Gervigreindin áhugavert viðfangsefni

Kennarar og annað starfsfólk Menntaskólans á Tröllaskaga leggur sig fram um að vera framarlega í upplýsingatækni, nú sem endranær. Undanfarið hefur athygli flestra verið á gervigreind þar sem hún verður sífellt meira áberandi og snertir líf okkar á fleiri vegu en flestir gera sér grein fyrir. Í samfélagi sem verður sífellt sjálfvirknivæddara og tæknilegra er mikilvægt að vita hvað gervigreind er og gera sér grein fyrir möguleikum hennar og takmörkunum.

Til þess að kafa í þessi mál tekur skólinn m.a. þátt í Evrópusamstarfsverkefni með fyrirtækinu Affekta og ýmsum evrópskum skólum þar af nokkrum hérlendum framhaldsskólum og háskólum. Affekta býður upp á námskeið um gervigreind og fjórðu iðnbyltinguna. Hluti verkefnisins er rannsókn þar sem nemendur kynna sér námsefni Affekta og á sama tíma eru þeir að taka þátt í rannsókn á athygli nemenda á skjánum, svo segja má að nemendur læri um gervigreind á sama tíma og gervigreindin lærir á þá.

Þrír starfsmenn fóru einnig á námskeið í Dublin, í febrúar sl., þar sem allt snerist um gervigreind. Þar var fjallað um ýmis álitamál sem tengjast notkun og þróun gervigreindar og þátttakendur fengu að spreyta sig á ýmsum tólum sem byggja á gervigreind og nýta má í kennslu. Var það mjög áhugavert.

Gervigreindin er þegar farin að hafa áhrif á nám og kennslu. Á þessari önn hafa kennarar lagt fyrir ýmiskonar verkefni þar sem gervigreind skal notuð. Eru þessi verkefni ætluð til að nemendur átti sig á möguleikum gervigreindarinnar í dag en einnig á vanköntum hennar. Auk þessara verkefna hefur áfangi um samfélagsleg áhrif gervigreindar verið í þróun á önninni. Þar kafa nemendur dýpra í efnið og takast á við siðferðislegar vangaveltur sem upp koma í tengslum við gervigreind og hugsanleg áhrif hennar á samfélagið í framtíðinni.