Fréttir

Klárar konur

Einn vinsælasti valáfanginn í MTR á vorönninni fjallaði um afrekskonur á ýmsum sviðum mannlífsins. Birgitta Sigurðardóttir, kennari í upplýsingatækni fékk hugmynd að áfanganum snemma á síðasta ári. Markmiðið var að beina kastljósi að konum í nútíð og fortíð. Í fyrstu vikunni fengu nemendur að setja fram óskir um viðfangsefni og verkefnaskil. Hugmyndir þeirra féllu vel að hugmyndum kennarans en nemedur bættu þó einhverju við það sem Birgittu hafði dottið í hug. Efni áfangans var þemaskipt. Í upphafi skoðuðu allir sketsinn úr síðasta áramótaskaupi þar sem kvenkyns fréttastjóri og karlkyns fréttamaður ræddu verkefnaskil og hann nefndi aldrei á nafn konurnar sem voru gerendur í fréttunum. Önnur þemu voru t.d. afrekskonur í vísindum og íþróttum, frumkvöðlar, aktivistar, fatlaðar konur, rithöfundar, myndlistarkonur, tónlistarkonur o.fl. Verkefnin sem nemendur skiluðu voru á formi myndbanda, hlaðvarpa, ritgerða, veggspjalda, glærukynninga og skýrslna. Þetta er einkar fróðlegt efni sem varpar ljósi á mikilvægt framlag kvenna á fjölmörgum og ólíkum sviðum. Efnið er aðgengilegt hér: https://sites.google.com/mtr.is/saga2kk05/fors%C3%AD%C3%B0a?fbclid=IwAR2ndrT9dO2yre2oNf_Tb4ISxBKHHqR8dDT792WhtUIxNgtG04qlusu87ic
Lesa meira

MTR brautskráir 32

Tuttugasta brautskráning frá Menntaskólanum á Tröllaskaga fór fram við mjög óvenjulegar aðstæður í dag. Þrjátíu og tveir nemendur brautskráðust en samtals hafa 322 útskrifast frá skólanum. Tólf brautskráðust af félags- og hugvísindabraut, sjö af íþrótta- og útivistarbraut, fimm af kjörnámsbraut, þrír af myndlistarsviði listabrautar, þrír af náttúruvísindabraut, einn af stúdentsbraut að loknu starfsnámi og einn af starfsbraut. Af þeim 32 sem brautskráðust voru 22 fjarnemar sem koma víða að. Í upphafi vorannar voru nemendur við skólann 388. Þar af voru 312 í fjarnámi. Meira en helmingur þeirra býr á höfuðborgarsvæðinu. Á vorönninni voru nemendur flestir á félags- og hugvísindabraut 172, næst flestir voru á náttúruvísindabraut 63, á listabraut voru 44 og 35 á íþróttabraut.
Lesa meira

Stafræn vorsýning

Vorsýning nemenda Menntaskólans á Tröllaskaga er með óhefðbundnu sniði vegna aðstæðna í samfélaginu. Þar sem við í MTR hugsum bara í lausnum þá verður sýningin þetta árið í stafrænu formi. Hún verður opnuð laugardaginn 16. maí kl. 8:00. Hér er slóð á sýninguna: https://www.mtr.is/vor2020 Best virkar að skoða hana í Google chrome vafranum. Sýningin endurspeglar vel einkunnarorð skólans: Frumkvæði - Sköpun – Áræði. Hún er á vefnum Artsteps sem er stafrænt sýningarrrými. Þar má sjá verk úr myndlistaráföngum og ljósmyndaáföngum. Hlekkir eru á vefsíðunni sem veita aðgang að verkum nemenda úr ýmsum öðrum áföngum. Meðal annars ljóð sem nemendur hafa samið og fleiri verkefni úr íslensku, líka verk um jákvæða sálfræði og kvennasögu, svo eitthvað sé nefnt. Líka tónlist, umfjöllun um götulist á netinu og áhugaverð podköst um lífið á dögum Covid-19. Það eru yfir tvö hundruð myndverk á stafrænu sýningunni og endurspegla þau vel kraftmikið og skapandi starf á önninni. Sýningarstjóri er Bergþór Morthens, myndlistarkennari. Aðstoðarmaður hans við uppsetninguna var Gísli Kristinsson, kerfisstjóri.
Lesa meira

