Frumlegar túlkanir á Laxdælu

Nemendur í áfanganum ÍSLE2FM05 eru þessa dagana að lesa Laxdælu sér til ánægju og yndisauka. Þar nýta þau sér m.a. ættfræðiforrit á netinu til að setja saman ættartré yfir helstu persónur sögunnar til að átta sig betur á skyldleika þeirra enda hefndarskyldan rík á þeim dögum og mikilvægt að vita hverjir voru tengdir tryggðar- og blóðböndum. Þá eru önnur verkefnin úr sögunni gjarnan ekki hefðbundnar spurningar sem svara þarf heldur er boðið upp á margvíslegar útfærslur í hverju þeirra. Í grunninn er um ritunarverkefni að ræða sem skila má sem skapandi verkefni ef nemendur hafa til þess áhuga og löngun og þá helst með einkunnarorð skólans í huga: Frumkvæði - sköpun - áræði.

Í þessari viku er t.d. ambáttin Melkorka og líf hennar umfjöllunarefnið. Nemendur setja saman 3 dagbókarfærslur í hennar nafni sem fela í sér vangaveltur hennar um hvernig líf hennar hefur þróast frá því hún var ung konungsdóttir á Írlandi með bjarta framtíð og yfir í það að vera frilla með lausaleikskrakka á Íslandi. Þetta mega þau t.d. útfæra sem hefðbundið ritunarverkefni en einnig nýta sér ýmsa aðra möguleika til túlkunar. Nemendur geta m.a. valið að gera 3 stöðufærslur á Facebook með tilheyrandi tilfinningavirkni í stað dagbókarskrifa. Þá geta nemendur valið að nýta sér Snapchat með öllum sínum möguleikum til að gera þessum dögum í lífi Melkorku skil (3 myndskeið úr lífi hennar). Ef leiklistin blundar meira í nemendum geta þeir sett upp smá leikrit í 3 þáttum þar sem Melkorka fer yfir líf sitt, hvort heldur nemendur velja að vinna þetta sem einleik eða fá aðra nemendur í lið með sér. Þá er einnig möguleiki á að fara í ljósmyndun, tónlist eða hverja þá átt sem hugur stefnir svo fremi sem grunnþátturinn sé til staðar: vangaveltur Melkorku um hvernig líf hennar hefur þróast.

Framundan er svo slúðurfrétt um Guðrúnu Ósvífursdóttur og að færa Laxdælu í nútímabúning með veggspjaldagerð og stiklugerð fyrir væntanlegag bíómynd um söguna.

Þessi útfærsla að hafa val um hvernig skilum er háttað hefur mælst vel fyrir og koma mörg skemmtileg verkefni frá nemendum fyrir vikið sem gjarnan eru nýtt á vorsýningu skólans í maí. Myndin sem fylgir fréttinni barst sem úrlausn verkefnis í áfanganum á vorönn 2017.