Líf og fjör á nýnemadegi

Nýnemadagur
Nýnemadagur

Það er hefð að bjóða nýnema velkomna í skólann á sérstökum nýnemadegi. Var hann haldinn í síðustu viku og þar tókust staðnemar skólans á við ýmis skemmtileg verkefni til að hrista hópinn betur saman. Stjórn nemendafélagsins Trölla skipulagði dagskrá dagsins sem hófst með fjörlegum ratleik. Nemendunum var skipt upp í hópa og þurftu þeir að leysa hinar ýmsu þrautir innan skólans sem og vítt og breitt um Ólafsfjörð. Mynda þurfti lausn hverrar þrautar með hópnum öllum og skila inn til dómnefndar. Skemmtu nemendur sér vel og dómnefndin ekki síður við að meta frammistöðu hvers hóps því þrautirnar voru æði frumlegar. Má þar nefna að taka mynd af hópnum með eldri borgara, gera góðverk fyrir bæjarbúa, mynda stafi og orð með líkamanum, gera listaverk úr rusli, skora á bæjarbúa í kapphlaup og fleira áhugavert.

Að loknum ratleiknum var farið í boðhlaup þar sem einnig þurfti að leysa áhugaverðar þrautir eins og að svolgra í sig hráu eggi, blása upp blöðru og borða kókosbollu og drekka gosdrykk með á milli þess sem sprett var úr spori. Að boðhlaupi loknu voru veitt verðlaun fyrir góða frammistöðu í báðum keppnum áður en sest var að borðum og pizzuveislu í boði skólans gerð skil.

Deginum lauk svo með sundspretti í sundlauginni og afslöppun í heitu pottunum eftir átök dagsins. Voru nemendur og starfsfólk sammála um að vel hefði til tekist og veðrið sýndi sínar bestu hliðar eins og myndirnar bera með sér. Myndir