Fréttir

Speglun frá góðum gestum

Á hverju skólaári fáum við heimsóknir kennara erlendis frá; kennara í starfsspeglun (Job Shadowing) sem vilja fá að fylgjast með kennslu og fræðast um skólann okkar og kennsluhætti. Leggjum við áherslu á að taka vel á móti þessum gestum, skipuleggjum vandaða og fjölbreytta dagskrá og hugum vel að því að góður tími gefist til skoðanaskipta svo við lærum líka af gestum okkar. Þeir fá að skoða áfanga í mismunandi greinum, kynnast kennslukerfi skólans, ýmsum matsaðferðum og fjölbreyttum skilamöguleikum verkefna svo eitthvað sé nefnt. Fastir liðir í þessum heimsóknum eru kynning á skólanum, viðtöl við nemendaráð, skólastjórnendur og fjölda kennara. Alla síðustu viku voru hjá okkur tveir kennarar frá Belgíu og einn frá Lanzarote og komu þeir hingað á styrk frá Erasmus+. Voru þeir alsælir með heimsóknina, sögðust hafa lært fjölmargt af henni og buðu fulltrúa okkar skóla velkomna til sín við tækifæri. Í mati þeirra á heimsókninni kom m.a. fram að andrúmsloftið í skólanum hafi verið einstaklega gott, þeim hafi fundist þeir sérlega velkomnir í skólann og dagskráin hefði verið vel skipulögð. Allir hefðu gefið sér góðan tíma til að ræða við þá til að gefa þeim innsýn í stefnu skólans, skólastarfið og kennsluhætti. Aðspurðir um hvað þeir hefðu lært nýtt og tækju með sér úr þessari heimsókn sögðust þeir m.a. hafa lært mikið um aðferðafræðina sem notuð er í skólanum, verkfærin sem notuð eru í kennslu og til að veita nemendum endurgjöf. Þeim fannst frábært hvernig kennarar eru að tileinka sér gervigreind og vinna með hana, frelsið í námskránni og sveigjanlegar stundatöflur komum þeim á óvart sem og ábyrgð nemenda á eigin námi. Þeim leist vel á vikuskipulag verkefna og það sé gott fyrir nemendur að hafa allt námsefni aðgengilegt á einum stað í kennslukerfinu. Mjög fróðlegt hafi verið að fá að heyra skoðanir nemenda á náminu og spjallið við Láru skólameistara hafi verið mjög upplýsandi. Hugmyndafræði hennar um menntun sé frábær og gaman væri að sjá hvernig henni hefur tekist að mynda teymi kennara sem stefna allir í sömu átt og hugsa alltaf um hvað sé best fyrir nemendurna. Sögðu þeir heimsóknina hafa víkkað sjóndeildarhringinn á ýmsa vegu, þeir hafi séð eitthvað nýtt og gagnlegt á hverjum degi og hafi fengið margar hugmyndir til að deila með samstarfsfólki sínu. Heimsóknin hafi kveikt löngun til að beita nýjum aðferðum í kennslu, halda áfram að læra og deila þekkingu.
Lesa meira

Líf og fjör á nýnemadegi

Það er hefð að bjóða nýnema velkomna í skólann á sérstökum nýnemadegi. Var hann haldinn í síðustu viku og þar tókust staðnemar skólans á við ýmis skemmtileg verkefni til að hrista hópinn betur saman. Stjórn nemendafélagsins Trölla skipulagði dagskrá dagsins sem hófst með fjörlegum ratleik. Nemendunum var skipt upp í hópa og þurftu þeir að leysa hinar ýmsu þrautir innan skólans sem og vítt og breitt um Ólafsfjörð. Mynda þurfti lausn hverrar þrautar með hópnum öllum og skila inn til dómnefndar. Skemmtu nemendur sér vel og dómnefndin ekki síður við að meta frammistöðu hvers hóps því þrautirnar voru æði frumlegar. Má þar nefna að taka mynd af hópnum með eldri borgara, gera góðverk fyrir bæjarbúa, mynda stafi og orð með líkamanum, gera listaverk úr rusli, skora á bæjarbúa í kapphlaup og fleira áhugavert. Að loknum ratleiknum var farið í boðhlaup þar sem einnig þurfti að leysa áhugaverðar þrautir eins og að svolgra í sig hráu eggi, blása upp blöðru og borða kókosbollu og drekka gosdrykk með á milli þess sem sprett var úr spori. Að boðhlaupi loknu voru veitt verðlaun fyrir góða frammistöðu í báðum keppnum áður en sest var að borðum og pizzuveislu í boði skólans gerð skil. Deginum lauk svo með sundspretti í sundlauginni og afslöppun í heitu pottunum eftir átök dagsins. Voru nemendur og starfsfólk sammála um að vel hefði til tekist og veðrið sýndi sínar bestu hliðar eins og myndirnar bera með sér.
Lesa meira

