23.10.2025
Mennta- og barnamálaráðherra, Guðmundur Ingi Kristjánsson, hefur að undanförnu heimsótt framhaldsskóla landsins og í dag var komið að því að sækja MTR heim. Í fylgd með ráðherra voru þrír starfsmenn ráðuneytisins. Heimsóknin hófst með því að nemendaráð fylgdi ráðherra og fylgdarliði hans um skólahúsnæðið og sagði frá því sem fyrir augu bar. Síðan var fjölmennt á sal þar sem nemendur, starfsfólk, fulltrúar bæjarstjórnar og formaður skólanefndar hlýddu á og tóku þátt í dagskrá heimsóknarinnar. Fyrst tók Inga Eiríksdóttir, fulltrúi kennara, til máls. Fór hún stuttlega yfir sögu skólans og vakti athygli á vexti hans og mikilvægi í samfélaginu auk þess að segja frá skipulagi námsins, fjölbreyttum verkefnaskilum, símati, vinsælu fjarnámi og einstökum starfsanda.
Þá steig ráðherra í pontu og fór yfir nokkur mál sem snerta starfsemi framhaldsskólanna og sérstaklega hugmyndir að nýju skipulagi fyrir opinbera framhaldsskóla. Markmið þeirra er að styrkja starf framhaldsskólanna og efla þjónustu við nemendur. Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, sérfræðingur í Mennta- og barnamálaráðuneytinu, ræddi þessar hugmyndir svo nánar áður en boðið var upp á spurningar úr sal. Sköpuðust út frá þeim spurningum ágætar umræður en þar sem hugmyndirnar eru enn á mótunarstigi voru engin bein svör nema að viðstaddir voru fullvissaðir um að ekki ætti að skerða fjárframlög til skólanna.
Eru þessum góðu gestum færðar þakkir fyrir komuna.
Lesa meira
22.10.2025
Í dag var Erasmus-dagur hjá okkur þar sem athygli var vakin á þeim tækifærum sem styrkir úr Erasmus+ áætlun ESB veita nemendum sem kennurum. Fyrsta verkefnið sem MTR tók þátt í var strax á þriðja starfsári skólans, haustið 2013, og síðan þá hefur skólinn tekið þátt í á fjórða tug verkefna með skólum vítt og breitt um Evrópu. Má segja að vegna þeirra styrkja sem skólinn hefur notið úr áætluninni séu erlend samskipti eitt einkennismerkja hans og setja þau mark sitt á skólastarfið á hverri önn.
Lesa meira
16.10.2025
Nemendafélagið Trölli stýrir félagslífi nemenda í skólanum og stendur fyrir ýmsum viðburðum. Kosið var í nýtt nemendaráð í haust og það skipa nú Hanna Valdís Hólmarsdóttir, sem gegnir formennsku, Haukur Rúnarsson varaformaður, Jason Karl Friðriksson gjaldkeri, ritari er Birgir Bragi Heimisson og umsjón með samfélagsmiðlum hefur Auður Guðbjörg Gautadóttir. Nemendaráð reynir að mæta óskum nemenda eins og hægt er og á hinum árlega skólafundi, sem fór fram um miðjan september, óskaði ráðið eftir hugmyndum til að efla félagslífið. Komu ýmsar uppástungur frá nemendum eins og t.d. bíó-, spila og tölvuleikjakvöld, að halda íþróttadag, sundlaugarpartý og fleira skemmtilegt. Nemendaráð fundar einu sinni í viku og vinnur nú úr þeim tillögum sem bárust. Þeim til halds og trausts er Hólmar Hákon Óðinsson, náms- og starfsráðgjafi.
Stærsta verkefnið á önninni til þessa í félagslífinu var nýnemadagurinn, sem tókst með miklum ágætum, og haldnir hafa verið nokkrir þemadagar þar sem nemendur og starfsfólk hefur mætt klætt eftir því þema sem nemendaráð ákveður hverju sinni.
Nemendaráð fundar einnig reglulega með skólameistara og kemur þar á framfæri hugmyndum nemenda til að bæta skólastarfið og á fulltrúa bæði í skólaráði og skólanefnd svo tryggt sé að sjónarmið nemenda nái eyrum þeirra sem leggja línurnar.
