Fræðsla gegn fordómum

Stólaleikur mynd GK
Stólaleikur mynd GK

Nú hefur staðið yfir miðannarvika í skólanum þar sem hefðbundin kennsla er brotin upp og nemendur sitja áfanga sem gefur þeim tvær einingar. Viðfangsefnin hafa verið af ýmsum toga í þessum áföngum síðustu ár og að þessu sinni er sjónum beint að borgaralegum réttindum og hatursorðræðu. Kannski ekki mest spennandi umfjöllunarefnin í augum nemenda við fyrstu sýn en sannarlega nauðsynleg og hafa svo einnig reynst mjög áhugaverð. Nemendur hafa verið mjög áhugasamir og tengja við ýmislegt sem fjallað hefur verið um eins og t.d. bakslag í réttindabaráttu minnihlutahópa, uppgang hatursorðræðu, mátt samfélagsmiðla og áhrif þeirra á umræðuna, falsfréttir, birtingarmyndir fordóma og fleira. Einnig hafa nemendur skoðað hvernig bregðast má við slíku og þá hafa fræðsla, samvinna, samkennd og virðing fyrir hvert öðru verið lykilorðin.

Áhersla hefur verið lögð á skapandi vinnu, gagnrýna umræðu og virka þátttöku nemenda og má með sanni segja að vel hafi tekist til. Nemendur hafa unnið í hópum, rætt málin af alvöru og skilað af sér fjölbreyttum og áhugaverðum úrlausnum eins og t.d. veggspjöldum, myndböndum, laga- og textasmíðum, viðtölum við bæjarbúa og fleira þar sem unnið er með þessi umfjöllunarefni. Einnig hafa nemendur hlýtt á erindi og ýmiskonar fræðsluefni, skipst á skoðunum og tekið þátt í ýmsum samvinnuleikjum til að dýpka skilning þeirra á málefnunum.

Það voru fulltrúar frá Via Nostra, sem er fræðslusamfélag í eigu kennara og starfsfólks MTR, sem sáu um skipulag og kennslu í miðannarvikunni að þessu sinni.

En hvað höfðu nemendur sjálfir að segja um áfangann og efni hans? Í lok vikunnar áttu þeir að gera fréttaefni sem mætti birta. Hér eru dæmi um afraksturinn af því verkefni: Myndir

https://drive.google.com/file/d/1F3wwKDtMNQEhaD-iawVlzsLOPdqi9boA/view

https://drive.google.com/file/d/1P3ok43vvRR1LJ4S90d28UfCxtyNt7MNb/view

https://drive.google.com/file/d/1jJA34MNl8LM7it9kD_p3AJ5GEBLF7Trq/viewhttps://drive.google.com/file/d/1F5PTkA6w4OeKEK0t2jlbm9ACmRYKNyOd/view?usp=sharig