Hópmynd
Eitt af einkennismerkjum skólans er öflugt erlent samstarf og nær það bæði til starfsfólks og nemenda. Á þessari önn er búið að skipuleggja ýmsar ferðir og hafa fengist til þeirra styrkir úr Nordplus,menntaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar og menntaáætlun Evrópusambandsins, Erasmus+.
Á önninni munu tveir kennarar halda til Danmerkur að fylgjast með kennslu og fara þeir í sitt hvorn skólann. Tveir kennarar halda til Portúgal í nokkra daga í sömu erindagjörðum í október og mánuði síðar sitja þrír kennarar námskeið um gervigreind í Porto. Auk þess munu skólameistari og tveir kennarar halda til Singapúr á stærstu ráðstefnu sem haldin er í Asíu um upplýsingatækni og kynna sér það nýjasta í þeim efnum.
Tvær nemendaferðir eru á döfinni. Hópur nemenda mun dvelja um vikutíma í Eistlandi í október til að taka þátt í fyrsta hluta verkefnis sem kallast Að tengja huga og menningu gegnum sögur. Í þessu verkefni eru fjórir skólar, tveir frá Tallin í Eistlandi, einn finnskur skóli og svo MTR. Einnig mun nemendaráð skólans halda til Kaupmannahafnar í nóvember og vinna þar að verkefni sem kallast Nemendalýðræði og félagsleg sjálfbærni með nemendaráðum tveggja skóla í okkar fornu höfuðborg.
Heimsóknir erlendis frá í MTR verða einnig nokkrar á önninni. Þessa vikuna eru t.d. tveir kennarar frá Belgíu og einn frá Lanzarote, austustu eyju Kanaríeyja, að kynna sér starfshætti í skólanum og ræða við kennara og nemendur um nám og kennslu.