„Ég hef aldrei dýrkað manneskju jafn mikið sem ég hef aldrei hitt.”

Reglulega berast kennurum og stjórnendum skólans skilaboð frá nemendum og aðstandendum þeirra þar sem þeim eru færðar þakkir fyrir góða kennslu, frábært skipulag, góða uppsetningu námsefnis og ýmislegt annað sem snertir námið og skólastarfið. Á vordögum og nú í byrjun haustannar höfum við m.a. fengið þessi fallegu skilaboð sem sjá má hér að neðan. Sannarlega upplífgandi í upphafi skólaársins og gefur okkur staðfestingu á að við séum á réttri leið. „Það er einmitt vegna svona góðra kennara sem hún er nú loksins að klára stúdentspróf eftir margra ára tilraunir við misjafnar aðstæður. Ég hef verið viðloðandi skólakerfið í um 30 ár og verð að segja að MTR er einn faglegasti og besti menntastaðurinn sem ég þekki.” „Sæl, mig langaði svo að segja þér hvað mér finnst þessi HP5 verkefni skemmtileg og ekkert smá fræðandi! Mér finnst gaman að læra núna um Völuspá og finnst ég ná miklum árangri að horfa og virkilega þurfa að hlusta til að svara spurningum rétt. Takk fyrir frábært námsefni. Ég kláraði öll verkefnin því ég vildi ekki hætta að læra, svo gaman.” „Takk fyrir frábæra kennslu. Þú ert æði.” „Ég hef aldrei dýrkað manneskju jafn mikið sem ég hef aldrei hitt.” „Vildi bara þakka þér persónulega fyrir önnina þar sem ég hefði ekki komist í gegnum þetta án þín. Takk fyrir að trúa á mig og opna hugann um að ég gæti þetta.” „Það er búið að vera frábært að kynnast þér, takk fyrir alla þína hjálp og þitt traust. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn við þig þá hef ég aldrei lært svona mikið á stuttum tíma, ég er ekkert nema þakklát. Haltu áfram að láta ljós þitt skína, mátt vera mjög stolt af þér.” „Hæ hæ, nú er önnin alveg að klárast en mig langar bara að senda þér skilaboð og þakka þér fyrir það hvað þú ert yndislegur og góður kennari og gaman að vera í áföngum hjá þér. Takk fyrir önnina.”
Lesa meira

Erlent samstarf í blóma

Eitt af einkennismerkjum skólans er öflugt erlent samstarf og nær það bæði til starfsfólks og nemenda. Á þessari önn er búið að skipuleggja ýmsar ferðir og hafa fengist til þeirra styrkir úr Nordplus,menntaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar og menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+. Á önninni munu tveir kennarar halda til Danmerkur að fylgjast með kennslu og fara þeir í sitt hvorn skólann. Tveir kennarar halda til Portúgal í nokkra daga í sömu erindagjörðum í október og mánuði síðar sitja þrír kennarar námskeið um gervigreind í Porto. Auk þess munu skólameistari og tveir kennarar halda til Singapúr á stærstu ráðstefnu sem haldin er í Asíu um upplýsingatækni og kynna sér það nýjasta í þeim efnum. Tvær nemendaferðir eru á döfinni. Hópur nemenda mun dvelja um vikutíma í Eistlandi í október til að taka þátt í fyrsta hluta verkefnis sem kallast Að tengja huga og menningu gegnum sögur. Í þessu verkefni eru fjórir skólar, tveir frá Tallin í Eistlandi, einn finnskur skóli og svo MTR. Einnig mun nemendaráð skólans halda til Kaupmannahafnar í nóvember og vinna þar að verkefni sem kallast Nemendalýðræði og félagsleg sjálfbærni með nemendaráðum tveggja skóla í okkar fornu höfuðborg. Heimsóknir erlendis frá í MTR verða einnig nokkrar á önninni. Þessa vikuna eru t.d. tveir kennarar frá Belgíu og einn frá Lanzarote, austustu eyju Kanaríeyja, að kynna sér starfshætti í skólanum og ræða við kennara og nemendur um nám og kennslu.
Lesa meira

