Íþróttavika Evrópu

Ljósmynd: LH.
Ljósmynd: LH.

Íþróttavika Evrópu stendur nú yfir og af því tilefni hefur fjölbreytt dagskrá verið skipulögð í skólanum þessa viku. Í gær fengu nemendur tilsögn í bardagaíþróttum, dansað var í skólanum og Ólympíuhlaup ÍSÍ var hlaupið. Í dag var bekkpressukeppni, fjallganga og endað á sjósundi. Á morgun verður jóga nidra, frisbýgolf og ratleikur. Seinni hluta vikunnar kemur stór hópur nemenda frá Spáni og Ítalíu í skólann og þá verður farið í ýmsa útileiki. Kennarar skólans búa yfir margvíslegri þekkingu og leiðbeina á mörgum sviðum en Lísebet Hauksdóttir íþróttakennari ber hitann og þungann af skipulagningu vikunnar.

Íþróttavika Evrópu er haldin 23. – 30. september ár hvert í yfir 30 Evrópulöndum. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur hlotið styrk frá Evrópusambandinu í gegnum Erasmus+ styrkjakerfið til verkefna sem munu tengjast vikunni. Markmiðið með Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings, eins og segir á heimasíðu verkefnisins, beactive.is