Fréttir

Opnun sýningar frestað

Opnun á sýningu fimm listnema við Menntaskólann á Tröllaskaga er frestað vegna nýrra sóttvarnarreglna. Áformað var að opna sýninguna „Hið“ fimmtudaginn 25. apríl kl. 12:00 en sem fyrr segir verður þessi atburður að bíða betri tíma.
Lesa meira

Listnemar sýna í MTR

Fimmtudaginn 25. mars kl. 12:00 opna fimm listnemar við Menntaskólann á Tröllaskaga samsýninguna ,,Hið"... Sýningin er í Hrafnavogum, sal Menntaskólans. Nemendurnir eru allir í áfanganum MYNL3LF05 - Myndlist, listgildi og fagurfræði og hafa verið að skoða myndlist frá sjónarhóli fagurfræðinnar. Sýningin samanstendur af verkum sem fjalla um hið fagra, hið háleita og hið gróteska. Túlkun þeirra er ólík og nálgast þau viðfangsefnið hvert með sínum hætti. Sýningin verður opin á þeim tíma sem skólinn er opin til loka annarinnar. Allir eru velkomnir. Minnt er á að virða verður sóttvarnareglur.
Lesa meira

MTR Erasmus+ skóli

Svefnlausar nætur verkefnisstjóra erlendra samskipta heyra vonandi sögunni til. MTR hefur fengið vottun sem þýðir að skólinn þarf ekki að senda ógnarlangar og flóknar umsóknir um hvert einasta Erasmus+ verkefni sem hugur stendur til að ráðast í. Aðeins þarf að finna samstarfsskóla, sem einnig hafa vottun og skipuleggja verkefni með þeim. Greiðslur munu berast ef reglum er fylgt. Stefnt er að því að á hverju skólaári séu að minnsta kosti tveir slíkir áfangar í boði. Gert er ráð fyrir að um 130 einstaklingar muni taka þátt í erlendum samstarfsverkefnum skólans innan Erasmus+ áætlunarinnar á næstu fimm árum.
Lesa meira

Stafrænar aðferðir við erlent samstarf

Nordplusverkefni MTR og tveggja framhaldskóla í Eistlandi og Lettlandi var formlega ýtt úr vör í morgun. Nemendur úr skólunum þremur munu skoða sameiginlega fleti í menningu og umhverfi og æfa sig í fjarvinnslu milli landa. Skólameistararnir þrír hittust og hittu nemendur MTR í morgun og var atburðinum streymt á síðu verkefnisins. Hópur MTR-nema vinnur að þessu verkefni alla miðannarvikuna en samstarfið við nemendur í Eistlandi og Lettlandi heldur áfram á næsta skólaári, vonandi í formi nemendaheimsókna. Markmiðið er að nemendur öðlist þjálfun í að safna og vinna úr upplýsingum með mismunandi aðferðum og miðla efni lipurlega á milli landa í alþjóðlegu samstarfi. Fjarvinna og samstarf af þessu tagi hefur tekið stórt stökk á covidtímanum og mun bara halda áfram að aukast þannig að það er nauðsynlegt fyrir nemendur að undirbúa sig fyrir slíkt vinnuumhverfi. Kennarar í miðannaráfangnum þar sem grunnurin verður lagður í þessu fjölþjóðlega verkefni eru Áslaug Inga Barðadóttir, Ida Semey og Tryggvi Hróflsson.
Lesa meira

Gestir úr grunnskólanum

Nemendur í tíunda bekk Grunnskóla Fjallabyggðar heimsóttu MTR í dag í fylgd Arnheiðar Jónsdóttur umsjónarkennara. Þau kynntu sér nám og starf hjá okkur og heilsuðu upp á gamla skólafélaga úr GF. Gestirnir voru áhugasamir um skólastarfið og fannst mest spennandi ný kjörnámsbraut sem er í undirbúningi. Hún á að veita nemendum sem stunda skíða- og snjóbrettaæfingar tækifæri til að flétta saman nám, æfingar og keppni. Svo gerðu krakkarnir sér gott af pizzum og djús og spjölluðu við félaga og vini. Sigríður Ásta Hauksdóttir, námsráðgjafi sá um kynninguna. Hún heldur sambærilega kynningu í Dalvíkurskóla á morgun og síðan rafræna kynningu fyrir nemendur í Hlíðarskóla við Akureyri í framhaldinu. Rafrænar kynningar í umsjón Ingu Eiríksdóttur í grunnskólum á Akureyri eru á döfinni.
Lesa meira

