Fréttir

Erlent samstarf í blóma

Líkt og við höfum áður sagt frá var óvenju gestkvæmt hjá okkur í skólanum í síðustu viku m.a. var hér nemendahópur frá spænska skólanum IES Andreu Sempere, sem staðsettur er í Alcoy á Alicante, og með þeim tveir kennarar. Hópurinn var hér í nokkra daga og nemendurnir gistu hjá nemendum MTR á meðan á heimsókninni stóð. Báðir skólarnir eru UNESCO skólar og eru í samstarfsverkefni þar sem tilgangurinn er að skoða hvernig skólarnir vinna sem UNESCO skólar, hvað nemendur þeirra geta lært hverjir af öðrum og hvernig verkefni skólarnir geta unnið saman í framtíðinni.
Lesa meira

Eldri borgarar kynnast skólabragnum

Allt frá stofnun hefur verið lögð áhersla á það í skólanum að vera í góðu sambandi við nærumhverfið. Hefur þetta m.a. verið gert með samstarfi við ýmsa aðila í samfélaginu s.s. íþróttafélög, björgunarsveitir, söfn, fyrirtæki og önnur skólastig og einnig með opnum listsýningum þar sem íbúar eru boðnir velkomnir að njóta. Í vetur hafa eldri borgarar í Ólafsfirði komið við í skólanum flesta mánudagsmorgna þegar þeir eru á sinni vikulegu hópgöngu. Hafa þessar heimsóknir verið mjög ánægjulegar. Gestirnir hafa þegið kaffi, átt spjall við starfsfólk og nemendur skólans og kynnst skólabragnum. Verður vonandi framhald á þessum heimsóknum næsta vetur. Í kjölfar þessara heimsókna spratt sú hugmynd að búa til áfanga þar sem nemendur læra að segja eldri borgurum til í tæknimálum, er sú hugmynd í vinnslu og kemur vonandi til framkvæmda fyrr en síðar.
Lesa meira

Fróðleiksþyrstir gestir

Það var mikið líf í skólanum í gær þegar 45 kennarar frá Noregi og Slóveníu komu í heimsókn til að kynna sér starfsemi hans og kennsluhætti. Fulltrúar nemendafélagsins Trölla tóku á móti hinum erlendu gestum og sögðu síðan frá skólastarfinu eins og það horfir við nemendum. Fengu þau margar spurningar að þeirri kynningu lokinni og svöruðu þeim skilmerkilega. Næst tóku við kynningar kennara MTR þar sem þeir sögðu frá kennslu bóklegra greina, erlendum samstarfsverkefnum, þjónustu við nemendur, frumkvölafræði, listkennslu og kennslu í gegnum nærverur. Kynningarnar fóru fram við fjögur borð, hver þeirra var nokkrar mínútur og svo gafst tími til samræðna áður en gestirnir færðu sig á næsta borð. Þótti gestunum margt mjög áhugavert sem þarna kom fram og spurðu margs. Þá tók við sameiginlegur hádegisverður þar sem áfram var spjallað og síðan ræddi Lára Stefánsdóttir skólameistari við hópinn og svaraði ýmsum spurningum frá fróðleiksþyrstum og áhugasömum gestum. Heimsóknin var styrkt af Uppbyggingarsjóði EES sem er ætlað að efla samstarf á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar. Heppnaðist hún eins og best verður á kosið; gestirnir mjög ánægðir og sögðust hafa lært margt gagnlegt.
Lesa meira

Góðir gestir alla vikuna

Það er gestkvæmt í skólanum þessa vikuna. Í dag komu 11 nemendur af íþróttabraut Verkmenntaskólans á Akureyri í heimsókn. Þeir eru í fjölíþróttaáfanga á þessari önn þar sem markmiðið er að kynnast fjölbreyttum íþróttum. Fyrsta stopp þeirra á ferð sinni frá Akureyri var á Hjalteyri þar sem þau spreyttu sig í hinum glæsilega klifurvegg sem er í gömlu verksmiðjunni þar. Í Ólafsfirði var byrjað á að fara í ýmsa leiki á gönguskíðum undir stjórn Lísebetar Hauksdóttur, íþróttakennara í MTR, og svo kenndi hún nemendum réttu tökin í þessari góðu íþrótt. Að loknu matarhléi var farið í íþróttahúsið í ýmsa leiki og þrautir með nemendum MTR og heimsókninni lauk á afslöppun í sundlauginni. Heimsókn sem þessi hefur verið fastur liður síðustu ár og hafa þær Lísebet og Birna Baldursdóttir, íþróttakennari í VMA, séð um skipulagið.
Lesa meira

Dalvíkingar í heimsókn

Í dag komu nemendur 10. bekkjar Dalvíkurskóla í heimsókn til að kynna sér skólastarfið í MTR. Var þeim skipt í fimm hópa sem fóru á milli stöðva til að fræðast um skólann og leysa ýmis verkefni. Hólmar Hákon Óðinsson, námsráðgjafi, kynnti nemendum skipulag skólans, Sigurður Mar Halldórsson lagði verkefni fyrir nemendur í laserskera skólans og Bergþór Morthens og Sæbjörg Ágústsdóttir tóku á móti nemendum í listastofunni þar sem nemendur teiknuðu hver annan með kolum sem límd voru á prik. Gaman er að geta þess að Bergþór stýrði því verkefni frá vinnustofu sinni í Svíþjóð í gegnum tæki sem hér er kallað nærvera og hægt að keyra um gangana og hafa samskipti við nemendur sem samstarfsfólk. Inga Eiríksdóttir sýndi nemendum nokkra möguleika gervigreindar og notuðu nemendur hana til að gera myndir og lög og fulltrúar nemendaráðs höfðu útbúið spurningar um skólann í Kahoot sem Dalvíkingarnir spreyttu sig á að svara. Tókst heimsóknin hið besta og má með sanni segja að gestirnir hafi lífgað upp á daginn.
Lesa meira

