Fréttir

Lilja kennaranemi í MTR

Lilja Bjarnadóttir, kennaranemi við Háskólann á Akureyri tekur sex vikur í vettvangsnámi og æfingakennslu í MTR á vorönninni. Lilja býr á Dalvík og er að afla sér kennsluréttinda í framhaldsskóla. Hún er umhverfisverkfræðingur frá danska tækniháskólanum og vann í umhverfisdeild Landsvirkjunar áður en hún hóf kennaranámið. Lilja segist hafa valið MTR vegna spennandi og nýstárlegra kennsluaðferða og skipulags skólans sem hún hafi heyrt vel látið af. Hún situr í tímum þar sem nemendur eru mest að vinna sjálfstætt í verkefnum vikunnar og það sé mjög áhugavert. Vel hafi verið tekið á móti sér og skólinn sé heimilislegur. Hún gerir ráð fyrir að kenna stærðfræði og náttúruvísindagreinar svo sem umhverfisfræði og jafnvel efna- og eðlisfræði í framtíðinni. Leiðbeinandi Lilju er Unnur Hafstað kennari í stærðfræði og raungreinum.
Lesa meira

Fyrsta græna skrefið

Ákveðið var í MTR í haust að hefja þátttöku í verkefninu Græn skref í ríkisrekstri. Skólinn hefur nú tekið fyrsta skrefið og fengið það vottað og viðurkennt. Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun kom og skoðaði sérstaklega flokkunarmál og innkaup með tilliti til þess hvort keyptar væru vistvænar hreingerningavörur og pappír. Skilyrði er að nota umhverfisvottaðar vörur. Athugasemd var gerð við flokkun hjá nemendum og í almannarýminu. Gera þarf úrbætur sem Nemendafélagið þarf að koma að en því sem að var fundið verður snarlega kippt í liðinn. Markmið verkefnisins Græn skref í ríkisrekstri eru að efla vistvænan rekstur á kerfisbundinn hátt. Byggt er á grænum skrefum Reykjavíkurborgar, verkefni sem hófst haustið 2014. Nokkrar stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytis hafa tekið þátt í að aðlaga verkefnið að ríkisrekstri. Tilgangurinn er að hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta ímynd og starfsumhverfi stofnana og draga úr kostnaði. Sjá nánar hér: http://graenskref.is/um-verkefnidh Tengiliður verkefnisins í MTR er Unnur Hafstað en við framkvæmdina reynir mest á Björgu Traustadóttur, Gísla Kristinsson og Jónínu Kristjándóttur, sem sjá um rekstur, innkaup og þrif hússins. Þau eru með Hólmfríði Þorsteinsdóttur á myndinni, sem tekin var þegar viðurkenningin fyrir fyrsta skrefið var afhent.
Lesa meira

Skammdegishátíð í Ólafsfirði

Þessi árlega lista- og menningarhátíð verður sett með formlegum hætti á föstudag klukkan fjórtán. Lára Stefánsdóttir og Alkistis Terzi, grísk kvikmyndagerðarkona, sýna vídeóverkið „Mind the Gap“ í Hrafnavogum, nýjum sal Menntaskólans. Þar sýnir líka Þóra Karlsdóttir málverk með titilinn „Why the Snow is so white?“ og einnig nýtur sín vel verkið IntraLiminal eftir Shasta Stevic frá Ástralíu. Fjórða verkið í Hrafnavogum er eftir Yumo Wu frá Kína og ber titilinn Cyanotype Diary. Fjöldinn allur af listamönnum tekur þátt í Skammdegishátíðinni með sýningum, gjörningum og tónlistarviðburðum um allan Ólafsfjarðarbæ. Hátíðin stendur í tíu daga. Hér er hægt að kynna sér dagskrá hátíðarinnar http://skammdegifestival.com/
Lesa meira

Skiptinám

Mundo verður með kynningu á skiptinámi í Bandaríkjunum, Spáni, Frakkladi og Þýskalandi í Menntaskólanum á Tröllaskaga klukkan 10:40 þann 22. janúar. Einnig verður kynnt þýsku, frönsku og spænskunám erlendis í sumar sem og skemmtilegt verkefni með Mundo á Siglufirði og Ólafsfirði í sumar. Allir eru hjartanlega velkomnir.
Lesa meira

