Hamingjan í brennidepli

Hamingjubandið mynd GK
Hamingjubandið mynd GK

Menntaskólinn á Tröllaskaga er UNESCO-skóli og tekur sem slíkur þátt í nokkrum þeirra daga sem Sameinuðu þjóðirnar tileinka ákveðnum málefnum. Í síðustu viku var m.a.alþjóða hamingjudagurinn en hann er haldinn 20. mars ár hvert. Dagurinn var fyrst haldinn árið 2013 með það að markmiði að vekja athygli á hamingju og vellíðan sem mikilvægu markmiði fyrir einstaklinga og stjórnvöld um heim allan. Ýmsir viðburðir eru skipulagðir þennan dag til að vekja áhuga á mikilvægi hamingjunnar og niðurstaða skýrslu um hamingju þjóða í heiminum “World Happiness Report” er kynnt. Ísland hefur verið meðal efstu þjóða þar síðustu ár og varð í þriðja sæti árið 2023.

Í tilefni dagsins var skipulögð dagskrá í MTR sem samanstóð af fræðslu og skemmtun. Settur var saman spilunarlisti af lögum um hamingjuna og hljómuðu þau í sal skólans, horft var á myndbönd sem vöktu umhugsun um hvað gerir okkur hamingjusöm og í kjölfar þeirra veltu nemendur fyrir sér hvað gerði þau hamingjusöm og völdu orð sem þeim finnst ná yfir þá tilfinningu. Þar urðu efst á blaði orð eins og gleði, vinátta, ást, bros og hlátur. Voru þessi orð síðan skorin út í laserskera skólans og munu prýða ganga hans í vetur.

Stundum er sagt að leiðin til hjartans liggi gegnum magann og kannski var það í huga skipuleggjenda þegar ákveðið var að bjóða upp á pizzur og franskar í hádeginu en auk þess var í boði lifandi tónlist frá hljómsveit sem sett var saman í tilefni dagsins. Hana skipuðu þrír kennarar og nemandi og fékk hún að sjálfsögðu nafnið Hamingjubandið. Eftir hádegið var spurningakeppni um eitt og annað sem snýr að hamingjunni og í boði var einnig að baka sér vöfflur og njóta þeirra.

Svo heppilega vildi til að þennan dag voru nemendur 10. bekkjar Grunnskóla Fjallabyggðar í heimsókn til að kynna sér starfið í MTR. Voru þeir með í viðburðum dagsins auk þess að taka þátt í stöðvavinnu þar sem þau kynntu sér gervigreind, unnu í laserskera, sköpuðu listaverk og tóku þátt í spurningakeppni um starfsemi skólans og skipulag.

Er óhætt að segja að vel hafi tekist til og nemendur sem starfsfólk sé meðvitaðra um mikilvægi hamingjunnar. Myndir