11.12.2020
Nemendum sem eru að ljúka námi í MTR býðst að gera stórt verkefni að eigin vali sem metið er til fimm eininga í sérstökum áfanga. Að þessu sinni nýttu fjórir útskriftarnemar tækifærið.
Guðni Berg skoðaði kosti þess að koma upp leiksvæðum inni í bæjum sem nýta mætti bæði vetur og sumar. Niðurstaða hans var að kjöraðstæður væru á Dalvík og í Ólafsfirði til að skipuleggja svæði fyrir yngri börn þar sem þau gætu rennt sér á skíðum í litlum brekkum og stundað aðrar vetraríþróttir. Á sumrin mætti nota svæðin fyrir margvíslegar íþróttir og leiki. Slík svæði myndu auka öryggi barna og veita þeim margvísleg ný tækifæri. Þá væri hagræði að hafa svæðin í göngufæri við heimili barnanna. Myndin sem fylgir fréttinni er skjáskot úr kynningu Guðna. Leiðbeinandi hans í verkefninu var Lísebet Hauksdóttir.
Svala Marý Sigurvinsdóttir fjallaði um þunglyndi unglinga. Hún gerði grein fyrir einkennum, orsökum og afleiðingum þunglyndis. Jafnframt sagði hún frá úrræðum og hvert unglingar geta leitað eftir aðstoð vegna þunglyndis. Svala Marý skilaði lokaverkefni sínu í formi heimasíðu og bæklings sem hún hannaði og myndskreytti. Leiðbeinandi var Sigríður Ásta Hauksdóttir.
Ásta María Harðardóttir rannsakaði hvort kynjamunur kæmi fram í leikjum barna á þriðja ári. Athugun var gerð á leikskóla í Kópavogi og fylgst með tveimur kynjablönduðum hópum. Niðurstaðan var að tilgáta um kynjamun var staðfest, í báðum hópum tóku strákar frumkvæði í leik og stúlkur fengu ekki að taka þátt nema fá leyfi frá strákunum. Leiðbeinandi við verkefnið var Hjördís Finnbogadóttir.
Bjarki Magnússon fjallaði um afleiðingar covid-19 í íþróttaheiminum í lokaverkefni sínu með sérstakri áherslu á bandarísku NBA deildina í körfuknattleik. Þar eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir undir og voru útbúin sérstök æfingasvæði þar sem leikmenn lokuðu sig inni mánuðum saman og hittu ekki aðra en iðkendur í sömu grein. Leiðbeinandi Bjarka var Óskar Þórðarson.
Kynning á verkefnunum fór fram á Google Meet eins og skólastarf hefur að mestu leyti gert á síðari hluta haustannar. Jóna Vilhelmína Héðinsdótir, aðstoðarskólameistari stýrði kynningunni.
Lesa meira
09.12.2020
Nemendur í skapandi tónlist hafa skipulagt tónleika til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar
og nágrennis. Þeir fara fram í sal skólans Hrafnavogum á föstudagskvöld. Tónleikarnir hefjast
klukkan 19:30 og verður streymt hér: https://www.youtube.com/watch?v=to6q7InTXjs
Lesa meira
26.11.2020
Nemendur skólans hafa óskað eindregið eftir því að skólastarfi sé ekki raskað frá núverandi formi þegar einungis tvær vikur eru eftir af önninni. Eftir ítarlegar samræður starfsmanna, nemenda, stjórnenda og fleiri hefur því verið ákveðið að fresta staðnámi fram í janúar. Staðnám hefst þá eftir skipulagi miðað við sóttvarnareglur hverju sinni. Minnt er á að nemendur geta komið í skólann til að læra.
Lesa meira
24.11.2020
Þann 30. nóvember n.k. verður staðnám innan ramma þeirra sóttvarnareglna sem nú gilda. Öllum nemendum með mætingaskyldu ber að mæta. Kennt verður frá 08:10 - 12:45. Eftir þann tíma verða vinnutímar í fjarnámi. Nemendum verður skipt í rými og geta þeir ekki farið úr því rými í önnur. Þeir geta farið á salerni með grímur og sóttvörnum fyrir og eftir þá för. Nánari upplýsingar verða birtar síðar. Þangað til heldur fjarnám áfram.
Lesa meira
20.11.2020
í gær tók Menntaskólinn á Tröllaskaga þátt í kynningum á „Beyond
borders“ í Eindhoven í Hollandi. Viðburðurinn var rafrænn og
skipulagður af Brainport Development sem er klasi samstarfsaðila
atvinnulífs og skóla. Við erum að sækja um Erasmus+ verkefni með
Brabant Collage í Hollandi sem er partur af þessum klasa.
