Sigurður Mar blótar mynd GK
Í síðustu viku voru nemendur og kennarar frá hinum danska Ungdomshøjskolen ved Ribe í heimsókn á Norðurlandi og glöddu m.a. okkur í Menntaskólanum á Tröllaskaga með nærveru sinni. Hópurinn, sem samanstóð af nemendum víða að úr heiminum, kom til landsins á mánudeginum og keyrði beint til Akureyrar þar sem var gist meðan á dvölinni stóð. Á þriðjudegi kom hópurinn í MTR og dagskráin hófst með því að nemendaráð sagði gestunum frá skólanum og skipulagi námsins og gestirnir kynntu í kjölfarið sinn skóla og tóku svo lagið. Þá tók við áhugaverð athöfn þar sem Sigurður Mar Svínfellingagoði, og kennari í MTR, hélt blót að heiðnum sið á túninu við skólann og bauð gestina velkomna. Að henni lokinni sýndu hinir erlendu gestir dans og fengu svo nemendur og kennara MTR með sér í fjörugan línudans áður en sest var að snæðingi. Eftir hádegið skoðaði hópurinn sig um á Ólafsfirði í blíðviðrinu og síðan var brunað á Mývatn til að upplifa þau náttúruundur sem þar eru.
Á miðvikudeginum var haldið til Siglufjarðar þar sem var rölt um bæinn og veitinga notið í bakaríinu áður en haldið var í Ljóðasetur Íslands, sem annar kennari í MTR, Þórarinn Hannesson, veitir forstöðu. Þar fengu gestirnir fræðslu um íslenska ljóðlist, sérstaklega Eddukvæðin, sem og fornsögurnar og íslenskar þjóðsögur og tengsl Tolkiens og fleiri rithöfunda við þennan arf okkar. Fræðslan var krydduð með söng, gítarspili og kveðskap og í lok heimsóknar stigu tveir nemendur á stokk og fluttu frumsamin ljóð. Seinni part dagsins var komið saman í hinni nýju menningarmiðstöð Brimsölum í Ólafsfirði, sem enn einn kennarinn úr MTR, Ida Semey, rekur. Þar voru sagðar sögur, flutt tónlist og rætt um heima og geima áður en haldið var til Akureyrar í háttinn.
Á fimmtudagsmorgni var enn komið í Ólafsfjörð og nú var farið í fjöruhreinsun og svo búin til listaverk úr einhverju af því sem fannst í fjörunni. Eftir hádegið var úrvinnsla ferðarinnar sett í myndbandsbúning og svo skellti hópurinn sér í sund á Ólafsfirði áður en lagt var í hann til Keflavíkur. Flaug hópurinn utan á föstudagsmorgni eftir viðburðaríka daga á Íslandi. Við þökkum þeim fyrir samveruna og kryddið í tilveruna hjá okkur. Myndir