26.10.2017
Leikfangasmíði var einn áfanganna í miðannarvikunni. Hópur hressra nemenda smíðaði eldavél, dúkkuvagn, dúkkuhús, bílaborð og fleiri leikföng undir stjórn Kjartans Helgasonar smiðs. Í lok áfangans voru leiföngin gefin nemendum leikskólanna Krílakots á Dalvík, Leikhóla í Ólafsfirði og Leikskála á Siglufirði. Haukur Orri Kristjánsson einn leikfangasmiðanna segir að þetta hafi verið skemmtilegt viðfangsefni. Það hafi reynt á sköpunarkraftinn og nauðsynlegt hafi verið að beita ákveðinni lagni. Þá hafi nemendur lært að nota loftknúin verkfæri. Kennarinn hafi verið góður og hress og leyft nemendum að útfæra viðfangsefnin dálítið eftir sínu höfði.
Lesa meira
25.10.2017
Fjórir norskir kennarar frá Tangenåsen miðskólanum í Noregi verða gestir okkar í vikunni og fylgjast með námi og kennslu. Áhugi þeirra beinist fyrst og fremst að fjarkennslu og fjarnámi, notkun upplýsingatækni, möguleikum nemenda til að skila verkefnum á ólíku formi, leiðsagnarmati og nýsköpun í tengslum við nærsamfélagið. Í hópnum eru kennarar í tungumálum, raun- og listgreinum og sérfræðingar á fleiri sviðum.
Lesa meira
20.10.2017
Markmið áfangans var að fá nemendur til að setja hlutina í nýtt samhengi með því að kynnast ólíkum sjónarhornum úr sögu málaralistarinnar. Í upphafi var fjallað um forkólfa í gerð klippimynda svo sem Pablo Picasso, Georges Braque, Kurt Schwitters og dadaistana. Næst var hugað að efniviðnum og fengu nemendur frjálsar hendur um hvernig þeir nýttu glanstímarit, bækur og fleira sem til reiðu var í sköpun sinni. Fjölbreyttar myndir urðu til hjá nemendum og bregður fyrir ólíkum karakterum, á borð við Elvis og Trump, í óvenjulegu samhengi. Nemendur gerðu síðan stórt samsett verk (255x175) úr klippimyndunum sínum sem ætti að njóta sín vel á sýningu á verkum nemenda í lok annarinnar. Leiðbeinandi í áfanganum var Martin Holm, listmálari.
Lesa meira
20.10.2017
Markmið vinnunnar í áfanganum var að opna augu nemenda fyrir endurnýtingu á ýmiskonar umbúðum, fatnaði og fleiru sem til fellur á heimilum. Saumaðir voru fjölnota innkaupapokar eða töskur úr stuttermabolum. Einnig ýmisskonar veski úr umbúðum utan af sælgæti, snakki, kaffi og fleiri neysluvörum. Þá gerðu nemendur skemmtileg ævintýrahús úr plastflöskum og leir sem ljósasería verður sett í. Nemendur voru áhugasamir og margir nytsamlegir hlutir urðu til. Kjörbúðin í Ólafsfirði ætlar að hafa innkaupatöskurnar við afgreiðslukassana þar sem fólk mun geta fengið þær endurgjaldslaust og eru viðskiptavinir hvattir til að nota þær sem mest. Leiðbeinandi í áfanganum var Kristín Anna Guðmundsdóttir.
Lesa meira
13.10.2017
Nemendur í vélmennafræði tóku góða æfingu í vikunni. Þeir skiptu hópnum í fjögur lið sem kepptu í því að forrita kúlu þannig að hún fylgdi línum á gólfinu. Eins og myndirnar sýna lágu línurnar þannig að talsverð fyrirhöfn fylgdi því að láta kúluna fylgja þeim. Vélmennafræðin er þróunaráfangi sem styrktur er af Sprotasjóði mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Nemendahópurinn er blandaður, nemendur eru úr grunnskóla, af starfsbraut og fyrsta og annars árs nemendur af öðrum brautum í MTR. Auk beinna námsmarkmiða er markmið í áfanganum er að auka kynni og samvinnu nemenda úr ólíkum áttum. Kennarar í áfanganum eru Birgitta Sigurðardóttir og Inga Eiríksdóttir.
Lesa meira
11.10.2017
Tveir nemendur í MTR hafa verið valdir til þátttöku í alþjóðlega blakmótinu NEVAZ í flokki nítján ára og yngri fyrir Íslands hönd. Það er mikill heiður fyrir þá Eduard Constantin Bors og Kristinn Frey Ómarsson að komast í landsliðið í sínum aldursflokki. Þeir hófu blakæfingar fyrir einu ári og hafa lagt gríðarlega hart að sér síðan. Þeir fara ásamt félögum sínum í landsliðinu til Kettering á Englandi að taka þátt á NEVZA-mótinu í lok mánaðarins og tekur ferðin fimm daga.