Þema viðburðarins var „Hnattrænt samstarf, íbúar jarðar og
tungumálakunnátta“. í Erasmus+ umsókninni sem ber yfirheitið
„Menntun, heildræn nálgun náms og kennslu í stafrænum heimi“ eru auk
okkar og Hollendinganna skólar frá Portúgal og Spáni.
Kynningin fór fram í gegnum Beam nærverurnar og var varpað frá þeim
inn í rafrænt ráðstefnukerfi þar sem allt að 300 manns voru að
fylgjast með úti í Hollandi. Skólameistari Lára Stefánsdóttir og Ida
Semey kynntu. Hollendingarnir stýrðu nærverunni í skoðunarferð um
skólann og fjallað var um sögu skólans, markmið, námsframboð, kennslu
og námsaðferðir sem einkenna Menntaskólann á Tröllaskaga og eru
hornsteinn Erasmus umsóknarinnar.
Lesa meira
16.11.2020
Staðnemar í MTR bera sig almennt vel en margir hverjir eru þó orðnir frekar þreyttir á covid-ástandinu og vilja komast aftur í skólann. Þetta kom fram í símtölum umsjónarkennara við umsjónarnemendur sína fyrir helgina. Flestir sögðu að sér gengi vel halda sig að náminu en sumum gengur það síður og segja að sér gangi betur að skipuleggja námið þegar þeir eru í skólanum. Dæmi voru um að nemendur hefðu lent í þeim vandræðum að vaka fram eftir nóttu í hámhorfi eða að spila tölvuleiki við vini sína og því átt erfitt með að vakna í skólann á morgnana. Þá sögu nokkrir nemendur að þeim þætti betra að læra heima en í skólanum. En langflestir sakna samvista við skólafélaga og starfsmenn skólans og vilja gjarnan að þessu ástandi fari að linna.
Lesa meira
03.11.2020
Innritun í fjarnám hófst 1. nóvember 2020. Þar má sjá hvaða áfangar eru í boði á vormisseri.
Lesa meira
22.10.2020
Fjarkennt verður áfram til 25. nóvember en nemendum er frjálst að mæta í skólann og vinna saman innan ramma sóttvarnareglna. Þessi ákvörðun er með fyrirvara um breytingu á sóttvarnareglum í framhaldsskólum.
Lesa meira
22.10.2020
Menntaskólinn á Tröllaskaga er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna fyrir að fara nýjar leiðir í skipulagi náms og kennslu með áherslu á valdeflingu nemenda, frumkvæði, sköpun og áræði. Skólinn er tilnefndur í flokknum framúrskarandi skólastarf ásamt Dalskóla, Leikskólanum Rauðhóli, Pólska skólanum og Tónskóla Sigursveins. Verðlaun verða einnig veitt í flokkunum framúrskarandi kennsla og framúrskarandi þróunarverkefni. Þá verða sérstök hvatningarverðlaun kynnt við afhendingu Íslensku menntaverðlaunanna sem áformað er að verði á Bessastöðum föstudaginn 13. nóvember nætkomandi.
Mark¬mið Íslensku menntaverðlaun¬anna er að vekja at¬hygli á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frí¬stund¬a¬starfi og auka veg umbóta í menntun. Það eru embætti forseta Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, samgöngu- og sveitar¬stjórnar¬ráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands (listkennsludeild og tónlistardeild), Menntamálastofnun, Mennta¬vísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar sem standa að Íslensku menntaverðlaununum.
Lesa meira
21.10.2020
Hópur nemenda skemmti sér ágætlega við frönskunám í miðannarvikunni. Kennarinn, Sylvie Roulet, segir að þetta hafi verið uppgötvunarnám og krakkarnir hafi verið mjög tilbúnir að kasta sér út í það. Hún er reyndur kennari og hefur meðal annars kennt kennaranemum. Hún hefur starfað í sirkusskóla og segist hafa notað hugmyndir og tækni þaðan í miðannarvikunni. Meðal annars að nám geti verið leikur og nemendur eigi að treysta hópinn og vinna saman að lausnum. Krakkarnir í MTR hafi verið dugleg að leita á netinu, skiptast á upplýsingum, kenna hvert örðu og vinna saman sem hópur. Öll voru þau byrjendur og viðfangsefnin í samræmi við það, að kynna sig, læra að telja, nöfn litanna og slíkt. Franska er alþjóðlegt tungumál sem talað er í fjölmörgum ríkjum í flestum heimsálfum. Fleiri og fleiri tala málið því fjölgun er meiri á stöðum þar sem það er talað en að meðaltali á jörðinni.
Lesa meira