið. Þar tók Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi á móti hópnum og fræddi og leiðsagði um hinar mörgu og fjölbreyttu sýningar listasafnsins. Það er mjög mikilvægt fyrir nemendur í listgreinum að geta farið í ferðir sem þessar, séð vinnustofur listamanna, skoðað sýningar og fengið góða leiðsögn eins og í boði er á Listasafninu á Akureyri.
Lesa meira

Ida á Erasmus+ ráðstefnu

Verið er að leggja lokahönd á starfsáætlun Erasmus+ fyrir árin 2021-2029. Ida Semey, verkefnisstjóri erlendra samstarfsverkefna í MTR var í hópi níu einstaklinga sem boðið var á ráðstefnu í Brussel í síðustu viku þar sem nýja áætlunin var kynnt. Þarna voru liðlega 600 hagsmunaaðilar frá ráðuneytum, landsskrifstofum, sveitarfélögum, fyrirtækjum, samtökum, háskólum, framhaldsskólum, fræðslusetrum og leikskólum vítt um Evrópu. Gestum var skipt í 30 umræðuhópa og vinnustofur með mismunandi þemu. Ida segist hafa fengið tilfinningu fyrir áskorunum og tækifærum í tengslum við Erasmus+ á hverju sviði sem hún tók þátt í en ekki hafi allir verið sammála um leiðir að mismunandi markmiðum. En flestir hafi verið fullir af eldmóði og með jákvæðar væntingar. Margir hafi verið reyndir og sagt skemmtilegar sögur. Hún hafi hitt gamla kunningja, kynnst mörgu nýju fólki og fengið tækifæri til að tala öll tungumálin sex sem hún kann. Þá hafi samveran með Íslendingunum í ferðinni verið afar lærdómsrík og skemmtileg og mikill heiður að fá tækifæri til að taka þátt í umræðum, kynna skólann og kynnast hinu margslungna og fjölþjóðlega samfélagi sem Erasmus+ er.
Lesa meira

Geðrækt

Áfanginn LÝÐH2GR05 er heilsuræktaráfangi með forvarnargildi þar sem lögð er áhersla á andlega líðan og geðrækt. Þar er fjallað um áskoranir daglegs lífs, stretuvalda og aðferðir til að takast á við kvíða og depurð. Meðal námsmarkmiða er að læra að gagnrýna á uppbyggilegan hátt og taka gagnrýni. Áhersla er á æfingar í formi leikja og fjölbreyttir kennsluhættir lagaðir að námshópnum hverju sinni. Hópurinn á myndinni fjallaði um tilfinningar í gær og ræddi viðbrögð við vonbrigðum, depurð og reiði. Einnig áttu þau að skrifa um hvað hjálpaði þeim að sofna og hvernig þau nota tónlist við mismunandi aðstæður. Kennari í áfanganum er Lísebet Hauksdóttir.
Lesa meira

Gestir að vestan

Háskólanemar frá Gustavus Adolphus College í Minesota í Bandaríkjunum heimsóttu skólann á þriðjudag. Þetta var tuttugu manna hópur á aldrinum 18-21 árs ásamt kennurum sínum Kjerstin Moody og Jeff La Frenierre. Nemendur GAC taka í janúarmánuði námskeið sem er ferðalag. Gjarnan er farið á framandi slóðir og námið hugsað til undirbúnings nemenda fyrir starfsferil þeirra (career course). Áhersla er á samþættingu greina á borð við bókmenntir, hagfræði, hjúkrun, landfræði og lýðheilsu. Hópurinn verður þrjár vikur á Íslandi og kynnir sér sérstaklega atvinnulíf, mannlíf og menningu í bæjum á Tröllaskaga. Lára Stefánsdóttir og Inga Eiríksdóttir tóku á móti hópnum og sögðu frá skólastarfi hér. Nemendurnir voru áhugasamir og spurðu margs. Sumir höfðu verið í grunnskóla þar sem kennslufræðin var svipuð því sem fylgt er í MTR.
Lesa meira