Nánar má skoða landslið kvenna og karla yngri en nítján ára hér: http://www.bli.is/is/frettir/lokahopar-u19-1
Lesa meira
10.10.2017
Nýtt tæki sem skólinn keypti í haust veitir nemendum og starfsmönnum færi á að upplifa áður ókunnar víddir og möguleika í sýndarveruleika. Nemendur í áfanganum Vélmennafræði FORR1VF05 og kennarar skólans kynntu sér nýja tækið sem heitir HTC Vive og tækifæri sem það veitir í gær. Strax varð ljóst að tæknin mun nýtast vel í námi í líffræði og lífeðlisfræði. Hægt er að skoða stoðkerfi líkamans innan frá og tengsl einstakra líffæra. Meðal þess sem prófað var í gær var að skoða innan í getnaðarlim. Í ljós kom að hann er settur saman úr fjölmörgum hlutum og er flóknara líffæri en margir halda. Einnig kom í ljós að tækið veitir möguleika á að skoða söfn og byggingar víða um heim sem meðal annars getur nýst í listnámi ásamt aðgangi að teikniforritum. Þá er hægt að skoða landslag, ferðast um fjöll og dali, til dæmis til undirbúnings verkefnum í útivist svo sem klifri og skíðaíþróttum, svo nokkuð sé nefnt.
Lesa meira
05.10.2017
Dagný Ásgeirsdóttir nemandi á náttúrufræðibraut MTR tók fyrir hádegið í dag við verðlaunum fyrir smásögu sem hún samdi og ber titilinn Kennarinn. Kennarasambandið, Heimili og skóli og Samtök móðurmálskennara veittu verðlaunin. Þau voru afhent við hátíðlega athöfn á Skólamálaþingi í Hörpu. Dagný fékk Kindle lesbók, viðurkenningarskjal og blóm. Sagan gerist í grunnskóla. Þar er kennari sem stelur börnum. En snjöll stelpa finnur krakkana og kemur upp um glæpinn. Dagný segist vinna að bók þar sem sama stelpa sé aðalsöguhetja. Í þeirri sögu sé fyrirmynd stelpunnar faðirinn sem sé rannsóknarlögreglumaður. Sögusviðið í bókinni er framhaldsskóli. Dagný er á öðru ári í MTR og verður sautján ára eftir nokkra daga.
Lesa meira
05.10.2017
Staðnemar hafa fjóra valkosti í miðannarvikunni. Þeir geta kynnst leikfangasmíð, leirmótun og endurvinnslu, klippimyndagerð eða búið til rafrænt kort fyrir ferðamenn. Síðastnefndi áfanginn snýst um að safna myndum og upplýsingum af ýmsu tagi sem gagnlegar eru fyrir ferðamenn sem heimsækja Dalvíkubyggð, Ólafsfjörð og Siglufjörð. Með QR kóða getur fólk síðan sótt afurðina og sett í símann sinn. Þetta gæti til dæmis gagnast erlendum gestum á EcoMedia ráðstefnunni sem MTR skipuleggur næsta haust. Kennarar verða Inga Eiríksdóttir, Bjarney Lea Guðmundsdóttir og fleiri. Í leikfangasmíðinni verður ýmsum hlutum breytt í leikföng með hugmyndaflugi og lagfæringum en annað verður smíðað frá grunni. Leikföngin verða síðan gefin á leikskóla í Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Kennari er Kjartan Helgason, smiður. Í áfanga um leir og endurvinnslu verður áhersla á fjölbreytt verkefni hjá Kristínu Önnu Guðmundsdóttur, þroskaþjálfa. Í klippimyndagerð verður afurðin tvívíð verk, gerð úr striga eða hörðum fleti sem úrklippur hafa verið límdar á. Ýmislegt efni getur fengið nýja merkingu eftir því hvert hugarflugið leiðir myndasmiðinn í sköpunarferlinu. Kennari er Martin Holm, myndlistarmaður. Allir áfangarnir gefa tvær einingar.
Lesa meira
04.10.2017
Í eðlisfræði EÐLI2AV05 er eitt af viðfangsefnunum að skoða hraða með hreyfiskynjara. Þetta er tæki sem gefur frá sér hljóðbylgjur og þær endurkastast af fyrsta fasta hlut sem þær lenda á. Tíminn sem líður frá því að hljóðbylgjan er send af stað þar til bergmálið berst til baka er notaður til að reikna út staðsetningu hlutarins sem endurkastaði. Taka þarf ljóshraða með í útreikninginn. Hreyfiskynjarinn er tengdur við tölvuforrit sem sér um þessa útreikninga. Verkefni nemenda felst því í að túlka myndrit og gögn sem forritið veitir. Æfingin er gott verkefni vegna mikilvægis þess að kunna að lesa úr gröfum og verklegar æfingar veita auk þess gagnlega þjálfun fyrir raunveruleg viðfangsefni lífsins. Tengsl hraða, tíma og vegalengdar verða áþreifanlegri eftir að hafa unnið þetta verkefni. Kennari í eðlisfræðiáfanganum er Unnur Hafstað.
Lesa meira