Góðir gestir alla vikuna

Í pottinum mynd Lísebet Hauksdóttir
Í pottinum mynd Lísebet Hauksdóttir

Það er gestkvæmt í skólanum þessa vikuna. Í dag komu 11 nemendur af íþróttabraut Verkmenntaskólans á Akureyri í heimsókn. Þeir eru í fjölíþróttaáfanga á þessari önn þar sem markmiðið er að kynnast fjölbreyttum íþróttum. Fyrsta stopp þeirra á ferð sinni frá Akureyri var á Hjalteyri þar sem þau spreyttu sig í hinum glæsilega klifurvegg sem er í gömlu verksmiðjunni þar. Í Ólafsfirði var byrjað á að fara í ýmsa leiki á gönguskíðum undir stjórn Lísebetar Hauksdóttur, íþróttakennara í MTR, og svo kenndi hún nemendum réttu tökin í þessari góðu íþrótt. Að loknu matarhléi var farið í íþróttahúsið í ýmsa leiki og þrautir með nemendum MTR og heimsókninni lauk á afslöppun í sundlauginni. Heimsókn sem þessi hefur verið fastur liður síðustu ár og hafa þær Lísebet og Birna Baldursdóttir, íþróttakennari í VMA, séð um skipulagið.

Þetta voru ekki einu gestir dagsins því Vala Ósk Fríðudóttir, fræðslustjóri Íslandsdeildar Amnesty International, kom einnig í skólann og fræddi nemendur skólans og spænska gestanemendur um starfsemi samtakanna og mikilvægi þeirra. Hún brýndi hópinn að vera vakandi fyrir mannréttindum til handa öllum og að leggja lið mikilvægum málum sem samtökin vinna að.

Enn er ekki allt upptalið því í gærkvöldi kom nemendahópur frá spænska skólanum IES Andreu Sempere til Ólafsfjarðar og með þeim tveir kennarar. Spænsku nemendurnir komu svo í skólann í morgun og munu vinna með nemendum í MTR út vikuna auk þess að dvelja hjá þeim í heimagistingu á meðan á heimsókninni stendur. Munum við gera grein fyrir þessari heimsókn og afrakstri hennar að henni lokinni.

Til að toppa þetta þá koma á morgun 45 kennarar frá Noregi og Slóveníu í heimsókn í skólann til að kynna sér starfsemi hans. Myndir