Fréttir

Galdrar eða töfrar?

Í mannfræðiáfanga á haustönninni spreyttu nemendur sig meðal annars á því að finna muninn á töfrum og göldrum. Hann er ekki augljós en í fræðunum eru töfrar gjarnan skilgreindir sem athafnir þar sem ýtt er á hið yfirnáttúrulega eða það neytt til aðstoðar. Galdrar voru á hinn bóginn notaðir til illra verka. Í daglegu tali er ekki gerður mikill munur á göldrum og töfrum, Einar Mikael, sem heimsótti skólann í vikunni kallar sig til dæmis töframann en auglýsir galdranámskeið fyrir börn. Hann sýndi listir sínar sem við getum kallað spilagaldra eða töfrabrögð. Þessar athafnir glöddu viðstadda og sumir tóku þátt í þeim. Þeir sátu eftir með ákveðnar efasemdir um hvernig þetta væri hægt. Við því eru ekki svör en við getum að minnsta kosti sagt að Einar Mikael hafi stráð töfrum sínum yfir nemendur og kennara skólans.
Lesa meira

Gestir úr Valsárskóla

Hópur nemenda úr níunda og tíunda bekk Valsárskóla á Svarbarðsströnd kynnti sér í morgun aðstöðu til náms í MTR. Sigríður Ásta, námsráðgjafi, fylgdi þeim um skólann. Gestirnir fengu tækifæri til að spjalla við kennara og nemendur í kennslustundum, meðal annars Bergþór myndlistarkennara sem var í Svíþjóð en viðstaddur í stofunni sinni með milligöngu fjarverunnar Evu. Auk kennsluhátta Bergþórs þótti Valsárskólanemum mikið koma til búnaðar í ljósmyndastúdíi skólans og hljómlistarstofunni.
Lesa meira

Kafað með Gesti

Nemendur í útivistaráfanga annarinnar skelltu sér í sundlaugina á Siglufirði í vikunni. Ekki var tilgangurinn þó að æfa hin hefðbundnu sundtök, eða slaka á í heita pottinum, heldur að kynnast og prófa köfun í fullum skrúða. Gestur Hansson, annar kennarinn í áfanganum, er öllum hnútum kunnugur þegar kemur að köfun og fór hann yfir búnað og ýmis öryggisatriði sem nauðsynlegt er að kunna skil á áður en kíkt er undir yfirborðið. Köfun er skemmtilegt sport sem nemendum fannst spennandi að kynnast af eigin raun.
Lesa meira

Nýjar græjur

Nokkur spenningur greip um sig hjá nemendum í áfanganum „skapandi tónlist“ þegar þeir rákust á kassa í anddyri skólans sem virtust innihalda nýjar græjur til tónlistariðkunar. Kassarnir voru opnaðir í hvelli og grunur þeirra reyndist réttur. Í ljós kom gítarmagnari, hljóðkerfi, hljóðnemastandar, trommukjuðar, strengir og fleira dót. Strákarnir á myndinni, Hörður, Mikael, Tryggvi og Júlíus eru í hljómsveitinni Ronja og ræningjarnir ásamt fleirum. Hljómsveitin æfir í skólanum á fimmtudögum og kemur væntanlega næst fram hér á haustsýningunni um miðjan næsta mánuð. Guðmann Sveinsson kennir áfangann um skapandi tónlist.
Lesa meira

Rafræn skil

Menntaskólinn hefur tekið upp rafrænt skjalavörslukerfi og Þjóðskjalasafn hefur samþykkt það. Þetta þýðir að öllum gögnum úr starfi skólans sem skylt er að halda til haga með þessum hætti má skila rafrænt. Með þessu uppfyllir skólinn lagalegar skyldur sínar. Jafnframt spara rafræn skil alla prentun á pappír. Skólinn varðveitir gríðarlegt magn gagna á rafrænu formi en ef ekki er heimild til rafrænna skila þarf að prenta þetta allt út og skila til Þjóðskjalasafns á pappír. Nýja fyrirkomulagið sparar líka mikla vinnu og það kemur sér vel í fámennri stofnun.
Lesa meira

Við sjávarsíðuna

Verkin á sýningu mánaðarins í Hrafnavogum tengjast öll sjó og sjávarútvegi. Þau eru eign listaverkasafns Fjallabyggðar. Fjögur verkanna eru úr hinni veglegu listaverkagjöf Arngríms Ingimundarsonar og Bergþóru Jóelsdóttur, sem þau færðu Siglufjarðarkaupstað árið 1980. Flest verkanna eru frá sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Tvö eru eftir siglfirska listamenn. Þeir sem eiga verk á sýningunni eru Ágúst Petersen, Birgir Schiöth, Herbert Arnarson, Hringur Jóhannesson, Sveinn Björnsson og Veturliði Gunnarsson. Þetta er þriðja sýningin á verkum úr listaverkasafni Fjallabyggðar sem sett er upp í skólanum og færum við Fjallabyggð kærar þakkir fyrir samstarfið.
Lesa meira

Fræðst um karlmennskuna

Lesa meira

Samstarf við Pálshús

Viljayfirlýsing um samstarf Pálshúss og Menntaskólans á Tröllaskaga var undirrituð í skólanum í hádeginu í dag. Samstarfið mun meðal annars felast í heimsóknum nemenda skólans og nýtingu á safnkosti og sýningarsölum safnsins til skapandi starfa og verkefna nemenda. Einnig getur falist í samstarfinu miðlun á þekkingu starfsfólks Pálshúss til nemenda MTR með erindum um safnkostinn, uppbyggingu safnsins, frumkvöðlastarf, þátttöku í ferðaþjónustu á Tröllaskaga og fleiru. Þá er mögulegt að sýna verk nemenda í húsinu.
Lesa meira

Innritun í fjarnám á vorönn hafin

Innritun í fjarnám á vorönn er hafin og geta umsækjendur skráð sig inn undir flipanum „Fjarnám“, „Innritun í fjarnám“. Áfangar þar sem pláss er fyrir fleiri nemendur eru opnir til innritunar en hverfa úr vali þegar þeir eru orðnir fullir. Gert er ráð fyrir að meðaltali 105 klukkustunda vinnu á önninni fyrir 5 eininga áfanga og eru umsækjendur beðnir að velja sér námsálag við hæfi. Innritun í staðnám fer fram á menntagatt.is
Lesa meira

Áhersla á hamingjuna í kínverskum skólum

Heimsráðstefna skólastjóra var haldin í Shanghai í Kína 23.-25. október s.l. Lára Stefánsdóttir skólameistari MTR sótti ráðstefnuna ásamt hópi íslenskra skólameistara. Ráðstefnan var einstaklega góð, fjölmargt mátti læra og skipulag og utanumhald til fyrirmyndar. Markmiðið með ferðinni var að meta hvað væri helst á döfinni í skólastjórnun í heiminum, kynnast áherslum Kína í menntun og hver framtíðarsýn væri á skólastarf.
Lesa meira