Nýtt vinnulag í upphafi sextánda starfsársins

Þá er sextánda starfsár skólans hafið. Í morgun mættu staðnemar í hús og hinir fjölmörgu fjarnemar skólans hafa fengið upplýsingar um hvernig þeir skrá sig inn í sína áfanga í kennslukerfinu og geta hafist handa. Lára Stefánsdóttir, skólameistari, bauð staðnema velkomna, hvatti þá til að sinna náminu af alúð og minnti þá á að námið væri á þeirra ábyrgð. Til að hjálpa nemendum við það verkefni hefur verið tekið upp nýtt vinnulag í skólanum og útskýrði Hólmar Hákon Óðinsson, námsráðgjafi skólans, það fyrir nemendum. Hver og einn staðnemi hefur nú sína starfsstöð þar sem hann vinnur sín verkefni. Á mánudagsmorgnum skipuleggja nemendur vinnu vikunnar og fylgja því plani með aðstoð kennara sinna. Er þetta skipulag byggt á hugmynd þess sem er við lýði í Framhaldsskólanum á Laugum sem starfsfólk skólans heimsótti á vinnudögum í vor.
Lesa meira

Byrjun náms

Nám hefst í skólanum mánudaginn 18. ágúst kl. 09:00. Fjarnemar fá sendar upplýsingar um skólabyrjun um helgina og byrja á sama tíma.
Lesa meira

Mætt eftir sumarfrí

Starfsfólk skólans er nú mætt aftur til starfa eftir sumarfrí. Kennarar fjarvinna við undirbúning komandi haustannar. Skrifstofa skólans er opin á hefðbundnum tíma 08:00 - 16:00 alla daga nema föstudaga þegar opið er til 12:00. Hlökkum til vetrarins.
Lesa meira

Sumarfrí

Starfsmenn skólans eru nú farnir í sumarfrí og skrifstofa skólans því lokuð til 5. ágúst.
Lesa meira

Innritun í fjar- og staðnám lokið

Innritun í fjar- og staðnám fyrir haustönn 2025 er lokið og viljum við þakka innilega fyrir þann mikla áhuga sem skólanum er sýndur. Því miður þurftum við að vísa mörgum frá en næst er hægt að sækja um 1. nóvember 2025 fyrir vorönn 2026.
Lesa meira

Endurmenntun hjá góðum grönnum

Á skóladagatali hvers árs eru fjórir dagar sérstaklega merktir endurmenntun kennara, tveir í upphafi skólaársins og aðrir tveir í lok þess, en auk þess sinnir starfsfólk skólans ýmiskonar endurmenntun árið um kring. Á þessum tveimur dögum í lok síðustu skólaára hefur fjölbreytt endurmenntun verið á dagskrá t.d. ýmis námskeið og fyrirlestrar auk skólaheimsókna innanlands- sem utan. Að þessu sinni var ekki leitað langt yfir skammt því skipulagðar voru heimsóknir til okkar góðu granna í Suður-Þingeyjarsýslu; Framhaldsskólann á Húsavík og Framhaldsskólann á Laugum. Á báðum stöðum fengum við höfðinglegar móttökur jafnt starfsfólks sem stjórnenda. Fengum kynningu á skipulagi náms í hvorum skóla, skoðuðum húsakynni og aðstöðu og svo var rætt í minni hópum um stakar kennslugreinar, tækifæri og áskoranir. Margt áhugavert bar á góma og er ekki ósennilegt að áhrifa heimsóknanna gæti þegar skólinn fer aftur af stað næsta haust. Gist var í góðu yfirlæti að Narfastöðum í Reykjadal og eins gafst starfsmannahópnum tími til að skoða sig aðeins um á Húsavík. Var þetta góður endir á samveru vetrarins.
Lesa meira