20.02.2018
Nemendur þriðja bekkjar í Grunnskóla Fjallabyggðar heimsóttu skólann í morgun og skoðuðu húsakynni og ýmis tæki og áhöld sem notuð eru við kennslu. Mestan áhuga vakti dótið úr vélmennafræðinni en einnig þótti mörgum spennandi að skoða hljóðfærin í tónlistarstofunni og fá að prófa sum þeirra. Íþróttaáhugamönnum í hópnum þótti mikið koma til klifurbúnaðar og skíða af ýmsum gerðum sem hér eru til. Beinagrindin þótti líka áhugaverð og líkneski af manneskju með líffærum brjóst- og kviðarhols. Hægt er að skoða líffærin hvert fyrir sig og við athugun reyndist líkneskið vera af konu með fóstur í leginu.
Lesa meira
19.02.2018
Nú er í gangi jarðskjálftahrina fyrir norðan land. Sú hrina sem nú stendur yfir er á nyrðra þverbrotabelti sem liggur norður af Grímsey en ekki því sem er nær okkur og liggur sunnan Grímseyjar og er næst okkur nokkuð norður af Siglufirði og liggur síðan til Þeistareykja. Sjaldnast leiða þessar hrinur til stærri skjálfta en möguleikinn er fyrir hendi og þekkt að stærri skjálftar verða á okkar svæði með jöfnu millibili. Því teljum við mikilvægt að fara yfir viðbrögð við jarðskjálftavá og hefur öryggisáætlun sú sem verið er að vinna núna verið uppfærð. Búið er að fara yfir helstu atriði með kennurum og verður farið yfir málið með nemendum á miðvikudag. Búið er að fara yfir húsnæði skólans og skilgreina hverju þarf að bæta úr frá því síðast var farið yfir.
Uppfært kl. 13:20 - Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra lýst yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinu úti fyrir Norðurlandi.
Hér má finna viðbrögð skólans:
Lesa meira
17.02.2018
Fimmtudaginn 15. febrúar fengum við tvo unga tónlistarmenn úr Fjallabyggð í heimsókn í skólann og glöddu þeir nemendur og starfsfólk í matarhléinu með ljúfum tónum. Þetta voru tvíburabræðurnir Júlíus og Tryggvi Þorvaldssynir sem hafa vakið töluverða athygli að undanförnu fyrir vandaðan söng og gítarleik. Þeir eru í 9. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar auk þess að stunda tónlistarnám við Tónlistarskólann á Tröllaskaga og hafa komið víða fram undanfarna mánuði. Þeir komu m.a. fram á svæðistónleikum Nótunnar á Norður- og Austurlandi, sem fram fór á Akureyri á dögunum og var atriði þeirra eitt af þeim sem hrepptu þátttökurétt á lokahátíð Nótunnar sem fram fer í Hörpu 4. mars nk. Bræðurnir hafa komið fram á ýmsum skemmtunum í Fjallabyggð að undanförnu og fyrir stuttu hituðu þeir upp fyrir hljómsveitina Ný Dönsk þegar hún hélt tónleika á Kaffi Rauðku á Siglufirði.
Á næstu vikum mun fleira listafólk af svæðinu láta ljós sitt skína í skólanum, nemendum og starfsfólki til yndisauka.
Lesa meira
16.02.2018
Hægt er að nota ýmsa tækni til að kenna nemendum í fjarskanum í lýðheilsuáföngum. Lísebet Hauksdóttir, íþróttakennari hefur kosið að nota „sportstracker“ appið. Hún telur að það sé frábær leið fyrir nemendur sem leiðist í íþróttum eða ráða illa við að vera í hóp. Innbyggt er að veita hrós og gefa nemendum þá tilfinningu að þeir séu hluti af heild. Þeir geta valið tegund hreyfingar, til dæmis göngu, hjólreiðar, skíði, hreyfingu í ræktinni eða reiðtúr. Í forritinu kemur fram fjöldi skrefa og kílómetra, meðal- og hámarkshraði, ásamt púls og yfirlitsmynd yfir leiðina sem farin var þannig að þetta gengur mjög vel. Nemendur senda síðan upptöku úr tækinu til kennara og fá hreyfinguna metna. Lísebet segir að margir nemendur haldi áfram að nota tæknina eftir útskrift og séu að senda sér myndir og upplýsingar úr „sportstracker“ af því sem þau eru að gera.
Lesa meira
15.02.2018
Undirbúningur ellefu nema fyrir næsta áfanga í erlenda samstarfsverkefninu um sjálfbærni og valdeflingu er í fullum gangi. Lagt verður af stað á föstudag og komið heim tíu dögum síðar. Samstarfsaðilar eru framhaldsskólar á Lanzarote, einni Kanaríeyja og á Ítalíu. Íslendingar og Ítalir ferðast til Lanzarote í þessum áfanga verkefnisins og njóta gestrisni heimamanna þar. Markmiðið er að sjá og skoða sem mest af því sem ferðaþjónusta á eynni býður gestum. Spurningin er - hvers njóta ferðamenn þar? Flestir MTR nemar gista hjá fjölskyldum og hafa þegar hafið samskipti við gestgjafa sína. Samstarfsaðilarnir á Lanzarote hafa undirbúið komu gestanna mjög vandlega og greinilega hugsað fyrir flestu. Almenningssamgöngur eru til dæmis lélegar á eynni og hafa gestgjafarnir því útvegað bílaleigubíla til að komast á milli staða. Sérstakir bolir hafa líka verið hannaðir fyrir þátttakendur. Ferðareglur hópsins frá MTR eru fimm og er þar efst á blaði að allir séu jákvæðir, haldi hópinn, sýni kurteisi og tillitssemi og láti strax vita ef eitthvað bjátar á.