Stafrænar þjóðsögur

Liðlega tuttugu nemendur og þrír starfsmenn MTR dvelja þessa viku á Sjálandi og æfa sig í að segja sögur á stafrænu formi. Unnið er með danskar, - og einkanlega sjálenskar munnmælasögur. Nemendur ræða saman um sögurnar og ákveða hvernig hægt sé að „nútímavæða“ þær. Hugsa þarf fyrir því hvernig hægt sé að deila sögunum með öðrum. Í dag er hópurinn einmitt á fullu í þessum framkvæmdahluta, við að taka upp ýmislegt hráefni til að vinna úr. Á haustönninni komu þrjátíu nemendur úr Tækniskólanum EUC í Næsved og Köge í Fjallabyggð og störfuðu með MTR-nemendum að því gera stafrænar útgáfur af íslenskum þjóðsögum, flestum af Tröllaskaga. Í gær fór þessi stóri hópur í skoðunarferð um miðbæ Köge í grenjandi rigningu. Hópurinn skoðaði eina kirkju og heimsótti listasafn sem sérhæfir sig í list í almannarýminu og á opinberum stofnunum á borð við sjúkrahús, sjá hér: http://www.koes.dk/ Skoðuð var sýning á stórum litríkum myndum Björns Nörregård úr þúsund ára sögu Danmerkur. Nörregård sýnir hvernig saga Danmerkur er samofin heimssögunni og fyrir bregður persónum á borð við Jóhönnu af Örk, Niels Bohr, John F. Kennedy og Karen Blixen. Ofin voru textílverk eftir þessum skissum Nörregårds og gáfu samtök danskra fyrirtækja Margréti Þórhildi drottningu þau þegar hún varð fimmtug. Textílverkin prýða stærsta veislusalinn í Kristjánsborgarhöll. MTR-nemum þótti þessi sýning sérlega áhugaverð. MTR og Tækniskólinn EUC fengu Nordplusstyrk að upphæð fjórar milljónir króna til þessa samstarfsverkefnis. Heimsókn danska hópsins í haust var sérlega ánægjuleg og heimsóknin til Sjálands verður ekki síðri.
Lesa meira

Útivist á skíðum

Nemendur í áfanganum Útivist í snjó ÚTIV2ÚS05 æfðu sig á Skíðasvæðinu í Skarðsdal á Siglufirði við frábærar aðstæður á fimmtudag. Þetta var fyrsta ferð á önninni en þær verða nokkrar. Egill Rögnvaldsson, umsjónarmaður skíðasvæðisins upplýsti krakkana um framkvæmdir og þær breytingar sem hafnar eru. Meðal annars verður neðsta lyftan færð, byggja þarf nýjan skála, koma töfrateppi fyrir og fleira. Svæðið mun þannig verða öruggara og barnvænna. Krakkarnir stóðu sig mjög vel, tveir höfðu aldrei stigið á skíði áður en gáfust ekki upp og voru farnir að skíða eftir stuttan tíma. Í heild stóð skíðaæfingin í þrjár klukkustundir. Áfanginn útivist í snjó er að mestu verklegur, nemendur kynnast undirstöðuatriðum í ísklifri, skíðun (alpa, fjalla og göngu), snjóbrettun, gerð snjóhúsa og fjallamennsku. Kennarar eru Kristín Anna Guðmundsdóttir, Gestur Hansson og Tómas Atli Einarsson.
Lesa meira

