Réttindi og skyldur á vinnumarkaði

Kynning mynd ÞH
Kynning mynd ÞH

Það er orðinn fastur liður að fulltrúi frá stéttarfélaginu Einingu Iðju heimsæki skólann á vordögum til að kynna nemendum gildi þess að vera í stéttarfélögum og til að fara yfir réttindi þeirra og skyldur á vinnumarkaði. Í þetta sinn var það Rut Pétursdóttir, mannauðs- og fræðslustjóri félagsins, sem sá um kynninguna. Voru nemendur áhugasamir og spurðu út í eitt og annað enda margir þeirra í vinnu með skóla og svo eru sumarstörfin á næsta leiti.

Á heimasíðu Einingar Iðju kemur fram að starfsmenn félagsins hafa tekið eftir mikilli breytingu til batnaðar varðandi meðvitund unga fólksins í þessum málum. Það veit betur hvar það á að spyrjast fyrir um réttindi sín og eins vita ungmenni mun betur en áður hverju þau eiga rétt á. Skólakynningar sem þessar eiga eflaust þátt í þessari ánægjulegu þróun.