02.09.2025
Það er hefð að bjóða nýnema velkomna í skólann á sérstökum nýnemadegi. Var hann haldinn í síðustu viku og þar tókust staðnemar skólans á við ýmis skemmtileg verkefni til að hrista hópinn betur saman. Stjórn nemendafélagsins Trölla skipulagði dagskrá dagsins sem hófst með fjörlegum ratleik. Nemendunum var skipt upp í hópa og þurftu þeir að leysa hinar ýmsu þrautir innan skólans sem og vítt og breitt um Ólafsfjörð. Mynda þurfti lausn hverrar þrautar með hópnum öllum og skila inn til dómnefndar. Skemmtu nemendur sér vel og dómnefndin ekki síður við að meta frammistöðu hvers hóps því þrautirnar voru æði frumlegar. Má þar nefna að taka mynd af hópnum með eldri borgara, gera góðverk fyrir bæjarbúa, mynda stafi og orð með líkamanum, gera listaverk úr rusli, skora á bæjarbúa í kapphlaup og fleira áhugavert.
Að loknum ratleiknum var farið í boðhlaup þar sem einnig þurfti að leysa áhugaverðar þrautir eins og að svolgra í sig hráu eggi, blása upp blöðru og borða kókosbollu og drekka gosdrykk með á milli þess sem sprett var úr spori. Að boðhlaupi loknu voru veitt verðlaun fyrir góða frammistöðu í báðum keppnum áður en sest var að borðum og pizzuveislu í boði skólans gerð skil.
Deginum lauk svo með sundspretti í sundlauginni og afslöppun í heitu pottunum eftir átök dagsins. Voru nemendur og starfsfólk sammála um að vel hefði til tekist og veðrið sýndi sínar bestu hliðar eins og myndirnar bera með sér.
Lesa meira
28.08.2025
Reglulega berast kennurum og stjórnendum skólans skilaboð frá nemendum og aðstandendum þeirra þar sem þeim eru færðar þakkir fyrir góða kennslu, frábært skipulag, góða uppsetningu námsefnis og ýmislegt annað sem snertir námið og skólastarfið.
Á vordögum og nú í byrjun haustannar höfum við m.a. fengið þessi fallegu skilaboð sem sjá má hér að neðan. Sannarlega upplífgandi í upphafi skólaársins og gefur okkur staðfestingu á að við séum á réttri leið.
„Það er einmitt vegna svona góðra kennara sem hún er nú loksins að klára stúdentspróf eftir margra ára tilraunir við misjafnar aðstæður. Ég hef verið viðloðandi skólakerfið í um 30 ár og verð að segja að MTR er einn faglegasti og besti menntastaðurinn sem ég þekki.”
„Sæl, mig langaði svo að segja þér hvað mér finnst þessi HP5 verkefni skemmtileg og ekkert smá fræðandi! Mér finnst gaman að læra núna um Völuspá og finnst ég ná miklum árangri að horfa og virkilega þurfa að hlusta til að svara spurningum rétt. Takk fyrir frábært námsefni. Ég kláraði öll verkefnin því ég vildi ekki hætta að læra, svo gaman.”
„Takk fyrir frábæra kennslu. Þú ert æði.”
„Ég hef aldrei dýrkað manneskju jafn mikið sem ég hef aldrei hitt.”
„Vildi bara þakka þér persónulega fyrir önnina þar sem ég hefði ekki komist í gegnum þetta án þín. Takk fyrir að trúa á mig og opna hugann um að ég gæti þetta.”
„Það er búið að vera frábært að kynnast þér, takk fyrir alla þína hjálp og þitt traust. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn við þig þá hef ég aldrei lært svona mikið á stuttum tíma, ég er ekkert nema þakklát. Haltu áfram að láta ljós þitt skína, mátt vera mjög stolt af þér.”
„Hæ hæ, nú er önnin alveg að klárast en mig langar bara að senda þér skilaboð og þakka þér fyrir það hvað þú ert yndislegur og góður kennari og gaman að vera í áföngum hjá þér. Takk fyrir önnina.”
Lesa meira
27.08.2025
Eitt af einkennismerkjum skólans er öflugt erlent samstarf og nær það bæði til starfsfólks og nemenda. Á þessari önn er búið að skipuleggja ýmsar ferðir og hafa fengist til þeirra styrkir úr Nordplus,menntaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar og menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+.
Á önninni munu tveir kennarar halda til Danmerkur að fylgjast með kennslu og fara þeir í sitt hvorn skólann. Tveir kennarar halda til Portúgal í nokkra daga í sömu erindagjörðum í október og mánuði síðar sitja þrír kennarar námskeið um gervigreind í Porto. Auk þess munu skólameistari og tveir kennarar halda til Singapúr á stærstu ráðstefnu sem haldin er í Asíu um upplýsingatækni og kynna sér það nýjasta í þeim efnum.
