Fréttir

Fjölmennasta brautskráningin til þessa

Það var hátíðleg stund í Menntaskólanum á Tröllaskaga í gær þegar fimmtíu og tveir nemendur brautskráðust og hefur útskriftarhópurinn aldrei verið stærri. Alls hafa nú 602 nemandur brautskráðst frá skólanum á þeim fjórtán árum sem hann hefur starfað. Fimm staðnemar voru í útskriftarhópnum en stærstur hluti nemenda skólans eru fjarnemar og voru fjörutíu og sjö þeirra að útskrifast í dag. Þeir koma frá fjórtán stöðum af landinu. Tuttugu og einn útskriftarnemi sá sér fært að mæta í athöfnina en aðrir fylgdust með í streymi. Margir nemanna voru að koma í skólann í fyrsta sinn á útskriftardaginn.
Lesa meira

Áhugavert námskeið um gervigreind

Menntaskólinn á Tröllaskaga stóð fyrir lærdómsríku og áhugaverðu námskeiði um gervigreind (AI) fyrir starfsfólk sitt, haldið af hinum virta gervigreindarfræðingi Thomasi Lakowski sem starfar hjá Europass. Markmið þess var að auka þekkingu starfsfólks á fyrirbærinu og kynna þeim ýmis verkfæri sem nauðsynleg eru til að samþætta gervigreindartækni inn í kennsluhætti sína og starf.
Lesa meira

Vorsýning opnar laugardaginn 18. mai

Vorsýning nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga opnar í húsnæði skólans laugardaginn 18. maí kl. 13.00 og verður opin til 16.00. Einnig verða rafrænar sýningar á vef skólans. Til sýnis verður afrakstur vinnu nemenda á vorönn undir einkunnarorðum skólans; frumkvæði - sköpun - áræði. Á sýningunni í skólahúsinu eru fjölbreytt verk nemenda í myndlist, ljósmyndun og fleiri námsgreinum og rafrænar sýningar eru á verkum sem unnin voru í íslensku, ensku, líffræði, stærðfræði og erlendum verkefnum. Sýningin í skólahúsinu verður opin á opnunartíma skólans fram að útskrift þann 25. maí en rafrænu sýningarnar eru aðgengilegar á vef skólans sem og sýningar síðustu ára. Þar má sjá fjölmörg metnaðarfull dæmi um skapandi vinnu nemenda skólans.
Lesa meira

Fjör á síðasta kennsludegi

Síðasti kennsludagur á vorönn var sl. þriðjudag og af því tilefni skipulögðu íþróttakennarar skólans Tarzan-leik í íþróttahúsinu fyrir nemendur og buðu nemendum í elstu bekkjum Grunnskóla Fjallabyggðar einnig að vera með. Úr varð mikið fjör og góð skemmtun fyrir alla sem tóku þátt eins og myndirnar bera með sér. Nú eru námsmatsdagar í skólanum þar sem kennarar leggja lokahönd á námsmat í áföngum sínum og gefa lokaeinkunnir. Framundan er svo námskeið kennara þar sem þeir fræðast um gervigreind, vorsýning verður 18. maí og útskrift laugardaginn 25. maí.
Lesa meira

