Speglun frá góðum gestum

Á hverju skólaári fáum við heimsóknir kennara erlendis frá; kennara í starfsspeglun (Job Shadowing) sem vilja fá að fylgjast með kennslu og fræðast um skólann okkar og kennsluhætti. Leggjum við áherslu á að taka vel á móti þessum gestum, skipuleggjum vandaða og fjölbreytta dagskrá og hugum vel að því að góður tími gefist til skoðanaskipta svo við lærum líka af gestum okkar. Þeir fá að skoða áfanga í mismunandi greinum, kynnast kennslukerfi skólans, ýmsum matsaðferðum og fjölbreyttum skilamöguleikum verkefna svo eitthvað sé nefnt. Fastir liðir í þessum heimsóknum eru kynning á skólanum, viðtöl við nemendaráð, skólastjórnendur og fjölda kennara.

Alla síðustu viku voru hjá okkur tveir kennarar frá Belgíu og einn frá Lanzarote og komu þeir hingað á styrk frá Erasmus+. Voru þeir alsælir með heimsóknina, sögðust hafa lært fjölmargt af henni og buðu fulltrúa okkar skóla velkomna til sín við tækifæri. Í mati þeirra á heimsókninni kom m.a. fram að andrúmsloftið í skólanum hafi verið einstaklega gott, þeim hafi fundist þeir sérlega velkomnir í skólann og dagskráin hefði verið vel skipulögð. Allir hefðu gefið sér góðan tíma til að ræða við þá til að gefa þeim innsýn í stefnu skólans, skólastarfið og kennsluhætti.

Aðspurðir um hvað þeir hefðu lært nýtt og tækju með sér úr þessari heimsókn sögðust þeir m.a. hafa lært mikið um aðferðafræðina sem notuð er í skólanum, verkfærin sem notuð eru í kennslu og til að veita nemendum endurgjöf. Þeim fannst frábært hvernig kennarar eru að tileinka sér gervigreind og vinna með hana, frelsið í námskránni og sveigjanlegar stundatöflur komum þeim á óvart sem og ábyrgð nemenda á eigin námi. Þeim leist vel á vikuskipulag verkefna og það sé gott fyrir nemendur að hafa allt námsefni aðgengilegt á einum stað í kennslukerfinu.

Mjög fróðlegt hafi verið að fá að heyra skoðanir nemenda á náminu og spjallið við Láru skólameistara hafi verið mjög upplýsandi. Hugmyndafræði hennar um menntun sé frábær og gaman væri að sjá hvernig henni hefur tekist að mynda teymi kennara sem stefna allir í sömu átt og hugsa alltaf um hvað sé best fyrir nemendurna.

Sögðu þeir heimsóknina hafa víkkað sjóndeildarhringinn á ýmsa vegu, þeir hafi séð eitthvað nýtt og gagnlegt á hverjum degi og hafi fengið margar hugmyndir til að deila með samstarfsfólki sínu. Heimsóknin hafi kveikt löngun til að beita nýjum aðferðum í kennslu, halda áfram að læra og deila þekkingu.