Þriðja græna skrefið

MTR hefur stigið þriðja skrefið í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri, fyrstur framhaldsskóla landsins. Þorbjörg Sandra Bakke, starfsmaður Umhverfisstofnunar, afhenti viðurkenningu á þessu í skólanum í dag. Tengiliður verkefnisins er Unnur Hafstað, kennari á náttúruvísindabraut.
Lesa meira

Andleg líðan staðnema svipuð

Niðurstöður könnunar sem Sigríður Ásta Hauksdóttir, námsráðgjafi gerði meðal staðnema skólans og foreldra þeirra bendir til þess að andleg líðan nemendanna sé svipuð núna og hún var áður en skólinn skellti í lás og öll kennsla færðist á netið. Jafnframt kemur fram að foreldrar og nemendur eru sammála um að fjarkennslustofurnar (google meet) virki vel og nemendur fái skýrar leiðbeiningar og nægjanlega leiðsögn. Það gangi nokkuð vel að mæta í tíma, halda rútínu og skila úrlausnum verkefna á réttum tíma. Nemendur voru beðnir að nefna þrjú lýsingarorð sem lýstu líðan þeirra daginn sem þeir svöruðu. Algengustu orðin sem sem þeir nefndu voru gleði og kvíði en örlítið færri nefndu stress. Foreldrar voru beðnir að velja þrjú orð sem þeir töldu lýsa líðan barnsins síns. Algengasta orðið var leiði en nokkuð færri nefndu einmana og eirðarleysi. Þátttaka í könnuninni var valfrjáls. Spurningalisti var sendur til sextíu staðnema en nítján svör bárust. Foreldrar þrjátíu og eins nemanda, yngri en átján ára, fengu spurningalista en þrettán svör bárust.
Lesa meira

Breytingar 4. maí

Skólinn verður opnaður næsta mánudag 4. maí. Nemendur og kennarar eru velkomnir í skólann. Reglur um 2 metra fjarlægð, hámark 50 í einu rými, handþvott og sprittun gilda áfram. Staðkennsla fer ekki fram. Ef kennarar velja að mæta í skólann verður kennsla þeirra í fjarkennslustofunni eins og verið hefur. Skólaakstur verður frá Siglufirði en ekki frá Dalvík. Ef einhverjar spurningar vakna vinsamlega hafðu samband við skólameistara á netfanginu lara@mtr.is
Lesa meira

Lifandi tónleikar

Nemendur við Skapandi Tónlistardeild Menntaskólans á Tröllaskaga ásamt kennara, ætla að standa fyrir lifandi streymistónleikum á Fésbókinni mánudaginn 27.apríl. Tónleikarnir munu hefjast á slaginu 17:03 (í anda þríeykisins fræga) og eru hluti af lokaverkefni nemenda. Tónleikarnir verða aðgengilegir og streymt á Facebook síðu skólans Mánudagurinn 27.apríl Kl 17:03 Facebook live.
Lesa meira