Lesa meira
15.10.2025
Erasmus-dagar 2025 fara fram dagana 13. - 18. október. Tilgangur þeirra er að vekja athygli á Erasmus+ áætluninni og tækifærum hennar og eru styrkhafar hvattir til að deila reynslu sinni. Erasmus+ er styrkjaáætlun ESB fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál árin 2021 - 2027 og mun veita 26 milljarða evra í styrki á þessu tímabili til fjölbreyttra verkefna. Áætlunin styður meðal annars skiptinám, ungmennaskipti, símenntun starfsfólks, notkun upplýsingatækni í kennslu, tungumálanám, fjölbreytt samstarfsverkefni, nýsköpun í kennslufræðum og margt fleira. Ísland tekur þátt í samstarfinu í gegnum EES-samninginn.
Nemendur og starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga hafa sannarlega notið góðs af þessum styrkjum og hafa nýtt þá til fjölda erlendra verkefna. Má segja að vegna styrkjanna séu erlend samskipti eitt einkennismerkja skólans sem setja mark sitt á skólastarfið á hverri önn.
Fyrsta verkefnið sem MTR tók þátt í var strax á þriðja starfsári skólans, haustið 2013. Þá tók skólinn þátt í Comeniusarverkefni, fyrirrennara Erasmus+, með þremur skólum í jafn mörgum löndum; Ítalíu, Spáni og Þýskalandi. Verkefnið snérist um vatn og mikilvægi þess fyrir lífríki og samfélag manna og stóð í tvö ár. MTR leiddi verkefnið og var Inga Eiríksdóttir, stærðfræðikennari, í forsvari fyrir hönd skólans. Verkefnið hófst með heimsókn tuttugu manna hóps nemenda og kennara frá Ítalíu, Spáni og Þýskalandi til Íslands í október 2023. Skipulögð hafði verið þétt og skemmtileg dagskrá sem hófst á leiðsögn í listljósmyndun, farið var í heimsókn í Skeiðsfossvirkjun í Fljótum og borholurnar í Ólafsfirði skoðaðar. Einnig var haldið í Mývatnssveit þar sem hópurinn skoðaði Dimmuborgir, Grjótagjá, hveraröndina við Námaskarð og jarðgufuvirkjunina í Kröflu. Bragðað var á séríslenskum mat, hákarli, slátri, harðfisk, silungi, skyri og fleiri slíkum réttum sem gestunum þótti misjafnlega spennandi en forvitnilegir. Gestirnir voru mjög áhugasamir, tóku mikið af myndum og spurðu margs. Voru þeir hissa á hvað við hefðum mikið vatn, mikið af grænni orku, til húshitunar og annarra þarfa.
Tókust góð kynni meðal nemenda í þessari heimsókn sem voru svo endurnýjuð í næstu heimsóknum til hinna landanna þriggja þar sem margt áhugavert um nýtingu vatns og mikilvægi þess bar fyrir augu. Frá þessu fyrsta verkefni hafa nemendur sem kennarar tekið þátt í ýmsum spennandi verkefnum í fjölda Evrópulanda fyrir tilstilli Erasmus+ áætlunarinnar.
Hér má sjá myndir úr þessu áhugaverða fyrsta verkefni:
Lesa meira
10.10.2025
Nú hefur staðið yfir miðannarvika í skólanum þar sem hefðbundin kennsla er brotin upp og nemendur sitja áfanga sem gefur þeim tvær einingar. Viðfangsefnin hafa verið af ýmsum toga í þessum áföngum síðustu ár og að þessu sinni er sjónum beint að borgaralegum réttindum og hatursorðræðu. Kannski ekki mest spennandi umfjöllunarefnin í augum nemenda við fyrstu sýn en sannarlega nauðsynleg og hafa svo einnig reynst mjög áhugaverð. Nemendur hafa verið mjög áhugasamir og tengja við ýmislegt sem fjallað hefur verið um eins og t.d. bakslag í réttindabaráttu minnihlutahópa, uppgang hatursorðræðu, mátt samfélagsmiðla og áhrif þeirra á umræðuna, falsfréttir, birtingarmyndir fordóma og fleira. Einnig hafa nemendur skoðað hvernig bregðast má við slíku og þá hafa fræðsla, samvinna, samkennd og virðing fyrir hvert öðru verið lykilorðin.
Lesa meira
30.09.2025
Reglulega berast kennurum og stjórnendum skólans skilaboð frá nemendum og aðstandendum þeirra þar sem þeim eru færðar þakkir fyrir góða kennslu, frábært skipulag, góða uppsetningu námsefnis og ýmislegt annað sem snertir námið og skólastarfið. Skilaboð sem þessi sýna okkur fram á að við erum á réttri leið og gefa hlýju í hjartað. Hér eru nokkur dæmi frá síðustu önnum.
