14.11.2025
Moodle verður endurræst vegna uppfærslu á mánudag 17.11.2025 milli klukkan 8:30 og 9:00
Lesa meira
12.11.2025
Kennarar skólans eru frjóir og skapandi og hafa margoft sýnt og sannað að þeir standa vel undir einkunnarorðum skólans: Frumkvæði - sköpun - áræði. Kolbrún Halldórsdóttir, einn af íslenskukennurum skólans, er gott dæmi. Hún fékk styrk úr námsgagnasjóði Rannís vorið 2024 til að hanna og setja upp notendavæna og aðgengilega vefsíðu þar sem hugmyndin var að bjóða upp á fjölbreytt gagnvirk verkefni í íslensku á framhaldsskólastigi. Síðan heitir Áfram íslenska og var opnuð núna á haustdögum. Hún var valin sem ein af fjórum bestu hugmyndunum í flokknum Námsgögn á Menntaþoni í júní sl. Að Menntaþoninu standa Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS), Þróunarsjóður námsgagna, NýMennt Háskóla Íslands, IÐNÚ og Samtök menntatæknifyrirtækja (IEI).
Lesa meira
06.11.2025
Gott og fjölbreytt starf er unnið á listabraut skólans og þar hafa margir nemendur fengið góðan grunn og kynnst tækni til að þróa sína listsköpun áfram. Einn þeirra nemenda sem hefur blómstrað í námi sínu undanfarnar annir er Emilía Sigrún Karlsdóttir en hún hefur stundað fjarnám við skólann og er að útskrifast með stúdentspróf af listabraut í næsta mánuði. Hún vann áhugavert lokaverkefni í ljósmyndaáfanga s.l. vor, lokaverkefni sem nú er orðið að sýningu í höfuðborginni. Sýningin kallast Endurtekning og er í Borgarbókasafninu í Árbæ.
Lesa meira
30.10.2025
Margir tóku áskorun nemendaráðs skólans og mættu í skólann í gær klæddir búningum í anda hrekkjavöku. Var áskoruninni beint jafnt að nemendum sem starfsfólki því ungmennunum þykir alltaf gaman þegar þau sem eldri eru taka sig ekki of alvarlega og eru til í að vera með í smá sprelli. Sáust margir skemmtilegir og frumlegir búningar, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Linda Sól, nemandi skólans, var verðlaunuð fyrir besta búninginn. Í kvöld munu nemendur koma saman í skólanum og horfa á fjörlega mynd sem gerist á hrekkjavöku. Er ekki ólíklegt að hárin rísi!
Lesa meira
29.10.2025
Dagana 11. - 17. október fóru nokkrir nemendur við MTR í ferð til Tallinn í Eistlandi í fylgd tveggja kennara. Þar tóku þeir þátt í Nordplus samstarfsverkefni með þremur skólum; einum eistneskum og tveimur finnskum. Verkefnið kallast “Bridging Minds & Cultures Through Stories” (Að tengja menningu og hug með sögum) og er markmiðið að nemendur kynnist menningu mismunandi landa og vinni með andlega heilsu í gegnum söguformið. Unnið var í hópum eftir ýmsum þemum eins og t.d. draumar, fjölskylda og vinátta og afrakstur vinnunnar var fjölbreyttur; tónlist, hlaðvörp, veggspjöld og listaverk. Farið var í ratleik um sögulegar slóðir í borginni og einnig voru haldin menningarkvöld þar sem hver skóli kynnti sína menningu. Fengu nemendur þá meðal annars að kynnast finnska jólasveininum og eistneskri síld. Okkar nemendur kynntu Ísland og íslenska menningu og þótti erlendu nemendunum sérstaklega áhugavert að læra um íslenska stafrófið og Íslendingabók.