Samstarf við 27 af 30 löndum sem Evrópustyrkir ná til

Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur notið ríkulegra styrkja úr áætlunum ESB síðustu ár og tekið þátt í fjölda verkefna með tilstuðlan þeirra. Þann 8. maí sl. tók MTR þátt í uppskeruhátíð Evrópuverkefna, bar hún yfirskriftina Evrópusamvinna í 30 ár. Fór hátíðin fram í Kolaportinu í Reykjavík, var öllum boðið að líta inn til að fræðast og njóta. Ida Semey, kennari skólans, hefur stýrt vinnu við erlend verkefni í MTR og náð árangri sem eftir hefur verið tekið. Hefur mikið verið leitað til skólans um samstarf bæði fyrir nemendur og kennara. Ida var í kynningarbás skólans á uppskeruhátíðinni ásamt Láru Stefánsdóttur skólameistara. Kom fjöldi fólks þar við og spurði margs. Lára tók einnig þátt í pallborðsumræðum á málþinginu og vakti framlag hennar töluverða athygli. Ræddi hún sérstaklega hversu mikilvægt væri fyrir fámennan skóla í dreifbýli að hafa tök á því að senda nemendur sína og kennara vítt og breitt um Evrópu til að víkka sjóndeildarhringinn, auka menntun og koma á nýjum kynnum. Ekki síður væri ánægjulegt að fá góða gesti í skólann og fræða þá um aðferðafræði skólans og starfshætti að ógleymdri íslenskri menningu og sögu. Í máli Láru kom einnig fram að skólinn hefur átt í samstarfi við aðila frá 27 af þeim 30 löndum sem Evrópusamstarfið nær til með tilstuðlan Evrópustyrkjanna. Á hátíðinni var Evrópuverkefnum sem þykja hafa staðið upp úr undanfarin ár veittar viðurkenningar. Fékk Menntaskólinn á Tröllaskaga viðurkenningu fyrir endurmenntunarnámskeið sem starfsfólk skólans sótti í Puerto de la Cruz á norðurströnd Tenerife í kjölfar Covid faraldursins. Þar var megin viðfangsefnið streita, að læra að þekkja streituvalda og að tileinka sér aðferðir til að vinna bug á þeim sem svo aftur minnkar hættuna á kulnun í starfi. Þetta var vikunámskeið, styrkt af Erasmus+ Á uppskeruhátíðinni var árangri undanfarinna ára fagnað og gestir gátu kynnt sér fjölmörg verkefni sem hafa fengið styrki úr áætlunum ESB. Verkefnin komu víða að úr samfélaginu, enda hafa samstarfsáætlanir ESB styrkt íslenska aðila á ýmsum sviðum t.d. á sviði menntamála, kvikmyndagerðar, æskulýðsmála, rannsókna og nýsköpunar. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, opnaði hátíðina og fjölmargir aðilar, m.a. menntastofnanir, félagasamtök og sveitarfélög kynntu árangur sinna verkefna. Einnig kynntu sendiráð nokkurra aðildarríkja Evrópusambandsins, Sendinefnd ESB og kjörræðismaður Rúmeníu á Íslandi, menningu sína og tengsl sín við Ísland. Að málþinginu stóðu Rannís, utanríkisráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og sendinefnd ESB á Íslandi og var það að morgni sýningardagsins. Málþingið bar yfirskriftina: EES í 30 ár – ávinningur, tækifæri, áskoranir. Þar var sjónum beint að þátttöku Íslands í innri markaði Evrópu og evrópskum samstarfsáætlunum og rætt hvaða áskoranir og tækifæri framtíðin ber í skauti sér. Málþingið sátu fjöldi fulltrúa sendiráða, til að fræðast og leita eftir samstarfi, sem og ráherrar og þingmenn. Á seinustu 30 árum hefur Íslandi tekist með góðum árangri að tryggja sér ESB fjármögnun og þátttaka Íslands í samstarfsáætlununum hefur skapað dýrmæta þekkingu og reynslu. Á árunum 2014 til 2020 stunduðu rúmlega 26 þúsund manns nám á Íslandi og heimsóttu Ísland sem hluta af EES-samstarfinu. Á sama tímabili stunduðu rúmlega 14 þúsund Íslendingar nám í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Í dag stuðlar þátttaka Íslands í samstarfsáætlunum ESB að öflugu samfélagi, atvinnulífi og menningu hér á landi.
Lesa meira

Glæsileg árshátíð nemendafélagsins

Nemendafélagið Trölli hélt sína árlegu árshátíð þann 2. maí sl. og var hún haldin í sal skólans. Nemendur og starfsfólk mætti í sínu fínasta pússi og naut samverunnar. Stjórn nemendafélagsins skipulagði fjölbreytta dagskrá þar sem heilasellurnar voru m.a. virkjaðar í Kahoot keppni um ofurhetjur í kvikmyndum og teiknimyndasögum ásamt öðrum spurningaleikjum og lipurðin könnuð í hinni árlegu limbókeppni. Ljúffengar veitingar, að hætti unga fólksins, voru á boðstólum s.s. sushi, pizzur og kebab. Runnu þær ljúflega niður og svo var ís í eftirmat. Er óhætt að segja að vel hafi tekist til og allir skemmt sér vel eins og myndirnar bera með sér.
Lesa meira