Hún gekk í Korpúlfsskóla, Laugalækjarskóla, fór í FÁ og MH en útskrifaðist loks með stúdentspróf frá Menntaskólanum á Tröllaskaga. Þar fannst henni hún loksins fá rými til að læra meðfram því að sinna tónlistinni. „Ég á þeim skóla mikið að þakka.“
Bríet Ísis Elfar söngkona í viðtali við Vísi.
„Annars þá langar mig sjálfa að þakka svo innilega enn og aftur fyrir ykkar frábæra skóla, frábært fyrirkomulag og góða kennara og aðstoðarfólk allt! Það sem áður virtist ómögulegt er að verða að veruleika - unga konan mín hefur fengið áhuga á námi aftur og verður stúdent um jól. Það hefði aldrei tekist nema fyrir ykkur, ég fullyrði það. Það má færa þakkir í kennarahópinn frá okkur.”
„Þessar síðastliðnu nítján vikur hafa verið bæði viðburðaríkar og yndislegar. Í dag get ég sagt að ég er fullfær um að sinna námi og að ég geti meira að segja gert það með stæl. Ég var mjög hrædd fyrstu daga skólahaldsins en það leið hratt hjá þegar ég áttaði mig á að ég væri í góðum höndum hjá kennurunum mínum og skólanum sjálfum.”
„Þið kennarar mínir í MTR hafið veitt mér nákvæmlega það sem ég þurfti; skilning, stuðning og ekki síst trú á sjálfa mig.”
„Mig langar innilega að koma því að hvað ég er ánægður með að þurfa ekki að taka stór lokapróf, því ég er mjög kvíðinn fyrir prófum og á oft á tíðum til að klúðra hlutum í prófi sem ég hefði alla jafna ekki klúðrað, þannig þið fáið minn stuðning í þessari hugmyndafræði.”
„Vá ég hef nú lært margt í þessum áfanga. Kannski hefur stærsti lærdómurinn fyrir mig, sem er að setjast á „skólabekk" aftur komin yfir fertugt, verið sá að ég get þetta. Ég er ekki vonlaust keis. En mikið svakalega er þetta búið að vera gaman ég sit og bíð eftir næstu verkefnum melti þau yfir vikuna og nýt þess að vinna þau á kvöldin eftir langan vinnudag.”
„Ég er svo sátt við þennan áfanga og frammistöðuna hjá mér að ég er búin að skrá mig í næsta áfanga og hlakka ég mikið til næsta veturs.”
„Ég er ekki lengur bara kennitala á blaði. Ég hef ekki einu sinni hitt kennarana mína í eigin persónu en samt hefur hver og einn ykkar séð mig, hlustað á mig og hvatt mig áfram.”
„MTR hefur gefið mér nýtt hugarfar; jákvæðni, sjálfstraust og von. Ég er svo þakklát fyrir að hafa valið þessa leið. Þið hafið kennt mér að ég get, að það sé í lagi að mistakast og prófa aftur. Takk fyrir að vera meira en bara kennarar. Þið eruð innblástur.”
Lesa meira
25.09.2025
Alþjóðlegur dagur friðar er haldinn 21. september ár hvert. Dagurinn var fyrst helgaður alþjóðlegum friði árið 1982 og til hans stofnað af Sameinuðu þjóðunum árið áður. Skorað er á þjóðir heims að stöðva átök og hernaðaraðgerðir á þessum degi sem og að minnast dagsins með vitundarvakningu í menntastofnunum og hjá almenningi um málefni er snúa að friði.
MTR er UNESCO-skóli og nemendur og starfsfólk velja á hverju ári nokkra alþjóðadaga Sameinuðu þjóðanna til að vinna með. Alþjóðlegur dagur friðar er einn af þessum dögum í ár og í tilefni hans var dagskrá hjá okkur í vikunni. Nemendur og kennarar komu þá saman í sal skólans og hlýddu á ávarp António Guterres, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, sem hann flutti í tilefni friðardagsins og síðan var ljóðalestur þar sem mikilvægi friðar var ítrekað. Þá sagði Ida Semey, kennari skólans, frá þeim áhrifum sem þátttaka í stríði hafði á ömmur hennar og afa. Hafði það ekki aðeins áhrif á sálarlíf þeirra heldur einnig næstu kynslóða. Fleiri kennarar lögðu orð í belg og sögðu frá því hvernig seinni heimsstyrjöldin hafði áhrif á þeirra fjölskyldur, áhrif sem jafnvel voru langvarandi. Vildu með því opna augu nemenda fyrir því að þó okkur þyki stríðin fjarlæg þá hafa þau sannarlega áhrif á fleiri en taka beinan þátt í þeim.