MTR heillar

Val á framhaldsskóla er stundum flókin ákvörðun. En svo var ekki hjá Kolbrúnu Svöfu Bjarnadóttur sem segist hafa valið MTR vegna þess að hægt er að læra listljósmyndun og vegna þess að lítið er um próf. Kolbrún er frá Grímsey en tók síðustu tvo bekki grunnskólans á Akureyri því það var ekki hægt í eynni. Foreldrarnir eru fluttir til Akureyrar en fjölskyldan er í Grímsey á sumrin, í jólafríinu og eiginlega alltaf þegar hægt er segir Kolbrún. Hún þekkti engan þegar hún byrjaði í MTR í haust en segist bara hafa verið ein í þrjá daga, þá hafi hún eignast vini og eigi fullt af kunningjum. Hún segist vera ótrúlega glöð í skólanum og líða vel. Hún kvartar heldur ekki yfir því að hafa eytt tveimur klukkustundum á dag í allt haust í rútu á milli Akureyrar og Ólafsfjarðar. En nú fækkar ferðunum því hún heldur til á Siglufirði hjá systur sinni og kærasta hennar – sem hófu nám í MTR um áramótin. Kolbrún Svafa hefur tekið mikið af myndum í Grímsey og eru sumar svo góðar að atvinnumenn í faginu hafa sýnt áhuga á að nota þær. Hún segist elska Grímsey og ætla að búa þar í framtíðinni ef byggð helst í eynni.
Lesa meira

Samstarf við Fjallabyggð

MTR og sveitarfélagið Fjallabyggð hafa gert samstarfssamning um alþjóðlegu ráðstefnuna ecoMEDIAeurope sem haldin verður á Tröllaskaga í haust og kallast GERE. Kjarni hans er að sveitarfélagið styðji skólann vegna ráðstefnunnar og skólinn kynni sveitarfélagið í tengslum við ráðstefnuna. Þátttakendur verða frá mörgum Evrópuríkjum og alls staðar að af landinu. Málefnið er þróun og notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Þetta verður þrettánda ecoMEDIAerurop ráðstefnan. Sú tólfta var haldin í Glasgow í haust og sótti hana hópur kennara úr MTR og fleiri skólum hér á landi. Sama á við um elleftu ráðstefnuna sem haldin var í Iasi í Rúmeníu haustið 2016. Í tengslum við þrettándu ráðstefnuna á Tröllaskaga í október mun MTR markaðssetja svæðið. Fjallabyggð styrkir skólann og veitir ýmsa þjónustu. Skólinn hefur heimild til að nota merki Fjallabyggðar við kynningu á ráðstefnunni og í dagskránni kemur fram að sveitarfélagið styrki hana. Lára Stefánsdóttir, skólameistari og Guðrún Sif Guðbrandsdóttir, starfandi bæjarstjóri undirrituðu samstarfssamninginn í gær.
Lesa meira

Dagur myndlistar

Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir er íslensk myndlistarkona búsett í Reykjavík. Hún greindi frá listsköpun sinni og ferli í fyrirlestri á listabraut MTR. Fyrirlesturinn var í tengslum við Dag myndlistar sem fara átti fram á síðasta ári en var frestað vegna ófærðar. Bryndís nam myndlist við fjöltæknideild Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með B.F.A. gráðu árið 2002. Hún hélt utan til frekara náms við Akademie der Bildenden Kunste undir handleiðslu Franz Graf, þaðan sem hún útskrifaðist með M.F.A. gráðu í janúar 2006. Bryndís hefur verið virk í sýningahaldi og listsköpun og fór vel yfir starf sitt sem listamaður í afar fróðlegri og áhugaverðri kynningu.
Lesa meira

Jafnrétti einkennir nám í MTR

Nýbirt rannsókn Þuríðar Jónu Jóhannsdóttur, dósents á Menntavísindasviði HÍ, á skólastarfi í MTR bendir til þess að skólinn stuðli að jöfnum möguleikum allra nemenda til náms. Þetta er byggt á greiningu á kennsluháttum og skólamenningu. Brottfall sé lítið og námsframvinda góð sem bendi til þess að skólinn þjóni nemendahópnum vel. Um 60% nemenda lýkur stúdentsprófi á þremur árum eða skemmri tíma en meðalnámstími brautskráðra stúdenta frá uppafi til 2015 var um þrjú og hálft ár. Brottfall staðnema er sáralítið en brottfall fjarnema var 7,5% á árinu 2016. Til samanburðar var brottfall fjarnema í öðrum framhaldsskólum 27-40% árið 2010. Sjá grein Þuríðar Jónu hér: http://netla.hi.is/greinar/2017/ryn/15.pdf
Lesa meira