Fréttir

Stafrænar þjóðsögur

Liðlega tuttugu nemendur og þrír starfsmenn MTR dvelja þessa viku á Sjálandi og æfa sig í að segja sögur á stafrænu formi. Unnið er með danskar, - og einkanlega sjálenskar munnmælasögur. Nemendur ræða saman um sögurnar og ákveða hvernig hægt sé að „nútímavæða“ þær. Hugsa þarf fyrir því hvernig hægt sé að deila sögunum með öðrum. Í dag er hópurinn einmitt á fullu í þessum framkvæmdahluta, við að taka upp ýmislegt hráefni til að vinna úr. Á haustönninni komu þrjátíu nemendur úr Tækniskólanum EUC í Næsved og Köge í Fjallabyggð og störfuðu með MTR-nemendum að því gera stafrænar útgáfur af íslenskum þjóðsögum, flestum af Tröllaskaga. Í gær fór þessi stóri hópur í skoðunarferð um miðbæ Köge í grenjandi rigningu. Hópurinn skoðaði eina kirkju og heimsótti listasafn sem sérhæfir sig í list í almannarýminu og á opinberum stofnunum á borð við sjúkrahús, sjá hér: http://www.koes.dk/ Skoðuð var sýning á stórum litríkum myndum Björns Nörregård úr þúsund ára sögu Danmerkur. Nörregård sýnir hvernig saga Danmerkur er samofin heimssögunni og fyrir bregður persónum á borð við Jóhönnu af Örk, Niels Bohr, John F. Kennedy og Karen Blixen. Ofin voru textílverk eftir þessum skissum Nörregårds og gáfu samtök danskra fyrirtækja Margréti Þórhildi drottningu þau þegar hún varð fimmtug. Textílverkin prýða stærsta veislusalinn í Kristjánsborgarhöll. MTR-nemum þótti þessi sýning sérlega áhugaverð. MTR og Tækniskólinn EUC fengu Nordplusstyrk að upphæð fjórar milljónir króna til þessa samstarfsverkefnis. Heimsókn danska hópsins í haust var sérlega ánægjuleg og heimsóknin til Sjálands verður ekki síðri.
Lesa meira

Útivist á skíðum

Nemendur í áfanganum Útivist í snjó ÚTIV2ÚS05 æfðu sig á Skíðasvæðinu í Skarðsdal á Siglufirði við frábærar aðstæður á fimmtudag. Þetta var fyrsta ferð á önninni en þær verða nokkrar. Egill Rögnvaldsson, umsjónarmaður skíðasvæðisins upplýsti krakkana um framkvæmdir og þær breytingar sem hafnar eru. Meðal annars verður neðsta lyftan færð, byggja þarf nýjan skála, koma töfrateppi fyrir og fleira. Svæðið mun þannig verða öruggara og barnvænna. Krakkarnir stóðu sig mjög vel, tveir höfðu aldrei stigið á skíði áður en gáfust ekki upp og voru farnir að skíða eftir stuttan tíma. Í heild stóð skíðaæfingin í þrjár klukkustundir. Áfanginn útivist í snjó er að mestu verklegur, nemendur kynnast undirstöðuatriðum í ísklifri, skíðun (alpa, fjalla og göngu), snjóbrettun, gerð snjóhúsa og fjallamennsku. Kennarar eru Kristín Anna Guðmundsdóttir, Gestur Hansson og Tómas Atli Einarsson.
Lesa meira

MTR heillar

Val á framhaldsskóla er stundum flókin ákvörðun. En svo var ekki hjá Kolbrúnu Svöfu Bjarnadóttur sem segist hafa valið MTR vegna þess að hægt er að læra listljósmyndun og vegna þess að lítið er um próf. Kolbrún er frá Grímsey en tók síðustu tvo bekki grunnskólans á Akureyri því það var ekki hægt í eynni. Foreldrarnir eru fluttir til Akureyrar en fjölskyldan er í Grímsey á sumrin, í jólafríinu og eiginlega alltaf þegar hægt er segir Kolbrún. Hún þekkti engan þegar hún byrjaði í MTR í haust en segist bara hafa verið ein í þrjá daga, þá hafi hún eignast vini og eigi fullt af kunningjum. Hún segist vera ótrúlega glöð í skólanum og líða vel. Hún kvartar heldur ekki yfir því að hafa eytt tveimur klukkustundum á dag í allt haust í rútu á milli Akureyrar og Ólafsfjarðar. En nú fækkar ferðunum því hún heldur til á Siglufirði hjá systur sinni og kærasta hennar – sem hófu nám í MTR um áramótin. Kolbrún Svafa hefur tekið mikið af myndum í Grímsey og eru sumar svo góðar að atvinnumenn í faginu hafa sýnt áhuga á að nota þær. Hún segist elska Grímsey og ætla að búa þar í framtíðinni ef byggð helst í eynni.
Lesa meira