Innritun í fjarnám

Innritun í fjarnám stendur nú yfir fyrir haustönn 2024. Ekki er kennt á sumarönn í skólanum. Vinsamlegast skráið umsóknir í gegnum heimasíðu skólans.
Lesa meira

Gervigreindin áhugavert viðfangsefni

Kennarar og annað starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga leggur sig fram um að vera framarlega í upplýsingatækni, nú sem endranær. Undanfarið hefur athygli flestra verið á gervigreind þar sem hún verður sífellt meira áberandi og snertir líf okkar á fleiri vegu en flestir gera sér grein fyrir. Í samfélagi sem verður sífellt sjálfvirknivæddara og tæknilegra er mikilvægt að vita hvað gervigreind er og gera sér grein fyrir möguleikum hennar og takmörkunum. Til þess að kafa í þessi mál tekur skólinn m.a. þátt í Evrópusamstarfsverkefni með fyrirtækinu Affekta og ýmsum evrópskum skólum þar af nokkrum hérlendum framhaldsskólum og háskólum. Affekta býður upp á námskeið um gervigreind og fjórðu iðnbyltinguna. Hluti verkefnisins er rannsókn þar sem nemendur kynna sér námsefni Affekta og á sama tíma eru þeir að taka þátt í rannsókn á athygli nemenda á skjánum, svo segja má að nemendur læri um gervigreind á sama tíma og gervigreindin lærir á þá. Þrír starfsmenn fóru einnig á námskeið í Dublin, í febrúar sl., þar sem allt snerist um gervigreind. Þar var fjallað um ýmis álitamál sem tengjast notkun og þróun gervigreindar og þátttakendur fengu að spreyta sig á ýmsum tólum sem byggja á gervigreind og nýta má í kennslu. Var það mjög áhugavert. Gervigreindin er þegar farin að hafa áhrif á nám og kennslu. Á þessari önn hafa kennarar lagt fyrir ýmiskonar verkefni þar sem gervigreind skal notuð. Eru þessi verkefni ætluð til að nemendur átti sig á möguleikum gervigreindarinnar í dag en einnig á vanköntum hennar. Auk þessara verkefna hefur áfangi um samfélagsleg áhrif gervigreindar verið í þróun á önninni. Þar kafa nemendur dýpra í efnið og takast á við siðferðislegar vangaveltur sem upp koma í tengslum við gervigreind og hugsanleg áhrif hennar á samfélagið í framtíðinni.
Lesa meira

Hamingjan í brennidepli

Menntaskólinn á Tröllaskaga er UNESCO-skóli og tekur sem slíkur þátt í nokkrum þeirra daga sem Sameinuðu þjóðirnar tileinka ákveðnum málefnum. Í síðustu viku var m.a.alþjóða hamingjudagurinn en hann er haldinn 20. mars ár hvert. Dagurinn var fyrst haldinn árið 2013 með það að markmiði að vekja athygli á hamingju og vellíðan sem mikilvægu markmiði fyrir einstaklinga og stjórnvöld um heim allan. Ýmsir viðburðir eru skipulagðir þennan dag til að vekja áhuga á mikilvægi hamingjunnar og niðurstaða skýrslu um hamingju þjóða í heiminum “World Happiness Report” er kynnt. Ísland hefur verið meðal efstu þjóða þar síðustu ár og varð í þriðja sæti árið 2023.
Lesa meira

Óveður

Búið er að fella niður skólaakstur frá Siglufirði. Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur ákveðið að fella niður staðbundna kennslu fimmtudaginn 21. mars vegna veðurs. Nemendur mæta í fjarkennslustofur samkvæmt stundaskrá
Lesa meira

Gjöfult samstarf við skóla á Spáni

Á dögunum dvaldi Ida Semey, kennari við MTR, í framhaldsskólanum IES Andreu Sempere í Alcoi á Spáni í nokkra daga og fylgdist þar með skólastarfi og kennslu. Skólarnir tveir, MTR og IES Andreu Sempere, eiga margt sameiginlegt eru t.d. báðir Erasmus og UNESCO skólar og var dvöl Idu styrkt af Erasmus+ áætluninni. Þetta er hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem skólarnir eiga í samstarfi því vorið 2023 heimsótti starfsfólk MTR spænska skólann í námsferð sinni til Alicante og von er á nokkrum nemendum frá IES Andreu Sempere í heimsókn til Ólafsfjarðar í næsta mánuði. Munu þeir kynnast skólastarfinu í MTR og dvelja hjá nemendum skólans á meðan á heimsókninni stendur. Ida fundaði með þessum nemendum og kennara þeirra og fór yfir dagskrána sem nemendur í umhverfis áfanga MTR hafa útbúið vegna heimsóknarinnar. Áherslan er á að skoða hvernig skólarnir vinna sem UNESCO skólar, hvað nemendur þeirra geta lært hverjir af öðrum og hvernig samstarfsverkefni skólarnir geta unnið saman í framtíðinni. Auk þess munu nemendur kynna sér hvaða menningar- og náttúrustaðir í löndunum tveimur eru á Heimsminjaskrá UNESCO.
Lesa meira