Vinnudagur kennara

Talsvert var um hópvinnu á sérstökum vinnudegi s.l. föstudag. Starfsmenn skoðuðu til dæmis ítarlega niðurstöður kannana á líðan nemenda og viðhorfum þeirra til skólans. Sex hópar fjölluðu um þetta efni og skil voru bæði á skriflegu og munnlegu formi. Frábært, jákvætt og uppleið voru meðal orða sem upp komu í munnlegum skilum. Einnig var fjallað um verkefnið „kennarinn á krossgötum“, um sjálfsmat, ytra mat á skólastarfinu og farið yfir stöðu varðandi jafnréttisáætlun og fleiri slík stefnuplögg, enda mikilvægt að skólinn hafi skýra stefnu og framtíðarsýn. Formlegri dagskrá lauk með verklegri tilsögn Lísu í skíðagöngu og er síst ofmælt að almenn gleði var með þann dagskrárlið.
Lesa meira

Málfarsrannsókn í íslensku

Nemendur í áfanganum ÍSLE2FM05 hafa síðustu þrjár vikur kynnt sér og rannsakað undirstöðuatriði um málsnið, hljóðfræði og mállýskur. Líka hafa þeir skoðað muninn á vönduðu formlegu málfari og óvönduðu óformlegu málfari og þar að auki hvernig formlegt málfar geti verið óvandað og eins að óformlegt málfar geti verið vandað. Eftir kynningu í fyrstu vikunni skiptu nemendur sér í hópa og hófust handa við rannsókn. Sumir fylgdust með málfari í völdum dagskrárliðum í útvarpi eða sjónvarpi en aðrir tóku viðtöl t.d. við afa eða ömmu, börn, ungling í Reykjavík, nýbúa eða kennara. Líka var hægt að skoða rapptexta eða uppistand. Hóparnir settu fram rannsóknartilgátur og prófuðu þær. Afurðum var svo skilað á sameiginlegt svæði nemenda og kennara í áfanganum. Eftir það fór fram jafningjamat og sjálfsmat á kynningunum. Þær voru líflegar og fjölbreyttar og þótti verkefnið bæði skemmtilegt og lærdómsríkt þótt einstaka nemandi lenti í vandræðum með sinn hlut í hópvinnunni. Kennarar í áfanganum eru Kolbrún Halldórsdóttir og Margrét L. Laxdal. Hér er sýnishorn úr áfanganum: Andri, Hafsteinn, Hrannar og Ragnar ræða við Lísebet og Þórarinn. https://www.youtube.com/watch?v=olPhekv0b5A&feature=youtu.be
Lesa meira

Kynfræðsla

Staðnemar og starfsmenn MTR fögnuðu tilslökun sóttvarnarreglna og frjálslegri samskiptum í dag. Nemendur nutu fræðslu um kynlíf, kynhneigðir, kynheilbrigði og getnaðarvarnir hjá Ástráði kynfræðslufélagi læknanema við Háskóla Íslands. Tímasetningin var tilviljun og engin bein tengsl á milli tilslökunarinnar og fræðslunnar, sem raunar fór fram á zoom. En nemendur tóku virkan þátt með aðstoð tækninnar og þar sem athöfnin fór fram í hádeginu var pizza í boði.
Lesa meira

Breyttar sóttvarnareglur

Þann 24. febrúar breytast sóttvarnareglur í framhaldsskólum og þar með hjá okkur. Í stuttu máli geta 50 verið í sama rými og þurfa nemendur og kennarar að hafa a.m.k. 1 metra fjarlægð sín á milli en annars nota andlitsgrímur. Í göngum og þar sem menn mætast noti allir andlitsgrímur. Á viðburðum tengdum starfi eða félagslífi skólans er hámarksfjöldi 150 manns.
Lesa meira

Búningakeppni og fjársjóðsleit

Að venju var Menntaskólinn á Tröllaskaga opinn börnum á öskudaginn en ekki var hljóðkerfi að þessu sinni vegna covid. Nokkrir barnahópar komu samt og sungu um gamla Nóa, sem orðinn er að skíðamanni í Fjallabyggð og tóku fleiri hefðbundna slagara. Nemendafélagið Trölli stóð fyrir búningakeppni og skörtuðu nemendur og starfmenn skrautlegum búningum. Fyrstu verðlaun fyrir búninga nemenda hlaut Jana Sól Ísleifsdóttir í gervi sjóræningja, önnur verðlaun hlaut Amalía Þórarinsdóttir í búnini Amy Winehouse og þriðju verðlaun fékk Ómar Geir Lísuson í gervi einstæðs föður. Ein verðlaun voru veitt í flokki starfsmanna og hlaut Sæbjörg Ágústsdóttir í gervi Tóta trúðs þau. Framan af morgni gengu nemendur um og horfðu gaumgæfilega upp í loftið og inn í horn og skonsur. Þeir voru að leita fjársjóða (nammipoka) sem forysta nemendafélagsins hafði falið á ýmsum stöðum. Verðlaun nemenda fyrir búninga voru einnig í sætara lagi enda gott að hafa eitthvert mótvægi við allan harðfiskinn sem Björg Traustadóttir treður upp á mann og annan á þessum degi í nafni heilsueflandi framhaldsskóla.
Lesa meira