Verkefnið tekur tvö ár og er þema þess að finna leiðir til að efla nemendur til að takast á við framtíðina í hörðum heimi. Allir þátttakendur eru af landsbyggðinni í heimalöndum sínum og munu ef að líkum lætur þurfa að skapa eigin tækifæri til framfærslu í heimabyggð. Vinnan tengist meðal annars vistvænni ferðaþjónustu, listum og íþróttum. Hugmyndin er „samstarf við þróun viðskiptahugmynda sem geta veitt lífsviðurværi í sjálfbærum samfélögum á ólíkum stöðum“. Tilgangurinn er að auka líkur á að ungt fólk skapi sér framtíð í heimabyggð. Erasmusstyrkur að upphæð ellefu milljónir króna fékkst til verkefnisins og því er stýrt af starfsmönnum MTR.
Lesa meira
14.02.2018
Einhyrningar, kettir og uglur hafa heimsótt skólann í dag. Einnig ofurmenni, gamlar konur, sjóræningjar, galdramenn og uppvakningar. Allir syngja og fá sætindi að launum. Ýmsar áherslur má greina í lagavali. Gamli Nói heldur velli en lítt hefur að þessu sinni heyrst af Bjarnastaðabeljunum sem stundum hafa verið ofarlega á lista. En það var sungið glaðlega um sólina sem menn vilja láta skína á sig og franska barnalagið Alouette hljómaði fagurlega.
Lesa meira
12.02.2018
Á miðvikudag, fimmtudag og föstudag í þessari viku breytist áætlun skólabíla milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar vegna skipulagsdags og vetrarfrís í Grunnskóla Fjallabyggðar. Nemendum MTR er vinsamlega bent á að kynna sér breytingarnar með því að skoða linkinn sem birtist þegar smellt er á fréttina.
Lesa meira
09.02.2018
Sex nemendur sem stunda nám í Fjallamennsku við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu (FAS) á Hornafirði hafa þessa vikuna verið í fjallaskíðakennslu í MTr. Um er að ræða samstarfsverkefni milli FAS og MTR um fjallaskíðakennslu nemendanna, þar sem náttúra svæðisins býður upp á mikla möguleika til fjallaskíðunar ásamt því að MTr á búnað til kennslunnar. Tómas Atli Einarsson hefur séð um kennsluna sem að mestu leyti hefur verið verkleg.
Lesa meira
07.02.2018
Þrír sérfræðingar úr Tækniskólanum hafa notað daginn til að kynna sér starfið í MTR. Þetta eru Guðrún Randalín Lárusdóttir, skólastjóri Upplýsingatækniskólans, Nanna Traustadóttir, verkefnisstjóri K2 stúdentsbrautarinnar og Ólafur Sveinn Jóhannesson, deildarstjóri markaðs- og kynningarmála. Þau segjast hafa komið til að læra um nútímalega kennsluhætti og skipulag í skólastarfinu. Lára skólameistari sýndi skólann og sagði frá starfinu en þremenningarnir hittu líka kennara og nemendur. Þórarinn útskýrði til dæmis hvernig við bærum okkur að við vendikennslu og hvernig vinnutímafyrirkomulagið virkaði. Nemendur greindu m.a. frá skipulagi, félagslífi og framtíðaráformum sínum. Gestirnir sýndu áhuga á samtvinnun áfanga og óhefðbundnum kennsluháttum. Þau segja að Tækniskólinn sé að taka skref til framtíðar, til dæmis á K2 brautinni, aukin áhersla sé á að vinna í lotum og þjálfa nemendur í að vinna verkefnamiðað. Námið er skipulagt í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og leiðandi tæknifyrirtæki. Lokaverkefni tengjast kjarnagrein á önn og eru skipulögð með þátttöku og stuðningi atvinnufyrirtækja á borð við CCP og Stúdíó Sýrland. Gestirnir höfðu í lokin orð á því að MTR virtist vera lýðræðislegur vinnustaður þar sem kennarar nytu mikils frelsis.
Lesa meira
06.02.2018
Það er hluti af námi í listgreinum að fylgjast með sýningum og öðrum atburðum. Nemendur í áfanganum inngangur að listum fóru í Listhúsið í Ólafsfirði í gær með Karólínu Baldvinsdóttur kennara sínum. Síðustu tíu daga hefur verið af ýmsu að taka hér í Ólafsfirði enda staðið yfir Skammdegishátíð. Fjöldi listamanna, bæði heimamanna og gesta frá öðrum löndum og heimsálfum, hefur framið gjörninga og staðið fyrir tónlistarviðburðum og listsýningum af ýmsu tagi. Þrír listamenn kynntu verk sín og annarra fyrir áhugasömum nemendum í gær. Verkin voru fjölbreytt og hafði eitt til dæmis verið gjörningur Jakubs Janco frá Slóvakíu, í fjörunni á Ósbrekkusandi á Skammdegishátíðinni. Nemendum þótti einnig athyglisverð verk eftir ungt fólk í Ástralíu, bæði listnema og áhugafólk, sem Shasta Stevic sýningarstýra hafði safnað saman og sett upp í Listhúsinu.
Lesa meira