Tvær nemendaferðir eru á döfinni. Hópur nemenda mun dvelja um vikutíma í Eistlandi í október til að taka þátt í fyrsta hluta verkefnis sem kallast Að tengja huga og menningu gegnum sögur. Í þessu verkefni eru fjórir skólar, tveir frá Tallin í Eistlandi, einn finnskur skóli og svo MTR. Einnig mun nemendaráð skólans halda til Kaupmannahafnar í nóvember og vinna þar að verkefni sem kallast Nemendalýðræði og félagsleg sjálfbærni með nemendaráðum tveggja skóla í okkar fornu höfuðborg.
Heimsóknir erlendis frá í MTR verða einnig nokkrar á önninni. Þessa vikuna eru t.d. tveir kennarar frá Belgíu og einn frá Lanzarote, austustu eyju Kanaríeyja, að kynna sér starfshætti í skólanum og ræða við kennara og nemendur um nám og kennslu.
Lesa meira
18.08.2025
Þá er sextánda starfsár skólans hafið. Í morgun mættu staðnemar í hús og hinir fjölmörgu fjarnemar skólans hafa fengið upplýsingar um hvernig þeir skrá sig inn í sína áfanga í kennslukerfinu og geta hafist handa. Lára Stefánsdóttir, skólameistari, bauð staðnema velkomna, hvatti þá til að sinna náminu af alúð og minnti þá á að námið væri á þeirra ábyrgð. Til að hjálpa nemendum við það verkefni hefur verið tekið upp nýtt vinnulag í skólanum og útskýrði Hólmar Hákon Óðinsson, námsráðgjafi skólans, það fyrir nemendum. Hver og einn staðnemi hefur nú sína starfsstöð þar sem hann vinnur sín verkefni. Á mánudagsmorgnum skipuleggja nemendur vinnu vikunnar og fylgja því plani með aðstoð kennara sinna. Er þetta skipulag byggt á hugmynd þess sem er við lýði í Framhaldsskólanum á Laugum sem starfsfólk skólans heimsótti á vinnudögum í vor.
Lesa meira
12.08.2025
Nám hefst í skólanum mánudaginn 18. ágúst kl. 09:00. Fjarnemar fá sendar upplýsingar um skólabyrjun um helgina og byrja á sama tíma.
Lesa meira
05.08.2025
Starfsfólk skólans er nú mætt aftur til starfa eftir sumarfrí. Kennarar fjarvinna við undirbúning komandi haustannar. Skrifstofa skólans er opin á hefðbundnum tíma 08:00 - 16:00 alla daga nema föstudaga þegar opið er til 12:00. Hlökkum til vetrarins.
Lesa meira
27.06.2025
Starfsmenn skólans eru nú farnir í sumarfrí og skrifstofa skólans því lokuð til 5. ágúst.
Lesa meira
18.06.2025
Innritun í fjar- og staðnám fyrir haustönn 2025 er lokið og viljum við þakka innilega fyrir þann mikla áhuga sem skólanum er sýndur. Því miður þurftum við að vísa mörgum frá en næst er hægt að sækja um 1. nóvember 2025 fyrir vorönn 2026.
Lesa meira
30.05.2025
Á skóladagatali hvers árs eru fjórir dagar sérstaklega merktir endurmenntun kennara, tveir í upphafi skólaársins og aðrir tveir í lok þess, en auk þess sinnir starfsfólk skólans ýmiskonar endurmenntun árið um kring. Á þessum tveimur dögum í lok síðustu skólaára hefur fjölbreytt endurmenntun verið á dagskrá t.d. ýmis námskeið og fyrirlestrar auk skólaheimsókna innanlands- sem utan.
Að þessu sinni var ekki leitað langt yfir skammt því skipulagðar voru heimsóknir til okkar góðu granna í Suður-Þingeyjarsýslu; Framhaldsskólann á Húsavík og Framhaldsskólann á Laugum. Á báðum stöðum fengum við höfðinglegar móttökur jafnt starfsfólks sem stjórnenda. Fengum kynningu á skipulagi náms í hvorum skóla, skoðuðum húsakynni og aðstöðu og svo var rætt í minni hópum um stakar kennslugreinar, tækifæri og áskoranir. Margt áhugavert bar á góma og er ekki ósennilegt að áhrifa heimsóknanna gæti þegar skólinn fer aftur af stað næsta haust.
Gist var í góðu yfirlæti að Narfastöðum í Reykjadal og eins gafst starfsmannahópnum tími til að skoða sig aðeins um á Húsavík. Var þetta góður endir á samveru vetrarins.
Lesa meira
24.05.2025
Það var hátíðleg stund í Menntaskólanum á Tröllaskaga í gær þegar þrítugasta brautskráning skólans fór fram. Fimmtíu og tveir nemendur brautskráðust, eru það jafn margir og á vorönn í fyrra og eru það fjölmennustu útskriftarhóparnir frá upphafi. Alls hafa nú 678 nemandur brautskráðst frá skólanum á þeim fimmtán árum sem hann hefur starfað. Útskriftarnemarnir að þessu sinni koma frá þrettán stöðum á landinu og tveir eru búsettir erlendis, enda mikill meirihluti nemenda skólans fjarnemar. Fjórtán útskriftarnemar sáu sér fært að mæta í athöfnina en aðrir fylgdust með í streymi.
Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari stýrði athöfninni og flutti ávarp þar sem hún sagði frá starfi skólans. Í máli hennar kom m.a. fram að á þessari önn voru rúmlega 550 nemendur skráðir í nám. Um 90% þeirra fjarnemar og stór hluti af höfuðborgarsvæðinu. Kjörnámsbraut var fjölmennasta brautin og þar á eftir félags- og hugvísindabraut. Starfsmenn voru 29. Erlend verkefni voru sem fyrr áberandi í skólastarfinu og hefur fengist fjöldi styrkja til þeirra. Erasmus-styrkir eru fastur liður í skólastarfinu og hafa gert bæði nemendum og kennurum kleift að fara í ferðir til útlanda sem og að taka á móti nemendahópum erlendis frá. Á þessari önn heimsóttu nemendur m.a. samstarfsskóla í Lettlandi og endurguldu þar heimsókn nemenda þaðan á haustönn. Einnig er MTR UNESCO-skóli sem fléttar heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna inn í allt skólastarf þar sem m.a. er lögð áhersla á mannréttindi, umhverfismál og frið. Þakkaði hún að lokum útskriftarnemum fyrir þann tíma sem þeir hafa varið í Menntaskólanum á Tröllaskaga og óskaði þeim velfarnaðar í öllu því sem þeir taka sér fyrir hendur í framtíðinni.
Skólameistarinn Lára Stefánsdóttir flutti einnig ávarp þar sem hún óskaði útskriftarnemum allra heilla og þakkaði þeim fyrir að velja MTR. Lagði hún út frá einkunnarorðum skólans: Frumkvæði - Sköpun - Áræði og sagði að þau lituðu allt skólastarfið bæði hjá nemendum og starfsfólki. Mikilvægt væri nemendum að finna eigin rödd, rækta sína styrkleika, vera gerendur í sínu námi en ekki þrælar þess og átta sig betur á hver þau eru. Það muni hjálpa nemendum að þekkja sig sjálf og vera öruggari í eigin skinni. Með því getur maður frekar notað orku sína í að búa til skemmtilegt og innihaldsríkt líf í stað þess að vera að þóknast öðrum og gera það sem maður heldur að maður eigi að vera að gera. Einnig ræddi hún um þann sjálfsaga sem þarf til að vera fjarnemi og þá áherslu sem starfsfólk skólans legði á að allir nemendur nytu sömu þjónustu og nærgætni, hvort sem þeir væru fjarnemar eða staðnemar, án þess að slakað væri á námskröfum. Að lokum gerði hún að umtalsefni orð ráðherra á dögunum um draugabæinn Ólafsfjörð og í hennar augum væri í raun búið að stéttaskipta byggðunum á landinu án þess að fólk vissi um hvað það væri að tala. Á Ólafsfirði væri mikið um að vera þar eru um 40 fyrirtæki, ýmiskonar uppbygging í gangi og öflugt félagslíf. Íbúar hefðu fundið leiðir til að mæta nýjum veruleika og breytingum á atvinnuháttum með elju og dugnaði.
Þá var komið að afhendingu prófskírteina, sem Lára skólameistari og Jóna Vilhelmína aðstoðarskólameistari sáu um. Dúx skólans að þessu sinni var Urður Harðardóttir, úr Reykjanesbæ. Hún útskrifaðist af Félags- og hugvísindabraut og hlaut viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur í fjórum námsgreinum.
Að lokum var komið að ávarpi nýstúdents sem Helgi Þór Ívarsson, fjarnemi við skólann, flutti. Hann hóf mál sitt á að segja frá því að hann væri að stíga í fyrsta sinn inn í skólabygginguna og að flytja sína fyrstu ræðu. Hann sagði frá þeim áskorunum sem fylgja því að stunda fjarnám því það hefði verið erfiðara en hann bjóst við; að halda einbeitingu og sjálfsaga og vinna jafnt og þétt, það var ekkert auðvelt en með góðri aðstoð og hvatningu sinna nánustu og kennarana hafi það tekist. Eftir grunnskólagönguna hefur hann elt íshokkídraum sinn og hefur leikið þá íþrótt með liðum í Evrópu, hér heima og fyrir landslið Ísland. Fjarnámið hefur gert honum kleift að fylgja þessum draumi eftir, ferðast víða um heiminn til að keppa og mennta sig í leiðinni. Mælti hann með skólanum fyrir alla sem vildu upplifa ævintýri og mennta sig á sama tíma. Þakkaði hann sérstaklega Birgittu Sigurðardóttur, umsjónarkennara fjarnema, fyrir aðstoðina við að skipuleggja námið í kringum allt sem hann hefur áhuga á og benda honum á áfanga sem hann hélt að ekki væri möguleiki á að taka í menntaskóla eins og ýmiskonar íþrótta- og listaáfanga.
Við athöfnina söng Sigurlaug Sturludóttir, ung og efnileg söngkona úr Ólafsfirði, tvö lög við undirleik Ave Kara Sillaots.
Lesa meira