Samstarf við Fjallabyggð

MTR og sveitarfélagið Fjallabyggð hafa gert samstarfssamning um alþjóðlegu ráðstefnuna ecoMEDIAeurope sem haldin verður á Tröllaskaga í haust og kallast GERE. Kjarni hans er að sveitarfélagið styðji skólann vegna ráðstefnunnar og skólinn kynni sveitarfélagið í tengslum við ráðstefnuna. Þátttakendur verða frá mörgum Evrópuríkjum og alls staðar að af landinu. Málefnið er þróun og notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Þetta verður þrettánda ecoMEDIAerurop ráðstefnan. Sú tólfta var haldin í Glasgow í haust og sótti hana hópur kennara úr MTR og fleiri skólum hér á landi. Sama á við um elleftu ráðstefnuna sem haldin var í Iasi í Rúmeníu haustið 2016. Í tengslum við þrettándu ráðstefnuna á Tröllaskaga í október mun MTR markaðssetja svæðið. Fjallabyggð styrkir skólann og veitir ýmsa þjónustu. Skólinn hefur heimild til að nota merki Fjallabyggðar við kynningu á ráðstefnunni og í dagskránni kemur fram að sveitarfélagið styrki hana. Lára Stefánsdóttir, skólameistari og Guðrún Sif Guðbrandsdóttir, starfandi bæjarstjóri undirrituðu samstarfssamninginn í gær.
Lesa meira

Dagur myndlistar

Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir er íslensk myndlistarkona búsett í Reykjavík. Hún greindi frá listsköpun sinni og ferli í fyrirlestri á listabraut MTR. Fyrirlesturinn var í tengslum við Dag myndlistar sem fara átti fram á síðasta ári en var frestað vegna ófærðar. Bryndís nam myndlist við fjöltæknideild Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með B.F.A. gráðu árið 2002. Hún hélt utan til frekara náms við Akademie der Bildenden Kunste undir handleiðslu Franz Graf, þaðan sem hún útskrifaðist með M.F.A. gráðu í janúar 2006. Bryndís hefur verið virk í sýningahaldi og listsköpun og fór vel yfir starf sitt sem listamaður í afar fróðlegri og áhugaverðri kynningu.
Lesa meira

Jafnrétti einkennir nám í MTR

Nýbirt rannsókn Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur, dósents á Menntavísindasviði HÍ, á skólastarfi í MTR bendir til þess að skólinn stuðli að jöfnum möguleikum allra nemenda til náms. Þetta er byggt á greiningu á kennsluháttum og skólamenningu. Brottfall sé lítið og námsframvinda góð sem bendi til þess að skólinn þjóni nemendahópnum vel. Um 60% nemenda lýkur stúdentsprófi á þremur árum eða skemmri tíma en meðalnámstími brautskráðra stúdenta frá uppafi til 2015 var um þrjú og hálft ár. Brottfall staðnema er sáralítið en brottfall fjarnema var 7,5% á árinu 2016. Til samanburðar var brottfall fjarnema í öðrum framhaldsskólum 27-40% árið 2010. Sjá grein Þuríðar Jónu hér: http://netla.hi.is/greinar/2017/ryn/15.pdf
Lesa meira

Skráningu í fjarnám á vorönn 2018 er lokið.

Skráningu í fjarnám á vorönn 2018 er lokið og verður ekki tekið við frekari skráningum. Yfirfullt er í alla áfanga og ekki pláss fyrir fleiri. Skráning á haustönn 2018 hefst 6. apríl 2018.
Lesa meira

Útskrift í nýjum salarkynnum

Í dag, þann 16. desember, voru 18 stúdentar útskrifaðir frá Menntaskólanum á Tröllaskaga við hátíðlega athöfn. Þetta var 15. brautskráningin frá skólanum og hafa nú 178 verið útskrifaðir frá skólanum frá því hann tók til starfa haustið 2010. Athöfnin fór fram í nýjum salarkynnum skólans, Hrafnavogum , en áður hafa slíkar athafnir verið í Ólafsfjarðarkirkju eða menningarhúsinu Tjarnarborg eftir fjölda útskriftarnema.
Lesa meira

Að læra að leiðbeina skíðaiðkendum

Nú á vorönn geta nemendur lært að leiðbeina byrjendum við skíða- og brettaiðkun. Einnig er hægt að taka námið í fjarnámi með staðbundnum lotum í Hlíðarfjalli en kennarar verða Erwin van der Werve skíðaþjálfari í Hlíðarfjalli og Kristín Anna Guðmundsdóttir frá MTR. Námið er í framhaldi af samstarfssamningi milli Menntaskólans á Tröllaskaga og Hlíðarfjalls um nám er tengist skíðaiðkun. Var samningurinn undirritaður af Guðmundi Karli Jónssyni forstöðumanni Hlíðarfjalls og Láru Stefánsdóttur skólameistara. Auk þess að læra að leiðbeina geta nemendur einnig lært um útivist í snjó nú á vorönninni. Nokkur laus pláss eru ennþá í þessa áfanga.
Lesa meira

Áfangi í ljóðlist

Ljóðlistaráfangi var kenndur í MTR í fyrsta sinn á haustönninni. Kennari var Þórarinn Hannesson, forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands á Siglufirði. Í áfanganum var farið í gegn um sögu íslenskrar ljóðlistar og fræðst um strauma og stefnur frá landnámsöld til okkar tíma. Nemendur kynntust grunnreglum í íslenskri bragfræði og spreyttu sig á að setja saman vísur á réttan hátt. Árangurinn af þeim æfingum var misjafn og gekk mörgum betur að semja ljóð sem ekki eru jafn föst í forminu. Einnig settu nemendur saman ljóð í anda ólíkra stefna sem kynntar voru og notuðu ýmis stílbrögð, svo sem persónugervingar, viðlíkingar og myndhverfingar. Hægt er að kynna sér afraksturinn á sýningu á verkum nemenda sem er opin á skólatíma fram yfir útskrift laugardaginn 16. desember, - en hér eru tvö sýnishorn:
Lesa meira