Umræða um samþykki, mörk og náin samskipti

Í dag fór fram í skólanum þörf og áhugaverð umræða meðal nemenda um samþykki, mörk og náin samskipti. Staðnemum skólans var skipt í umræðuhópa og nemendafélagið Trölli stýrði umræðum. Fyrst var horft á heimildarmynd frá mennta- og barnamálaráðuneytinu þar sem fjallað var um umræðuefnið. Hún var gerð í kjölfar MeToo byltingar framhaldsskólanema haustið 2022 þar sem þeir kröfðust þess að að fá meiri kynfræðslu í skólana og almenna umræðu um samþykki, mörk og kynferðisofbeldi. Myndin byggist upp af stuttum innslögum úr samtölum nemenda þar sem þau ræða málefnið. Ráðuneytið sendi myndina til allra framhaldsskóla landsins nú á vordögum með beiðni um að nemendafélög skólanna tækju hana upp á sínum vettvangi. Markmiðið er að kveikja gagnrýnin samtöl meðal nemenda um samþykki, mörk í nánum samböndum og kynferðisofbeldi. Fjörlegar umræður sköpuðust í hópunum og niðurstöður þeirra voru skráðar. Verður unnið frekar úr þeim á vettvangi nemenda sem og með fagteymi ofbeldismála í MTR. Þá fá allir fjarnemar og foreldrar sendan hlekk á heimildarmyndina og frekari upplýsingar um fræðslu. Hér er hlekkur á myndina: https://vimeo.com/924536997
Lesa meira

Saman gegnum þrjú skólastig

Inga Eiríksdóttir, kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga, og Halldór Ingvar Guðmundsson, meistaranemi við Háskólann á Akureyri og kennari við Grunnskóla Fjallabyggðar, hafa ferðast saman gegnum menntakerfið undanfarna tvo áratugi, hún sem kennari og hann sem nemandi. Ferðasagan hófst í Grunnskóla Ólafsfjarðar þar sem Inga var umsjónarkennari bekkjarins hans Halldórs í þrjá vetur, í 8. - 10. bekk. Inga færði sig svo yfir í Menntaskólann á Tröllaskaga þegar hann var stofnaður árið 2010 og fljótlega kom Halldór þangað líka og Inga kenndi honum þó nokkra áfanga þar. Halldór útskrifaðist frá MTR og hóf síðan kennaranám við Háskólann á Akureyri. Hann er nú í meistaranámi sínu þar og viti menn, Inga og Birgitta Sigurðardóttir, samkennari hennar við MTR, hafa undanfarin ár kennt áfanga við HA sem kallast Upplýsingatækni í námi og kennslu og þar hittust þau Inga og Halldór enn á ný sem kennari og nemandi. Sem fyrr segir er Halldór kennari við Grunnskóla Fjallabyggðar meðfram meistaranámi sínu, og gaman er að segja frá því að um þessar mundir starfa 13 manns við GF sem lokið hafa stúdentsprófi frá MTR.
Lesa meira

Ánægjulegar niðurstöður úr foreldrakönnun

Á dögunum var gerð könnun meðal foreldra nemenda sem eru yngri en 18 ára og þeir spurðir út í eitt og annað sem viðkemur skólastarfinu. Slíkar kannanir hafa verið gerðar annað hvert ár undanfarinn áratug og eru hluti af sjálfsmati skólans. Könnunin var lögð fyrir foreldra jafnt stað- sem fjarnema, eru þeir tæplega 40 talsins, og var svarhlutfall 50%. Niðurstöðurnar eru mjög ánægjulegar og sýna m.a. að foreldrar telja Menntaskólann á Tröllaskaga góðan skóla og bera mikið traust til hans. Einnig kemur fram að samskipti við starfsfólk skólans séu góð, foreldrar telja að námsfyrirkomulag það sem viðhaft er í skólanum, þ.e. vikulotur, henti nemendum vel og allflestir foreldrar upplifa að nemandinn fái nám við hæfi og líði vel í skólanum. Nánari niðurstöður má sjá hér: https://www.mtr.is/is/skolinn/skyrslur
Lesa meira

Erlent samstarf í blóma

Líkt og við höfum áður sagt frá var óvenju gestkvæmt hjá okkur í skólanum í síðustu viku m.a. var hér nemendahópur frá spænska skólanum IES Andreu Sempere, sem staðsettur er í Alcoy á Alicante, og með þeim tveir kennarar. Hópurinn var hér í nokkra daga og nemendurnir gistu hjá nemendum MTR á meðan á heimsókninni stóð. Báðir skólarnir eru UNESCO skólar og eru í samstarfsverkefni þar sem tilgangurinn er að skoða hvernig skólarnir vinna sem UNESCO skólar, hvað nemendur þeirra geta lært hverjir af öðrum og hvernig verkefni skólarnir geta unnið saman í framtíðinni.
Lesa meira