Að lokum völdu nemendur orð sem komu upp í hugann þegar þau hugsuðu um frið og mynduðu þau orðaskýið sem fylgir í myndasafninu með fréttinni. Svo tróð Hamingjubandið upp og flutti nokkur lög þar sem friður er boðaður og stríðsrekstri mótmælt. Var hljómsveitin að þessu sinni skipuð fjórum kennurum og einum nemanda og flutti m.a. lögin Imagine og Blowin´ in the Wind.
Lesa meira
23.09.2025
Í síðustu viku var okkar árlegi skólafundur þar sem nemendur velta fyrir sér ýmsum málum sem snerta skólastarfið og hafa tækifæri til að hafa áhrif á það. Var nemendum skipt upp í nokkra hópa þar sem valdir voru stjórnendur til að stýra umræðum og ritarar til að skrá niðurstöður hvers hóps. Umræðuefnin voru ákveðin af sjálfsmatsteymi skólans eftir samráð við nemendafélag skólans, kennara og starfsfólk. Að þessu sinni var rætt um nýtt fyrirkomulag sem tekið var upp í skólanum í haust þar sem hver nemandi hefur sína starfsstöð, félagslíf nemenda og hvaða alþjóðadaga UNESCO á að halda upp á í vetur.
Nemendur tóku þessu hlutverki alvarlega og líflegar umræður sköpuðust í öllum hópum. Skiptar skoðanir voru á nýja fyrirkomulaginu, sumum finnst það hjálpa við skipulag, t.d. með vikuáætlunum og að hafa sérstaka starfsstöð út af fyrir sig, aðrir sakna sveigjanleikans úr gamla kerfinu en allir voru sammála um að aðgengi að kennurum væri betra en áður. Nemendafélagið óskaði eftir hugmyndum til að efla félagslífið og fékk ýmsar uppástungur eins og t.d. bíó-, spila og tölvuleikjakvöld, íþróttadag, sundlaugarpartý og fleira skemmtilegt sem verður tekið til skoðunar. Hvað alþjóðadagana varðar stóðu Friðardagurinn og Dagur gegn kynbundnu ofbeldi upp úr á haustönn en Hamingjudagurinn og Móðurmálsdagurinn á vorönninni. Komu nemendur með ýmsar hugmyndir um hvernig vinna mætti með þema þeirra daga.
Lesa meira
17.09.2025
Í vikunni tilkynnti framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hvaða aðilar hlytu Evrópsku nýsköpunarverðlaunin í kennslu (European Innovative Teaching Award – EITA) árið 2025. Ýmis áhugaverð verkefni eru verðlaunuð þar á meðal verkefni MTR „Heimsmarkmiðin í öllu skólastarfi – lýðræðislegt samfélag í framkvæmd“ sem er heildræn og skapandi nálgun skólans að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna í allt skólastarf. Verður verkefnið fulltrúi Íslands á sérstakri verðlaunahátíð sem haldin verður í Brussel dagana 8.-9. desember.
Lesa meira
12.09.2025
Í vikunni var hinn árlegi Opni dagur í Háskólanum á Akureyri þar sem áhugasamir gátu fengið svör um skólann og skólastarfið frá fyrstu hendi. Var boðið upp á rútuferðir frá framhaldsskólum við Eyjafjörðinn, nýttu nemendur frá MTR sér það og kíktu í heimsókn. Námsleiðir skólans í grunnnámi voru kynntar á sérstökum básum þar sem stúdentar og starfsfólk skólans tóku gestum fagnandi og svöruðu spurningum um námsframboð, félagslíf, möguleika að námi loknu, sveigjanlegt nám og ýmislegt fleira.
Þessar heimsóknir hafa reynst nemendum MTR vel undanfarin ár og hafa þótt áhugaverðar og hvetjandi. Þeir sem hafa þegar ákveðið hvaða nám þeir ætla í að loknu stúdentsprófi hafa getað rætt málin við kennara og nemendur viðkomandi sviðs og hjá öðrum hafa hugmyndir að frekara námi jafnvel kviknað. Sem fyrr voru nemendur ánægðir með að hafa þegið boðið, sáu margt forvitnilegt, hittu fyrrum samnemendur og tóku þátt í bollaleggingum um hvaða leiðir ætti að feta í framtíðinni.
Lesa meira