Lesa meira
23.10.2025
Mennta- og barnamálaráðherra, Guðmundur Ingi Kristjánsson, hefur að undanförnu heimsótt framhaldsskóla landsins og í dag var komið að því að sækja MTR heim. Í fylgd með ráðherra voru þrír starfsmenn ráðuneytisins. Heimsóknin hófst með því að nemendaráð fylgdi ráðherra og fylgdarliði hans um skólahúsnæðið og sagði frá því sem fyrir augu bar. Síðan var fjölmennt á sal þar sem nemendur, starfsfólk, fulltrúar bæjarstjórnar og formaður skólanefndar hlýddu á og tóku þátt í dagskrá heimsóknarinnar. Fyrst tók Inga Eiríksdóttir, fulltrúi kennara, til máls. Fór hún stuttlega yfir sögu skólans og vakti athygli á vexti hans og mikilvægi í samfélaginu auk þess að segja frá skipulagi námsins, fjölbreyttum verkefnaskilum, símati, vinsælu fjarnámi og einstökum starfsanda.
Þá steig ráðherra í pontu og fór yfir nokkur mál sem snerta starfsemi framhaldsskólanna og sérstaklega hugmyndir að nýju skipulagi fyrir opinbera framhaldsskóla. Markmið þeirra er að styrkja starf framhaldsskólanna og efla þjónustu við nemendur. Hrafnkell Tumi Kolbeinsson, sérfræðingur í Mennta- og barnamálaráðuneytinu, ræddi þessar hugmyndir svo nánar áður en boðið var upp á spurningar úr sal. Sköpuðust út frá þeim spurningum ágætar umræður en þar sem hugmyndirnar eru enn á mótunarstigi voru engin bein svör nema að viðstaddir voru fullvissaðir um að ekki ætti að skerða fjárframlög til skólanna.
Eru þessum góðu gestum færðar þakkir fyrir komuna.
Lesa meira
22.10.2025
Í dag var Erasmus-dagur hjá okkur þar sem athygli var vakin á þeim tækifærum sem styrkir úr Erasmus+ áætlun ESB veita nemendum sem kennurum. Fyrsta verkefnið sem MTR tók þátt í var strax á þriðja starfsári skólans, haustið 2013, og síðan þá hefur skólinn tekið þátt í á fjórða tug verkefna með skólum vítt og breitt um Evrópu. Má segja að vegna þeirra styrkja sem skólinn hefur notið úr áætluninni séu erlend samskipti eitt einkennismerkja hans og setja þau mark sitt á skólastarfið á hverri önn.
Lesa meira
16.10.2025
Nemendafélagið Trölli stýrir félagslífi nemenda í skólanum og stendur fyrir ýmsum viðburðum. Kosið var í nýtt nemendaráð í haust og það skipa nú Hanna Valdís Hólmarsdóttir, sem gegnir formennsku, Haukur Rúnarsson varaformaður, Jason Karl Friðriksson gjaldkeri, ritari er Birgir Bragi Heimisson og umsjón með samfélagsmiðlum hefur Auður Guðbjörg Gautadóttir. Nemendaráð reynir að mæta óskum nemenda eins og hægt er og á hinum árlega skólafundi, sem fór fram um miðjan september, óskaði ráðið eftir hugmyndum til að efla félagslífið. Komu ýmsar uppástungur frá nemendum eins og t.d. bíó-, spila og tölvuleikjakvöld, að halda íþróttadag, sundlaugarpartý og fleira skemmtilegt. Nemendaráð fundar einu sinni í viku og vinnur nú úr þeim tillögum sem bárust. Þeim til halds og trausts er Hólmar Hákon Óðinsson, náms- og starfsráðgjafi.
Stærsta verkefnið á önninni til þessa í félagslífinu var nýnemadagurinn, sem tókst með miklum ágætum, og haldnir hafa verið nokkrir þemadagar þar sem nemendur og starfsfólk hefur mætt klætt eftir því þema sem nemendaráð ákveður hverju sinni.
Nemendaráð fundar einnig reglulega með skólameistara og kemur þar á framfæri hugmyndum nemenda til að bæta skólastarfið og á fulltrúa bæði í skólaráði og skólanefnd svo tryggt sé að sjónarmið nemenda nái eyrum þeirra sem leggja línurnar.
