Nýtt vinnulag í upphafi sextánda starfsársins

Þá er sextánda starfsár skólans hafið. Í morgun mættu staðnemar í hús og hinir fjölmörgu fjarnemar skólans hafa fengið upplýsingar um hvernig þeir skrá sig inn í sína áfanga í kennslukerfinu og geta hafist handa. Lára Stefánsdóttir, skólameistari, bauð staðnema velkomna, hvatti þá til að sinna náminu af alúð og minnti þá á að námið væri á þeirra ábyrgð. Til að hjálpa nemendum við það verkefni hefur verið tekið upp nýtt vinnulag í skólanum og útskýrði Hólmar Hákon Óðinsson, námsráðgjafi skólans, það fyrir nemendum. Hver og einn staðnemi hefur nú sína starfsstöð þar sem hann vinnur sín verkefni. Á mánudagsmorgnum skipuleggja nemendur vinnu vikunnar og fylgja því plani með aðstoð kennara sinna. Er þetta skipulag byggt á hugmynd þess sem er við lýði í Framhaldsskólanum á Laugum sem starfsfólk skólans heimsótti á vinnudögum í vor.