„Ég hef aldrei dýrkað manneskju jafn mikið sem ég hef aldrei hitt.”

Reglulega berast kennurum og stjórnendum skólans skilaboð frá nemendum og aðstandendum þeirra þar sem þeim eru færðar þakkir fyrir góða kennslu, frábært skipulag, góða uppsetningu námsefnis og ýmislegt annað sem snertir námið og skólastarfið.

Á vordögum og nú í byrjun haustannar höfum við m.a. fengið þessi fallegu skilaboð sem sjá má hér að neðan. Sannarlega upplífgandi í upphafi skólaársins og gefur okkur staðfestingu á að við séum á réttri leið.

„Það er einmitt vegna svona góðra kennara sem hún er nú loksins að klára stúdentspróf eftir margra ára tilraunir við misjafnar aðstæður. Ég hef verið viðloðandi skólakerfið í um 30 ár og verð að segja að MTR er einn faglegasti og besti menntastaðurinn sem ég þekki.”

„Sæl, mig langaði svo að segja þér hvað mér finnst þessi HP5 verkefni skemmtileg og ekkert smá fræðandi! Mér finnst gaman að læra núna um Völuspá og finnst ég ná miklum árangri að horfa og virkilega þurfa að hlusta til að svara spurningum rétt. Takk fyrir frábært námsefni. Ég kláraði öll verkefnin því ég vildi ekki hætta að læra, svo gaman.”

„Takk fyrir frábæra kennslu. Þú ert æði.”

„Ég hef aldrei dýrkað manneskju jafn mikið sem ég hef aldrei hitt.”

„Vildi bara þakka þér persónulega fyrir önnina þar sem ég hefði ekki komist í gegnum þetta án þín. Takk fyrir að trúa á mig og opna hugann um að ég gæti þetta.”

„Það er búið að vera frábært að kynnast þér, takk fyrir alla þína hjálp og þitt traust. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn við þig þá hef ég aldrei lært svona mikið á stuttum tíma, ég er ekkert nema þakklát. Haltu áfram að láta ljós þitt skína, mátt vera mjög stolt af þér.”

„Hæ hæ, nú er önnin alveg að klárast en mig langar bara að senda þér skilaboð og þakka þér fyrir það hvað þú ert yndislegur og góður kennari og gaman að vera í áföngum hjá þér. Takk fyrir önnina.”