MTR Erasmus+ skóli

Ida Semey og Eva Einarsdóttir frá Rannís
Ida Semey og Eva Einarsdóttir frá Rannís

Svefnlausar nætur verkefnisstjóra erlendra samskipta heyra vonandi sögunni til. MTR hefur fengið vottun sem þýðir að skólinn þarf ekki að senda ógnarlangar og flóknar umsóknir um hvert einasta Erasmus+ verkefni sem hugur stendur til að ráðast í. Aðeins þarf að finna samstarfsskóla, sem einnig hafa vottun og skipuleggja verkefni með þeim. Greiðslur munu berast ef reglum er fylgt. Stefnt er að því að á hverju skólaári séu að minnsta kosti tveir slíkir áfangar í boði. Gert er ráð fyrir að um 130 einstaklingar muni taka þátt í erlendum samstarfsverkefnum skólans innan Erasmus+ áætlunarinnar á næstu fimm árum.

MTR hefur tekið þátt í mörgum verkefnum í Erasmus+ áætluninni og er kominn með mikið og stórt tengslanet í Evrópu. Helmingur verkefnanna hefur snúist um samstarf hópa nemenda frá þremur eða fjórum skólum en helmingur um þróunarsamstarf kennara og annarra starfsmanna. Grunnur þess að fá vottunina er að þessi verkefni voru vel skipulögð, ábyrgð afmörkuð og myndað teymi sem sá til þess að verkferlum væri fylgt. Þá hafði vægi að skólinn hefur markað sér stefnu í erlendum samskiptum, loftslags- og umhverfismálum. Nýr áfangi hefur verið búinn til í kringum hvert verkefni, sem tryggir þátttöku og eftirfylgni nemenda og kennara. Tíu íslenskir framhaldsskólar fengu vottun samhliða MTR. Þar af er einn annar á Norðurlandi, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra á Sauðárkróki – verknámsbrautir.