Lesa meira
15.10.2025
Erasmus-dagar 2025 fara fram dagana 13. - 18. október. Tilgangur þeirra er að vekja athygli á Erasmus+ áætluninni og tækifærum hennar og eru styrkhafar hvattir til að deila reynslu sinni. Erasmus+ er styrkjaáætlun ESB fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál árin 2021 - 2027 og mun veita 26 milljarða evra í styrki á þessu tímabili til fjölbreyttra verkefna. Áætlunin styður meðal annars skiptinám, ungmennaskipti, símenntun starfsfólks, notkun upplýsingatækni í kennslu, tungumálanám, fjölbreytt samstarfsverkefni, nýsköpun í kennslufræðum og margt fleira. Ísland tekur þátt í samstarfinu í gegnum EES-samninginn.
Nemendur og starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga hafa sannarlega notið góðs af þessum styrkjum og hafa nýtt þá til fjölda erlendra verkefna. Má segja að vegna styrkjanna séu erlend samskipti eitt einkennismerkja skólans sem setja mark sitt á skólastarfið á hverri önn.
Fyrsta verkefnið sem MTR tók þátt í var strax á þriðja starfsári skólans, haustið 2013. Þá tók skólinn þátt í Comeniusarverkefni, fyrirrennara Erasmus+, með þremur skólum í jafn mörgum löndum; Ítalíu, Spáni og Þýskalandi. Verkefnið snérist um vatn og mikilvægi þess fyrir lífríki og samfélag manna og stóð í tvö ár. MTR leiddi verkefnið og var Inga Eiríksdóttir, stærðfræðikennari, í forsvari fyrir hönd skólans. Verkefnið hófst með heimsókn tuttugu manna hóps nemenda og kennara frá Ítalíu, Spáni og Þýskalandi til Íslands í október 2023. Skipulögð hafði verið þétt og skemmtileg dagskrá sem hófst á leiðsögn í listljósmyndun, farið var í heimsókn í Skeiðsfossvirkjun í Fljótum og borholurnar í Ólafsfirði skoðaðar. Einnig var haldið í Mývatnssveit þar sem hópurinn skoðaði Dimmuborgir, Grjótagjá, hveraröndina við Námaskarð og jarðgufuvirkjunina í Kröflu. Bragðað var á séríslenskum mat, hákarli, slátri, harðfisk, silungi, skyri og fleiri slíkum réttum sem gestunum þótti misjafnlega spennandi en forvitnilegir. Gestirnir voru mjög áhugasamir, tóku mikið af myndum og spurðu margs. Voru þeir hissa á hvað við hefðum mikið vatn, mikið af grænni orku, til húshitunar og annarra þarfa.
Tókust góð kynni meðal nemenda í þessari heimsókn sem voru svo endurnýjuð í næstu heimsóknum til hinna landanna þriggja þar sem margt áhugavert um nýtingu vatns og mikilvægi þess bar fyrir augu. Frá þessu fyrsta verkefni hafa nemendur sem kennarar tekið þátt í ýmsum spennandi verkefnum í fjölda Evrópulanda fyrir tilstilli Erasmus+ áætlunarinnar.
Hér má sjá myndir úr þessu áhugaverða fyrsta verkefni:
Lesa meira
10.10.2025
Nú hefur staðið yfir miðannarvika í skólanum þar sem hefðbundin kennsla er brotin upp og nemendur sitja áfanga sem gefur þeim tvær einingar. Viðfangsefnin hafa verið af ýmsum toga í þessum áföngum síðustu ár og að þessu sinni er sjónum beint að borgaralegum réttindum og hatursorðræðu. Kannski ekki mest spennandi umfjöllunarefnin í augum nemenda við fyrstu sýn en sannarlega nauðsynleg og hafa svo einnig reynst mjög áhugaverð. Nemendur hafa verið mjög áhugasamir og tengja við ýmislegt sem fjallað hefur verið um eins og t.d. bakslag í réttindabaráttu minnihlutahópa, uppgang hatursorðræðu, mátt samfélagsmiðla og áhrif þeirra á umræðuna, falsfréttir, birtingarmyndir fordóma og fleira. Einnig hafa nemendur skoðað hvernig bregðast má við slíku og þá hafa fræðsla, samvinna, samkennd og virðing fyrir hvert öðru verið lykilorðin.
Lesa meira