Fimmta Græna skrefið

MTR mynd GK
MTR mynd GK

MTR hefur stigið fimmta og síðasta Græna skrefið og fengið það viðurkennt. Skólinn er tólfta
ríkisstofnunin til að ná þessum áfanga. Aðeins einn framhaldsskóli, Menntaskólinn við Sund,
tók skrefið á undan MTR. Aðgerðir í verkefninu miða að því að efla umhverfisvitund
starfsmanna og draga úr neikvæðum áhrifum starfsemi stofnana á umhverfið.
Hjá MTR hefur verið farin sú leið að nokkrir starfsmenn hafa séð um að breyta verkferlum,
bæta flokkun, setja upp grænt bókhald og fleira slíkt sem nauðsynlegt er að gera. Mikill áhugi
og samstaða hefur ríkt í hópi starfsmanna. Fimm manna umhverfisráð hefur fundað reglulega
á vorönninni. Jóna Vilhelmína Héðinsdóttir, aðstoðarmeistari, hefur borið hitann og þungann
af skjölun vegna fimmta skrefsins. Björg Traustadóttir hefur í öllu ferlinu annast skipulag
flokkunar og aðgerðir gegn matarsóun. Fuglar himinsins fá að njóta þeirra afganga sem verða
af mat. Margir aðrir hafa lagt hönd á plóg en tengiliður verkefnisins er Unnur Hafstað.
Lára Stefánsdóttir, skólameistari, segist vera ótrúlega stolt af þeim góða árangri sem náðst
hafi. Duglegir og lausnamiðaðir starfsmenn hafi dregið vagninn og náð árangri sem sé
skólanum og skólaumhverfinu til sóma.