Að létta á kvíða

Hafið er námskeið fyrir nemendur sem óska eftir aðstoð í sambandi við kvíða. Þegar hafa sextán nemendur skráð sig, bæði fjarnemar og staðnemar, en það er pláss fyrir fleiri. Sigríður Ásta Hauksdóttir, náms- og starfsráðgjafi og Kristján Már Magnússon, sálfræðingur, hafa umsjón með námskeiðinu. Það fer aðallega fram í kennslukerfinu, moodle, þar er fræðsluefni, myndbönd, lesefni og fleira ásamt æfingum og verkefnum. Fyrir þá sem vilja komast á námskeiðið er fyrsta skrefið að skrá sig hjá Sigríði Ástu á netfanginu namsradgjof@mtr.is. Á námskeiðinu er farið yfir kvíða og birtingarmyndir hans og þann vítahring sem hamlandi kvíði getur valdið í daglegu lífi, skoðaðar þær neikvæðu hugsanir sem búa að baki kvíða og unnið með leiðir til að létta á kvíða. Óvissutímum eins og við lifum núna fylgir álag sem eykur kvíða margra og gerir samskipti erfiðari. Aðferðir til að bregðast við þessu og bæta ástandið eru kenndar á námskeiðinu.
Lesa meira

Frumlegar lausnir

Eftir að húsum framhaldsskólanna var læst vegna faraldursins hefur reynt mjög bæði á kennara og nemendur. Nú gildir sem aldrei fyrr að hugsa í lausnum og finna nýjar aðferðir við að leysa margskonar verkefni. Þetta á ekki síst við um nemendur okkar í íþrótta- og listaáföngum. Til dæmis hefur Patrick Gabriel Bors sýnt mikil frumlegheit við úrlausnir verkefna í áfanganum Bandý og badminton ÍÞRG1BB02. Neðan við fréttina eru slóðir á tvö myndbönd sem hann hefur sent kennara sínum Lísebet Hauksdóttur sem úrlausnir verkefna í þessum áfanga. Ástandið hefur veruleg áhrif á iðkun staðnema í listaáföngum. Ekki er inni í myndinni að nýta hefðbundið kennsluhúsnæði og hafa nemendur orðið að koma sér upp aðstöðu annars staðar. Ljósmyndin með fréttinni er af Rögnvaldi Rúnarssyni við trönurnar í bílskúr föður síns. Hann er að mála verk sem minnir á hugtakið einangrun. Þetta er verkefni hans þessa viku í áfanganum Listgildi og fagurfræði. Fjarnemar í listum eru þaulvanir að skila úrlausnum í formi myndbanda. Oft eru þetta vandaðar og áhugaverðar úrlausnir. Hér neðanvið er slóð á verkefni Lottu Karenar Helgadóttur um Francis Bacon þar sem meðal annars koma við sögu kindaskrokkar í Kjarnafæði, sem er vinnustaður hennar. Þetta er úrlausn í áfanganum Listamenn og listastefnur hjá Bergþóri Morthens.
Lesa meira

Námsþjónusta á netinu

Námsþjónusta í Menntaskólanum á Tröllaskaga er eins og nám og kennsla komin á netið. Allir nemendur geta óskað eftir fjarviðtali við náms- og starfsráðgjafa og við sálfræðing skólans. Hægt verður að taka kvíðanámskeið á netinu og hafa nemendur lýst verulegum áhuga á því. Þá geta nemendur notfært sér þjónustu markþjálfa í fjarskanum. Form til að sækja um þjónustuna er opið á forsíðu kennslukerfis skólans. Þar geta nemendur líka komið með hugmyndir að annari þjónustu sem þeir telja að gæti nýst þeim. Þetta eru erfiðir tímar fyrir nemendur, forráðamenn, kennara og starfsmenn alla og mikilvægt að við stöndum öll saman þannig að námið gangi vel. Við þurfum því að hlú vel hvert að öðru og sérstaklega unga fólkinu okkar. Vernda þarf andlega heilsu ekki síður en líkamlega og er eitt flóknasta viðfangsefnið að halda gleði og einbeitingu. Frekari upplýsingar og þjónustu veitir Sigríður Ásta Hauksdóttir, náms og starfsráðgjafi sem hefur netföngin namsradgjof@mtr.is og sigga@mtr.is. Tæknilega aðstoð veitir Gísli Kristinsson, kerfisstjóri á gisli@mtr.is og líka í síma 8490696
Lesa meira