Þrítugusta brautskráningin frá MTR

Þrítugusta brautskráningin mynd SMH
Þrítugusta brautskráningin mynd SMH

Það var hátíðleg stund í Menntaskólanum á Tröllaskaga í gær þegar þrítugasta brautskráning skólans fór fram. Fimmtíu og tveir nemendur brautskráðust, eru það jafn margir og á vorönn í fyrra og eru það fjölmennustu útskriftarhóparnir frá upphafi. Alls hafa nú 678 nemandur brautskráðst frá skólanum á þeim fimmtán árum sem hann hefur starfað. Útskriftarnemarnir að þessu sinni koma frá þrettán stöðum á landinu og tveir eru búsettir erlendis, enda mikill meirihluti nemenda skólans fjarnemar. Fjórtán útskriftarnemar sáu sér fært að mæta í athöfnina en aðrir fylgdust með í streymi. 

Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir aðstoðarskólameistari stýrði athöfninni og flutti ávarp þar sem hún sagði frá starfi skólans. Í máli hennar kom m.a. fram að á þessari önn voru rúmlega 550 nemendur skráðir í nám. Um 90% þeirra fjarnemar og stór hluti af höfuðborgarsvæðinu. Kjörnámsbraut var fjölmennasta brautin og þar á eftir félags- og hugvísindabraut. Starfsmenn voru 29. Erlend verkefni voru sem fyrr áberandi í skólastarfinu og hefur fengist fjöldi styrkja til þeirra. Erasmus-styrkir eru fastur liður í skólastarfinu og hafa gert bæði nemendum og kennurum kleift að fara í ferðir til útlanda sem og að taka á móti nemendahópum erlendis frá. Á þessari önn heimsóttu nemendur m.a. samstarfsskóla í Lettlandi og endurguldu þar heimsókn nemenda þaðan á haustönn. Einnig er MTR UNESCO-skóli sem fléttar heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna inn í allt skólastarf þar sem m.a. er lögð áhersla á mannréttindi, umhverfismál og frið. Þakkaði hún að lokum útskriftarnemum fyrir þann tíma sem þeir hafa varið í Menntaskólanum á Tröllaskaga og óskaði þeim velfarnaðar í öllu því sem þeir taka sér fyrir hendur í framtíðinni.

Skólameistarinn Lára Stefánsdóttir flutti einnig ávarp þar sem hún óskaði útskriftarnemum allra heilla og þakkaði þeim fyrir að velja MTR. Lagði hún út frá einkunnarorðum skólans: Frumkvæði - Sköpun - Áræði og sagði að þau lituðu allt skólastarfið bæði hjá nemendum og starfsfólki. Mikilvægt væri nemendum að finna eigin rödd, rækta sína styrkleika, vera gerendur í sínu námi en ekki þrælar þess og átta sig betur á hver þau eru. Það muni hjálpa nemendum að þekkja sig sjálf og vera öruggari í eigin skinni. Með því getur maður frekar notað orku sína í að búa til skemmtilegt og innihaldsríkt líf í stað þess að vera að þóknast öðrum og gera það sem maður heldur að maður eigi að vera að gera. Einnig ræddi hún um þann sjálfsaga sem þarf til að vera fjarnemi og þá áherslu sem starfsfólk skólans legði á að allir nemendur nytu sömu þjónustu og nærgætni, hvort sem þeir væru fjarnemar eða staðnemar, án þess að slakað væri á námskröfum. Að lokum gerði hún að umtalsefni orð ráðherra á dögunum um draugabæinn Ólafsfjörð og í hennar augum væri í raun búið að stéttaskipta byggðunum á landinu án þess að fólk vissi um hvað það væri að tala. Á Ólafsfirði væri mikið um að vera þar eru um 40 fyrirtæki, ýmiskonar uppbygging í gangi og öflugt félagslíf. Íbúar hefðu fundið leiðir til að mæta nýjum veruleika og breytingum á atvinnuháttum með elju og dugnaði.

Þá var komið að afhendingu prófskírteina, sem Lára skólameistari og Jóna Vilhelmína aðstoðarskólameistari sáu um. Dúx skólans að þessu sinni var Urður Harðardóttir, úr Reykjanesbæ. Hún útskrifaðist af Félags- og hugvísindabraut og hlaut viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur í fjórum námsgreinum.  

Að lokum var komið að ávarpi nýstúdents sem Helgi Þór Ívarsson, fjarnemi við skólann, flutti. Hann hóf mál sitt á að segja frá því að hann væri að stíga í fyrsta sinn inn í skólabygginguna og að flytja sína fyrstu ræðu. Hann sagði frá þeim áskorunum sem fylgja því að stunda fjarnám því það hefði verið erfiðara en hann bjóst við; að halda einbeitingu og sjálfsaga og vinna jafnt og þétt, það var ekkert auðvelt en með góðri aðstoð og hvatningu sinna nánustu og kennarana hafi það tekist. Eftir grunnskólagönguna hefur hann elt íshokkídraum sinn og hefur leikið þá íþrótt með liðum í Evrópu, hér heima og fyrir landslið Ísland. Fjarnámið hefur gert honum kleift að fylgja þessum draumi eftir, ferðast víða um heiminn til að keppa og mennta sig í leiðinni. Mælti hann með skólanum fyrir alla sem vildu upplifa ævintýri og mennta sig á sama tíma. Þakkaði hann sérstaklega Birgittu Sigurðardóttur, umsjónarkennara fjarnema, fyrir aðstoðina við að skipuleggja námið í kringum allt sem hann hefur áhuga á og benda honum á áfanga sem hann hélt að ekki væri möguleiki á að taka í menntaskóla eins og ýmiskonar íþrótta- og listaáfanga.   

Við athöfnina söng Sigurlaug Sturludóttir, ung og efnileg söngkona úr Ólafsfirði, tvö lög við undirleik Ave Kara Sillaots.